Velferðarvaktin ráðgefandi aðili vegna Covid-19
Miklar áskoranir fylgja Covid-19 faraldrinum sem nú geysar um heimsbyggðina. Faraldurinn hefur áhrif á félagslega og fjárhagslega stöðu margra einstaklinga og fjölskyldna og er mikilvægt að mótvægisaðgerðir stjórnvalda mildi áhrifin sem mest. Strax í mars í fyrstu bylgju faraldursins var ákveðið að Velferðarvaktin yrði ráðgefandi aðili fyrir viðbragðsteymi velferðarþjónustu. Viðbragðsteymið byggði á víðtæku samstarfi ríkis, sveitarfélaga, fagaðila og hagsmunaaðila um allt land svo tryggja mætti öryggi og nauðsynlega þjónustu fyrir þá sem mest þurftu á henni að halda, svo sem fatlað fólk, aldraðir og börn og fjölskyldur.
Í júní var viðbragðsteyminu breytt í uppbyggingarteymi félags- og atvinnumála í kjölfar Covid-19. Velferðarvaktinni var einnig falið að vera ráðgefandi aðili fyrir nýja uppbyggingarteymið. Uppbyggingarteymið hefur það hlutverk að safna og miðla upplýsingum um stöðu félags- og atvinnumála á landsvísu vegna faraldursins og fylgja eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar er þetta varðar.
Frá því faraldurinn hófst hefur Velferðarvaktin fengið stöðuskýrslur teymanna og fundað reglulega með þeim til að koma tillögum sínum á framfæri og til að fá upplýsingar frá stjórnvöldum og fleirum um hver staðan er á hverjum tíma. Þá hafa fulltrúar í Velferðarvaktinni komið ábendingum sínum á framfæri á fundunum og í gegnum netfangið [email protected]. Á þennan hátt hefur Velferðarvaktin átt beint samtal við stjórnvöld um hluta þeirra mótvægisaðgerða sem gripið hefur verið til.
Upplýsingar um viðbragðsteymi velferðarþjónustu má finna hér.
Upplýsingar um uppbyggingarteymi félags- og atvinnumála í kjölfar Covid-19 má finna hér.