Úrskurður nr. 359/2016
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 13. október 2016 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 359/2016
í stjórnsýslumáli nr. KNU16080020
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Með stjórnsýslukæru, dags. 30. ágúst 2016, kærði [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. júlí 2016, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um hæli á Íslandi vegna aðstæðna hans í [...], synja kæranda um hæli á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga, nr. 96/2002.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að umsókn hans um alþjóðlega vernd verði tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Í gögnum málsins greinir að kærandi hafi komið á lögreglustöðina við Hverfisgötu og sótt um hæli þann 16. febrúar 2016. Við meðferð máls síns hjá Útlendingastofnun framvísaði kærandi dvalarleyfisskírteini útgefnu af grískum yfirvöldum sem gildir til 17. júní 2018. Þá liggur fyrir staðfesting frá grískum yfirvöldum, sem barst með tölvupósti dags. 12. júlí 2016, um að kærandi hafi viðbótavernd í landinu.
Viðtal var tekið við kæranda hjá Útlendingastofnun þann 17. mars 2016 að viðstöddum löglærðum talsmanni hans. Þann 22. júlí 2016 tók Útlendingastofnun ákvörðun um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um hæli á Íslandi vegna aðstæðna hans í [...], synja kæranda um hæli á Íslandi vegna aðstæðna í Grikklandi ásamt því að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála við birtingu þann 30. ágúst 2016. Sama dag barst kærunefnd útlendingamála gögn málsins frá Útlendingastofnun. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar þann 30. ágúst 2016, sem var fallist á með bréfi dags. 1. september 2016. Þann 5. september 2016 var löglærðum talsmanni kæranda gefinn frestur til að skila inn greinargerð og barst hún kærunefnd útlendingamála þann 22. september 2016.
Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að í 1. mgr. 46. gr. laga um útlendinga segir að flóttamaður skv. 44. gr. sem er hér á landi eða kemur hér að landi á samkvæmt umsókn rétt á að fá hér hæli. Þá segir í b-lið 1. mgr. 46. gr. a að með fyrirvara um ákvæði 45. gr. geti stjórnvöld synjað því að taka til efnismeðferðar umsókn skv. 1. mgr. 46. gr. ef að umsækjandi hefur komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið vernd í öðru ríki eða eftir að hafa dvalist í ríki eða á svæði þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum og hafði ekki ástæðu til að óttast að verða sendur aftur til heimalands síns.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að í máli þessu liggi fyrir að kæranda hafi verið veitt viðbótarvernd og dvalarleyfi í Grikklandi. Kærandi byggði umsókn sína á því að aðstæður hans á Grikklandi er vörðuðu húsnæði, atvinnu og félagslega þjónustu hafi verið svo slæmar að það hafi jafnast á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 45. gr. laga um útlendinga. Þá byggði kærandi einnig á því að hann hafi orðið fyrir miklu áreiti og aðkasti af hálfu Grikkja á meðan hann hafi dvalið þar í landi og jafnframt að hann hafi sjálfur orðið fyrir árás og ekki fengið aðstoð frá yfirvöldum í þeim málum.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu um inntak 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Dómstóllinn hafi lagt það til hliðsjónar í niðurstöðum sínum að ákvæðið legði ekki skyldu á aðildarríki að sjá öllum sem dveldu innan lögsögu þeirra fyrir heimili og ekki almenna skyldu á aðildarríki til að veita viðurkenndum flóttamönnum fjárhagsaðstoð í því skyni að gera þeim kleift að viðhalda tilteknum lífskjörum.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að þekkt sé að flóttamenn verði fyrir kynþáttafordómum og áreiti í Grikklandi. Hins vegar hafi grísk stjórnvöld undanfarið ráðist í ýmsar aðgerðir til að stemma stigu við þessu ástandi og var það því mat Útlendingastofnunar að ástand mála í Grikklandi leiði ekki til þess að kærandi hafi ástæðu til þess að óttast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga og sé ekki í yfirvofandi hættu á að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í skilningi ákvæðisins verði hann sendur aftur til Grikklands.
Þá sagði í ákvörðun Útlendingastofnunar að með hugtakinu heimaland í 44. gr. laga um útlendinga sé, samkvæmt lögskýringargögnum með ákvæðinu, átt við það land sem viðkomandi eigi ríkisfang í. Kærandi, sem ríkisborgari [...], geti því ekki átt rétt á hæli sem flóttamaður vegna aðstæðna sinna á Grikklandi þar sem hann hafi þegar hlotið vernd. Kæranda var því synjað um hæli hér á landi, sbr. 44. gr. laga um útlendinga.
Útlendingastofnun skoðaði jafnframt hvort aðstæður kæranda féllu undir ákvæði 12. gr. f laga um útlendinga, í samræmi við 8. mgr. 46. gr. laga um útlendinga. Varðandi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða var vísað til skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá júlí 2013 og úrlausnar Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Samsam Mohammed Hussein og fl. gegn Hollandi og Ítalíu (mál nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013. Það var mat Útlendingastofnunar að ekkert hafi fram komið um að kærandi hafi þörf á vernd á grundvelli heilbrigðisaðstæðna. Á Grikklandi séu engin viðvarandi mannréttindabrot og íbúar landsins geti fengið vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum með aðstoð yfirvalda. Þá taki ákvæðið ekki til neyðar af efnahagslegum rótum eða vegna húsnæðisskorts. Því var það niðurstaða Útlendingastofnunar að synja bæri kæranda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 12. gr. f laga um útlendinga. Þá var kæranda jafnframt synjað um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við Ísland skv. 12. gr. f laga um útlendinga.
Kæranda var vísað frá landi og tilkynnt að kæra fresti ekki réttaráhrifum með vísan til c-liðar 1. mgr. 32. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi byggir mál sitt á því að íslenskum stjórnvöldum beri að taka hælisbeiðni kæranda til efnislegrar meðferðar, líkt og hann sé að sækja um hæli frá [...], vegna þess að óheimilt sé að beita a-lið 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga, þar sem kærandi njóti m.a. verndar 45. gr. sömu laga.
Kærandi byggir á því að þrátt fyrir að hann hafi stöðu flóttamanns á Grikklandi séu aðstæður og aðbúnaður fyrir hann þar í landi svo slæmar að þær teljist sem ómannúðleg og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Aukinn flóttamannastraumur og efnahagsþrengingar hafi gert það að verkum að erfitt sé fyrir innflytjendur og flóttamenn að setjast þar að. Handhafar alþjóðlegrar verndar þurfi að keppa við gríska ríkisborgara um þá takmörkuðu þjónustu sem sé í boði. Þá hafi skortur á samþættingar- og aðlögunarferlum gert það að verkum að flóttamönnum sé mismunað og jafnvel útskúfað félagslega og efnahagslega. Þá séu dæmi um að einstaklingar sem hlotið hafi vernd hafi ekki fengið upplýsingar um stöðu sína og leiðbeiningar um hvernig þeir skuli bera sig að við að nýta sér þá þjónustu sem sé í boði. Kærandi vísar í alþjóðlegar skýrslur máli sínu til stuðnings.
Kærandi byggir jafnframt á því að í alþjóðlegum skýrslum komi fram að ekkert félagslegt húsnæði sé í boði í Grikklandi eða aðrar lausnir eða stuðningsfyrirkomulag. Þá verði flóttamenn oft fyrir mismunun á húsnæðismarkaði, bæði vegna tungumálaörðugleika og vegna þess að þeir hafi ekki aðgang að gögnum sem beðið sé um. Jafnframt sé ljóst að mikið atvinnuleysi ríki á Grikklandi og eigi flóttafólk erfitt með að fá vinnu. Þeir sem fengið hafi stöðu flóttamanns hafi heldur ekki sama öryggisnet og grískir ríkisborgarar þegar allt annað þrýtur. Þá hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna einnig lýst yfir áhyggjum af kynþáttafordómum, útlendingahatri, ofbeldi og öðrum birtingarmyndum mismununar og skorti á umburðarlyndi og telji öryggi hælisleitenda og flóttamanna í Grikklandi ógnað vegna þessa. Kærandi, sem sé [...], hafi m.a. tvívegis orðið fyrir árás af hálfu (...)í Grikklandi og í kjölfar þeirra farið til lögreglunnar. Þar hafi hann hins vegar ekki fengið aðstoð vegna þess að hann vissi ekki nöfn árásarmannanna.
Að lokum gerir kærandi þá varakröfu að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærandi sé frá [...] og hafi því ekki sömu tækifæri og grískir ríkisborgarar í Grikklandi, þrátt fyrir að réttindi hans séu sambærileg í orði. Kærandi telur skilyrði 12. gr. f uppfyllt þar sem stjórnvöld í Grikklandi annað hvort vilji ekki eða geti ekki veitt fólki sem dvelst þar í landi aðstoð eða vernd. Ekki sé útilokað skv. orðanna hljóðan að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðasjónarmiða skv. 12. gr. f laga um útlendinga vegna efnahagslegra aðstæðna á borð við fátækt og húsnæðisskort, þó að meginreglan sé að slíkt sé að jafnaði ekki gert. Af ofangreindu megi ætla að aðstæður kæranda í Grikklandi séu svo bágbornar að rétt sé að veita kæranda dvalarleyfi hér á landi af mannúðarástæðum.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Afmörkun úrlausnarefnis
Kærunefnd telur að kærandi sé fyrst og fremst að sækja um hæli frá heimaríki sínu [...]. Málsástæður hans gefa þó einnig til kynna að hann sé að sækja um hæli frá Grikklandi, því ríki sem þegar hefur veitt honum vernd. Tekur neðangreind umfjöllun mið af því.
Lagarammi
Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga, með síðari breytingum, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga, með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951 ásamt viðauka við samninginn frá 1967 og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að í málinu liggi fyrir grískt dvalarleyfisskírteini kæranda. Samkvæmt gögnum máls gildir skírteinið til 17. júní 2018.. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi hafi sannað hver hann er með fullnægjandi hætti.
Einstaklingsbundin staða kæranda
Við meðferð máls er litið til þess hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem geti haft áhrif á niðurstöðu máls hans. Með því getur verið átt við hvort kærandi hafi mátt þola pyndingar, hvort kærandi sé barn eða hvort umsókn hans varði börn hans, hvort kynhneigð eða kynferði kæranda geti haft áhrif eða hvort kærandi geti verið ríkisfangslaus. Mat á stöðu kæranda fer ávallt fram og eru þau atriði sem koma til skoðunar ekki tæmandi.
Kærunefndin telur ekkert í gögnum málsins benda til þess að kærandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu.
Umsókn um hæli frá heimaríki. Ákvæði 45. og 46. gr. a laga um útlendinga
Í 1. mgr. 46. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 44. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, á samkvæmt umsókn rétt á að fá hér hæli frá heimalandi sínu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Stjórnvöld geta þó, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 46. gr. a, og með fyrirvara um ákvæði 45. gr., synjað því að taka til efnismeðferðar umsókn á grundvelli 46. gr. laganna ef umsækjanda hefur verið veitt hæli í öðru ríki.
Með sama fyrirvara geta stjórnvöld einnig synjað um efnismeðferð á grundvelli b-liðar 1. mgr. 46. gr. a, ef umsækjandi hefur komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið vernd í öðru ríki eða eftir að hafa dvalist í ríki eða á svæði þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum og hafði ekki ástæðu til að óttast að verða sendur aftur til heimalands síns.
Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga má ekki senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem gætu leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.
Við mat á 45. gr. laga um útlendinga verður m.a. að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þann 2. apríl 2013 lýsti Mannréttindadómstóll Evrópu kæru í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (mál nr. 27725/10,) ótæka á þeim grundvelli að sú meðferð sem kærandi hlaut, bæði sem hælisleitandi og einstaklingur sem hlotið hefur vernd, gæti ekki talist brot gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Taldi dómstóllinn að ekki sé hægt að gera þá kröfu til aðildarríkja að veita öllum flóttamönnum húsaskjól eða fjárhagslega aðstoð til þess að viðhalda ákveðnum lífsskilyrðum.
Kærunefndin hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Grikklandi m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- 2015 – Country Reports on Human Rights Practices – Greece (United States Department of State, 13. apríl 2016),
- UNHCR observations on the current asylum system in Greece (UNHCR, desember 2014),
- Asylum Information Database, National Country Report: Greece (European Council on Refugees and Exiles, nóvember 2015),
- Greece as a Country of Asylum – UNHCR‘s Recommendations (UNHCR, 6. apríl 2015) og
-
State of the World‘s Minorities and Indigenous Peoples 2015 – Greece (Minority Rights Group International, 2. júlí 2015).
Af framangreindum gögnum má sjá að grísk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar hælisleitenda og flóttamanna þar í landi. Samkvæmt ofangreindum skýrslum hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum hælisleitenda á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar til Grikklands síðan árið 2009. Þá hefur stofnunin fjallað um slæm áhrif efnahagshrunsins á aðstæður í landinu og möguleika viðurkenndra flóttamanna á að aðlagast grísku samfélagi. Ljóst er að þeir sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi lifa oft á jaðri samfélagsins og eru stundum í raun félagslega útilokaðir. Hins vegar eiga þeir sem hlotið hafa alþjóðlega vernd sama rétt til félagslegrar aðstoðar og grískir ríkisborgarar. Jafnframt eru til staðar frjáls félagasamtök sem aðstoða þá sem hlotið hafa alþjóðlega vernd á Grikklandi við að kynna sér þau réttindi sem þeir eiga rétt á. Þá hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna ekki lagst gegn flutningi þeirra sem hlotið hafa alþjóðlega vernd til Grikklands.
Kærunefndin telur að þó svo að aðstæðum einstaklinga með alþjóðlega vernd sé mjög ábótavant í Grikklandi að þá séu þær aðstæður ekki með þeim hætti að kærandi verði í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð verði hann endursendur þangað, líkt og 1. mgr. 45. gr. útlendingalaga kveður á um. Þá felur endursending kæranda til Grikklands ekki í sér brot gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða 13. gr. sama sáttmála.
Þegar metið er hvort synja skuli umsóknum um hæli um efnismeðferð á grundvelli b-liðar 1. mgr. 46. gr. útlendingalaga skulu stjórnvöld kanna hvort skilyrði séu til þess að beita undanþáguheimildinni í 2. mgr. 46. gr. a sömu laga. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 17. mars 2016 kom ekkert fram sem gaf til kynna að kærandi hefði nein sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Þá benda gögn ekki til þess að aðstæður hans séu að öðru leyti svo sérstakar að ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga eigi við. Verður því ekki talið að ástæða sé til að taka mál kæranda til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland eða annarra sérstakra ástæðna.
Kærandi er með viðbótavernd í Grikklandi. Kæranda hefur því verið veitt vernd í öðru ríki en heimaríki sínu. Með hliðsjón af 45. gr. útlendingalaga og í ljósi ofangreindra upplýsinga telur kærunefndin að Útlendingastofnun hafi verið heimilt að synja efnismeðferð á umsókn kæranda um hæli frá heimaríki sínu, [...], með vísan til b-liðar 1. mgr. 46. gr. a útlendingalaga.
Umsókn um hæli frá dvalarríki. Ákvæði 44. gr. útlendingalaga
Í ljósi þess að kærandi ber fyrir sig aðstæður á Grikklandi telur kærunefndin rétt að fjalla einnig um umsókn kæranda eins og hann væri að sækja um hæli þaðan.
Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga. Kærandi byggir kröfu sína á að hann þurfi vernd hér á landi á grundvelli þess að þær aðstæður sem bíði hans á Grikklandi séu ómannúðlegar og vanvirðandi.
Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.
Í lögskýringargögnum með þessari skilgreiningu kemur fram að heimaland sé það land þar sem viðkomandi eigi ríkisfang. Í máli kæranda er ljóst að hann hefur hlotið alþjóðlega vernd á Grikklandi og er með gilt dvalarleyfi þar í landi. Kærandi, sem er ríkisborgari [...], getur ekki átt rétt á hæli sem flóttamaður hér á landi vegna aðstæðna sinna á Grikklandi, því ríki sem veitt hefur honum vernd. Verður honum synjað um stöðu flóttamanns hér á landi á þeim grundvelli. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar þá telur kærunefndin heldur ekki að endursending kæranda til Grikklands brjóti gegn 45. gr. útlendingalaga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Ákvæði 12. gr. f útlendingalaga.
Samkvæmt 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Kærunefnd telur með vísan til orðalags ákvæðisins um „rík mannúðarsjónarmið“ og „ríka þörf á vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Í viðtali við kæranda hjá Útlendingastofnun kom fram að að kærandi væri með [...]. [...]
Kærandi hefur greint frá erfiðum efnahagslegum og félagslegum aðstæðum sínum, hann hafi litla atvinnu og ekkert húsnæði. Í greinargerð með frumvarpi því sem færði 2. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga í núverandi horf kemur fram að ákvæðið um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða yrði að jafnaði ekki talið ná til neyðar af efnahagslegum rótum, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts. Við meðferð málsins hafa ekki komið fram gögn sem kalla á að vikið sé frá þeim meginsjónarmiðum sem fram koma í þeirri greinargerð.
Kærunefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga á grundvelli aðstæðna á Grikklandi. Þegar gögn málsins eru virt í heild sinni er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi heldur ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða eins og kveðið er á um í 12. gr. f útlendingalaga. Er því fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda á Grikklandi séu ekki með þeim hætti að rík mannúðarsjónarmið standi til þess að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga.
Þá tekur kærunefndin jafnframt undir niðurstöðu Útlendingastofnunar um að kærandi uppfylli ekki skilyrði 12. gr. f útlendingalaga um sérstök tengsl við landið. Eins og fram kemur í gögnum málsins hefur kærandi aðeins dvalið á landinu í tengslum við umsókn sína um hæli og aðeins í skamman tíma.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður
Anna Tryggvadóttir Pétur Dam Leifsson