Álit sendinefndar AGS: Jákvæðar efnahagshorfur en áfram óvissa
Íslenskt efnahagslíf hefur staðið vel af sér röð áfalla síðan 2019. Efnahagshorfur eru jákvæðar en háðar töluverðri óvissu. Vandlega samræmdar aðgerðir stjórnvalda eru nauðsynlegar til þess að festa efnahagsbatann í sessi, halda aftur af vaxandi áhættu og byggja aftur upp viðnámsþrótt í ríkisfjármálum. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í áliti sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) að lokinni reglubundinni heimsókn hennar til Íslands þar sem fram fór úttekt sjóðsins á íslensku efnahagslífi.
Sendinefnd AGS hefur verið hér á landi undanfarna daga og fundað með ráðuneytum, Seðlabankanum og fleiri aðilum. AGS vinnur á eins til tveggja ára fresti úttekt um á grundvelli 4. greinar stofnsáttmála sjóðsins (e. Article IV Consultation). Álitið sem birt er í dag inniheldur frumniðurstöður úttektarinnar en skýrsla með heildarniðurstöðum kemur út síðar.
Á meðal þess sem kemur fram í áliti sendinefndarinnar er eftirfarandi:
- Vel útfærðar aðgerðir og öflugt heilbrigðiskerfi drógu úr áhrifum áfallsins vegna heimsfaraldursins og auðvelduðu kröftugan viðsnúning hagvaxtar og atvinnu.
- Hagvöxtur er áætlaður á bilinu 3,5-4% á árinu 2022, að hluta til drifinn af innlendri eftirspurn og í minni mæli af utanríkisviðskiptum á sama tíma og áætlað er að verðbólga verði um 7,4% að meðaltali í ár. Áhætta sem steðjar að efnahagsbatanum er einkum til komin vegna stríðsins í Úkraínu, heimsfaraldursins og truflana í efnahagslífi.
- Á meðan framleiðspenna er til staðar hjálpar aðhaldssöm stefna í opinberum fjármálum til við að ná verðbólgu í markmið og endurreisa fjárhagslegan styrk opinberra fjármála, sem er lykilatriði í ljósi þess að íslenskt efnahagslíf er útsett fyrir stórum áföllum.
- Í ljósi þeirrar miklu óvissu sem ríkir ættu stjórnvöld að fylgja eftir markmiði sínu um að nýta tekjur umfram áætlanir til að bæta fjárhagsstöðu hins opinbera.
- Bankarnir hafa nægt laust fé, eru arðbærir, búa við sterka eigin fjárstöðu og búa yfir viðnámsþrótti gagnvart áföllum. Vel útfærðar og samræmdar aðgerðir eru nauðsynlegar til að takast á við húsnæðisverðssveifluna.
- Komandi kjarasamningar eru tækifæri til að stuðla að samkeppnishæfni og fjölbreyttara efnahagslífi.
- Metnaðarfull markmið Íslands í loftslagsmálum eru ánægjuleg en frekari aðgerða er þörf til að þeim verði náð.