Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Gjaldtaka í heilbrigðisþjónustu á Íslandi með því lægsta innan OECD

Í nýbirtri landskönnun um heilbrigði og aðstæður Íslendinga kemur meðal annars fram að 36,2% aðspurðra telja að notendur eigi að greiða minna fyrir heilbrigðisþjónustu hér á landi en þeir gera í dag. Rúmur helmingur, eða 51,1% telur hins vegar núverandi gjaldtöku hæfilega og 12,7% telja að notendur eigi að greiða meira fyrir heilbrigðisþjónustuna en þeir gera í dag.

Samkvæmt tölum OECD eru Ísland og Norðurlöndin önnur en Finnland, meðal þeirra ríkja innan OECD þar sem greiðsluþátttaka sjúklinga í heilbrigðisþjónustu er lægst, en hlutur hins opinbera mestur. Á Norðurlöndum er hlutur sjúklinga í heilbrigðisútgjöldum mestur í Finnlandi. Í OECD ríkjunum er greiðsluþátttaka sjúklinga að meðaltali um 25% af heilbrigðisútgjöldum en hér á landi eins og víðast á Norðurlöndum er hlutur sjúklinga í heilbrigðisútgjöldum í kringum 17% en 83% útgjaldanna eru greidd af opinberu fé. Þannig var hlutur sjúklinga í heilbrigðisútgjöldum á Íslandi 16,1% árið 1995, 17,4% árið 2000 og 16,6% árið 2004, en það eru nýjustu tölur sem fyrir liggja frá OECD um þetta málefni.

Í landskönnuninni um heilbrigði og aðstæður Íslendinga kemur einnig fram að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem svöruðu, eða 81,5%, telja að hið opinbera eigi að leggja meira fé til heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi en gert er í dag. 16,5% telja framlög til heilbrigðisþjónustunnar hæfileg en 1,9% telja að of miklu fé sé varið til heilbrigðisþjónustunnar. Þegar útgjöld til heilbrigðisþjónustunnar eru skoðuð sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu kemur hins vegar í ljós, samkvæmt tölum OECD, að Íslendingar verja hlutfallslega mestu fé til heilbrigðisþjónustunnar af Norðurlandaþjóðunum. Árið 2004 voru útgjöld til heilbrigðisþjónustu 10,2% af vergri þjóðarframleiðslu á Íslandi, en á sama tíma voru þau 9,7% í Noregi, 9,1% í Svíþjóð, 8,9% í Danmörku og 7,5% í Finnlandi.

Graf OECD sem sýnir fjármögnun heilbrigðisútgjalda OECD ríkja árið 2004 (smellið á grafið til að fá stærri mynd).

Fjármögnun heilbrigdisútgjalda OECD ríkja 2004

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta