Seinni úthlutun Sýklalyfjaónæmis- og súnusjóðs fyrir 2021
Syklalyfjaónæmis- og súnusjóður úthlutaði að þessu sinni til sex verkefna. Tvö verkefni sem Vigdís Tryggvadóttir fer fyrir á vegum Matvælastofnunar fengu tvo hæstu styrkina. Takmark beggja verkefna er að skima fyrir E.coli bakteríum í botnlangasýnum lamba við slátrun. Annars vegar E.coli bendibakteríum, en þær eru nýttar til að meta algengi og þróun ónæmis í tiltekinni dýrategund. Í dag er einungis fylgst með ónæmi E.coli bendibaktería í svínum og kjúklingum. Hitt verkefnið hefur að markmiði að skima fyrir ESBL/AmpC myndandi E.coli bakteríum, þær bera gen sem mynda ónæmi gegn mikilvægum sýklalyfjum og eru líklegri til að vera fjölónæmar og þannig náð mikilli útbreiðslu. Samtals fengu verkefnin tvö um 3,5 miljónum króna úthlutað.
Verkefni Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum hlaut jafnframt styrk undir stjórn Þórunnar Rafnar Þorsteinsdóttur. Tilgangur verkefnisins er að kanna algengi sýklalyfjaónæmis hjá tilteknum sjúkdómsvaldandi bakteríum úr gæludýrum yfir fimm ára tímabil. Lítil þekking er til staðar á algengi baktería í gæludýrum en þau eru oft í nánu samneyti við eigendur sína og því smitleið til staðar. Tilraunastöðin að Keldum fékk einnig styrk fyrir annað verkefni sem hefur að markmiði að næmisprófa E.coli bendibakteríur úr grænmeti á markaði.
Tvö önnur verkefni Matvælastofnunar fyrir voru jafnframt styrkt. Takmark annars verkefnisins er að ónæmisprófa svokallaða STEC stofna sem hafa ræktast frá nautgripa- og sauðfjárafurðum á markaði. Ekkert er vitað um sýklalyfjaónæmi STEC stofna úr dýrum og matvælum hér á landi en STEC getur valdið alvarlegum veikindum hjá fólki. Viðfangsefni sjötta verkefnisins er skimun fyrir MÓSA í sláturgrísum. MÓSA er afbrigði bakteríu sem hefur myndað ónæmi fyrir sýklalyfjum og getur valdið sýkingum sem eru misalvarlegar, allt frá einföldum húðsýkingum til alvarlegra blóðsýkinga.
Tilgangur sjóðsins er að fjármagna verkefni undir formerkjum „Einnar heilsu“ (e. One Health) í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi. Verkefnin snúa annars vegar að framlínuforvörnum í heilsu manna og dýra með DNA hraðgreiningar á sýklalyfjaónæmum bakteríum og hins vegar að upprunateikningu á sýklalyfjaónæmum E.coli stofnum með raðgreiningum á erfðamengi þeirra. Sjóðnum bárust átta umsóknir að þessu sinni og hlutu sex verkefni fyrir um 8,7 milljónir króna í þessari fyrstu úthlutun.. Súna er fræðilegt hugtak sem er notað yfir sjúkdóma sem berast með náttúrulegum hætti milli dýra og manna.