Hoppa yfir valmynd
17. júlí 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Horfur fyrir lánshæfi ríkissjóðs batna

Tvö alþjóðleg matsfyrirtæki,  S&P Global Ratings og Moody‘s, hafa nýlega fært lánhæfismat ríkissjóðs á jákvæðar horfur. Þriðja fyrirtækið færði horfur fyrir ríkissjóð af neikvæðum á stöðugar fyrr á árinu. 

Ákvörðun fyrirtækjanna grundvallast ekki síst á stórbættum horfum um afkomu og skuldir ríkissjóðs og hröðum efnahagsbata. Afkoma ríkissjóðs hefur ítrekað verið umfram væntingar frá því heimsfaraldurinn skall á. Í ár er útlit fyrir að tekjur ríkissjóðs verði nærri 50 ma.kr. hærri en útgjöld ef frá eru talin vaxtatekjur og -gjöld. Skuldahlutföll ríkissjóðs eru einnig stöðug og útlit fyrir að þau lækki næstu árin. Hreinar skuldir ríkissjóðs eru ekki háar í alþjóðlegum samanburði þrátt fyrir ágjöf vegna heimsfaraldursins. Stefnt er að því að afkoman batni enn á næstu árum og að skuldahlutföll lækki. 

Jákvæðar horfur gefa fyrirheit um hækkun lánshæfis ríkissjóðs, sem er í dag metið A af fyrirtækjunum þremur. Einkunnin endurspeglar að lítil áhætta felst í fjárfestingum í skuldabréfum íslenska ríkisins. Fyrirtækin telja öll að góðir og stöðugir stjórnarhættir, hátt menntunarstig og hagstæð lýðfræðileg samsetning styðji við lánshæfið.  Fábreytni íslensks efnahagslífs og næmni þess gagnvart ytri sveiflum dregur einkunnina aftur á móti niður þótt landsframleiðsla á mann sé mikil. M.a. af þeim sökum hefur ríkissjóður á undanförnum árum lagt mikla áherslu á stuðning við rannsóknir og þróun. Markmiðið er að fjölga undirstöðum hagkerfisins og auka þar með hagsæld og viðnámsþrótt. Að sama skapi getur sterkur ríkissjóður með lág skuldahlutföll stutt við heimili og fyrirtæki þegar á gefur. 

Áframhaldandi bati opinberra fjármála, aukin fjölbreytni hagkerfisins og lækkandi verðbólga og verðbólguvæntingar geta varðað leiðina að enn bættu lánshæfi ríkisins. Bætt lánshæfi getur svo stuðlað að enn aukinni hagsæld landsmanna með lægri fjármögnunarkjörum ríkissjóðs og fyrirtækja.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta