Hoppa yfir valmynd
28. júní 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 247/2019 - Úrskukrður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 247/2019 – Beiðni um frestun réttaráhrifa

Föstudaginn 28. júní 2019

A ehf.

gegn

Íbúðalánasjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 14. júní 2019, kærði B lögmaður, f.h. A ehf., til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 22. maí 2019, um hækkun lánskjara leiguíbúðalána frá og með 1. júlí 2019. Í kærunni kemur jafnframt fram beiðni um að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað á meðan úrskurðarnefnd velferðarmála tekur afstöðu til kærunnar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 14. júní 2019. Kærð er ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 22. maí 2019, um að frá og með 1. júlí 2019 muni Íbúðalánasjóður hækka lánskjör leiguíbúðalána A ehf. samkvæmt reglugerð nr. 1042/2013 um lánveitingar íbúðalánasjóðs til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem ætlaðar eru til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum. Í úrskurði þessum er einungis tekin afstaða til beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað á meðan úrskurðarnefnd velferðarmála tekur afstöðu til kærunnar.

Í kæru er vísað til 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála þar sem kveðið er á um heimild úrskurðarnefndarinnar til að fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar. Samkvæmt ákvæðinu sé úrskurðarnefndinni heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar á meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæli með því.

Á meðal ástæðna sem mæli með frestun réttaráhrifa ákvörðunarinnar séu:

  1. Að ákvörðun Íbúðalánasjóðs sé bæði íþyngjandi og byggi á áður óþekktri lögskýringu. Ljóst þyki að ákvörðunin komi til með að hafa neikvæð fjárhagsleg áhrif á kæranda og gæti haft í för með sér hækkun leiguverðs hjá viðskiptavinum kæranda. Ákvörðunin sé því til þess fallin að raska fjárhagslegri stöðu kæranda og viðskiptavina hans. Kærandi telji mikilvægt að fá skorið úr um lögmæti ákvörðunarinnar áður en hún komi til framkvæmda.
  2. Að Íbúðalánasjóður sjálfur samþykki að fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar að því gefnu að krafa um slíkt komi fram í kæru til úrskurðarnefndarinnar.

III.  Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Í tölvupósti deildarstjóra lögfræðimála Íbúðalánasjóðs til lögmanns kæranda, dags. 23. maí 2019, kemur fram að Íbúðalánasjóður muni lýsa sig samþykkan frestun réttaráhrifa ef slík krafa komi fram fyrir úrskurðarnefndinni.

IV.  Niðurstaða

Samkvæmt 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 frestar stjórnsýslukæra ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Æðra stjórnvaldi er þó heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar á meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæla með því. Regla þessi er áréttuð í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála en þar segir að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar nema á annan veg sé mælt í lögum sem kæranleg ákvörðun byggist á. Úrskurðarnefndinni sé þó heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar á meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæli með því. Samkvæmt framangreindu er heimild til frestunar réttaráhrifa undantekning frá meginreglu sem aðeins er ætlað að ná til tilvika þar sem ástæða er til að fresta framkvæmd.

Úrskurðarnefnd velferðarmála horfir til þess við mat á frestun réttaráhrifa hvaða áhrif og afleiðingar það muni hafa á hagsmuni aðila verði réttaráhrifum framangreindrar ákvörðunar Íbúðalánasjóðs ekki frestað. Meðal þeirra sjónarmiða, sem litið er til við heildstætt mat á málinu, er hvort ákvörðun varði fleiri en einn aðila og hvort hún sé íþyngjandi í garð kæranda. Þá er litið til þess hvort það muni valda aðilum óafturkræfu tjóni eða tjóni sem erfitt yrði að bæta ef réttaráhrifum kærðar ákvörðunar yrði ekki frestað. Í kæru kemur fram að ljóst þyki að umrædd ákvörðun komi til með að hafa neikvæð fjárhagsleg áhrif á kæranda og gæti meðal annars haft í för með sér hækkun leiguverðs hjá viðskiptavinum kæranda sem mögulega gæti haft í för með sér óafturkræft tjón. Að mati úrskurðarnefndarinnar er ljóst að ákvörðunin er íþyngjandi í garð kæranda. Þá liggur fyrir að Íbúðalánasjóður hefur lýst sig samþykkan frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar. Málið er umfangsmikið og fyrsta sinnar tegundar sem úrskurðarnefndin leysir úr á grundvelli reglugerðar nr. 1042/2013 sem sett var á grundvelli laga nr. 44/1998 um húsnæðismál.

Samkvæmt framangreindu og að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða, sem ber að hafa til hliðsjónar við mat á því hvort fresta beri réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar, er það mat úrskurðarnefndarinnar að sérstakar aðstæður séu fyrir hendi í máli þessu sem séu til þess fallnar að fallast verði á frestun réttaráhrifa. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Réttaráhrifum ákvörðunar Íbúðalánasjóðs, dags. 22. maí 2019, um endurskoðun lánskjara A ehf. er frestað á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta