Átaksverkefni tryggir tæp 400 sumarstörf fyrir námsmenn
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur ákveðið í samræmi við tillögu Vinnumálastofnunar, að verja um 150 milljónum króna úr Atvinnuleysistryggingasjóði til átaks sem tryggja mun 390 námsmönnum, 18 ára og eldri, störf í sumar hjá ríki og sveitarfélögum.
Þetta er í fimmta sinn sem ráðist er í átak af þessu tagi. Stofnanir ríkis og sveitarfélaga hafa jafnan sýnt þessu mikinn áhuga og Vinnumálastofnun hefur að undanförnu borist allmargar fyrirspurnir um hvort átakið verði endurtekið í sumar. Að mati stofnunarinnar er þörf fyrir átaksverkefni í sumar en störf í boði verða þó færri en verið hefur þar sem aðstæður á vinnumarkaði eru betri en síðustu ár.
Miðað er við að af þeim 390 störfum sem til verða í tengslum við átakið verði um 60% þeirra hjá ríkisstofnunum en 40% hjá sveitarfélögum.
Framlag Atvinnuleysistryggingasjóðs til átaksins svarar grunnfjárhæð atvinnuleysisbóta vegna hvers starfs, auk 8% mótframlags í lífeyrissjóð líkt og verið hefur.
Vinnumálastofnun mun sjá um undirbúning og skipulag átaksins eins og áður og er nánari upplýsinga að vænta frá stofnuninni eftir páska.