Tæpum 9 milljónum króna úthlutað úr þróunarsjóði innflytjendamála
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur úthlutað styrkum úr þróunarsjóði innflytjendamála árið 2013. Veittir voru styrkir til fimmtán verkefna sem öllum er ætlað er að auðvelda innflytjendum aðlögun að íslensku samfélagi og gera samfélaginu betur kleift að mæta þörfum þeirra og aðstæðum.
Þróunarsjóður innflytjendamála var stofnaður árið 2007 í því skyni að efla rannsóknir og þróunarverkefni á sviði málefna innflytjenda og hefur styrkjum verið úthlutað úr sjóðnum árlega. Í lok síðasta árs voru samþykkt lög frá Alþingi um málefni innflytjenda nr. 116/2012 og með þeim var hlutverk sjóðsins fest í lög. Til sjóðsins renna fjármunir sem veittir eru í fjárlögum hverju sinni og gerir Innflytjendaráð árlega tillögur til ráðherra um áherslur sjóðsins, úthlutun styrkja og fjárhæð þeirra.
Við úthlutun styrkja að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á þróunarverkefni sem styðja við félög innflytjenda sem vinna að hagsmunamálum innflytjenda, stuðla að stofnun félaga innflytjenda sem vinna að hagsmunamálum þeirra, vinna gegn þeim fordómum sem innflytjendur verða fyrir í samfélaginu eða hvetja til virkrar þátttöku innflytjenda í samfélaginu. Önnur verkefni komu einnig til greina.
Alls bárust umsóknir um styrki til 40 verkefna af ýmsu tagi. Samkvæmt tillögu Innflytjendaráðs veitti velferðarráðherra styrki til 15 verkefna, samtals 8.781 milljónir króna.
Upplýsingar um einstök verkefni og styrkfjárhæðir:
Heiti verkefnis: Þróun móðurmálskennslu á Íslandi.
Umsækjandi: Móðurmál, samtök um tvítyngi.
Styrkfjárhæð: 1.200.000 kr.
Lýsing á verkefni: Markmið verkefnisins er að efla starfsemi Móðurmáls, samtaka um tvítyngi. Með starfsemi sinni hafa samtökin aukið virkni innflytjenda og unnið ötullega gegn fordómum. Með verkefninu fá börn tækifæri til að viðhalda móðurmáli sínu og æfa hæfni og færni við að yfirfæra þekkingu sína milli tungumálanna sem þau skilja. Starfsemi samtakanna verður kynnt og þróuð áfram, móðurmálskennararnir fá þjálfun og endurmenntun og fjárfest verður í kennslugögnum fyrir tungumálahópana auk þess verður vefsíða samtakanna þróuð.
Heiti verkefnis: Ég tala íslensku, vilt þú læra pólsku?
Umsækjandi: Projekt Polska.
Styrkfjárhæð: 30.000 kr.
Lýsing á verkefninu: Markmið verkefnisins er að kynna fyrir Íslendingum pólsku og sýna hversu erfitt það getur verið að læra erlent mál og um leið verður kennd þolinmæði og skilningur gagnvart þeim sem eru að læra íslensku eða reyna að tala íslensku. Pólska verður kennd á foreldrafundum og íbúðafundum.
Heiti verkefnis: Reykjavík Safarí, kennsluefni og menningarleiðsögn.
Umsækjandi: Menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkurborgar.
Styrkfjárhæð: 250.000 kr.
Lýsing á verkefninu: Reykjavík Safarí er leiðsögn um menningarlíf miðborgarinnar á ýmsum tungumálum sem er unnin í samstarfi við ýmsar stofnanir Reykjavíkurborgar og tungumálaskóla. Markmiðið verkefnisins er að aðlaga efni Safarí leiðsagnanna svo það geti nýst sem hluti af íslenskunámskeiðum fyrir erlenda íbúa og að gögn standi tungumálaskólum til boða og fleiri aðilum sem kenna íslensku sem annað tungumál, endurgjaldslaust. Gildi verkefnisins felst í því að stuðla að aukinni samfélagsfræðslu, sem mikilvægur hluti af kennslu í íslensku sem annað tungumál, með gagnkvæmri aðlögun.
Heiti verkefnis: Að þróa leiðir til að auka meðvitund filippseyskra foreldra um mikilvægi móðurmáls.
Umsækjandi: Inangwika: Filippseyska móðurmálsfélagið.
Styrkfjárhæð: 803.000 kr.
Lýsing á verkefninu: Markmiðið er að kenna börnum sem eiga annaðhvort báða eða annað foreldri af filippseyskum uppruna móðurmál sitt, en 80% barna sem eru af filippseyskum uppruna geta ekki talað móðurmál sitt. Rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi þess að börn læri móðurmál sitt, bæði er varðar samskipti við foreldra sína, almennan málþroska og hæfni til að ná góðu valdi á öðrum tungumálum. Verkefnið er fjölþætt og verða leiðir til þess að ná til foreldra þróaðar í gegnum samstarf við leik- og grunnskóla, heilsugæslu, félagsþjónustu og fjölskyldusamveru.
Heiti verkefnis: Vinnum saman.
Umsækjandi: Hola, félag spænskumælandi á Íslandi.
Styrkfjárhæð: 550.000 kr.
Lýsing á verkefninu: Með verkefninu ætlar félagið að opna heimasíðu með upplýsingaefni, styrkja tengsl milli einstaklinga frá spænskumælandi löndum og Íslendinga og efla þátttöku og virkni meðal spænskumælandi hér á landi. Jafnframt að veita innflytjendum ráðgjöf. Styrkurinn er veittur í gerð heimasíðu og til kynningar á henni.
Heiti verkefnis: Talþjálfun atvinnuleitenda á Austurlandi.
Umsækjandi: Austurbrú ses.
Styrkfjárhæð: 360.000 kr.
Lýsing á verkefninu: Markmiðið er að rjúfa félagslega einangrun og efla íslenskukunnáttu á svæðum þar sem ekki er mögulegt að halda námskeið sökum fámennis.
Heiti verkefnis: Baunadósin.
Umsækjandi: Tungumálaskólinn.
Styrkfjárhæð: 1.000.000 kr.
Lýsing á verkefninu: Markmið verkefnisins er að skapa vettvang þar sem áhugafólk um leiklist, sönglist og tónlist getur starfað óháð íslenskukunnáttu sinni, en um leið bætt hana og þjálfað enn frekar og þannig nýtt sér reynslu sem myndast í þessum hópi til að taka þátt í öðru listastarfi, til dæmis kór, hljómsveitum eða leiklistarhópum sem starfræktir eru á Íslandi.
Heiti verkefnis: Theatre workshop for immigrants.
Umsækjandi: Aude Maina Anne Busson (hópurinn Við and Við).
Styrkfjárhæð: 688.000 kr.
Lýsing á verkefninu: Verkefnið snýr að leiklistarsmiðju yfir vetrarmánuðina. Með leiklistarsmiðjunni á að gefa innflytjendum færi á að því sinna áhugamáli sínu á sviði leiklistar án þess að tungumálakunnátta hamli þeim. Í smiðjunni verður einblínt á samskipti, líkamsmál og samfélagið í heild.
Heiti verkefnis: Kynning Félagasamtakanna Project Polska.
Umsækjandi: Félagasamtökin Project Polska.
Styrkfjárhæð: 621.000 kr.
Lýsing á verkefninu: Projekt Polska eru nýstofnuð samtök Pólverja á Íslandi og eru þeir fjölmennasti innflytjendahópur á Íslandi, eða 43% allra innflytjenda. Félagasamtökin vilja vinna í þágu fjölmenningar á Íslandi, virkja Pólverja sem búa á Íslandi til þátttöku í samfélaginu, miðla pólskri menningu hér og íslenskri í Póllandi og taka virkan þátt í umræðu um málefni innflytjenda, mannréttindi og samfélagið.
Heiti verkefnis: Snorri Mustafa.
Umsækjandi: Aldrei óstelandi.
Styrkfjárhæð: 1.000.000 kr.
Lýsing á verkefninu: Markmiðið er að efla umræðu um aðstæður innflytjenda á Íslandi með nýjum hætti í gegnum leikrit. Leitað verður til menntaskólanema með innflytjendabakgrunn og verða 4–5 ungmenni með ólíkan bakgrunn valin til þess að taka þátt í sýningu. Hver einstaklingur skrifar einræðu sem lýsir reynsluheimi þeirra sem börn innflytjenda. Hvernig það er að alast upp hjá foreldrum sem kunna kannski illa tungumálið, umgangast fáa Íslendinga og þekkja illa inn á kerfið. Verða þau fyrir aðkasti? Finnst þeim þau öðruvísi en foreldrar sínir? Hvoru landinu finnst þeim þau tilheyra? Stefnt er að því að frásagnirnar séu ekki fræðilegar heldur eiga þær að vera persónulegar úr þeirra eigin lífi, frásagnir sem eru ólíkar að formi og gerð.
Heiti verkefnis: Í nýju landi.
Umsækjandi: N4 framleiðsla.
Styrkfjárhæð: 615.000 kr.
Lýsing á verkefninu: Markmiðið með verkefninu er að gera fjölmenningu hærra undir höfði með því að auka á sýnileika fjölbreytileikans í samfélaginu. Enn fremur er markmiðið með verkefninu að auðvelda gagnkvæma aðlögun íslensks samfélags og innflytjenda. Innan þessa ramma er áætlað að auka víðsýni gagnvart innflytjendum og segja sögu þeirra á Íslandi í gegnum sjónvarpsþætti. Áhorfendur fá að heyra um fortíð þeirra og framtíðardrauma. Framleiddir verða átta þættir sem lýsa degi í lífi íbúa sem eru af erlendu bergi brotnir. Hver þáttur segir sögu 2–4 einstaklinga eða fjölskyldna, allt eftir umfangi og sögu hvers og eins. Þættirnir verða í framleiðslu í mars og apríl og verða sýndir á N4 á haustmánuðum 2013.
Heiti verkefnis: Heiman ég fór.
Umsækjandi: Margrét Blöndal.
Styrkfjárhæð: 615.000 kr.
Lýsing á verkefninu: Markmiðið er að varpa ljósi á menningarlegan margbreytileika íslensks samfélags og sýna hvernig innflytjendur auðga íslenskt mannlíf, hver með sínum hætti og eru langt frá því að vera einsleitur hópur. Gerðir verða 8–10 sjónvarpsþættir um jafn marga einstaklinga sem sest hafa að á Íslandi. Saga þeirra verður sögð; hvernig var bernska þeirra? Hvers vegna lá leið þeirra til Íslands? Hvernig var þeirra upplifun af landi og þjóð og hvernig er núverandi staða? Síðast en ekki síst verður svo fjallað um hvernig viðkomandi einstaklingar hafa auðgað samfélagið með nærveru sinni. Þættirnir munu fjalla um fólk af ólíkum uppruna, fólk sem á sumt sameiginlegt en annað ekki. Einstaklingarnir segja sögu sína sjálfir en auk þess verður talað við ættingja, vini, samstarfsmenn og fleiri sem munu gefa frásögnunum meiri lit.
Umsækjandi: Fræðslusvið Dalvíkur.
Styrkfjárhæð: 449.000 kr.
Lýsing á verkefni: Íbúasamsetning sveitarfélagsins fjölbreytt og eru um 10% íbúa í Dalvíkurbyggð af erlendum uppruna, 30% leikskólabarna og 20% grunnskólabarna. Stofnanir sveitarfélagins, sérstaklega skólarnir, hafa upp á síðkastið verið að þróa og móta þjónustu sína með tilliti þessa. Halda á íbúaþing þar sem fjölbreyttur hópur íbúa sveitarfélagsins hittist og kryfur ýmis málefni í samfélaginu. Virkja á alla þegna samfélagsins og ræða hvernig hægt er að þétta samfélagið, styðja við skólagöngu barnanna og ýta undir jafna þjónustu til allra íbúa og virkja sem flesta í samfélaginu.
Heiti verkefnis: Samráðsvettvangur um málefni innflytjenda á Akranesi.
Umsækjandi: Rauði krossinn á Akranesi.
Styrkfjárhæð: 200.000 kr.
Lýsing á verkefni: Verkefnið miðar að því að formfesta samvinnu um málefni innflytjenda í sveitarfélaginu Akranesi með það í huga að tryggja sem best jafnt aðgengi allra íbúa bæjarins að réttindum og sameiginlegum félagslegum gæðum. Einnig er mikilvægt að skapa innflytjendum aðgengi til þátttöku í uppbyggingu samfélagsins, ekki síst í málaflokkum sem varða afkomu þeirra sjálfra. Stofnað verður innflytjendaráð sem starfar með stjórnsýslunni og innflytjendateymi verður styrkt en að því koma einstaklingar sem vinna að málefnum innflytjenda og þjónustumiðstöð innflytjenda verður styrkt.
Heiti verkefnisins: Netsamfélagið.
Umsækjandi: Upplýsinga- og fjölmiðladeild Flensborgarskóla.
Styrkfjárhæð: 400.000 kr.
Lýsing á verkefni: Opna á heimasíðu um samfélagsmál og verður einn hluti hennar tileinkaður fjölmenningu, en þar verður að finna samansafn af fjölmiðlaumfjöllun um málefni innflytjenda, upptökur af ráðstefnum og viðtöl við innflytjendur. Gerðir verða frétta- og viðtalsþættir um málefni innflytjenda og munu nemendur heimsækja 3–4 sveitarfélög og taka viðtöl við innflytjendur.