Hoppa yfir valmynd
18. júní 2020 Forsætisráðuneytið

904/2020. Úrskurður frá 8. júní 2020

Úrskurður

Hinn 8. júní 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 904/2020 í máli ÚNU 20020015.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 13. febrúar 2020, kærði Jónas A. Aðalsteinsson lögmaður, f.h. Orkuveitu Reykjavíkur, afgreiðslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins á beiðni um aðgang að gögnum.

Með gagnabeiðni kæranda, dags. 11. desember 2019, var óskað eftir aðgangi að samningi sem gerður var á grundvelli beiðni slitabús Glitnis hf. um undanþágu frá ákvæðum gjaldeyrislaga nr. 87/1992. Upphaflega leitaði kærandi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál þar sem beiðninni hefði ekki verið svarað, en málið var fellt niður eftir að ákvörðun var tekin með bréfi, dags. 12. febrúar 2020.

Í hinni kærðu ákvörðun, dags. 13. febrúar 2020, kemur fram að við fyrstu afgreiðslu beiðninnar hafi verið gengið út frá því að samningurinn væri ekki fyrirliggjandi hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, þar sem ráðuneytið væri ekki aðili að samningnum. Frekari athugun í málaskrá hafi hins vegar leitt í ljós að afrit af samningnum hafi verið sent ráðuneytinu í desember 2015 í tengslum við samráð Seðlabanka Íslands við ráðuneytið um veitingu undanþágu til Glitnis hf. frá ákvæðum laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál en Seðlabanki Íslands hafi séð um framkvæmd og eftirfylgni með þeim lögum. Ráðuneytinu sé kunnugt um að Seðlabanki Íslands hafi hafnað beiðni kæranda um aðgang að samningnum með vísan til þagnarskylduákvæða í lögum um bankann.

Í hinni kærðu ákvörðun segir jafnframt að samkvæmt 15. gr. gjaldeyrislaga nr. 87/1992 séu þeir sem annast framkvæmd laganna bundnir þagnarskyldu samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands, sbr. 64. gr. laga nr. 91/2019 um breytingu á ýmsum lögum vegna sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Ákvæði 41. gr. laga nr. 92/2019 um Seðlabanka Íslands er rakið og tekið fram að í 3. mgr. 14. gr. laga um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011 sé kveðið á um að ef ráðherra séu afhentar upplýsingar á grundvelli 1. mgr. ákvæðisins, sem almennar eða sérstakar þagnarskyldureglur taka til, þá verði hann og ráðuneyti hans bundin þagnarskyldu með sama hætti og í þeim reglum greini.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið tekur fram að Seðlabanki Íslands hafi verið aðili að þeim samningi sem um ræðir en á grundvelli 3. mgr. 13. gr. b laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992 hafi afrit samningsins verið sent ráðuneytinu. Samkvæmt því ákvæði hafi Seðlabankanum verið heimilt að setja reglur um undanþágur frá takmörkunum 1.-3. mgr. sömu greinar en áður skyldi bankinn hafa samráð við ráðherra og skyldu reglurnar staðfestar af ráðherra. Umbeðnar upplýsingar varði hagi viðskiptamanna Seðlabankans, viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila og annarra aðila, sem og framkvæmd laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Slíkar upplýsingar falli undir hin sérstöku þagnarskylduákvæði sem nefnd voru að framan, sem ráðuneytið sé bundið af.

Í kæru kveðst kærandi ósammála því að fjármála- og efnahagsráðuneytið sé ekki aðili að samningi sem Seðlabanki Íslands geri fyrir hönd ráðuneytisins. Lögfræðileg umfjöllun ráðuneytisins um beiðnina sé öll byggð á þeirri forsendu, sem leiði til þess að beiðninni hafi verið hafnað. Vísað er til gagna sem fylgt hafi fyrri kæru kæranda og bréfs Ríkisendurskoðunar, dags. 30. janúar 2020, þar sem fram komi að Seðlabanki Íslands hafi annast samningagerðina fyrir hönd ríkisins.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 18. febrúar 2020, var fjármála- og efnahagsráðuneytinu kynnt kæran og veittur frestur til að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem hún lýtur að.

Umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins barst þann 4. mars 2020. Þar kemur fram að beiðni kæranda um aðgang að umbeðnum samningi hafi verið hafnað með vísan til þess að samningurinn félli undir sérstakar þagnarskyldureglur að lögum, sbr. gagnályktun frá 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Ítrekað er að samningurinn falli undir 41. gr. laga um Seðlabanka Íslands nr. 91/2019 og 15. gr. laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992, sbr. 3. mgr. 14. gr. laga um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011. Af hálfu ráðuneytisins kemur fram að ekki séu gerðar athugasemdir við þennan grundvöll svarsins í kæru heldur á því byggt að ráðuneytið fari með rangt mál varðandi aðild þess að samningnum. Þessum málatilbúnaði kæranda sé hafnað. Samningurinn sé á milli Seðlabanka Íslands, slitabús Glitnis hf. og GLB Holding ehf., hann hafi verið undirritaður þann 10. desember 2015 og gerður í tengslum við beiðni slitabúsins um undanþágu frá ákvæðum gjaldeyrislaga. Samningurinn hafi verið sendur ráðuneytinu í desember 2015 í tengslum við lögbundið samráð Seðlabanka Íslands við fjármála- og efnahagsráðherra um veitingu undanþágu til slitabús Glitnis hf. frá ákvæðum laga nr. 87/1992.

Í umsögninni kemur enn fremur fram að með setningu laga nr. 60/2015 um stöðugleikaskatt og breytingum á ákvæðum gjaldeyrislaga nr. 87/1992 og bráðabirgðaákvæði III í þágildandi lögum um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001, hafi verið gert ráð fyrir þeim möguleika að slitabú fallinna fjármálafyrirtækja gætu innt af hendi stöðugleikaframlag í stað greiðslu stöðugleikaskatts. Í ákvæði til bráðabirgða III hafi sagt að Seðlabanka Íslands væri heimilt að annast viðskipti við einstaklinga og fyrirtæki, enda væri um að ræða viðskipti sem Seðlabankinn mæti nauðsynleg til þess að hægt væri að losa um takmarkanir sem settar hefðu verið á fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti. Þá hafi komið fram í ákvæðinu að Seðlabankanum væri heimilt, í þeim tilgangi að draga úr, koma í veg fyrir eða gera kleift að bregðast við neikvæðum áhrifum á stöðugleika í gengis- og peningamálum, að taka á móti hvers kyns fjárhagslegum verðmætum, þ.m.t. kröfuréttindum, fjármálagerningum og eignarhlutum í félögum og öðrum réttindum yfir þeim í tengslum við áætlanir um losun fjármagnshafta. Með lögum nr. 24/2016, sem samþykkt hafi verið þann 17. mars 2016, hafi verið gerðar breytingar á síðari hluta ákvæðis III til bráðabirgða sem kváðu á um það að þau verðmæti sem Seðlabankinn tæki á móti á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. ákvæðisins skyldu renna í ríkissjóð. Samningur sá sem Seðlabanki Íslands hafi gert við slitabú Glitnis hf. og GLB Holding ehf. á grundvelli framangreindra lagaákvæða hafi hins vegar ekki verið gerður opinber af hálfu samningsaðila. Þá kemur fram að upplýsingarnar og gögnin sem óskað sé eftir séu þess eðlis að þær varði hagi viðskiptamanna Seðlabanka Íslands, viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila og annarra aðila, sem og framkvæmd laga nr. 87/1992. Upplýsingarnar séu því háðar þagnarskyldu nema annað hvort úrskurður dómara eða lagaboð geri skylt að láta þær af hendi. Ráðuneytið sé bundið af öllum sömu þagnarskylduákvæðum og Seðlabanki Íslands.

Í umsögninni kemur einnig fram að fyrir liggi að samningurinn varði mikilvæg fjárhagsleg málefni Seðlabanka Íslands og ríkisins og veiti upplýsingar um hagi viðskiptamanns hans. Því sé ekki ástæða til þess að taka afstöðu til þess hvort undanþáguákvæði upplýsingalaga taki til samningsins. Hins vegar sé bent á að tekið sé fram í 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum er varði mikilvæga virka fjárhags- og viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Varði það ekki eingöngu Seðlabanka Íslands og ríkið miklu að umbeðnar upplýsingar séu undirorpnar leynd heldur ekki síður gagnaðila bankans að samningnum. Einnig er bent á 3. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, en með hliðsjón af eðli upplýsinganna sé ljóst að ákvæðið standi til þess að takmarka aðgang almennings að honum og öðrum sambærilegum stöðugleikasamningum. Að lokum telur ráðuneytið ekki unnt að veita aðgang að þeim hlutum skjalsins sem trúnaður ríki ekki um, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, með vísan til þess hversu víða í samningnum sé að finna upplýsingar sem séu undanþegnar upplýsingarétti.

Með erindi, dags. 4. mars 2020, var kæranda kynnt umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Þær bárust með bréfi, dags. 9. mars 2020. Í upphafi er ferill samskipta kæranda við ráðuneytið rakinn stuttlega. Því næst kemur fram að kærandi telji rétt að upplýsa úrskurðarnefnd um upplýsingamál um það að í fyrirtöku máls Glitnis hf. gegn Orkuveitu Reykjavíkur hinn 2. mars 2020 hafi lögmaður Glitnis lagt fram dómskjal sem hann hafi látið bóka að fjallaði um staðfestingu fjármálaráðuneytisins á því að afleiðusamningar hefðu ekki verið framseldir. Í ljós hafi komið að skjalið væri tölvupóstur kæranda til starfsmanns fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Það að lögmaður Glitnis hafi þessi gögn undir höndum og leggi þau fram í dómsmáli staðfesti áður óþekkt tengsl talsmanns ráðuneytisins og lögmanns Glitnis varðandi dómsmálið.

Í athugasemdum kæranda er vikið að hagsmunum hans af því að fá aðgang að samningnum. Kærandi telur samninginn staðfesta að Glitnir hf. hafi framselt afleiðusamninga sem félagið byggi dómsmálið á gegn kæranda til íslenska ríkisins. Kærandi telur reyndar að sönnun þess liggi nú þegar fyrir en vill fá samninginn afhentan til að taka af öll tvímæli enda muni það leiða til sýknu kæranda í málinu. Glitnir hf. hafi einhverra hluta vegna leynt þessu framsali fyrir bæði kæranda og dómara málsins. Hagsmunir Glitnis hf. af samningnum felist í því að félagið fái tugi milljarða króna greiðslur í þóknun fyrir umsjón með framkvæmd stöðugleikagreiðslnanna til ríkissjóðs. Innborgun á þann kostnað hafi numið 5 milljörðum króna í desember 2015. Óstaðfestar fréttir hermi að samningar Glitnis hf. við Seðlabanka Íslands á þeim tíma feli einnig í sér hagsmunatengingu félagsins við árangur málarekstrar í þágu ríkisins. Hagsmunir ríkisins hafi verið þeir að með þeim samningi hafi náðst fullt samkomulag um framkvæmd greiðslu stöðugleikaframlags Glitnis hf. til ríkisins.

Kærandi segir að fjármála- og efnahagsráðuneytinu hafi frá upphafi verið gerð grein fyrir því að kærandi hafi þær upplýsingar frá Ríkisendurskoðun að umbeðinn samningur fjalli um þá afleiðusamninga sem Glitnir hf. og kærandi gerðu á sínum tíma. Þegar af þeirri ástæðu sé ráðuneytinu skylt að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Ekki sé vikið að undantekningarákvæði 2. mgr. 14. gr. upplýsingalaga heldur fullyrt án nokkurra útskýringa að samningurinn varði mikilvæg fjárhagsleg málefni Seðlabanka Íslands og ríkisins. Þá byggir kærandi á því að Seðlabanki Íslands hafi gert umbeðinn samning í umboði ríkisins á grundvelli hlutverks bankans við framkvæmd laga nr. 60/2015, hvort sem sá texti komi fram í yfirskrift samningsins eða ekki.

Kærandi mótmælir því að íslenska ríkið sé ekki aðili að samningnum. Samningurinn fjalli um framkvæmd uppgjörs á stöðugleikaskuldbindingum Glitnis hf. til ríkisins samkvæmt ákvæðum laga nr. 60/2015 um stöðugleikaskatt. Málefnasvið þeirra laga falli undir verkefni ráðuneytisins. Kærandi lítur svo á að Seðlabanki Íslands hafi gert umbeðinn samning í umboði ríkisins á framangreindum grundvelli, líkt og komi fram í pósti Ríkisendurskoðunar til kæranda, dags. 19. nóvember 2019 og 30. janúar 2020.

Kærandi andmælir því að umbeðinn samningur sé undirorpinn þagnarskylduákvæðum, einkum 41. gr. laga um Seðlabanka Íslands nr. 92/2019. Þessi málsástæða sé nýtilkomin hjá ráðuneytinu og hafi komið til eftir að Seðlabankinn hafnaði beiðninni á sömu forsendu. Í fyrsta lagi fjalli samningurinn efnislega um framkvæmd lögbundinnar skattgreiðslu/stöðugleikaframlags Glitnis hf. til ríkisins. Aðdragandi, efni og framkvæmd greiðslunnar hafi komið til ítarlegrar umfjöllunar á opinberum vettvangi á sínum tíma. Í ársreikningi Glitnis hf. fyrir árið 2015 sé því lýst að samningurinn hafi verið gerður í framhaldi af nauðasamningi félagsins. Sú staðreynd að félagið hafi farið í gegnum nauðasamningsmeðferð feli í sér að öll gögn þess hafi verið til umfjöllunar allra hinna fjölmörgu aðila samningsins, þar á meðal kæranda. Umbeðinn samningur hafi verið gerður í tengslum við og í framhaldi af nauðasamningi félagsins. Bæði í ársreikningi Glitnis hf. og í fréttum hafi fjárhæðir stöðugleikaframlags Glitnis hf. tilgreindar og ræddar, bæði í heild og sundurliðuðu formi eftir eignaheildum. Þar hafi eignarheildin afleiðusamningar verið sérstaklega tilgreind en krafa Glitnis á hendur kæranda falli í þann flokk.

Í póstum Ríkisendurskoðunar til kæranda, dags. 19. nóvember 2019 og 30. janúar 2020, sé efni samningsins varðandi afleiðusamninga lýst, þeir hafi verið metnir og færðir upp til eignar í efnahagsreikningi ríkissjóðs 2016. Þannig komi greiðsla Glitnis hf. samkvæmt samningnum fram í ríkisreikningi en almenningur hafi fullan aðgang að honum. Fjármálaráðuneytið hafi á sínum tíma haldið upplýsingafundi fyrir almenning um málefni Glitnis hf. varðandi samninginn og fjárhagslega þætti hans, sbr. fréttir á vef ráðuneytisins dags. 8. júní 2015 og 20. október 2015. Í ársreikningi Glitnis hf. fyrir árið 2018, sem liggi fyrir hjá embætti ríkisskattstjóra, sé fjallað um samninginn og áætlaða fjárhæð tengda þeirri umfjöllun. Eftir framsal eignanna til ríkissjóðs hafi fjármálaráðuneytið birt tilkynningar um stöðu og verðmæti þessara eigna, t.d. fjársópseigna, í fréttatilkynningum sínum, t.d. dags. 26. ágúst 2016 og 8. febrúar 2018.

Í umfjöllun ráðuneytisins um efnisþætti greiðslnanna í liðlega fjögur ár hafi aldrei verið vikið að því að leynd hvíldi yfir samningnum. Þvert á móti hafi umfjöllun ráðuneytisins svipt allri leynd af efnisþáttum samningsins en upplýst hafi verið um alla fjárhaglega þætti greiðslnanna. Ráðuneytið hafi ekki útskýrt þá stefnubreytingu sem felist í því að halda því nú fram að einhverjir þættir í stöðugleikaframlagi Glitnis hf. til ríkissjóðs varði einhverja mikilvæga þætti sem falli undir trúnaðarákvæði laga sem ekki sé heimilt að upplýsa um.

Þegar farið sé yfir allar þær upplýsingar um fjárhagslega þætti stöðugleikaframlags Glitnis hf. til ríkisins og framkvæmd þess sem birtar hafi verið og um fjallað á opinberum vettvangi sé engar upplýsingar að finna í samningnum sem leynd hafi ekki þegar verið svipt af. Því séu engin efni til þess að fallast á að um sé að ræða viðkvæman gagnkvæman samning sem snerti ríka efnahagslega hagsmuni ríkisins sem rétt sé að takmarka aðgang að eða að rétt sé að fella samninginn og efni hans undir trúnaðarákvæði 41. gr. laga um Seðlabanka Íslands eða önnur tilvitnuð lagaákvæði í bréfi ráðuneytisins, dags. 4. mars 2020. Ljóst sé að allri leynd hafi verið svipt af öllum fjárhagslegum upplýsingum í samningnum sem og upplýsingum um framkvæmd hans.

Kærandi mótmælir því að dómur Hæstaréttar í máli nr. 329/2014 sé upplýsandi eða fordæmisgefandi um álitaefni þessa máls. Hér fjalli umbeðin gögn um greiðslu skatta til ríkisins, skatta sem greiddir hafi verið í formi samninga sem kærandi sé aðili að. Gögnin fjalli um aðilaskipti að þeim samningum, tímasetningu þeirra aðilaskipta og hver eigi rétt til greiðslna samkvæmt þeim. Kæranda sé ekki kunnugt um úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem gætu verið fordæmisgefandi fyrir synjun beiðni hans. Úrskurðurinn sem komist næst því sé nr. 614/2016 en umbeðinn samningur í því máli hafi fjallað um innbyrðis viðskipti Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Kína með gjaldeyri. Efnisþættir hans fjalli væntanlega allir um viðskipti þessara tveggja banka. Í þessu máli sé umfjöllun um samninga kæranda í umbeðnum gögnum skýrt aðgreind eins og fram komi í póstum Ríkisendurskoðunar til kæranda.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að samningi Glitnis hf., GLB Holding ehf. og Seðlabanka Íslands, dags. 10. desember 2015. Ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að synja beiðni kæranda um aðgang að samningnum er einkum byggð á því að samningurinn sé undanþegin upplýsingarétti samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2020 þar sem efni hans falli undir sérstakar þagnarskyldureglur laga sem ráðuneytið sé bundið af, þ.e. 15. gr. gjaldeyrislaga, nr. 87/1992, 41. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, og laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011.

Í 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga segir að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Með gagnályktun frá ákvæðinu verður að telja að sérstök þagnarskylduákvæði geti, ein og sér, komið í veg fyrir að aðgangur verði veittur að gögnum í vörslum stjórnvalda hvað sem líður ákvæðum upplýsingalaga. Þegar um er að ræða sérákvæði laga um þagnarskyldu, þ.e. þegar upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til eru sérgreindar, fer það eftir efni og orðalagi þagnarskylduákvæðis hvernig slík ákvæði verða skýrð og samþýdd ákvæðum upplýsingalaga eins og segir í almennum athugasemdum frumvarps þess sem síðar varð að upplýsingalögum nr. 140/2012.

Hæstiréttur Íslands komst að þeirri niðurstöðu með dómi frá 3. júní 2014 í máli nr. 329/2014 að 1. mgr. 35. gr. þágildandi laga um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001 hafi falið í sér sérstaka þagnarskyldureglu en ekki almenna. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur byggt á því að þagnarskyldan samkvæmt ákvæðinu sé sérgreind með þeim hætti að hún nái til upplýsinga sem varða hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs og annars þess sem starfsmenn bankans fá vitneskju um í starfi og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls.

Í núgildandi 1. mgr. 41. gr. laga Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, sem er efnislega sambærileg 1. mgr. 35. gr. eldri laganna, segir:

„Bankaráðsmenn, seðlabankastjóri, varaseðlabankastjórar, nefndarmenn í peningastefnunefnd, fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd og aðrir starfsmenn Seðlabanka Íslands eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans, viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila, tengdra aðila eða annarra og málefni bankans sjálfs, svo og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða til lögreglu eða skylt sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Sama gildir um sérfræðinga, verktaka og aðra sem starfa fyrir eða á vegum bankans. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.“

Í 4. mgr. 41. gr. laganna segir:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er Seðlabankanum heimilt að eiga upplýsingaskipti við opinbera aðila um atriði sem lög þessi taka til þegar upplýsingaskiptin eru í samræmi við lögmælt hlutverk Seðlabankans eða móttakanda. Sá sem veitir viðtöku upplýsingum af því tagi sem um getur í 1. mgr. er bundinn þagnarskyldu á sama hátt og þar greinir.“

Þá er í 3. mgr. 14. gr. laga um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011 kveðið á um að ef ráðherra eru afhentar upplýsingar á grundvelli 1. mgr. ákvæðisins, sem almennar eða sérstakar þagnarskyldureglur taka til, þá verði hann og ráðuneyti hans bundin þagnarskyldu með sama hætti og í þeim reglum greinir.

Samkvæmt 15. gr. gjaldeyrislaga nr. 87/1992 eru þeir sem annast framkvæmd laganna bundnir þagnarskyldu samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið samning Seðlabanka Íslands við Glitni hf. og GLB Holding ehf. sem undirritaður var 10. desember 2015. Í samningnum er fjallað um aðdragandann að gerð hans. Segir þar að slitastjórn Glitnis hafi sótt um undanþágur frá lögum um gjaldeyrismál. Glitnir hafi lagt til að félagið reiddi fram stöðugleikaframlag til Seðlabanka Íslands í samræmi við lög nr. 59/2015, um fjármálafyrirtæki og umsókn þrotabúsins um undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál. Í samningnum eru settir fram skilmálar fyrir framsali þeirra eigna sem stöðugleikaframlag þrotabúsins tekur til og skyldur samningsaðila í tengslum við stöðugleikaframlagið.

Umbeðinn samningur var gerður með heimild í ákvæði til bráðabirgða III í lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, þar sem kveðið var á um heimild Seðlabankans til að taka við eignum og öðrum fjárhagslegum réttindum í viðskiptum sínum við einstaklinga og fyrirtæki í þeim tilgangi að draga úr, koma í veg fyrir eða gera kleift að bregðast við neikvæðum áhrifum á stöðugleika í gengis- og peningamálum, í tengslum við áætlanir um losun fjármagnshafta, sbr. lög nr. 59/2015, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Í ákvæðinu stóð enn fremur að þau verðmæti sem Seðlabankinn veitti viðtöku á þessum grundvelli skyldu renna í ríkissjóð og skyldu þau vera hjá bankanum í varðveislu. Meðferð og ráðstöfun verðmætanna skyldi hagað í samræmi við 2. mgr. 1. gr. laga um stöðugleikaskatt.

Úrskurðarnefndin telur að líta verði svo á að Glitnir hf. og GLB Holding ehf. hafi verið viðskiptamenn bankans í þeim viðskiptum sem umbeðinn samningur varðar. Það er því mat nefndarinnar að umbeðinn samningur varði hagi viðskiptamanna bankans og falli þar af leiðandi undir undanþáguákvæði, sbr. 41. gr. laga um Seðlabanka Íslands nr. 92/2019.

Þá telur úrskurðarnefndin ljóst að samningurinn hafi verið sendur fjármála- og efnahagsráðuneytinu í desember 2015 í tengslum við lögbundið samráð Seðlabanka Íslands við fjármála- og efnahagsráðherra um veitingu undanþágu til slitabús Glitnis hf. frá ákvæðum gjaldeyrislaga. Í 4. mgr. 13. gr. b gjaldeyrislaga kemur fram að Seðlabankanum sé heimilt að setja reglur um undanþágur frá takmörkunum 1.-3. mgr. 13. gr. b gjaldeyrislaga en í tilteknum tilvikum, þegar undanþágur varði einstaka aðila með efnahagsreikninga yfir 400 milljörðum kr. og geti haft umtalsverð áhrif á skuldastöðu þjóðarbúsins og eignarhald viðskiptabanka, þurfi þó að bera undanþágurnar undir ráðherra og að undanþágureglurnar skuli staðfestar af ráðherra. Í öllu falli veldur framsending samningsins til ráðuneytisins ekki því að þagnarskylda samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands falli niður.

Í tilefni af röksemdum kæranda er lúta að hagsmunum hans af aðgangi að samningnum tekur úrskurðarnefnd um upplýsingamál fram að þagnarskylduákvæði 41. gr. laga um Seðlabanka Íslands gerir ekki ráð fyrir að slíkt hagsmunamat fari fram við ákvörðun á því hvort almenningur eigi rétt til aðgangs að gögnum sem falla að öðru leyti undir ákvæðið, sbr. gagnályktun frá 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Nægjanlegt er að upplýsingar varði hagi viðskiptamanna Seðlabanka Íslands til að upplýsingaréttur almennings verði takmarkaður á grundvelli ákvæðanna umfram fyrirmæli upplýsingalaga. Verður því staðfest hin kærða ákvörðun um að synja beiðni kæranda um aðgang að samningnum.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 12. febrúar 2020, um að synja beiðni kæranda, Jónasar A. Aðalsteinssonar f.h. Orkuveitu Reykjavíkur, um aðgang að samningi Seðlabanka Íslands, Glitnis hf. og GLB Holding ehf., dags. 10. desember 2015, er staðfest.

Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta