Mál nr. 4/2006: Dómur frá 6. júlí 2006
Ár 2006, fimmtudaginn 6. júlí, var í Félagsdómi í málinu nr. 4/2006.
Félag íslenskra flugumferðarstjóra
(Björn L. Bergsson hrl.)
gegn
íslenska ríkinu
(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)
kveðinn upp svofelldur
D Ó M U R :
Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 12. júní sl. Það var endurupptekið 19. júní sl. vegna framlagningar viðbótargagna og dómtekið á ný þann dag.
Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Kristján Torfason og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.
Stefnandi er Félag íslenskra flugumferðarstjóra, kt. 560372-0199, Borgartúni 28, Reykjavík.
Stefndi er íslenska ríkið, kt. 540269-6459, Arnarhvoli, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda
Stefnandi gerir þær dómkröfur að viðurkennt verði að stefndi hafi brotið kjarasamning aðila með einhliða breytingum á vaktakerfi í Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík sem komu til framkvæmda hinn 16. mars 2006.
Þá er krafist málskostnaðar, auk álags er nemi virðisaukaskatti, samkvæmt mati dómsins.
Dómkröfur stefnda Að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati Félagsdóms.
Málavextir
Málavextir eru þeir að milli stefnanda og stefnda hefur verið í gildi kjarasamningur um árabil um störf flugumferðarstjóra. Hluti af hinum umsömdu kjörum flugumferðarstjóra hefur falist í vaktavinnukerfi sem útfært hefur verið í samræmi við ákvæði kafla 2.5 í kjarasamningi málsaðila. Í Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík hefur verið í notkun vaktakerfi sem tekið var upp með samkomulagi aðila árið 1997. Flugmálastjórn hefur á undanförnum árum reynt að breyta vaktafyrirkomulagi í flugstjórnarmiðstöðinni í samvinnu við flugumferðarstjóra, en án árangurs.
Á síðastliðnu ári tóku málsaðilar upp viðræður í tilefni af því að kjarasamningur var að renna út í samræmi við efni sitt. Hinn 15. júlí 2005 var síðan ritað undir samkomulag um breytingar á kjarasamningi aðila sem taka áttu gildi hinn 1. júlí 2005 og gilda til 29. febrúar 2008. Samhliða undirritun samkomulagsins rituðu samningsaðilar undir bókanir sem fylgdu samkomulaginu. Um var að ræða fjórar bókanir en meðal þeirra var bókun númer 3 sem fól í sér ráðagerð um upptöku nýs vaktakerfis í Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík, flugturninum á Reykjavíkurflugvelli og flugturninum á Kelfavíkurflugvelli. Áttu vaktakerfin að byggjast upp á kjörnum sem áttu að halda sér auk þess sem ganga átti út frá nánar skilgreindum forsendum við gerð nýs vaktakerfis.
Ofangreint samkomulag var borið undir atkvæði félagsmanna stefnanda sem felldu það. Kom þar meðal annars til óánægja félagsmanna vegna ráðgerðra breytinga er lutu að hinu umsamda vaktakerfi. Afstaða félagsmanna var eindregið sú að fallast ekki á þessar breytingar sem þeir töldu ekki nægjanlega hagfelldar fyrir sig.
Í kjölfar þessarar niðurstöðu í atkvæðagreiðslu starfsmanna tóku samningsaðilar upp viðræður að nýju og lauk þeim með því að ritað var undir samkomulag hinn
8. september 2005. Samkomulag þetta fól í sér að aftur skyldi bera samkomulagið frá 15. júlí undir atkvæði að breyttum þeim forsendum að svonefndur stofnanasamningur hafði verið útfærður og með því að fella niður bókun 3 sem fól í sér nefndar vaktakerfisbreytingar. Gekk það eftir að samkomulagið var á ný borið undir félagsmenn sem samþykktu það, að sögn stefnanda í ljósi þeirrar staðreyndar að drög að stofnanasamningi lægju fyrir og að ekki yrði hróflað við vaktakerfinu. Stefndi heldur því hins vegar fram að á þessum tíma hafi það komið skýrt fram af hálfu Flugmálastjórnar Íslands að þrátt fyrir að bókun 3 væri tekin út úr samningnum yrði farið í kerfisbreytingar á vöktum.
Í september 2005 var send tilkynning frá starfsmannahaldi flugmálastjórnar til allra flugumferðarstjóra sem ganga vaktir í flugstjórnarmiðstöðinni og þeim tilkynnt að vaktakerfinu yrði breytt frá og með 1. janúar 2006 og yrðu breytingarnar tilkynntar síðar. Þegar vaktaskrá var gefin út í desember samkvæmt nýju vaktakerfi var vaktakerfisbreytingum mótmælt af stjórn stefnanda. Haldinn var félagsfundur sem samþykkti harðorða ályktun og skoraði á flugmálastjóra og flugvallarstjóra á Keflavíkurflugvelli að láta þegar í stað af þeim ráðagerðum að breyta vaktakerfinu einhliða, sem stefnandi telur vera í andstöðu við kjarasamning aðila.
Í kjölfar þessa mun það hafa gerst að á Keflavíkurflugvelli hafa engar breytingar verið gerðar eða boðaðar. Í Flugturninum í Reykjavík munu hafa verið gerðar breytingar á vaktakerfinu sem samkomulag tókst um með stefnda og starfsmönnum. Í Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík hefur ekki náðst samkomulag um vaktakerfið.
Á starfsmannafundi 28. febrúar síðastliðinn tilkynnti Ásgeir Pálsson, framkvæmdastjóri flugumferðarsviðs, starfsmönnum að vaktakerfið 3/2-4/3 yrði sett á einhliða frá og með 16. mars það ár enda hefði það ekki verið unnt með samráði við félagsmenn stefnanda. Af hálfu flugmálastjórnar er fullyrt að ávallt hafi verið tekið skýrt fram við starfsmenn að yfirstjórn flugumferðarsviðs væri ætíð reiðubúin að skoða hugmyndir um vaktakerfi og tillögur til betrumbóta og hafi starfsmenn verið hvattir til að velta fyrir sér möguleikum í stöðunni og þeir beðnir um að koma þeim á framfæri.
Stefnandi telur þá vaktskrá, sem stefndi hefur einhliða birt, ekki vera í samræmi við gildandi samkomulag aðila. Þannig hafi næturvaktir verið styttar úr 11 klst. í 10 klst. Dagvaktir séu almennt styttar um hálfa klst. Þá séu felldar niður bakvaktir. Á móti þessum breytingum komi ein 6 klst. vakt til viðbótar á hverjum tólf dögum eða alls 30 vaktir á ári. Þetta leiði til þess að helgarfrí starfsmanna sem ganga næturvaktir verði mun færri en áður eða aðeins fjórar á ári. Þá leiði þetta til þess að ákvæði kjarasamnings aðila í grein 2.5.4 um tvo samfellda frídaga í viku að jafnaði náist ekki. Þannig náist tveir samfelldir frídagar aðeins aðra hverja viku. Samfelldir frídagar séu að meðaltali 1,7 í viku. Þá leiði kerfisbreytingarnar til þess að fjöldi vinnustunda í viku hverri verður allt að 44,5 en í grein 2.1.1 segi að vinnuvika flugumferðarstjóra í fullu starfi skuli vera að jafnaði 38 stundir.
Þreyfingar milli málsaðila í því augnamiði að leysa ágreining þennan á liðnum vikum hafa ekki borið árangur og því telur stefnandi ekki hjá því komist að efna til málsóknar þessarar til að fá hlut félagsmanna réttan í þessum efnum.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi kveður mál þetta lúta að ágreiningi um efndir kjarasamnings og eigi það því undir dómsvald Félagsdóms, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986.
Á því er byggt af hálfu stefnanda að fyrir liggi kjarasamningur milli málsaðila þar sem samið sé um vaktavinnukerfi og sérstakt samkomulag frá 1997 um útfærslu þess. Um vaktavinnu sé fjallað í samningi aðila í grein 2.5. Stefndi sé bundinn af þessu og geti ekki breytt einhliða útfærslu þessa kerfis sem þar sé um samið. Það leiði bæði beint af þeirri meginreglu að samninga beri að efna réttilega samkvæmt efni sínu, þar með talið kjarasamninga. Ekki síður sé til þess að líta að bein ákvæði samningsins komi í veg fyrir að unnt sé að breyta fyrirkomulagi vinnunnar með einhliða ákvörðunum annars hvors samningsaðilanna. Þannig sé sérstakt heimildarákvæði í gr. 2.1.1.1 sem heimili frávik frá kjarasamningi varðandi fyrirkomulag vinnutíma ef samningsaðilar verði sammála um slíkt. Þá sé einnig kveðið á um það í grein 2.5.3 að heimilt sé að semja um aðra tímalengd vakta með vísan til áðurnefnds heimildarákvæðis í gr. 2.1.1.1. Allmargir samningar hafi verið gerðir á þessum grundvelli. Slík heimildarákvæði væru óþörf ef raunin væri sú að stefndi gæti breytt þessu fyrirkomulagi einhliða að geðþótta.
Þá sé á því byggt af hálfu stefnanda að stefnda sé þetta fulljóst enda hafi farið fram sérstakar viðræður milli málsaðila er lutu að breytingum á vaktavinnukerfi í aðdraganda þess að gert var samkomulag um breytingar á kjarasamningi málsaðila síðastliðið sumar. Slíkar viðræður hefðu verið öldungis óþarfar ef einhliða væri á valdi stefnda að ráða fram úr þessu álitaefni. Í tengslum við undirritun samningsaðila hinn 15. júlí 2005 hafi verið gerð sérstök bókun af þessu tilefni um breytingar sem samninganefndir málsaðila höfðu orðið ásáttar um. Þær breytingar hafi hins vegar ekki hlotið náð fyrir augum félagsmanna stefnanda. Félagsmennirnir hafi nýtt sér lögákveðna heimild sína til að taka afstöðu til þessarar breytingar og höfnuðu henni. Þeir hafi ekki viljað samþykkja breytingar á vaktavinnukerfinu á þann hátt sem lagt var upp með.
Stefnda sé fullkunnugt um þessa afstöðu félagsmanna stefnanda enda hafi hann staðið að gerð nýs samkomulags við stefnanda þar sem sérstaklega hafi verið tekið fram að fallið væri frá bókun þeirri sem tekið hafi til breytinga á vaktavinnukerfinu. Að mati stefnanda væri það næsta fráleit túlkun að fyrst stefndi og stefnandi komust að samkomulagi um að sleppa nefndri bókun, þar sem hún hafi orðið til þess að fella kjarasamning í atkvæðagreiðslu. Þar með hafi stefndi frjálsar hendur um að breyta vaktafyrirkomulaginu einhliða og að vild. Slík ráðagerð af hálfu stefnda standist að sjálfsögðu ekki.
Að mati stefnanda sé augljóst að boðaðar breytingar fari í bága við ákvæði kjarasamnings aðila. Þannig segi í gr. 2.1.1:
„Vinnuvika flugumferðarstjóra í fullu starfi skal vera að jafnaði 38 stundir.
Í Vestmannaeyjum skal vinnuvikan vera að jafnaði 42 stundir á tímabilinu
16/9 - 31/5.
Flugmálastjórn er heimilt að flytja vinnuskyldu milli vikna eða árstíða með samþykki viðkomandi starfsmanns.“
Nýtt vaktakerfi geri ráð fyrir meira en 38 klst. vinnuframlagi starfsmanna á viku og ekki hafi verið leitað eftir samþykki starfsmanna þar að lútandi.
Í gr. 2.5.4 segi:
„Skipulagi vaktavinnu skal haga þannig að starfsmenn fái að jafnaði tvo samfellda frídaga í viku.“
Ef litið sé þannig á að annar af tveimur samfelldum frídögum sé hvíldardagur þá sé það skilningur stefnanda að tveggja daga samfellt frí sé 59 klukkustundir í það minnsta. Frí í nýju vaktakerfi í flugstjórnarmiðstöðinni nái ekki alltaf 59 klukkustundum. Það fari raunar allt niður í 48 klukkustunda hvíld milli vaktahrina.
Í grein 2.7.1 segi:
„Flugumferðarstjórar ganga vaktir skv. vaktakerfi er miðast við að vinnutími reglubundinnar vaktskrár sé 38-42 klukkustundir á viku að jafnaði á ári.“
Nýtt vaktakerfi í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík hafi ekki verið kynnt með formlegum hætti þrátt fyrir að það hafi verið tekið í notkun. Stefnandi hafi undir höndum skjal sem virðist vera lýsing á kerfinu og félagsmenn stefnanda sem starfa í Flugstjórnarmiðstöðinni fái afhentar vaktskrár með 14 daga fyrirvara. Af þessum gögnum verði ráðið að nýja vaktakerfið í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík sé ekki reglubundið. Kerfið sé þannig uppsett að starfsmenn vinni þrjá daga, eigi hvíld í tvo daga, vinni fjóra daga og eigi hvíld í þrjá daga, þó geti síðasta vaktin í vinnulotu verið næturvakt. Þannig verði tveggja daga hvíld í raun að „svefndegi“ og hvíldardegi. Engin regla sé á því hvernig vaktahringurinn líti út, engin regla sé á því á hvaða tíma dags vakt byrji eða endi. Starfsmaður viti aðeins með 14 daga fyrirvara hvernig vinnutími innan dagsins verði. Þetta geri einnig að verkum að stefndi standi á engan hátt við yfirlýsta stefnu um fjölskylduvænan vinnustað.
Augljóst sé að mati stefnanda að stefndi hafi ótvírætt staðfest með áralangri framkvæmd að vaktavinnukerfi félagsmanna stefnanda verði ekki breytt einhliða heldur með samningum milli stefnanda og stefnda eða, í það minnsta, með samkomulagi við viðkomandi starfsmann með vísan til sérstakrar heimildar í grein 2.1.1. Um þessa afstöðu stefnda vitni ítrekaðar viðræður, sem átt hafi sér stað á liðnum árum milli málsaðila, meðal annars um vaktavinnukerfi. Slíkar viðræður væru óþarfar ef breytingar á kerfinu rúmuðust innan svonefnds stjórnunarvalds stefnda sem atvinnurekanda. Að auki ætti að vera jafnóumdeilt að málsaðilar hafi samið um það vaktavinnukerfi sem hafi verið við lýði. Beri því að taka kröfu stefnanda til greina.
Málsókn sína styður stefnandi við lög nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sbr. einnig lög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur sem og meginreglur vinnuréttar og samningaréttar um skuldbindingagildi samninga. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um álag er nemi virðisaukaskatti á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 50/1988 en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi mótmælir málatilbúnaði stefnanda og kröfum á honum reistum. Ágreiningur sá sem stefnandi hafi borið undir Félagsdóm lúti að því hvort stefndi eða nánar tiltekið Flugmálastjórn Íslands hafi brotið kjarasamning aðila með því að gera einhliða breytingar á vaktakerfi því sem tilteknir flugumferðarstjórar og félagsmenn stefnanda vinni eftir.
Stefndi byggir á því að breytingarnar séu ótvírætt heimilar og að þær brjóti í engu gegn gildandi kjarasamningi aðila. Því til stuðnings byggir stefndi einkum á réttarreglum um stjórnunarrétt vinnuveitanda sem sé ein af grundvallarreglum vinnuréttarins. Heimildir stefnda, eða stofnunarinnar, til að setja einhliða á vaktakerfi og hrinda þeim í framkvæmd, séu ekki háðar samráði við stefnanda eða þess eðlis að aðeins verði um þær fjallað með samkomulagi við stefnanda eða breytingum á kjarasamningi. Þá sé vaktakerfið eða heimild til að setja það ekki hluti kjarasamnings aðila.
Í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sé stjórnunarrétturinn lögfestur, einkum í 15. gr., 17. gr. og 19. gr. laganna. Í 17. gr. sé mælt fyrir um að forstöðumaður ákveði vinnutíma þeirra starfsmanna sem starfi hjá stofnun að því marki sem lög og kjarasamningar leyfa og í 19. gr. þar sem fram komi að starfsmanni sé skylt að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því er hann tók við starfi. Þannig taki stjórnunarréttur þessi til vinnusambands aðila og verði að skýra kjarasamning aðila með hliðsjón af þeirri grundvallarreglu. Vísist einnig til ákvæða loftferðalaga nr. 60/1998 og reglugerða um flugmálastjórn, settum samkvæmt þeim. Með dómi Félagsdóms frá 19. nóvember 1996 í málinu nr. 12/1996 hafi þetta verið staðfest. Dómurinn varði aðila þessa máls og í raun hafi engar breytingar orðið í samskiptum stefnanda og stefnda, með kjarasamningum eða öðrum hætti, sem hrundið geti þeirri meginniðurstöðu sem dómurinn feli í sér.
Stefnandi hafi vísað til nánar tiltekinna ákvæða kjarasamnings. Stefndi byggir á því að tilfærð ákvæði takmarki á engan hátt heimild stefnda, eða stofnunarinnar, til að gera þær breytingar á vaktakerfi sem um sé deilt í málinu. Stefndi telji nauðsynlegt að rekja andmæli sín gegn málatilbúnaði stefnanda að þessu leyti í tengslum við þau ákvæði sem vísað sé til í stefnu. Áður telji stefndi þó nauðsynlegt að taka fram að kröfugerð og málatilbúnaður stefnanda sé að mörgu leyti ónákvæmur á þann hátt að leitt gæti til frávísunar málsins.
Í fyrsta lagi tiltaki kröfugerðin ekki á hvern hátt stefnandi telji hinar umdeildu breytingar ganga gegn ákvæðum kjarasamnings að áliti félagsins. Í öðru lagi og því til áréttingar sé ekki borið niður í tiltekinni grein kjarasamnings í dómkröfum stefnanda. Í þriðja lagi ráðgeri dómkrafan aðeins að brotið hafi verið gegn kjarasamningi en ekki hvort breytingar á vaktakerfi hafi verið heimilar eða lögmætar, en við mat á heimild stofnunarinnar til að ákveða vaktakerfi sé óhjákvæmilegt að taka mið af öðrum réttarreglum en kjarasamningi, sem og til fyllingar ákvæðum hans.
Um einstök atriði í málatilbúnaði stefnanda að því er ákvæði kjarasamnings varðar byggir stefndi á eftirfarandi: Grein 2.5 í kjarasamningi aðila fjalli um vaktavinnu og afbrigðilegan vinnutíma. Í kjarasamningi sé vaktakerfið ekki útfært frekar en fram komi í greininni. Þannig sé mótmælt þeirri fullyrðingu stefnanda að hluti af umsömdum kjörum flugumferðarstjóra sé tiltekið vaktavinnukerfi sem hafi verið útfært í samræmi við grein 2.5. Þá ítreki stefndi mótmæli sín við þeirri fullyrðingu stefnanda að fyrir hendi sé bindandi samkomulag frá árinu 1997 um vaktakerfi í flugstjórnarmiðstöðinni. Eins og fyrr sé lýst hafi ekkert tiltekið vaktakerfi verið umsamið eða hluti af kjarasamningi, heldur hafi stofnunin og stefndi ávallt litið svo á að í hennar valdi væri að kveða á um vaktakerfi og útfærslu þeirra.
Í ákvæðinu séu aðeins lagðar þær meginlínur sem fara eigi eftir. Stefndi byggir á því að stofnunin geti, innan þeirra marka sem lög og kjarasamningurinn setji, útfært það vaktakerfi sem best henti fyrir hana og sett það einhliða á. Ekkert í kjarasamningi aðila komi í veg fyrir að fyrirkomulagi vinnunnar sé breytt með einhliða ákvörðun stofnunar innan þessara marka.
Sé rétt að taka fram, eins og greini í bréfi fjármálaráðuneytis, að fjölmörg fordæmi séu fyrir einhliða breytingum á vinnufyrirkomulagi innan stofnana ríkisins. Til að mynda eigi það ekki síst við stærsta vinnustað landsins, Landspítala-háskólasjúkrahús, þar sem gengnar séu vaktir. Séu breytingar á vaktakerfum þar tíðar sökum þess að stjórnendur þar leiti eftir hagstæðustu útfærslunni á vaktakerfi miðað við þarfir hverju sinni. Kjarasamningur aðila þessa máls sé ekki frábrugðinn öðrum kjarasamningum sem stefndi gerir varðandi þessi atriði og innihaldi ekki nein sérákvæði sem takmarki stjórnunarrétt stofnunar til útfærslu á vaktakerfinu. Í þessu tilliti byggir stefndi einnig á því að samkvæmt lögum séu gerðar kröfur á flugmálastjórn, eins og allar aðrar ríkisstofnanir, að reka starfsemi sína með hagkvæmum hætti, sbr. t.d. 38. gr. laga nr. 70/1996. Stofnunin verði að hafa svigrúm til að skipuleggja sig eins og hún telur að best verði hverju sinni til þess að ná þeim markmiðum og þeim árangri sem henni sé ætlað, sbr. einnig ákvæði loftferðalaga nr. 60/1998.
Stefnandi vísi til greinar 2.5.3 í kjarasamningi aðila þar sem kveðið sé á um að heimilt sé að semja um aðra tímalengd vakta en þar greini með vísan til greinar 2.1.1.1. Ekkert í grein 2.5.3 takmarki heimild flugmálastjórnar til að kveða á um það hvers efnis vaktakerfi skuli vera eða bindi hendur stofnunarinnar á þann hátt að óhjákvæmilegt sé að semja um það við stefnanda. Auk þess sem í greininni séu notuð orðin að jafnaði sé tímalengd einstakra vakta innan þeirra almennu marka sem ákvæðið tiltekur.
Stefndi árétti að í kjarasamningi sé settur rammi um vinnutíma sem vinnuveitanda beri að virða, en kjarasamningur svipti ekki vinnuveitanda þeim möguleika að haga vinnu starfsmanna með þeim hætti sem best henti fyrir reksturinn hverju sinni. Gildi þá áðurnefndur stjórnunarréttur vinnuveitanda innan ramma kjarasamninga og ákvæða laga. Sú einhliða breyting á vaktafyrirkomulagi sem mál þetta sé risið af uppfylli framangreint skilyrði og sé stofnuninni fullkomlega heimil.
Stefnandi tiltaki þrjú einstök ákvæði kjarasamningsins sem hann heldur fram að breytt vaktakerfi fari í bága við. Að því er varðar grein 2.1.1 byggir stefndi á því að ákvæðið komi ekki í veg fyrir að vinnuvikan geti ýmist verið skipulögð undir eða yfir 38 stundum í útfærslu vaktakerfis og vísar því til stuðnings til orðalagsins „að jafnaði 38 stundir“. Þá verði ekki fram hjá því horft að í grein 2.7 sé samið um sérstakar fastar vaktagreiðslur fyrir það að flugumferðarstjórar gangi vaktir samkvæmt vaktakerfi er miðist við að vinnutími reglubundinnar vaktskrár sé 38-42 klst. á viku að jafnaði á ári. Til frekari skýringar á grein 2.7 megi geta þess að á öðrum vinnustöðum en í Vestmannaeyjum sé vinnutími flugumferðarstjóra að jafnaði 38 klukkustundir í viku en í Eyjum sé miðað við 42 stundir að jafnaði í viku. Með vísan til þessa telur stefndi ekki standast að breytingar á vaktakerfinu, þar sem ýmist sé gert ráð fyrir meira eða minna vinnuframlagi en 38 klukkustundum á viku, brjóti í bága við grein 2.1.1, svo sem stefnandi haldi fram. Eins og stefnandi hafi bent á sé hið nýja vaktakerfi þannig að meðaltal vinnustunda á viku sé undir 38 stundum eða 37,33 talsins. Því sé þannig ranglega haldið fram í stefnu að hið nýja vaktakerfi geri ráð fyrir fleiri en 38 stundum á viku almennt. Að þessu leyti telur stefndi að á engan hátt hafi verið brotið gegn nefndu ákvæði kjarasamnings, sbr. orðalagið „að jafnaði“. Fái þetta einnig stoð í grein 2.7.3 um grundvöll vaktaálagsgreiðslna, sbr. einkum 5. lið.
Í þessu sambandi byggir stefndi einnig á því að vaktavinna sé sérstaks eðlis og um hana sé fjallað í kafla 2.5 í kjarasamningi. Skýra verði orðin „að jafnaði“ í grein 2.1.1 þannig að þau vísi ekki síður til þess breytileika milli vikna sem geti verið í vaktavinnu. Þannig geti fjöldi vinnustunda á viku verið mismunandi þar sem vaktalotur og frí skarist eðlilega á við fjölda vikudaga. Þetta sé vel þekkt og í hinu nýja vaktakerfi sé engin breyting hvað þetta varðar. Hið eldra kerfi hafi einnig verið með þessum hætti, eins og fyrr segi, og fjöldi vinnustunda á viku ýmist yfir eða undir 38 stundum – en alla jafna sá fjöldi. Milli aðila hafi þannig ekki verið ágreiningur um framkvæmd kjarasamnings að þessu leyti og því augljóslega stoð í áralangri framkvæmd fyrir skilningi stefnda um það hvernig skýra beri orðin að jafnaði.
Í grein 2.5.4 sé kveðið á um að skipulagi vaktavinnu skuli haga þannig að starfsmenn fái að jafnaði tvo samfellda frídaga í viku. Hér sé um nýtt ákvæði að ræða í kjarasamningi aðila sem fram hafi komið í miðlunartillögu ríkissáttasemjara í febrúar 2002. Eins og fram komi í umsögn fjármálaráðuneytis hafi stefndi samið við flest aðildarfélög BSRB á árinu 2001 um svokallaðan vinnutímapakka. Þar hafi verið samið um vaktavinnuálag, bakvaktarákvæði, vaktavinnuákvæði og hvíldartímaákvæði. Samkomulagið um vinnutímann hafi síðar farið inn í flest alla kjarasamninga sem eftir voru í þeirri kjarasamningslotu og hafi samkomulagið einnig verið tekið upp hjá flestum þeim stéttarfélögum sem höfðu lokið sínum samningum á árinu 2000. Með grein 2.5.4 hafi verið gerð breyting á ákvæðinu frá því sem áður gilti, bæði á orðalagi og túlkun. Áður hafi greinin hljóðað upp á að þeir sem vinna vaktavinnu, skulu í viku hverri fá 2 frídaga þannig að næturfrí komi fyrir og eftir frídagana. Núverandi ákvæði segi að starfsmenn skuli að jafnaði fá tvo samfellda frídaga í viku. Við samningsgerðina 2001 við BSRB og í öllum samningum sem gerðir hafi verið eftir það, þar sem samkomulagið hafi verið tekið upp, hafi það legið fyrir að túlkunin á ákvæðinu væri sú að vaktavinnustarfsmenn ættu rétt á að fá að jafnaði tvo samfellda frídaga í viku sem væru að lágmarki 48 stunda samfellt frí. Hinn vikulegi hvíldardagur samkvæmt hvíldartímaákvæðinu falli inn í þetta 48 stunda frí vaktavinnumanna ef svo beri undir, en geti líka alveg staðið sér. En gera þurfi skýran greinarmun á rétti vaktavinnumanna til tveggja frídaga í viku hverri og svo hinnar almennu reglu um rétt allra starfsmanna til vikulegs hvíldardags samkvæmt hvíldartímaákvæðinu.
Við kjarasamningsgerðina 2002 á milli aðila þessa máls hafi samkomulagið verið uppi á borðinu og þar hafi, af hálfu samninganefndar ríkisins, verið gerð grein fyrir innihaldi þess og túlkun í öllum atriðum með sama hætti og gert hafi verið gagnvart öðrum stéttarfélögum. Í miðlunartillögu ríkissáttasemjara, sem samþykkt hafi verið af stefnanda, hafi öll ákvæði samkomulagsins um vinnutímann farið inn. Í tengslum við stofnun kjarasamningsins hafi formanni stefnanda og fulltrúum stefnanda verið ljóst að með ákvæðinu þýddi tveggja daga samfelld hvíld 48 stundir að lágmarki.
Með vísan til framangreinds byggir stefndi á því að gildandi kjarasamningur geri ráð fyrir því að tveggja daga samfellt frí geti verið 48 stundir, eins og orðalagið gefi tilefni til. Hins vegar geri nýja vaktakerfið sjálft ekki ráð fyrir að farið sé niður í 48 stundir nema eitthvað sérstakt komi til, t.d. vegna óska starfsmanna sjálfra. Að öðru jöfnu sé annað hvert vaktafrí 56 stundir og hitt 72 til 76,5 klukkustundir. Stefndi byggir einnig á því að engu skipti hvort starfsmaður sofi eða vaki á einhverjum þessara frídaga. Enginn sérstakur svefndagur sé skilgreindur í kjarasamningi.
Stefnandi heldur því fram að breytingar á vaktakerfinu brjóti í bága við grein 2.7.1 um að flugumferðarstjórar gangi vaktir samkvæmt vaktakerfi er miðist við að vinnutími reglubundinnar vaktskrár sé 38-42 klukkustundir á viku að jafnaði á ári. Stefnandi telur að breytingarnar á vaktakerfinu brjóti því gegn ákvæðinu. Stefndi mótmælir þessum skilningi og byggir á því að samkvæmt grein 2.5.1 skuli vaktskrá, sem sýni væntanlegan vinnutíma hvers starfsmanns, liggja frammi 14 dögum áður en fyrsta vakt samkvæmt skránni hefjist. Hjá stofnuninni hafi þessu verið fylgt eftir og engin breyting orðið á því með breytingum á vaktakerfinu en með vaktskránni sé mönnum skipað með umsömdum fyrirvara á reglubundnar vaktir og teljist því vera reglubundin vaktskrá í skilningi greinar 2.7.1. Þannig sé hvorki brotið gegn ákvæðum kjarasamnings þótt vaktskrá sé tilkynnt með 14 daga fyrirvara né á annan hátt, enda séu vaktir með hinni breyttu vaktskrá innan þess svigrúms sem ákvæðið heimili. Með reglubundinni vaktskrá sé átt við að vaktskráin í hvert sinn sé reglubundin og tilkynnt með þeim hætti með 14 daga fyrirvara. Vinnutíminn sé innan þess ramma sem kveðið sé á um þannig að vinnutími starfsmanns geti verið 38-42 klst. að jafnaði á ári. Þrátt fyrir framangreint hafi breytingar á vaktakerfum verið kynntar með formlegum hætti, eins og fyrr sé rakið. Á engan hátt sé gengið gegn því að stofnunin sé fjölskylduvænn vinnustaður.
Með vísan til alls framangreinds sé sú einhliða breyting sem gerð hafi verið á vaktakerfi starfsmanna Flugmálastjórnar og félagsmanna stefnanda á engan hátt andstæð kjarasamningi og í fullu samræmi við lög og meginreglu vinnuréttar um stjórnunarrétt vinnuveitanda. Breytir þá engu þótt stofnunin hafi umfram skyldu, en án árangurs, reynt til hins ítrasta að vinna þær í samráði við stefnanda.
Stefnandi hafi byggt á því að ýmiss konar viðræður í tengslum við gerð kjarasamninga aðila feli það í sér að stefndi hafi litið svo á að vaktakerfisbreytingar og heimildir til þeirra séu festar í kjarasamningi. Gangi stefnandi raunar svo langt að halda því fram að stefndi hafi staðfest, með áralangri framkvæmd, að vaktavinnukerfi félagsmanna stefnanda verði ekki breytt einhliða heldur aðeins með samningum milli aðila eða við einstaka starfsmenn. Þessu mótmæli stefndi. Þvert á móti hafi Flugmálastjórn og stefndi mátt ganga út frá því í ljósi dóms Félagsdóms frá 19. nóvember 1996 að stofnuninni sé heimilt einhliða að gera breytingar á vaktafyrirkomulagi og að kjarasamningur aðila tryggi stefnanda ekki íhlutun um þær. Auk þess sé ekki skylt að um þær skuli semja. Af hálfu stefnda og Flugmálastjórnar, jafnt almennt og í tengslum við gerð kjarasamninga, hafi ætíð verið lögð á það áhersla í öllum viðræðum að heimilt sé að gera einhliða breytingar á vaktakerfi og að ekki sé áformað að binda slíkar heimildir í kjarasamning. Málsástæðum stefnanda um annað er mótmælt sem og fullyrðingum félagsins í stefnu um að málsaðilar hafi samið um það vaktakerfi sem við lýði var. Hvað varði bókun 3 sérstaklega og örlög hennar vísar stefndi til fyrri umfjöllunar í atvikalýsingu. Af hálfu stofnunarinnar og samninganefndar ríkisins hafi komið skýrt fram að heimild til að breyta vaktafyrirkomulagi einhliða væri til staðar án tillits til hennar. Þeim mun frekar sé sú heimild enn við lýði og ótrufluð af ákvæðum kjarasamnings með því að hann hafi verið samþykktur án hennar. Enginn samningur hafi því stofnast, sem bindi hendur stefnda eða stofnunarinnar til að gera breytingar á vaktakerfum, heldur lúti þær heimildir stjórnunarrétti að teknu tilliti til einstakra ákvæða kjarasamnings. Þá verði viðræður ekki skýrðar svo að með þeim hafi stofnast samningar eða að stefndi hafi litið svo á með viðræðum að samningur tiltekins efnis væri í gildi.
Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísast í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.
Niðurstaða
Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
Ágreiningur máls þessa snýst um það hvort Flugmálastjórn Íslands hafi brotið gegn kjarasamningi aðila með einhliða breytingum sínum á vaktakerfi í Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík. Eftir því sem fram kemur í málinu komu breytingar þessar til framkvæmda frá og með 16. mars 2006. Þess ber þó að geta að upplýst var við skýrslutöku af Helga Björnssyni yfirflugumferðarstjóra að styttingu næturvakta úr 11 klst. í 10 klst. hefði verið frestað tímabundið í sáttaskyni að beiðni aðalvarðstjóra Flugstjórnarmiðstöðvarinnar í Reykjavík, Jóns Árna Þórissonar.
Hinn 15. júlí 2005 gerðu málsaðilar samkomulag um breytingar á kjarasamningi sem meðal annars fól í sér að síðastgildandi kjarasamningur aðilanna var framlengdur til 29. febrúar 2008 og skyldi þá falla úr gildi án sérstakrar uppsagnar. Samkomulagið hafði að geyma ákvæði um ýmis atriði, einkum þó breytingar á launatöflu og launatengdum þáttum. Samkomulaginu fylgdu sérstakar bókanir, þar á meðal bókun 3 er varðaði samráð við stefnanda um upptöku nýs vaktakerfis og forsendur þess, meðal annars í Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík. Greint samkomulag var fellt af félagsmönnum stefnanda. Í kjölfar þess tóku aðilar upp viðræður að nýju sem lauk með því að ritað var undir samkomulag hinn 8. september 2005 er fól í sér að hið fyrra samkomulag frá 15. júlí 2005 yrði borið að nýju undir atkvæði með útfærslu fyrirliggjandi stofnanasamninga og niðurfellingu greindrar bókunar 3. Var samkomulagið, frá 15. júlí 2005 þannig breytt, borið undir félagsmenn stefnanda að nýju er samþykktu það.
Þess er að geta að fyrir liggur að gildandi kjarasamningur aðila hvílir á miðlunartillögu ríkissáttasemjara sem lögð var fram 11. febrúar 2002, sbr. III. kafla laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, sbr. og 9. gr. laga nr. 75/1996, um breyting á hinum fyrrnefndu lögum.
Samkvæmt framansögðu byggist gildandi kjarasamningur aðila á greindri miðlunartillögu, auk þeirra breytinga sem gerðar voru með samkomulaginu frá 15. júlí 2005 að teknu tilliti til þess samkomulags sem gert var 8. september 2005. Að auki er þess að geta að stefnandi byggir á því að í gildi sé samkomulag varðandi vaktafyrirkomulag, sbr. framlagt samkomulag fjármálaráðuneytisins og stefnanda, dags. 17. júlí 1986, nefndarálit, dags. 25. mars 1987, um nýtt vaktafyrirkomulag, og kjarasamning, dags. 10. júní 1987, en gögn þessi voru lögð fram við endurupptöku málsins hinn 19. júní sl., sbr. og skjal, dags. 14. apríl 1997, varðandi útfærslu á vaktafyrirkomulagi. Telur stefnandi að gögn þessi sýni að fyrir sé að fara kjarasamningsbundnum íhlutunarrétti félagsins varðandi allar breytingar á vaktafyrirkomulagi, þannig að einhliða breytingar Flugmálastjórnar Íslands um það fái ekki staðist. Jafnframt telur stefnandi að ákvæði gildandi kjarasamnings aðila, sem fyrr getur, leiði til sömu niðurstöðu svo sem túlka ber ákvæðin, sbr. einkum gr. 2.1.1.1. Þessum málsástæðum stefnanda hefur stefndi mótmælt og telur sig hafa haft heimild til að gera hinar umdeildu breytingar á vaktafyrirkomulaginu á eigið eindæmi.
Ákvörðunarvald um framkvæmd vinnuskyldu innan umsamins vinnutíma, er felur hvorttveggja í sér, hvað vinna skal og hvenær, telst almennt til stjórnunarréttar vinnuveitanda, enda sé ekki um að ræða umsamin atriði varðandi vinnutilhögun og framkvæmd vinnu að öðru leyti. Þá ber að hafa í huga að félagsmenn stefnanda falla undir lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt 17. gr. þeirra laga ákvarðar forstöðumaður vinnutíma þeirra starfsmanna sem starfa hjá stofnun, að því marki sem lög og kjarasamningar leyfa.
Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 94/1986 skal í kjarasamningi kveðið á um föst laun, vinnutíma, þar með talið vinnuvökur, laun fyrir yfirvinnu, orlof, ferðakostnað, fæðisaðstöðu, fæðiskostnað, tryggingar, starfsmenntun og önnur atriði sem aðilar verða sammála um. Varðandi vinnutíma ber að gæta laga nr. 88/1971, um 40 stunda vinnuviku, sem meðal annars setur dagvinnutíma ófrávíkjanlegar skorður, sbr. 2. gr. laganna. Samkvæmt 3. gr. laga þessara er heimilt að semja um vaktavinnu og taka ákvæði laganna ekki til þess vinnufyrirkomulags að öðru leyti en því að ekki skal miða við fleiri en 40 klst. dagvinnu á viku að meðaltali. Í 2. kafla kjarasamnings aðila er fjallað um vinnutíma. Þar eru almenn ákvæði um það efni, þar á meðal um frídaga, bæði almenna og sérstaka, svo og stórhátíðardaga. Þá er í sérstökum undirköflum fjallað um dagvinnu, yfirvinnu, bakvaktir, vaktavinnu og afbrigðilegan vinnutíma, hvíldartíma, fastar vaktagreiðslur og störf á stórhátíðum, sbr. 9. gr. samkomulagsins frá 15. júlí 2005 varðandi síðastgreint atriði. Um vaktavinnu og afbrigðilegan vinnutíma er nánar kveðið svo á um að vakttími teljist sá tími frá því að skráð vakt hefst þar til henni er lokið og skal vaktskrá, sem sýnir væntanlegan vinnutíma hvers starfsmanns, liggja frammi 14 dögum áður en fyrsta vakt samkvæmt skránni hefst, sbr. gr. 2.5.1. Þá skal við samningu vaktskrár þess gætt að nætur- og helgidagavinna skiptist sem jafnast á alla starfsmenn, sbr. gr. 2.5.2. Enn fremur er tekið fram, sbr. gr. 2.5.3, að vaktir skuli að jafnaði vera á bilinu 4-10 klst., en heimilt sé, sbr. gr. 2.1.1.1, að semja um aðra tímalengd vakta. Skipulagi vaktavinnu skal haga þannig að starfsmenn “fái að jafnaði tvo samfellda frídaga í viku”, sbr. gr. 2.5.4. Samkvæmt gr. 2.1.1.1, sem vísað er til í gr. 2.5.3, er heimilað að haga vinnu með öðrum hætti en greinir í 2. kafla kjarasamningsins með samkomulagi starfsmanna og forráðamanna stofnunar með skriflegu samþykki samningsaðila. Þá eru ákvæði er varða vaktavinnu í þeim undirkafla ( kafla 2.6) kjarasamningsins þar sem fjallað er um hvíldartíma. Um fastar vaktagreiðslur er fjallað í undirkafla 2.7. Þar kemur fram, sbr. gr. 2.7.1, að flugumferðarstjórar gangi vaktir samkvæmt vaktakerfi er miðast við að vinnutími reglubundinnar vaktskrár sé 38-42 klst. á viku að jafnaði á ári. Þá er mælt fyrir um vaktagreiðslur í gr. 2.7.2 og 2.7.3. Eru þá upptalin þau ákvæði gildandi kjarasamnings aðila sem hafa að geyma sérstök ákvæði varðandi vaktavinnu.
Um þau gögn önnur en gildandi kjarasamning aðila samkvæmt miðlunartillögu ríkissáttasemjara frá 11. febrúar 2002, með síðari breytingum frá 15. júlí og 8. september 2005, er það að segja að greint samkomulag frá 17. júlí 1986 milli stefnanda og fjármálaráðuneytisins er sérkjarasamningur sem gilti frá 1. janúar 1986 til 31. desember 1986. Í bókun með samkomulaginu kom fram að stofnuð skyldi samstarfsnefnd stefnanda og Flugmálastjórnar Íslands til að vinna að breyttu vaktafyrirkomulagi. Í samræmi við ákvæði bókunar þessarar fór greint nefndarstarf fram, sbr. nefndarálit, dags. 25. mars 1987, um nýtt vaktafyrirkomulag í Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík. Í bókun með kjarasamningi aðila, dags. 10. júní 1987, er vísað til breytinga á vaktafyrirkomulagi, sbr. fyrrgreint samkomulag frá 17. júlí 1986 og nefndarálit frá 25. mars 1987, og tekið fram að launatafla kjarasamningsins miðist við hið breytta fyrirkomulag. Jafnframt er í bókuninni gert ráð fyrir áframhaldandi vinnu við breytingar á vaktafyrirkomulagi. Kjarasamningur þessi gilti frá 1. febrúar 1987 til 31. desember 1988. Þá liggja fyrir í málinu tillögur að vaktkerfi frá 14. apríl 1997, undirritaðar af fulltrúum stefnanda og Flugmálastjórnar Íslands, þar sem meðal annars kemur fram að starfsmenn hafi valið tiltekna útfærslu vaktakerfis (“6 daga kerfið”). Vísar stefnandi til þess að fyrrgreind útfærsla vaktakerfis frá 14. apríl 1997 feli í sér bindandi fyrirkomulag. Því mótmælir stefndi og telur almennt að ekkert tiltekið vaktakerfi sé umsamið eða hluti kjarasamnings, enda sé á valdi Flugmálastjórnar Íslands að ákveða vaktakerfi og útfærslu þeirra.
Samkvæmt framansögðu má ljóst vera að víðtækt samráð hefur verið á milli stefnanda og Flugmálastjórnar Íslands um vaktafyrirkomulag og útfærslu þess um langt árabil. Kjarasamningur aðila hefur að takmörkuðu leyti að geyma ákvæði um útfærslu vaktafyrirkomulags, enda eru þar aðeins tiltekin meginatriði varðandi vaktafyrirkomulag, svo sem um lengd vakta, skipulagningu vaktavinnu með tilliti til niðurjöfnunar vinnunnar á starfsmenn og samfellda frídaga, auk ákvæða um greiðslur fyrir vaktavinnu. Að þessu athuguðu og með vísan til þess sem fyrr greinir um ákvörðunarvald vinnuveitanda um framkvæmd vinnunnar samkvæmt almennum stjórnunarrétti, sbr. og þau sjónarmið sem fram koma í dómi Félagsdóms í málinu nr. 12/1996 (Fd. X:673), verður ekki fallist á það með stefnanda að allar breytingar á vaktafyrirkomulagi séu háðar samþykki stéttarfélagsins. Þrátt fyrir að fyrir liggi að aðilar hafi haft nána samvinnu um útfærslu vaktafyrirkomulags allt frá 17. júlí 1986 og Flugmálastjórn hafi fallist á óskir flugumferðarstjóra um 6 daga kerfið með samkomulaginu frá 14. apríl 1997 verður allt að einu ekki talið að um ígildi kjarasamnings hafi verið að ræða. Verður því að telja að hendur Flugmálastjórnar Íslands varðandi vaktafyrirkomulag og útfærslu þess séu aðeins bundnar að því marki sem lög og kjarasamningur, eða annað sérstakt og bindandi samkomulag aðila, mæli fyrir um. Þá verður ekki fallist á það með stefnanda að bein ákvæði kjarasamnings aðila tryggi stéttarfélaginu íhlutunarrétt að þessu leyti þannig að allar einhliða breytingar vinnuveitanda séu óheimilar, enda verður gr. 2.1.1.1 í gildandi kjarasamningi ekki skilin á annan hátt en að hún varði einungis breytingar á umsömdum atriðum samkvæmt 2. kafla kjarasamningsins. Af framansögðu leiðir og að afdrif bókunar 3 með samkomulagi aðila frá 15. júlí 2005 geta ekki haft þá þýðingu sem stefnandi heldur fram.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið þykir við úrlausn málsins bera að byggja á umsömdum atriðum varðandi vaktavinnu og vaktafyrirkomulag samkvæmt gildandi kjarasamningi aðila og virða hinar umdeildu breytingar sem komu til framkvæmda 16. mars 2006 með tilliti til þannig umsaminna atriða. Við þá úrlausn kunna fyrri samráð um útfærslu vaktkerfa og framkvæmd þeirra að hafa þýðingu við túlkun gildandi ákvæða.
Af málatilbúnaði stefnanda má ráða að gerðar séu sérstakar athugasemdir við fjögur atriði í umræddum breytingum á vaktafyrirkomulagi. Í fyrsta lagi virðist stefnandi telja að breytingar á fyrirkomulagi vinnutímans, þar á meðal tímalengd vakta, séu háðar samþykki stéttarfélagsins, sbr. gr. 2.1.1.1 í kjarasamningi aðila, sem stefnandi vísar til í þessu sambandi. Þá telur stefnandi í öðru lagi að með umræddum breytingum sé brotið gegn ákvæðum kjarasamningsins um vikulega vinnuskyldu, sbr. gr. 2.1.1 í kjarasamningnum, þar sem kveðið sé á um að vikuleg vinnuskylda flugumferðarstjóra í fullu starfi skuli að jafnaði vera 38 klst. Nýtt vaktakerfi geri ráð fyrir meira en 38 klst. vinnuframlagi starfsmanna á viku. Í þriðja lagi telur stefnandi að hið nýja vaktakerfi fullnægi ekki áskilnaði gr. 2.7.1 í kjarasamningnum um reglubundnar vaktskrár, enda fái starfsmenn vaktskrár með aðeins 14 daga fyrirvara og engin regla sé á því hvernig vaktahringurinn lítur út. Í fjórða lagi er það mat stefnanda að hið nýja vaktakerfi brjóti í bága við ákvæði gr. 2.5.4 í kjarasamningnum þess efnis “að starfsmenn fái að jafnaði tvo samfellda frídaga í viku”. Í þessu sambandi byggir stefnandi á því að slíkt frí eigi að vera 59 klst. að lágmarki.
Í málinu liggja fyrir ýmis gögn um hið umdeilda vaktakerfi, sbr. meðal annars lýsingu á nýju vaktakerfi fyrir Flugstjórnarmiðstöðina, dags. 2. febrúar 2004, skýringar með bréfi Flugmálastjórnar Íslands, dags. 12. apríl 2006, til ríkislögmanns og ýmis fundargögn um fyrirhugaðar vaktakerfisbreytingar.
Varðandi fyrsta atriðið, sem stefnandi gerir athugasemdir við, þá verður ekki annað ráðið en breytingar á vöktum, þar á meðal tímalengd vakta, séu innan umsaminna marka samkvæmt gr. 2.5.3 í kjarasamningi aðila. Að því athuguðu verður ekki talið að tilvísun greinar þessarar til gr. 2.1.1.1 í kjarasamningnum hafi neina sjálfstæða þýðingu. Samkvæmt þessu verður ekki talið að þessi þáttur nýs vaktakerfis brjóti í bága við kjarasamning aðila.
Um annað atriðið, sem stefnandi ber við, verður að taka undir það með stefnda að ekki verður séð að það brjóti í bága við ákvæði kjarasamningsins þótt vinnuvikan sé skipulögð þannig að hún sé ýmist undir eða yfir 38 klst., sbr. orðalag í gr. 2.1.1 og gr. 2.7.1, þar sem gert er ráð fyrir 38 klst. eða eftir atvikum 42 klst. vinnuviku “að jafnaði” á ári, enda liggur ekki fyrir að vinnutíminn sé í heild yfir umsömdum mörkum. Verður því ekki fallist á það með stefnanda að stefndi hafi með þessu brotið gegn ákvæðum kjarasamningsins.
Að því er varðar þriðja atriðið telur stefnandi að hið nýja vaktakerfi geti ekki talist uppfylla skilyrði gr. 2.7.1 í kjarasamningnum um reglubundnar vaktskrár, þ.e. sé ekki reglubundið, svo sem nánar er lýst. Stefndi mótmælir þessu og vísar til þess að samkvæmt gr. 2.5.1 skuli vaktskrá, sem sýnir væntanlega vinnutíma hvers starfsmanns, liggja frammi 14 dögum áður en fyrsta vakt samkvæmt skránni hefst. Þessu hafi verið fylgt eftir og engin breyting orðið á þessu með breytingum á vaktakerfinu, en samkvæmt vaktskránni sé mönnum skipað með umsömdum fyrirvara á reglubundnar vaktir og telst hún vera reglubundin vaktskrá í skilningi gr. 2.7.1. Ekki er annað fram komið en að í hinu nýja vaktakerfi sé gætt ákvæða gr. 2.5.1 í kjarasamningi aðila um framlagningu vaktskrár með áskildum fyrirvara. Skýra verður hugtakið reglubundin vaktskrá í gr. 2.7.1 í kjarasamningnum í samhengi við hina fyrrnefndu gr. 2.5.1 Að þessu athuguðu verður ekki séð að stefndi hafi með hinu nýja vaktakerfi brotið gegn ákvæðum kjarasamningsins sem varða reglubundið vaktakerfi.
Fjórða atriðið lýtur að túlkun á áskilnaði gr. 2.5.4 í kjarasamningi aðila um að skipulagi vaktavinnu skuli haga þannig “að starfsmenn fái að jafnaði tvo samfellda frídaga í viku”. Telur stefnandi að þess sé ekki gætt samkvæmt hinu nýja vaktakerfi, enda geti umrætt frí farið niður í allt að 48 klst. hvíld milli vaktahrina. Telur stefnandi að tveggja daga samfellt frí sé að lágmarki 59 klst., sé annar dagurinn hvíldardagur. Af hálfu stefnda er því haldið fram að greint ákvæði kjarasamningsins, sem tekið hafi verið upp samkvæmt miðlunartillögu ríkissáttasemjara, geti verið 48 klst. Hins vegar geri vaktakerfið sjálft ekki ráð fyrir að farið sé niður í 48 klst. nema eitthvað sérstakt komi til. Að öðru jöfnu sé annað hvort vaktafrí 56 klst. og hitt 72 til 76,5 klst. Vísar stefndi til forsögu þessara ákvæða við samræmingu á svonefndum “vinnutímapakka” flestra aðildarfélaga BSRB á árinu 2001. Fram er komið í málinu að með gr. 2.5.4 varð sú breyting varðandi umrædda tvo samfellda frídaga í viku hverri að áskilnaður í áður gildandi kjarasamningum, um að næturfrí kæmi fyrir og eftir frídagana, var felldur niður. Þá er ljóst að umrætt ákvæði gr. 2.5.4 er óháð vikulegum hvíldardegi sem tengist beint daglegum hvíldartíma, sbr. gr. 2.6.4 í kjarasamningnum, sbr. og 1. mgr. 54. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum. Að þessu virtu, sem hér hefur verið rakið, og forsögu greinds ákvæðis að öðru leyti verður ekki fallist á það með stefnanda að hið nýja vaktakerfi fari í bága við gr. 2.5.4 í kjarasamningnum.
Með vísan til þess, sem að framan er rakið, ber að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda málskostnað sem ákveðst 200.000 krónur.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Félags íslenskra flugumferðarstjóra, í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.
Eggert Óskarsson
Gylfi Knudsen
Kristjana Jónsdóttir
Kristján Torfason
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson