Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 77/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 15. febrúar 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 77/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18010004

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 5. janúar 2018 kærði , fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. desember 2017, um að synja henni um dvalarleyfi vegna vistráðningar.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kærandi hafi lagt fram umsókn um dvalarleyfi vegna vistráðningar þann 6. febrúar 2017. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. desember 2017, var umsókn kæranda synjað. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála þann 5. janúar 2018. Kærunni fylgdu athugasemdir kæranda en kærandi lagði einnig fram greinargerð þann 19. janúar 2018. Þá bárust kærunefnd gögn þann 25. og 26. janúar sl.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að samkvæmt 4. mgr. 68. gr. laga um útlendinga skuli hafna umsókn um dvalarleyfi vegna vistráðningar ef líklegt sé að umsækjandi muni ekki yfirgefa landið þegar leyfi hans renni út. Í ákvörðuninni kemur fram að kærandi hafi áður lagt fram umsókn um vistráðningu hjá annarri vistfjölskyldu árið 2016 en að í þeirri umsókn sé fæðingarár foreldra hennar annað en fram komi í umsókninni sem hún hafi lagt fram í febrúar 2017. Þá kvaðst kærandi hafa gengið í skóla í 16 ár í fyrri umsókninni en 20 ár í hinni síðari. Loks telji Útlendingastofnun ljóst að handritað kynningarbréf og undirskriftir kæranda á umsóknum um dvalarleyfi sé ritað með ólíkri rithönd. Kærandi hafi fært fram þær skýringar að hún hafi orðið fyrir mótorhjólaslysi þann 3. febrúar 2017 sem hafi haft áhrif á rithönd hennar. Að mati Útlendingastofnunar gangi sú skýring ekki upp þar sem undirritun umsóknar sé dagsett 25. janúar 2017, eða níu dögum fyrir umrætt slys. Að framangreindu virtu var það mat Útlendingastofnunar að tilgangur dvalar kæranda hér á landi væri ótrúverðugur og að skilyrði 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga, um að tilgangur dvalar skyldi vera í samræmi við það dvalarleyfi sem sótt væri um, væri ekki uppfyllt. Var kæranda því synjað um dvalarleyfi á grundvelli 68. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í kæru kæranda kemur fram að fyrri umsókn hennar um dvalarleyfi vegna vistráðningar hafi verið synjað þar sem vistfjölskylda hennar hafi ekki haft nægar tekjur. Vistmóðir hennar í þessu máli hafi heyrt af henni í gegnum vinafólk og ákveðið að fá hana í vistráðningu til sín, t.a.m. vegna þess að þær tali sama tungumál auk þess sem dóttir hennar sé með margvíslegt [...]. Kveðst kærandi munu vera með flugmiða báðar leiðir og að engar líkur séu á því að hún verði eftir hér á landi. Í greinargerð kæranda segir m.a. að hún hafi fengið aðstoð við að útbúa gögn sem voru send Útlendingastofnun. Þann 3. janúar 2017 hafi kærandi lent í umferðarslysi sem hafi haft áhrif á rithönd hennar. Kærandi hafi fengið aðstoð tiltekins aðila við að færa bréf sitt til Útlendingastofnunar yfir á tölvutækt form og hafi sá aðili fyrir mistök ritað að slysið hafi átt sér stað þann 3. febrúar í stað 3. janúar. Telur kærandi að augljóst sé að um mistök sé að ræða. Þá hafi misskilningur milli kæranda og vistmóður hennar valdið því að kærandi hafi sett inn ranga fæðingardaga hjá foreldrum hennar, en misskilninginn sé að rekja til lélegrar nettengingar í heimaríki kæranda. Í greinargerðinni kemur fram að vistfjölskylda kæranda hafi nægar og öruggar tekjur og eigi eitt barn [...]. Það hafi reynst fjölskyldunni erfitt að fá aðstoð heima fyrir við barnið. Þá sæi fjölskyldan mikinn hag í því að kærandi og vistmóðir væru frá sama svæði í [...] sem myndi gera samskipti betri en ella.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um dvalarleyfi vegna vistráðningar, sbr. 68. gr. laga um útlendinga.

Í 68. gr. laga um útlendinga er fjallað um dvalarleyfi vegna vistráðninga. Þar koma fram ákveðin skilyrði sem umsókn þarf að uppfylla til að heimilt sé að veita dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins, svo sem um samning um vistráðningu og skilyrði sem vistfjölskylda þarf að uppfylla. Í 4. mgr. 68. gr. laganna segir jafnframt að umsókn um dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu skuli hafnað ef líklegt er talið að umsækjandi muni ekki yfirgefa landið þegar leyfi hans rennur út. Við mat stjórnvalda er m.a. heimilt að byggja á upplýsingum um umsækjanda sjálfan og heimaríki hans, almennri reynslu af umsækjendum í sömu eða svipaðri stöðu og umsækjandi, tilgangi umsóknar, reynslu af vistfjölskyldu og hvort umsækjandi hafi áður sótt um alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á öðrum forsendum hér á landi. Dvalarleyfi skal jafnframt hafnað ef rökstuddur grunur er um að vistráðning sé notuð til að fá útlending til landsins í þeim tilgangi að misnota starfskrafta hans eða í öðrum ólögmætum tilgangi.

Með 68. gr. laga um útlendinga og athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um útlendinga hefur löggjafinn lagt áherslu á að útlendingur, sem sækir um dvalarleyfi vegna vistráðningar, snúi aftur til heimaríkis að vistráðningartíma loknum. Í athugasemdum við ákvæðið kemur jafnframt fram að reglur 4. mgr. 68. gr. laganna séu settar til verndar hinum vistráðna og jafnframt til að koma í veg fyrir misnotkun á vistráðningarheimildinni. Þar er vísað til þess að þau tilvik komi reglulega upp að vistráðnir gangi í hjúskap hér á landi til málamynda og að svo virðist vera að í einhverjum tilvikum sé litið á vistráðningu sem auðvelda leið til að flytja inn annaðhvort ódýrt vinnuafl eða til að afla fjölskyldumeðlimum dvalarleyfis á Íslandi gegnum aðrar leiðir en fjölskyldusameiningu. Þá kemur fram að ákvæðinu sé ætlað að stemma stigu við framangreindu.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var talið að tilgangur kæranda með dvöl hér á landi væri ótrúverðugur. Að mati stofnunarinnar uppfyllti kærandi því ekki skilyrði 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga, en í ákvæðinu er mælt fyrir um að tilgangur dvalar skuli vera í samræmi við það dvalarleyfi sem sótt er um. Var niðurstaða Útlendingastofnunar reist á því að fæðingarár foreldra kæranda hefði ekki verið það sama í umsóknum hennar um dvalarleyfi árin 2016 og 2017, að misræmi hefði verið í svörum kæranda um lengd skólagöngu og að kynningarbréf og undirskrift á umsókn kæranda um dvalarleyfi væru rituð með ólíkri rithönd.

Tilgangurinn með ákvæði 2. mgr. 55. gr. er að tryggja að raunverulegur tilgangur dvalar sé í samræmi við það dvalarleyfi sem sótt er um. Kærunefnd tekur fram að 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga getur ekki verið sjálfstæður grundvöllur fyrir synjun þegar útlendingur sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti heldur verður synjun við þær aðstæður jafnframt að eiga sér stoð í öðrum ákvæðum laga um útlendinga.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað með almennum hætti til 4. mgr. 68. gr. laga um útlendinga, en líkt og rakið hefur verið er heimilt að synja umsókn um dvalarleyfi vegna vistráðningar á grundvelli ákvæðisins ef líklegt er talið að umsækjandi muni ekki yfirgefa landið við lok vistráðningar. Þótt ráða megi af bréfum Útlendingastofnunar í málinu að stofnunin teldi rökstuddan grun um að kærandi hygðist setjast að hér á landi eru engin rök færð fram í hinni kærðu ákvörðun til stuðnings því mati. Þá telur kærunefnd að áðurnefnd atriði sem Útlendingastofnun vísar til í niðurstöðu sinni, og varða m.a. misræmi á fæðingarárum foreldra kæranda og lengd skólagöngu, geti ein og sér ekki orðið grundvöllur mats um kærandi muni ekki yfirgefa landið að vistráðningu lokinni eða að tilgangur hennar hér á landi muni verða annar en almennur tilgangur vistráðninga. Að virtum gögnum málsins og því, sem fram er komið um kæranda og vistfjölskyldu hennar, er það mat kærunefndar að kæranda verði ekki synjað um dvalarleyfi vegna vistráðningar á grundvelli 4. mgr. 68. gr. laga um útlendinga.

Af fyrirliggjandi gögnum málsins er ljóst að skilyrði 68. gr. laga um útlendinga eru uppfyllt. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga um útlendinga skal umsækjandi um dvalarleyfi vegna vistráðningar fullnægja skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga, t.a.m. um að framfærsla og sjúkratrygging sé örugg, sbr. a-lið 1. mgr. 55. gr. Fyrir kærunefnd hafa verið lögð fram gögn sem sýna fram á að framfærsla kæranda og sjúkratrygging verði örugg á dvalartímanum. Þá eru önnur grunnskilyrði dvalarleyfis sem fram koma í 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga uppfyllt, með þeim fyrirvara að kærandi samþykki að gangast undir læknisskoðun innan tveggja vikna frá komu til landsins, sbr. c-lið 1. mgr. 55. gr. laganna. Samkvæmt öllu framansögðu verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi vegna vistráðningar, sbr. 68. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 68. gr. laga um útlendinga að uppfylltum skilyrðum 1. mgr. 55. gr. sömu laga.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to grant the appellant residence permit based on Art. 68 of the Act on Foreigners subject to the conditions set forth in paragraph 1 of Article 55 in the Act on Foreigners.

Anna Tryggvadóttir Árni Helgason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta