Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 562/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 19. nóvember 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 562/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21090083

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 23. september 2021 kærði […], kt. […], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. september 2021, um að synja honum um ótímabundið dvalarleyfi.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur dvalið á Íslandi á grundvelli dvalarleyfis fyrir námsmenn, sbr. 65. gr. laga um útlendinga, samfellt frá 10. nóvember 2017 og er með útgefið leyfi með gildistíma til 15. júlí 2022. Kærandi sótti um ótímabundið dvalarleyfi hinn 25. maí 2021. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. september 2021, var umsókninni synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála hinn 23. september 2021 en meðfylgjandi voru athugasemdir kæranda.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er fjallað um ákvæði 58. gr. laga um útlendinga. Dvöl kæranda á Íslandi hafi grundvallast á dvalarleyfi vegna náms og hefði kærandi því ekki dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, sbr. 9. mgr. 65. gr. Þá ætti undantekningarákvæði b-liðar 2. mgr. 58. gr. ekki við í málinu. Var umsókn kæranda því synjað.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í kæru vísar kærandi til þess að hann hafi fyrst fengið útgefið dvalarleyfi hinn 10. nóvember 2017 og hinn 10. nóvember 2021 verði hann búinn að vera með dvalarleyfi í fjögur ár. Hann hafi talið að með því að sækja um ótímabundið dvalarleyfi um sex mánuðum fyrir síðastnefnda dagsetningu væri hann að veita Útlendingastofnun rýmri tíma til að vinna umsóknina.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis er m.a. mælt fyrir um í a-e-liðum 1. mgr. 58. gr. laganna.

Kærandi hefur dvalið hér á landi frá 10. nóvember 2017 á grundvelli dvalarleyfis vegna náms, sbr. 65. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 9. mgr. 65. gr. laganna getur dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu ekki verið grundvöllur dvalarleyfis nema b-liður 2. mgr. 58. gr. eigi við.

Í b-lið 2. mgr. 58. gr. er m.a. mælt fyrir um að heimild til að víkja frá því skilyrði að útlendingur hafi dvalist hér á landi síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, þegar útlendingur hefur haft slíkt dvalarleyfi í a.m.k. tvö ár og hefur áður dvalið hér á landi í samfelldri dvöl samkvæmt dvalarleyfi vegna náms skv. 65. gr. þannig að heildardvöl sé a.m.k. fjögur ár. Í 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga segir m.a. að heimilt sé í vissum tilvikum að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hér á landi án þess að skilyrði um fyrri dvöl skv. 1. mgr. og b-lið 2. mgr. séu uppfyllt. Kunna þessar heimildir að eiga við ef útlendingur á íslenskan ríkisborgara sem foreldri, er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara, hefur misst íslenskan ríkisborgararétt eða afsalað sér honum eða hefur dvalið hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi á öðrum grundvelli en vegna náms. Að þessu virtu er ljóst að kærandi uppfyllir hvorki skilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga um að hafa dvalið hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis né á undantekningarákvæði b-liðar 2. mgr. 58. gr. Þá er ekkert fram komið í málinu sem bendir til að undantekningarheimildir 3. mgr. 58. gr. eigi við um kæranda. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta