Hoppa yfir valmynd
16. júní 2006 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 6/2005

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 6/2005

A

gegn

Umhverfisstofnun

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 16. júní 2006 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru, dags. 29. júlí 2005, sem móttekin var hjá nefndinni hinn 4. ágúst sl., óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Umhverfisstofnun hefði brotið gegn lögum nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í tímabundna stöðu framkvæmdastjóra rannsóknarstofu stofnunarinnar, en ráðið var í stöðuna frá og með 1. ágúst 2005.

Með bréfi, dags. 12. september 2005, var kærandi innt eftir nánari tilgreiningu á kæruefninu, og barst frekari rökstuðningur frá kæranda með bréfi, dags. 26. september 2005. Með bréfi, dags. 5. desember 2005, óskaði kærunefnd jafnréttismála eftir umsögn Umhverfisstofnunar vegna kæru þessarar og barst umsögn stofnunarinnar með bréfi, dags. 9. janúar 2006. Kærunefnd jafnréttismála gaf kæranda kost á að koma athugasemdum á framfæri vegna umsagnar Umhverfisstofnunar. Þann 19. janúar 2006 barst tölvupóstur frá kæranda þar sem óskað var eftir því að málinu yrði frestað þar sem kærandi hefði sótt um starf sérfræðings á matvælasviði Umhverfisstofnunar. Með bréfi kæranda, dags. 7. mars 2006, fór kærandi þess á leit að kærunefnd jafnréttismála tæki til meðferðar mál vegna ráðningar tiltekinnar konu í starf sérfræðings á matvælasviði Umhverfisstofnunar, en kærandi taldi að sú ráðning hefði falið í sér brot á stjórnsýslulögum, auk þess sem aðrar ástæður voru tilgreindar í tengslum við umrædda ráðningu. Með bréfi kærunefndar jafnréttismála til kæranda, dags. 25. apríl sl., var leitað eftir frekari afstöðu kæranda til þess kvörtunarefnis sem varðaði tímabundna ráðningu karlmanns í stöðu framkvæmdastjóra rannsóknarstofu Umhverfisstofnunar sem auglýst hafði verið í maí 2005, en jafnframt vakin athygli á því að kærunefnd jafnréttismála fjalli eingöngu um mál er varða meint kynjamisrétti.

Þann 8. maí sl. barst bréf frá kæranda þar sem hún taldi ekki þörf á frekari athugasemdum við umsögn Umhverfisstofnunar.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II.

Málavextir

Þann 8. maí 2005 auglýsti Umhverfisstofnun laust til umsóknar tímabundið starf framkvæmdastjóra við stofnunina.

Í auglýsingunni kom fram að um væri að ræða tímabundna stöðu í eitt ár með möguleika á framlengingu í eitt ár. Leitað væri eftir einstaklingi með framhaldsmenntun í raunvísindum, helst á sviði örveru- eða efnafræði. Æskilegt væri að umsækjendur hefðu starfsreynslu á sviði örveru- og efnamælinga. Umsækjendur um starfið voru 12 og var þeim öllum boðið til viðtals. Að loknum viðtölum var ákveðið að ráða karlmann til starfsins.

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun Umhverfisstofnunar um ráðningu í umrætt starf framkvæmdastjóra. Sá rökstuðningur var veittur með bréfi Umhverfisstofnunar, dags. 27. júní 2005.

 

III.

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er kvörtun beint til kærunefndar jafnréttismála vegna ráðningar á rannsóknarstofu Umhverfisstofnunar, en ákvörðun um ráðningu þessa hafi falið í sér brot á ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í því tilfelli sem hér sé til umfjöllunar hafi karlmaður sá er ráðinn var sem framkvæmdastjóri haft doktorsgráðu í sjávarörverufræði, en ekki í gerlafræði, efnafræði eða matvælafræði. Kærandi telur að doktorsgráðan komi að litlu gagni í umræddu starfi nema þá helst til að tryggja þeim sem var ráðinn há laun. Kæranda hafi árið 1992 verið sagt upp starfi á rannsóknarstofu Umhverfisstofnunar vegna meintra samskiptaörðugleika. Kærandi telur að uppsögn hennar og þrjár mannaráðningar í kjölfarið megi rekja til þess að framkvæmdastjóri stofnunarinnar fylgi ólögmætri starfsmannastefnu. Framkvæmdastjóri rannsóknarstofunnar eigi að vera vel menntaður karlmaður sem þar af leiðandi fái há laun en konur í starfi á rannsóknarstofunni eigi að hafa litla menntun og sem lægst laun fyrir störf sín. Afleiðing starfsmannastefnunnar sé því að störf flokkist í sérstök láglauna kvennastörf og hálauna karlastörf.

Kærandi telur að jafnréttislög, nr. 96/2000, hafi verið brotin þar sem yfirstjórn rannsóknarstofunnar hafi stöðvað hana í fyrirhuguðu doktorsnámi í gerlafræði matvæla með því að óska eftir því að hún kæmi til starfa þar að loknu M.Sc.-námi. Henni hafi síðan verið vikið fyrirvaralaust úr starfi til að lækka launakostnað. Afleiðing uppsagnarinnar hafi verið sú að hún hafi orðið af starfsreynslu sem hefði komið henni til góða er sótt var um stöðu framkvæmdastjóra. Karlmaður er ráðinn hafi verið hafi haft doktorsgráðu sem ekki nýtist honum í starfi þar sem hún hafi ekki verið á sviði gerlafræði matvæla. Umsókn hennar hafi verið hafnað þrátt fyrir að M.Sc.-gráða hennar í gerlafræði nýttist betur í stöðunni og að gráðunnar hafi verið aflað í samráði við yfirstjórn rannsóknarstofunnar.

Með bréfi kæranda, dags. 7. mars 2006, fór kærandi þess á leit að kærunefnd jafnréttismála tæki til meðferðar mál vegna ráðningar tiltekinnar konu í starf sérfræðings á matvælasviði Umhverfisstofnunar, en kærandi taldi að sú ráðning hefði falið í sér brot á stjórnsýslulögum auk þess sem aðrar ástæður voru tilgreindar í tengslum við umrædda ráðningu.

 

IV.

Sjónarmið Umhverfisstofnunar

Umhverfisstofnun hafnar því að kærandi hafi verið stöðvuð í fyrirhuguðu doktorsnámi og að henni hafi fyrirvaralaust verið vikið úr starfi til að lækka launakostnað. Við ráðningu í stöðu framkvæmdastjóra hafi verið byggt á lögmætum og málefnanlegum sjónarmiðum og að í engu hafi verið brotin ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Sá sem hafi verið ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra hafi haft doktorspróf í sjávarlíffræði og hafi doktorsritgerð hans fjallað um sjávarörverufræði. Hann hafi starfað í mörg ár á rannsóknarstofum og hafi víðtæka reynslu af stjórnun og rannsóknum, þ.m.t. örverurannsóknum á umhverfi og matvælum. Jafnframt hafi verið litið til þess að sá sem var ráðinn hafi verið í fararbroddi varðandi rannsóknir á örverum eins og ritaskrá hans hafi borið með sér en hún hafi verið mjög viðamikil og hafi innihaldið fjölmargar ritrýndar greinar. Þá hafi verið mat flestra sem starfa að örverumælingum að mælingar muni innan tíðar verða gerðar í meira mæli en áður með sameindafræðilegum aðferðum. Rannsóknarstofa Umhverfisstofnunar hafi verið að huga að slíkum mælingum en það hafi verið sérsvið þess sem var ráðinn. Það hafi verið samdóma álit þeirra sem hafi skoðað umsóknargögn og rætt fyrir hönd stofnunarinnar við umsækjendur að sá sem var ráðinn hafi verið hæfastur umsækjenda og uppfyllt best þær kröfur sem fram hafi komið í auglýsingu um starfið.

 

V.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum karla og kvenna og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.

Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þegar ráðið var í tímabundið starf framkvæmdastjóra rannsóknarstofu Umhverfisstofnunar, en staðan var auglýst laus til umsóknar í maí 2005.

Rétt er að taka fram að í upphaflegu erindi kæranda til kærunefndar jafnréttismála, dags. 29. júlí 2005, var meðal annars vikið að ráðningu í starf aðstoðarmanns á rannsóknarstofu Umhverfisstofnunar, en þar kom fram að kona sem ekki hafði háskólamenntun að baki á fagsviðinu hafi verið ráðin. Í rökstuðningi kæranda, dags. 26. september sl., var meðal annars vísað til þess að í þessu hafi falist að ráðin hafi verið kona sem þægi lág laun og það hefði vegið þyngra en fagleg sjónarmið. Af hálfu kærunefndar jafnréttismála er ekki talið að hér sé um sjálfstætt kæruefni að ræða, en í því sambandi er meðal annars vísað til þess að kærandi hafi ekki aðild að slíkri kæru, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 96/2000. Þá telur kærunefndin ekki tilefni til að taka þetta atriði til málsmeðferðar. Telur kærunefnd rétt að líta á tilvísun til umrædds tilviks sem rökstuðning við kæruefni vegna ráðningar í stöðu framkvæmdastjóra rannsóknarstofunnar.

Þá er rétt er að taka fram að með bréfi, dags. 7. mars 2006, fór kærandi þess á leit að kærunefnd jafnréttismála tæki til meðferðar mál vegna ráðningar tiltekinnar konu í starf sérfræðings á matvælasviði Umhverfisstofnunar, en kærandi taldi að sú ráðning hefði falið í sér brot á stjórnsýslulögum auk þess sem aðrar ástæður voru tilgreindar í tengslum við umrædda ráðningu. Með bréfi kærunefndar jafnréttismála, dags. 25. apríl 2006, leitaði kærunefndin frekari rökstuðnings kæranda vegna þess kæruefnis er laut að tímabundinni ráðningu karlmanns í starf framkvæmdastjóra rannsóknarstofu Umhverfisstofnunar. Af hálfu kærunefndar jafnréttismála var jafnframt bent á að kærunefndin fjallaði eingöngu um mál er varða meint kynjamisrétti. Af hálfu kærunefndarinnar er litið svo á að álitaefni vegna ráðningar konu í starf sérfræðings á matvælasviði Umhverfisstofnunar og meint brot á stjórnsýslulögum í því sambandi heyri ekki undir nefndina og komi ekki til sérstakrar meðferðar í máli þessu. Þá þykja framkomnar upplýsingar hér að lútandi ekki leiða til þess að málið heyri undir nefndina.

Staða framkvæmdastjóra rannsóknarstofu Umhverfisstofnunar var auglýst laus til umsóknar 8. maí 2005. Um var að ræða tímabundna stöðu í eitt ár með möguleika á framlengingu í eitt ár. Óskað var eftir einstaklingi með framhaldsmenntun í raunvísindum, helst á sviði örveru- eða efnafræði. Einnig var talið æskilegt að umsækjendur hefðu starfsreynslu á sviði örveru- og efnamælinga.

Upplýst er að karlmaður sá sem ráðinn var hafi lokið doktorsprófi í sjávarlíffræði. Ritgerð hans hafi fjallað um sjávarörverufræði. Sá sem ráðinn var hafi starfað í mörg ár á rannsóknarstofnunum og hafi hann víðtæka reynslu af stjórnun og rannsóknum, þ.m.t. örverurannsóknum á umhverfi og matvælum. Þá var á því byggt af hálfu Umhverfisstofnunar í umsögn til kærunefndarinnar að sá sem ráðinn var hafi verið í fararbroddi varðandi rannsóknir á örverum eins og meðal annars ritaskrá hans beri með sér. Að auki var á það bent að það sé mat flestra sem starfa að örverumælingum að mælingar muni innan tíðar verða gerðar í meira mæli en áður með sameindafræðilegum aðferðum og að rannsóknarstofa Umhverfisstofnunar hafi verið að huga að slíkum mælingum, en það hafi einmitt verið sérsvið þess sem ráðinn var.

Af hálfu kæranda er á það bent að karlmaður sá sem ráðinn var í umrætt starf hafi haft doktorspróf í sjávarörverufræði, en að sú gráða nýtist honum takmarkað í starfi þar sem hún sé ekki á sviði gerlafræði matvæla. Telur kærandi að M.Sc.-gráða hennar í gerlafræði matvæla hefði nýst betur í stöðunni.

Við skipan eða ráðningu í opinber störf hefur almennt verið gengið út frá því að það stjórnvald sem veitir starfið skuli ákveða hverju sinni á hvaða sjónarmiðum ákvörðunin eigi að byggja ef ekki er mælt sérstaklega fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Í þessu felst þó ekki að stjórnvöld hafi að öllu leyti frjálsar hendur um það hver skuli skipaður, settur eða ráðinn í opinbert starf hverju sinni. Í samræmi við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar verður niðurstaðan að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum eins og um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum þeim persónulegu eiginleikum sem talið er að skipti máli við rækslu starfans.

Í rökstuðningi Umhverfisstofnunar er m.a. vísað til þess, að sá sem ráðinn var hafi lokið doktorsprófi og að viðkomandi hafi haft víðtæka reynslu af stjórnun og rannsóknum, þar með talið rannsóknum á umhverfi og matvælum. Verður að telja að þessi rök, svo og önnur þau sjónarmið sem Umhverfisstofnun hefur vísað til í þessu sambandi, styðji nægilega að ekki hafi verið leiddar líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis við ráðningu í starf framkvæmdastjóra rannsóknarstofu Umhverfisstofnunar frá 1. ágúst 2005, og því telst ekki líklegt að kynferði kæranda hafi legið til grundvallar ákvörðuninni.

Að áliti kærunefndar jafnréttismála telst Umhverfisstofnun ekki hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, í máli þessu.

 

 

Andri Árnason

Ragna Árnadóttir

Ása Ólafsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta