Ísland staðfestir alþjóðlegan sáttmála gegn lyfjaglæpum
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hafa staðfest aðild Íslands að sáttmála Evrópuráðsins um alþjóðlegt samstarf til að sporna við lyfjaglæpum. Er þá einkum átt við fölsun lyfja, sölu þeirra og dreifingu en einnig aðra glæpi tengda lyfjum sem geta skaðað heilsu fólks. Albert Jónsson sendiherra undirritaði sáttmálann fyrir Íslands hönd í Moskvu í dag.
Framleiðsla, dreifing og sala falsaðra lyfja hefur aukist í Evrópu á undanförnum árum, einkum í Austur- og Suður-Evrópu en vandinn er þó enn mestur í þróunarlöndunum. Fölsun lyfja og aðrir lyfjaglæpir teljast nú til alvarlegra afbrota sem ógna heilsu manna. Brotnar eru grundvallarreglur um gæði, virkni og öryggi lyfja og ýmsum aðferðum beitt til að blekkja sjúklinga og hafa af þeim fé. Internetverslun og rafræn viðskipti hafa aukið á vandann og gert yfirvöldum erfitt að sporna við þessum afbrotum. Afbrot af þessum toga verða sífellt alþjóðlegri og þróaðri enda getur hagnaður af þessum glæpum verið gríðarlegur.
Til að ná árangri í baráttunni gegn lyfjaglæpum er víðtækt samstarf þjóða mikilvægt og þess vegna réðist Evrópuráðið í gerð alþjóðlegs sáttmála um málið sem er sá fyrsti á þessu sviði.
Nefnd Evrópuráðsins sem fjallar um stefnu í lyfjamálum (Committee on Pharmaceuticals and Pharmaceutical care) vann að gerð sáttmálans ásamt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og voru lokadrög hans samþykkt af ráðherraráði Evrópuráðsins 9. desember 2010, undir heitinu Medicrime Convention.