Nr. 129/2019 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 129/2019
Miðvikudaginn 3. júlí 2019
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 28. mars 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. febrúar 2019 um greiðslu mæðralauna.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með rafrænni umsókn, móttekinni 17. febrúar 2019, sótti kærandi um mæðralaun með X börnum. Með bréfi, dags. 28. febrúar 2019, synjaði Tryggingastofnun ríkisins kæranda um mæðralaun á grundvelli þess að hún væri fósturmóður barnanna.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. mars 2019. Með bréfi, dags. 1. apríl 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 11. apríl 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá kæranda 29. apríl 2019 og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að kærandi krefjist þess að synjun Tryggingastofnunar á umsókn hennar um mæðralaun verði felld úr gildi og að fallist verði á rétt hennar til mæðralauna.
Í kæru kemur fram að kærandi […] hafi X [börn] […] í fóstri [...]. Tryggingastofnun hafi synjað henni um mæðralaun þar sem ekki sé gert ráð fyrir að aðrir en foreldrar fái slíkar greiðslur. Kærandi telji að þar sem að börnin hafi búið hjá henni [...] eigi hún rétt á að fá greidd mæðralaun þar sem hún sé ein með börnin og framfleyti þeim.
Í athugasemdum kæranda frá 29. apríl 2019 kemur fram að ástæða þess að börnin séu í fóstri hjá henni sé sú að [...] Kærandi telji sig því eiga rétt á að fá mæðra- og feðralaun greidd frá Tryggingastofnun og að það sama gildi um aðra fósturforeldra sem taki börn í fóstur tímabundið eða til langframa. Nái [...] verði börnin væntanlega vistuð hjá henni til langframa. Til að geta haft börnin hafi kærandi […] með tilheyrandi rekstrarkostnaði og þó svo að mæðra- og feðralaun séu ekki há upphæð geti munað um þá upphæð til lengri tíma.
Að mati kæranda hafi Tryggingastofnun ekki rétt á að mismuna fólki eftir því hvort það séu foreldrar eða fósturforeldrar sem annist börnin, umönnunarkostnaðurinn sé hinn sami.
Kærandi tilgreinir sérstaklega að lögheimili barnanna hafi verið hjá henni frá […].
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar
Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um að synja kæranda um mæðralaun með X [fósturbörnum] hennar með þeim rökum að ekki sé heimilt að greiða mæðralaun til fósturforeldra.
Samkvæmt 2. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða mæðra- og feðralaun til einstæðra foreldra sem hafi börn sín undir 18 ára aldri á framfæri og séu búsett hér á landi. Í reglugerð nr. 540/2002 um mæðra- og feðralaun séu nánari ákvæði um greiðslu mæðra- og feðralauna. Í 2. gr. reglugerðarinnar komi fram að með einstæðu foreldri sé átt við:
„a) Foreldri sem skilið er við maka sinn að borði og sæng eða að lögum, eða hefur slitið óvígðri sambúð eða staðfestri samvist.
b) Foreldri sem hefur eignast börn utan hjúskapar eða óvígðrar sambúðar og hefur ekki tekið upp sambúð, samvist eða gengið í hjónaband.
c) Foreldri sem er eitt vegna andláts maka.“
Hjá Tryggingastofnun liggi fyrir bréf frá barnavernd um fósturvistun barnanna X hjá kæranda. Þar komi fram að börnin séu tímabundið vistuð hjá kæranda og hafi farið í umsjá hennar [...]. Vistunin hafi nokkrum sinnum verið framlengd, núna síðast með bréfi, dags. X, þar sem komi fram að vistunin muni standa til X.
Með vísan til framangreindrar skilgreiningar á foreldri í 2. gr. reglugerðarinnar, sem Tryggingastofnun líti svo á að sé tæmandi talin, og með vísan til orðalags 2. gr. laga um félagslega aðstoð, þar sem talað sé um foreldri sem hafi börn sín á framfæri, telji stofnunin að einungis sé heimilt að greiða umsækjendum mæðralaun með þeirra eigin börnum en ekki börnum annarra þrátt fyrir að þau séu á þeirra framfæri.
Í þessu tilviki sé kærandi ekki með forsjá barnanna heldur séu þau í tímabundnu fóstri hjá henni. Tryggingastofnun hafi því ekki heimild til að greiða kæranda mæðralaun með börnunum.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. febrúar 2019, þar sem umsókn kæranda um mæðralaun með X fósturbörnum hennar var synjað með þeim rökum að hún uppfylli ekki skilyrði laga um greiðslu mæðralauna þar sem hún er fósturforeldri barnanna. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort Tryggingastofnun sé heimilt að greiða mæðralaun til fósturforeldra.
Um mæðralaun er fjallað í 2. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. máls. 1 mgr. 2. gr. laganna er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að greiða mæðralaun til einstæðra foreldra sem hafi börn sín undir 18 ára aldri á framfæri og séu búsett hér á landi. Í 2. máls. sömu greinar segir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd þess.
Í 1. gr. reglugerðar nr. 540/2008 um mæðra- og feðralaun segir:
„Tryggingastofnun ríkisins er heimilt, að fenginni umsókn, að greiða mæðra- og feðralaun þeim sem eiga lögheimili hér á landi. Skilyrði er að foreldri hafi tvö eða fleiri börn yngri en 18 ára á framfæri sínu, og að börnin séu búsett hér á landi hjá foreldri samkvæmt lögmætri skipan.“
Skilgreining á einstæðu foreldri er svohljóðandi í 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar:
„Með einstæðu foreldri í reglugerð þessari er átt við:
a) Foreldri sem skilið er við maka sinn að borði og sæng eða að lögum, eða hefur slitið óvígðri sambúð eða staðfestri samvist.
b) Foreldri sem hefur eignast börn utan hjúskapar eða óvígðrar sambúðar og hefur ekki tekið upp sambúð, samvist eða gengið í hjónaband.
c) Foreldri sem er eitt vegna andláts maka.“
Samkvæmt framangreindu er heimilt, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, að greiða einstæðu foreldri mæðra- eða feðralaun. Aftur á móti er engin heimild til þess að greiða einstæðu fósturforeldri mæðra- eða feðralaun. Óumdeilt er í málinu að kærandi er fósturforeldri barnanna. Að mati úrskurðarnefndar var Tryggingastofnun ríkisins ekki heimilt að samþykkja umsókn kæranda um greiðslu mæðralauna vegna þess að hún uppfyllir ekki ófrávíkjanlegt skilyrði 2. gr. laga um félagslega aðstoð og reglugerðar nr. 540/2002 um að vera foreldri barnanna.
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um mæðralaun er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um mæðralaun, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir