Hoppa yfir valmynd
8. júní 2006 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 5/2005

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 5/2005:

A

gegn

Dvalarheimilinu Höfða

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 8. júní 2006 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru dags. 19. júlí 2005, óskaði kærandi, A, eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Dvalarheimilið Höfði hefði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, við ráðningu í starf framkvæmdastjóra Dvalarheimilisins Höfða, en ráðið var í stöðuna 3. maí 2005.

Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Dvalarheimilinu Höfða með bréfi, dags. 12. september 2005. Umsögn Dvalarheimilisins Höfða barst með bréfi, dags. 10. október 2005, og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 11. nóvember 2005. Voru síðastnefndar athugasemdir sendar Dvalarheimilinu Höfða til kynningar með bréfi, dags. 15. nóvember 2005. Athugasemdir Dvalarheimilisins Höfða bárust með bréfi, dags. 14. desember 2005, og voru þær athugasemdir sendar kæranda til kynningar. Með bréfi, dags. 6. apríl 2006, var Dvalarheimilið Höfði innt eftir frekari upplýsingum varðandi starf framkvæmdastjóra. Framangreindar upplýsingar bárust nefndinni með bréfi, dags. 5. maí 2006, og voru þær kynntar kæranda með bréfi, dags. 23. maí 2006. Athugasemdir kæranda vegna hinna nýju upplýsinga Dvalarheimilisins Höfða bárust með bréfi, dags. 6. júní 2006, og voru þær sendar Dvalarheimilinu Höfða til kynningar með bréfi, dags. 8. júní 2006.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II.

Málavextir

Málavextir eru þeir að Dvalarheimilið Höfði á Akranesi auglýsti í mars 2005 laust til umsóknar starf framkvæmdastjóra Dvalarheimilisins Höfða. Í auglýsingunni kom meðal annars fram að umsækjandi skyldi hafa einhverja þekkingu á stjórnsýslusviði, góða bókhaldsþekkingu og hæfni í mannlegum samskiptum. Sextán umsækjendur voru um starfið og var rætt við þá fimm umsækjendur sem þóttu hæfastir. Á fundi stjórnar dvalarheimilisins sem haldinn var 3. maí 2005 taldi meirihluti stjórnar að sá karlmaður sem ráðinn var væri best til þess fallinn að gegna starfinu. Atkvæði skiptust þannig að sá sem var ráðinn fékk þrjú atkvæði en kærandi fékk tvö atkvæði.

Með bréfi, dags. 9. maí 2005, óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun stjórnar dvalarheimilisins um ráðningu í viðkomandi starf framkvæmdastjóra og var sá rökstuðningur veittur með bréfi, dags. 2. júní 2005.

Í kæru til nefndarinnar kemur fram að kærandi telji að hún hafi hagnýtari reynslu af stjórnsýslusviði, betri menntun og fjölbreyttari reynslu en sá sem ráðinn var. Einnig kemur fram að hún telji óeðlilegt að ekki hafi verið gerð krafa um háskólamenntun til að sinna starfinu þar sem um sé að ræða mikla fjármuni og stóran vinnustað með fjölbreyttum rekstri. Af hálfu Dvalarheimilisins Höfða hefur framangreindum sjónarmiðum kæranda verið hafnað og á það bent að við ráðningu í starfið hafi verið litið til mikillar og góðrar reynslu þess sem var ráðinn af stjórnsýslu, rekstri fyrirtækja og stofnana sem og af færslu bókhalds. Einnig hafi ráðið úrslitum góð frammistaða hans í starfsviðtali þar sem fram hafi komið brennandi áhugi hans á starfinu og metnaðarfullar hugmyndir um framtíðarþróun dvalarheimilisins. Það hafi því verið skoðun meirihluta stjórnar dvalarheimilisins að hæfni þess sem var ráðinn hafi ótvírætt verið meiri en kæranda.

 

III.

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að hún hafi reynslu og menntun sem hefði reynst sérlega vel í því starfi sem um ræddi. Hún hafi útskrifast sem rekstrarfræðingur frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst [Samvinnuháskólanum] árið 1992 með hæstu einkunn sem þá var gefin. Eftir að námi lauk hafi hún sinnt störfum sem hún telur að hafi byggt góðan grunn fyrir starf líkt og framkvæmdastjóra Dvalarheimilisins Höfða. Hún hafi verið ráðin fyrsti framkvæmdastjóri Markaðsráðs Borgarness. Í framhaldi hafi hún verið ráðin atvinnufulltrúi Akraneskaupstaðar 1993 en því starfi hafi hún gegnt þar til hún var ráðin sem útibússtjóri Íslandsbanka á Akranesi árið 1996. Hún hafi einnig setið í nefndum fyrir hönd Hvalfjarðarstrandarhrepps og hafi meðal annars verið formaður skólanefndar Heiðarskóla eitt tímabil. Þá sé hún sjúkraliði að mennt og hafi um árabil starfað við hjúkrun aldraðra á endurhæfingar- og hjúkrunardeild Sjúkrahúss Akraness. Þá reynslu telji hún hafa auðveldað henni að skilja þá starfsemi sem fram fari á Höfða. Í starfi sínu hjá Akraneskaupstað hafi hún meðal annars séð um áætlanagerð fyrir atvinnuþróunarsjóð og atvinnufulltrúa, ásamt því að yfirfara og skrifa upp á reikninga sem því tengdust. Hún hafi átt mjög góða samvinnu við atvinnumáladeild, bæjaryfirvöld og forsvarsmenn fyrirtækja í bænum, en starfið hafi reynt mjög á frumkvæði, sjálfstæði og hæfni til mannlegra samskipta. Sem útibússtjóri Íslandsbanka á Akranesi hafi hún borið alla ábyrgð á rekstri útibúsins, annast áætlanagerð, haft yfirumsjón með bókhaldi, þjónustu, gæðamálum og starfsmannamálum. Hún hafi jafnframt annast ráðgjöf varðandi fjármál og fjármögnun til fyrirtækja og telur hún að sú þekking sem hún hafi á fjármagnsmarkaði hefði nýst vel við þær framkvæmdir sem Dvalarheimilið Höfði hygðist leggja í á næstu árum. Í starfsviðtali hafi hún gert grein fyrir því hvernig hún hafi viðhaldið menntun sinni með símenntun. Hún hafi sótt fjölda námskeiða árlega á vegum Íslandsbanka, bæði innan bankans og utan. Árlega hafi hún sótt námskeið um starfsmannasamtöl áður en hún hafi tekið starfsmannaviðtöl við starfsmenn útibúsins. Þá hafi hún sótt stjórnendanám hjá Háskólanum í Reykjavík 2001–2002. Hún hafi einnig tiltekið reynslu sína af stefnumótun, bæði innan bankans og innan Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, sem hún hafi talið nýtast vel í starfi framkvæmdastjóra dvalarheimilisins. Hjá Íslandsbanka hafi verið lögð rík áhersla á kostnaðaraðhald og hún hafi talið það sér til tekna að hafa unnið við stjórnun í þannig umhverfi síðastliðin níu ár.

Kærandi tekur fram að í fundargerðum Dvalarheimilisins Höfða hafi komið fram að á fundi 5. apríl 2005 hafi einn stjórnarmanna komið fram með þá tillögu að leitað yrði til ráðgjafarfyrirtækis til að fá faglegt mat á hæfni allra umsækjenda. Því hafi verið hafnað af meirihluta stjórnarmanna. Þannig hafi strax frá upphafi verið hafnað að leita til ráðgjafa til mats á umsóknum um starfið. Þeirri afstöðu meirihluta stjórnarmanna hafi ekki verið breytt þrátt fyrir að bæjarráð Akraneskaupstaðar, sem er yfir 90% eignaraðili að dvalarheimilinu, hefði lýst því yfir að það væri vilji bæjarráðs að faglega yrði staðið að yfirferð umsókna og ákvörðun um ráðningu. Það hafi verið niðurstaða stjórnar dvalarheimilisins að láta eftirtalin sjónarmið ráða mati um hæfasta umsækjandann; þekking á stjórnsýslusviði, bókhaldsþekking, hæfni í mannlegum samskiptum, starfsreynsla, stjórnunarreynsla og frammistaða í starfsviðtali. Kærandi bendir á að stjórn Dvalarheimilisins Höfða sé skipuð þremur sjálfstæðismönnum, einum framsóknarmanni og einum samfylkingarmanni. Sá sem var ráðinn hafi setið á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann hafi verið ráðinn til starfsins á fundi stjórnar dvalarheimilisins þann 3. maí 2005 á grundvelli atkvæðagreiðslu stjórnar dvalarheimilisins þar sem þrjú atkvæði hafi fallið í hans hlut. Á fundinum hafi verið gerð grein fyrir bókun minnihluta stjórnarinnar þar sem fram hafi komið að kærandi hefði góða menntun á sviði reksturs og bókhalds og víðtæka reynslu á því sviði. Þá hefði hún borið mikla ábyrgð í starfi og þurft að vinna sjálfstætt og að sú reynsla myndi koma sér vel í starfi sem framkvæmdastjóri. Þá hafi verið tekið fram að kærandi hafi komið afar vel fyrir í viðtali við stjórnina.

Ein röksemd Dvalarheimilisins Höfða fyrir ráðningunni hafi verið sú að sá sem var ráðinn hafi haft víðtæka þekkingu af stjórnsýslu sem alþingismaður og bæjarfulltrúi. Kærandi áréttir að hún hafi einnig mikilvæga reynslu af stjórnsýslu. Hún hafi starfað sem framkvæmdastjóri markaðsráðs Borgarness auk þess sem hún hafi starfað sem atvinnufulltrúi Akraness á árunum 1993–1996. Í báðum framangreindum störfum hafi kærandi séð um að leggja grunn að þeim störfum og móta þau. Í báðum tilvikum hafi verið um að ræða stjórnunarstörf á stjórnsýslusviði. Auk þess hafi kærandi gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir sveitarfélagið; hún hafi setið þrjú kjörtímabil í skólanefnd Heiðarskóla, þar af sem formaður eitt kjörtímabil. Hún hafi einnig setið í heilbrigðisnefnd Akranessvæðis fyrir Hvalfjarðarstrandarhrepp. Af þessum orsökum sé ekki hægt að horfa framhjá því að kærandi hafi mikilvæga reynslu á sviði stjórnsýslu.

Kærandi byggir jafnframt á því að sá sem var ráðinn hafi einungis lokið gagnfræðaprófi og af gögnum málsins að dæma hafi hann ekki starfað við bókhaldsstörf frá árinu 1991 eða í 14 ár. Kærandi hafi hins vegar hafi lokið námi sem sjúkraliði árið 1978 og sem rekstrarfræðingur árið 1992 frá Bifröst. Auk þeirrar menntunar hafi kærandi lokið ýmsum námskeiðum á þessu sviði. Kærandi hafi víðtæka menntun á sviði rekstrar og stjórnunar auk menntunar sem sjúkraliði sem geti vart bent til annars en ennþá betri undirbúnings fyrir starf framkvæmdastjóra Dvalarheimilisins Höfða, enda hafi kærandi unnið mikið við umönnun aldraðra í störfum sínum sem sjúkraliði. Auk þess sé menntun kæranda ný en það sé afar mikilvægt þar sem nauðsynlegt sé að nútímastjórnandi viti hver nútímasjónarmið séu á sviði stjórnunar.

Reynsla kæranda á sviði bókhalds sé jafnframt mikil, hvort sem um ræði hvernig færa skuli bókhald eða hvernig skuli lesa úr ársreikningum og öðrum gögnum vegna reksturs fyrirtækis. Kærandi þekki auk þess vel þær reglur sem í dag séu í gildi á sviði fjármála, útlána og alls sem snýr að starfsmannahaldi. Þá beri þær vinnustaðagreiningar sem gerðar séu árlega í útibúi Íslandsbanka þess merki að kærandi eigi auðvelt með samskipti við starfsfólk sem lúti hennar stjórn sem hljóti að teljast mikilvægt fyrir hvern stjórnanda. Kærandi telur eðlilegt að í starfi líkt og hér um ræðir hefði verið eðlilegt og rökrétt að gera kröfu til ákveðinnar menntunar umsækjenda og reynslu. Í auglýsingu fyrir starfið hafi hins vegar engar kröfur verið gerðar til menntunar. Kærandi hafi uppfyllt allar þær kröfur sem settar hafi verið fram í auglýsingunni um starfið og í raun meiri kröfur.

Að mati kæranda sé ekki hægt að horfa framhjá því að kærandi sé 47 ára gömul en sá sem var ráðinn var 63 ára gamall þegar ráðning hafi farið fram. Með ráðningu kæranda hefði Dvalarheimilið Höfði fengið stjórnanda með langan ráðningartíma framundan en sá sem var ráðinn geti aldurs síns vegna einungis verið við störf í örfá ár.

Kærandi hafi þar að auki uppfyllt skilyrði um búsetu á starfssvæði heimilisins þar sem hún búi í Hvalfjarðarstrandahreppi. Það sé því mat kæranda að málefnanlegar ástæður hafi ekki ráðið ákvörðun um ráðningu í stöðu framkvæmdastjóra Dvalarheimilisins Höfða og því sé um skýrt brot á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, að ræða. Stjórn heimilisins hafi farið út fyrir þau valdmörk sem henni væru sniðin með því að hafa með stöðuveitingunni brotið stjórnsýslulög og jafnréttislög.

 

IV.

Sjónarmið Dvalarheimilisins Höfða

Af hálfu Dvalarheimilisins Höfða er á því byggt að með ráðningu í starfið hafi stjórnin virt í einu og öllu ákvæði laga, þ.á m. ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Þau sjónarmið sem einkum hafi ráðið ákvörðun meirihluta stjórnar um ráðningu í starfið hafi verið eftirfarandi: Sá sem var ráðinn hafi haft mjög víðtæka reynslu og þekkingu af stjórnsýslu sem alþingismaður í 12 ár og bæjarfulltrúi í 12 ár. Þá hafi hann víðtæka reynslu af setu í ýmsum nefndum Alþingis. Hann hafi verið annar varaforseti Alþingis 1999–2003 og sem slíkur tekið þátt í stjórn Alþingis, meðal annars starfsmannahaldi Alþingis og fjármálum þess. Hann hafi setið í orkuráði og verið varaformaður Byggðastofnunar. Hann hafi þar að auki verið forseti bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar 1984–1986, setið í bæjarráði Akraneskaupstaðar í sex ár og setið í ýmsum nefndum á vegum Akraneskaupstaðar. Þá hafi hann setið í stjórn ýmissa fyrirtækja, svo sem Síldar- og fiskimjölsverksmiðju Akraness, Heimaskaga hf., Hafbjargar hf. og Vélbátaábyrgðarfélags Akurnesinga.

Sá sem var ráðinn hafi haft fjölþætta reynslu sem starfsmaður Þorgeirs og Ellerts hf. í um þrjá áratugi en hann hafi gegnt þar störfum gjaldkera í fyrstu, síðar bókara og loks skrifstofustjóra og staðgengils framkvæmdastjóra félagsins. Meirihluti stjórnar Dvalarheimilisins Höfða hafi talið að reynsla og þekking þess sem ráðinn var vegna þeirra fjölbreyttu starfa sem hann hafi gegnt myndi nýtast vel í starfi hans sem framkvæmdastjóri dvalarheimilisins, þ.m.t. á sviði stjórnunar, rekstrar og samskipta við starfsmenn og stjórnvöld. Stjórnin hafi talið að sá sem var ráðinn hafi mikla hæfileika til stjórnunar, hann eigi auðvelt með að fela öðrum úrlausn verkefna, sé úrræðagóður, iðinn og með mikið jafnaðargeð. Í þessum efnum hafi hann meðal annars lengi haft mannaforráð í ábyrgðarmiklu starfi sínu hjá Þorgeiri og Ellerti hf. Þá hafi hann haft mikla reynslu af störfum sínum á Alþingi, í nefndum þess og stjórnum ýmissa félaga og í bæjarstjórn Akraneskaupstaðar. Stjórnin hafi talið meðal annars vegna starfa þess sem var ráðinn á Alþingi að hann hafi víðtæka reynslu og þekkingu á hinum ýmsu málaflokkum sem falla undir rekstur dvalarheimila. Þá hafi stjórn dvalarheimilisins jafnframt talið að tengsl hans við stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga myndu nýtast vel í starfi hans sem framkvæmdastjóra dvalarheimilisins.

Meirihluti stjórnarinnar hafi einnig litið til reynslu þess sem var ráðinn af bókhaldi en hann hafði starfað í mörg ár hjá Þorgeiri og Ellerti hf. sem bókari. Enn fremur var litið til þess að hann hafi frá því í janúar 2004 starfað hjá Hagstofu Íslands við skýrslugerð um birgðir í sjávarútvegi og úrvinnslu gagna vegna útreiknings framleiðsluverðsvísitölu.

Með vísan til framangreinds hafi það verið mat meirihluta stjórnar dvalarheimilisins að sá sem ráðinn var hafi haft mikla og góða reynslu af stjórnsýslu, af rekstri fyrirtækja og stofnana og af færslu bókhalds. Þá hafi það verið mat meirihluta stjórnar að sá sem var ráðinn hafi haft hæfni og reynslu á sviði mannlegra samskipta sem nýtast myndi vel í starfi framkvæmdastjóra. Þá hafi einnig ráðið góð frammistaða hans í starfsviðtali en þar hafi komið fram brennandi áhugi hans á starfinu og metnaðarfullar hugmyndir um framtíðarþróun dvalarheimilisins. Í viðtali við þann sem var ráðinn hafi jafnframt komið fram skýr löngun hans til að takast á hendur starfið og rökstuddi hann vel að hann væri tilbúinn og hæfur til þess að axla þá ábyrgð er starfinu fylgi.

Þegar litið hafi verið til framangreindra sjónarmiða heildstætt hafi það verið niðurstaða meirihluta stjórnar Dvalarheimilisins Höfða að sá sem var ráðinn hafi verið hæfastur allra umsækjenda í stöðu framkvæmdastjóra heimilisins og meðal annars hæfari til að gegna starfinu en kærandi.

Meirihluti stjórnar bendir á að ekki sé í lögum eða reglugerðum gerð krafa um tiltekna menntun, starfsreynslu eða aðra eiginleika þess einstaklings gegni starfi framkvæmdastjóra dvalarheimilisins. Í íslenskum rétti hafi ekki verið lögfestar almennar reglur um það hvaða sjónarmið eigi að leggja til grundvallar ákvörðun um ráðningu í starf. Meginreglan sé þó almennt talin sú að veitingavaldið ákveði á hvaða sjónarmiðum það byggi slíka ákvörðun ef ekki er sérstaklega mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Þau sjónarmið þurfi að vera málefnanleg og leitast skuli við að velja umsækjanda í ljósi hinna málefnanlegu sjónarmiða. Slíkt mat skuli reist á ýmsum þáttum og hefur meðal annars verið byggt á skriflegum gögnum um umsækjendur og á frammistöðu umsækjanda í starfsviðtali. Meirihluti stjórnar dvalarheimilisins hafi ótvírætt talið að hæfni þess sem var ráðinn til að gegna starfi framkvæmdastjóra hafi verið meiri en kæranda og að mikil og góð reynsla hans af störfum á Alþingi, í bæjarstjórn Akraneskaupstaðar, við rekstur Þorgeirs og Ellerts hf. o.fl., hafi vegið þyngra á metunum en lengri skólaganga kæranda.

 

V.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum karla og kvenna og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.

Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þegar ráðið var í stöðu framkvæmdastjóra Dvalarheimilisins Höfða, en ákvörðun um ráðningu í stöðuna var tekin á fundi stjórnarinnar hinn 3. maí 2005.

Dvalarheimilið Höfði er sjálfseignarstofnun sem heyrir undir sérstaka stjórn sem skipuð er af sveitarfélögunum sem að henni standa, og telst vera stofnun fyrir aldraða í skilningi 14. gr. laga um málefni aldraða, nr. 125/1999. Samkvæmt skipulagsskrá fyrir stofnunina er tilgangur hennar að reka dvalar- og þjónustuheimili fyrir aldraða í samræmi við lög um öldrunarþjónustu, þá lög nr. 82/1989, nú lög um nr. 125/1999, með síðari breytingum.

Staðan var auglýst í Morgunblaðinu hinn 27. febrúar 2005 og í Skessuhorni þann 2. mars 2005. Þar kom þar fram að auglýst væri laust til umsóknar starf framkvæmdastjóra Dvalarheimilisins Höfða og að nauðsynlegt væri að umsækjendur hefðu einhverja þekkingu á stjórnsýslusviði og góða bókhaldsþekkingu og hæfni hvað mannleg samskipti varðar. Tekið var fram að framkvæmdastjóri þyrfti að vera búsettur á starfssvæðinu. Ekki verður séð að í lögum eða reglugerðum sé gerð krafa um tiltekna menntun eða starfsreynslu vegna umrædds starfs.

Í rökstuðningi stjórnar Dvalarheimilisins Höfða sem sendur var kæranda hinn 2. júní 2005 kemur fram að við val milli umsækjenda hafi einkum verið lögð áhersla á þekkingu á stjórnsýslusviði, bókhaldsþekkingu, hæfni í mannlegum samskiptum, starfsreynslu, stjórnunarreynslu og frammistöðu í starfsviðtali. Við endanlegt val hafi verið haft í huga að sá sem ráðinn var hafi setið um árabil í bæjarstjórn Akraness og gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum á vegum bæjarins. Hann hafi verið alþingismaður í 12 ár samfellt og verið einn af forsetum Alþingis. Hann hafi starfað í ýmsum fastanefndum þingsins, meðal annars í fjárlaganefnd. Taldist hann hafa verulega reynslu bæði af stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Þá hafi sá sem ráðinn var verið yfirmaður bókhaldsmála hjá fyrirtæki á Akranesi um árabil, verið skrifstofustjóri og staðgengill framkvæmdastjóra í 17 ár en á þeim tíma hafi starfað hjá fyrirtækinu um 150 manns. Taldist hann því hafa mikla reynslu af rekstri og bókhaldsmálum. Í rökstuðningi stjórnarinnar kemur meðal annars fram að sá sem ráðinn var hafi um árabil notið trausts til að gegna trúnaðarstörfum í félagasamtökum, hjá stóru fyrirtæki, í sveitarstjórn og í störfum sínum á Alþingi. Við þessi störf hafi sá sem ráðinn var öðlast víðtæka reynslu og hæfileika í mannlegum samskiptum sem sé mikilvægur kostur við starf framkvæmdastjóra dvalarheimilisins. Loks er til þess vísað að sá sem ráðinn var hafi komið vel út úr starfsviðtalinu, en þar hafi komið fram góð yfirsýn á starfinu, brennandi áhugi og metnaðarfullar hugmyndir um framtíðarþróun dvalarheimilisins. Að teknu tilliti til framangreindra atriða hafi sá sem ráðinn var verið talinn hæfastur umsækjenda til að axla þá ábyrgð sem starfinu fylgi. Fram kemur í rökstuðningi stjórnarinnar að tveir stjórnarmenn af fimm hafi talið kæranda hæfasta til starfans. Var í því sambandi vísað til góðrar menntunar kæranda á sviði reksturs og bókhalds ásamt víðtækrar reynslu á því sviði. Einnig var í því sambandi vísað til þess að kærandi hefði starfað sem sjúkraliði og hefði að auki komið vel út úr starfsviðtali. Samkvæmt því sem fram hefur komið hjá stjórn Dvalarheimilisins Höfða í máli þessu er framkvæmdastjóra ætlað að hafa yfirstjórn með daglegum rekstri dvalarheimilisins, bera ábyrgð á rekstri og hag heimilisins og gefa stjórn dvalarheimilisins reglulega skýrslu um framangreind atriði. Framkvæmdastjóra sé meðal annars ætlað að sjá um ráðningu starfsfólks í samráði við stjórn dvalarheimilisins. Þá annist framkvæmdastjóri nauðsynleg samskipti við opinbera aðila, ríki og sveitarfélög, vegna þeirrar félags- og heilbrigðisþjónustu sem sinnt er á heimilinu, samskipti við félagsmálastjóra og félagsmálaráð sveitarfélaga og við fulltrúa ríkisins, meðal annars Framkvæmdasjóð aldraðra og Tryggingastofnun ríkisins. Þá felist í starfi framkvæmdastjóra að annast skýrslugjöf til heilbrigðisráðuneytis og taka þátt í þjónustuhópi aldraðra sem meta skuli stöðu aldraðra á svæðinu. Þar fyrir utan sé framkvæmdastjóra ætlað að hafa samskipti við heimilismenn og stýra félagsstarfi þeirra og vera heimilismönnum innan handar vegna samskipta þeirra við opinbera aðila. Með vísan til framangreinds og með tilliti til þess að rekstur dvalarheimilisins fari fram samkvæmt lögum um málefni aldraðra og að dvalarheimilið sinni félags- og heilbrigðisþjónustu telur stjórn dvalarheimilisins brýnt að framkvæmdastjóri heimilisins hafi einhverja þekkingu á stjórnsýslusviði, enda þurfi framkvæmdastjóri að eiga í miklum samskiptum við stjórnvöld, ríki og sveitarfélög.

Telja verður með vísan til framangreindrar lýsingar á starfi framkvæmdastjóra Dvalarheimilisins Höfða að í starfinu felist að meginstefnu til stjórn rekstrar dvalarheimilis fyrir aldraða, þar með talin fjármála- og rekstrarstjórn og umsjón með starfsmannahaldi. Þá má fallast á að í starfinu felist óhjákvæmilega allmikil samskipti við opinbera aðila, ríki og þau sveitarfélög sem að heimilinu standa. Ekki verður hins vegar talið að starfið feli í sér veruleg stjórnsýsluverkefni eða töku stjórnvaldsákvarðana en hafa ber þó í huga að um stofnun er að ræða sem annast málefni aldraðra í samræmi við gildandi lög um þann málaflokk.

Í auglýsingu vegna starfsins var gerð krafa um þekkingu á stjórnsýslusviði, bókhaldsþekkingu og hæfni hvað mannleg samskipti varðar. Að mati kærunefndar jafnréttismála telst, þrátt fyrir orðalag auglýsingarinnar, felast í henni krafa um þekkingu á fjármálum, krafa um almenna þekkingu á íslenskri stjórnsýslu og hæfni í mannlegum samskiptum. Að teknu tilliti til framangreinds skilnings nefndarinnar má fallast á að í auglýsingunni hafi verið gerðar málefnalegar kröfur til þess sem að ráða skyldi.

Af hálfu kæranda er á því byggt að hún hafi verið hæfari til að gegna umræddu starfi en sá sem ráðinn var. Í því sambandi byggir kærandi á því að hún hafi hagnýtari reynslu á stjórnsýslusviði en sá sem ráðinn var, betri menntun og fjölbreyttari reynslu sem komi sér vel í starfinu. Kærandi bendir á að hún sé hvort tveggja með menntun sem sjúkraliði og rekstrarfræðingur, hafi gegnt störfum fyrir sveitarfélög, þar með talið sem atvinnufulltrúi, og að auki hafi hún gegnt starfi útibússtjóra hjá viðskiptabanka um nokkurra ára skeið. Af hálfu kæranda er sérstaklega bent á að hún hafi í störfum sínum meðal annars unnið að áætlanagerð, haft yfirumsjón með bókhaldi, þjónustu, gæðamálum og starfsmannamálum og annast ráðgjöf varðandi fjármál og fjármögnun fyrirtækja. Þá hafi hún lagt stund á stjórnendanám við Háskólann í Reykjavík auk þess sem hún hafi stundað símenntun.

Telja verður óumdeilt að kærandi hafi aflað sér mun meiri menntunar en sá sem ráðinn var, þar með talið hafi hún lokið prófi á háskólastigi í rekstrarfræðum. Þá má telja að kærandi hafi umtalsverða reynslu af fjármálum og fjármálastjórnun, einkum í starfi sínu sem útibússtjóri viðskiptabanka. Á hinn bóginn verður að telja að sá sem ráðinn var hafi á löngum starfsferli sínum, þar með talið við störf sín hjá stóru fyrirtæki á Akranesi um árabil, sem skrifstofustjóri og staðgengill framkvæmdastjóra og sem bæjarstjórnarmaður og þingmaður, öðlast mikla reynslu á sviði fjármála og rekstrar og á sviði stjórnsýslu sem telja má meiri en sú reynsla sem kærandi hefur á þeim sviðum. Játa verður atvinnurekanda allnokkuð svigrúm til að meta og ákveða hvaða atriði það eru sem mestu ráða við ráðningu í tiltekið starf, þar með talið með tilliti til eðlis starfsins og aðstæðna að öðru leyti. Þessu svigrúmi vinnuveitanda eru þó sett nokkur mörk, sbr. 24. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Í þessu sambandi má meðal annars vísa til dóma Hæstaréttar í málum nr. 121/2002 og 330/2003. Af framangreindu leiðir að atvinnurekanda kann að vera heimilt að ákveða hvort vegi þyngra menntun eða reynsla umsækjenda, enda sé slík ákvörðun byggð á málefnanlegu mati, meðal annars á þýðingu menntunarinnar og þeirrar reynslu sem um ræðir.

Það er álit kærunefndar jafnréttismála að líta megi svo á, samanber það sem greinir hér að framan, að sá sem ráðinn var hafi haft meiri reynslu en kærandi á ýmsum sviðum rekstrar, fjármála og almennrar stjórnsýslu og jafnframt að sú reynsla væri mikilsverð í því starfi sem hér um ræðir. Jafnframt er það álit kærunefndar að kærandi hafi haft meiri menntun en sá sem ráðinn var og að sú menntun hafi getað nýst í starfi því sem hér um ræðir.

Meirihluti stjórnar Dvalarheimilisins Höfða vísar til þess í rökstuðningi sínum vegna ráðningar í starfið að reynsla þess sem ráðinn var hafi haft úrslitaþýðingu varðandi ákvörðun stjórnarinnar.

Með vísan til þess sem að framan greinir er það álit kærunefndar jafnréttismála að þau rök teljist málefnanleg eins og hér stendur á og því verði ekki talið að kynferði kæranda hafi ráðið því að hún hlaut ekki umrætt starf.

Það er því álit kærunefndar jafnréttismála að ekki hafi verið brotið gegn lögum nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í máli þessu.

 

 

Andri Árnason

Ragna Árnadóttir

Ása Ólafsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta