Hoppa yfir valmynd
3. mars 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðherra á fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York

Merki ráðstefnunnar

„Aldrei hefur verið mikilvægara en nú að vinna ötullega að jafnrétti karla og kvenna. Jafnrétti kynja er grundvöllur þess að efla lýðræði og skapa sjálfbæran heim, líkt og okkur ber skylda til gagnvart börnunum okkar og komandi kynslóðum.“ Þetta sagði Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, á fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna sem nú fer fram í New York.

Fimmtugasti og fjórði fundur Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (Commission on the Status of Women) fer nú fram í New York, dagana 1.–12. mars. Fundurinn er helgaður fimmtán ára afmæli kvennaráðstefnunnar sem haldin var í Peking árið 1995. Á ráðstefnunni í Peking var samþykkt viðamikil framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir aðildarríki Sameinuðu þjóðanna og má geta þess að sama ár voru samþykktar breytingar á íslensku stjórnarskránni og lögfest að karlar og konur skyldu njóta jafnréttis í hvívetna.

Dagatal með upplýsingum um Peking-yfirlýsingunaÁ fundinum í New York er metið hvað áunnist hefur í jafnréttismálum á þeim fimmtán árum sem liðið hafa frá samþykkt Peking-yfirlýsingarinnar og framkvæmdaáætlunarinnar sem byggist á henni, og hvaða áskorunum þjóðir heims standa nú helst frammi fyrir á þessu sviði.

Í gær, 2. mars, samþykktu ráðherrar þátttökuþjóðanna á fundinum í New York sameiginlega yfirlýsingu þar sem ánægju er lýst með þann árangur sem náðst hefur frá ráðstefnunni í Peking en jafnframt lýst yfir skyldu þjóðanna til að vinna áfram að því að hrinda að fullu í framkvæmd áætluninni sem samþykkt var í Peking árið 1995.

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, sagði við staðfestingu yfirlýsingarinnar að þótt barátta fyrir jafnrétti kynja hafi skilað árangri á þeim fimmtán árum sem liðin eru frá ráðstefnunni í Peking standi þjóðir heims frammi fyrir mörgum stórum áskorunum í þessum efnum. Ráðherra varaði við því að efnahagskreppan í heiminum gæti haft slæmar afleiðingar á stöðu kvenna ef ekkert væri að gert. Til að fyrirbyggja hættuna á því ættu aðildarþjóðirnar að gera innleiðingu Peking-framkvæmdaáætlunarinnar að forgangsverkefni.

Auk þess að ávarpa allsherjarfund Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna tók Árni Páll þátt í hringborðsumræðum ráðherra og æðstu embættismanna þjóðanna um stöðu jafnréttismála á mánudaginn. Jafnframt tók hann þátt í fundi norrænna ráðherra sem jafnan er haldinn samhliða fundum Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna, þar sem ráðherrarnir fjalla um stöðu og horfur í jafnréttismálum á Norðurlöndum og helstu stefnumál til framtíðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta