Mál nr. 8/1998
Álit kærunefndar jafnréttismála
í málinu nr. 8/1998:
A
gegn
Fegurðarsamkeppni Íslands
-------------------------------------------------------
Á fundi kærunefndar jafnréttismála fimmtudaginn 9. september 1999 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:
Með bréfi dags. 2. nóvember 1998 óskaði A, framkvæmdastjóri, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að nefndin kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ákvörðun Fegurðarsamkeppni Íslands um að vísa henni úr fegurðarsamkeppni Íslands 1998 bryti gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (jafnréttislaga).
Kærunefnd óskaði upplýsinga frá Fegurðarsamkeppni Íslands um:
1. Hvar og og hvenær keppnir, annars vegar um titilinn Ungfrú Ísland og hins vegar Herra Ísland, hafi verið haldnar.
2. Form og reglur keppninar.
3. Hvaða kröfur gerðar hafi verið til keppenda í hvorri keppni fyrir sig.
4. Afstöðu Fegurðarsamkeppni Íslands til erindis kæranda.
5. Annað það sem fyrirtækið teldi til upplýsingar fyrir málið í heild.
6. Reglur allra þeirra keppna sem Fegurðarsamkeppni Íslands er umboðsaðili fyrir, bæði kvenna og karla.
7. Afrit af samningum þeim sem Fegurðarsamkeppni Íslands hafi gert við fyrrnefndar kepnir þar sem komi fram þær skuldbindingar sem Fegurðarsamkeppni Íslands hafi gengist undir gagnvart þessum aðilum.
8. Reglur, sem þátttakendur í keppninni Herra Ísland undirriti, ef til væru, sambærilegar þeim sem stúlkur í Fegurðarsamkeppni Íslands undirriti sbr. bréf fyrirtækisins til kærunefndar dags. 29. janúar 1999.
Eftirfarandi gögn hafa verið lögð fram af hálfu aðila málsins:
1. Kæra dags. 2. nóvember 1998.
2. Svarbréf Fegurðarsamkeppni Íslands dags. 29. janúar 1999 ásamt fylgigögnum.
3. Svarbréf kæranda dags. 8. apríl 1999.
4. Bréf Fegurðarsamkeppni Íslands dags. 23. apríl 1999 og 10. júní 1999 ásamt afritum símbréfa annars vegar frá MONDIAL EVENTS ORGANISATION vegna keppninnar Miss Europe Pageant og hins vegar frá Finnartist Oy vegna keppninnar Miss Scandinavia Contest.
Kærandi málsins kom á fund kærunefndar 6. maí 1999. Fegurðarsamkeppni Íslands óskaði ekki eftir að senda fulltrúa sinn á fund nefndarinnar.
Kærandi málsins var þátttakandi í Fegurðarsamkeppni Íslands 1998. Með bréfi Fegurðarsamkeppni Íslands dags. 28. apríl 1998 var henni vísað frá þátttöku í keppninni þar sem hún hafi setið nakin fyrir hjá tímaritinu Playboy og nektarmyndatökur samræmist ekki reglum um alþjóðlegar fegurðarsamkeppnir sem Fegurðarsamkeppni Íslands sé umboðsaðili fyrir.
Í bréfi kæranda segir að sama ár og umrædd keppni hafi farið fram hafi á vegum Fegurðarsamkeppni Íslands farið fram keppni um titilinn Herra Ísland. Þremur árum fyrr hafi birst klámfengnar nektarmyndir af sigurvegara þeirrar keppni í tímaritinu Bleiku og bláu, sem hafi verið birtar á ný í tímaritinu Séð og heyrt eftir keppnina. Honum hafi hins vegar ekki verið vikið úr keppninni vegna þessa.
Undanfari Fegurðarsamkeppni Íslands sé keppni um titlinn Ungfrú Reykjavík, sem hún hafi tekið þátt í. Undirbúningur fyrir slíka keppni sé mikill og kostnaðarsamur. Hún hefði aldrei tekið þátt í keppninni Ungfrú Reykjavík hefði hún vitað að umræddar myndir kæmu í veg fyrir áframhaldandi þátttöku hennar. Hún hafi farið í viðtal fyrir keppnina og verið spurð ítarlega um allt mögulegt en aldrei hvort hún hafi setið fyrir nakin.
Í bréfi framkvæmdastjóra Fegurðarsamkeppni Íslands segir að ástæða brottvikningarinnar sé skylda forráðamanna Fegurðarsamkeppni Íslands, þar sem skýlausar reglur allra þeirra alþjóðlegu fegurðarsamkeppna, sem fyrirtækið sé umboðsaðili fyrir, kveði á um að nektarmyndir af þátttakendum séu óheimilar.
Augljóst sé því að stúlka sem setið hafi fyrir í Playboy yrði ekki send sem fulltrúi Íslands yrði hún sigurvegari. Í viðtali fyrir keppnina "Ungfrú Reykjavík" hafi kærandi verið spurð hvort hún hafi setið fyrir og hvar og hafi hún talið upp fyrir hverja hún hafi unnið, en þó ekki nefnt tímaritið Playboy.
Fyrirtækið hefur lagt fram afrit bréfa frá frá fulltrúum fegurðarsamkeppnanna Miss Europe Pageant og Miss Scandinavia Contest þar sem staðfest er að stúlkur, sem birst hafi nektarmyndir af, geti ekki tekið þátt í umræddum keppnum.
Herra Ísland hafi í fyrsta sinn verið valinn á vegum Fegurðarsamkeppni Íslands árið 1996. Að keppninni lokinni hafi verið grafnar upp gamlar myndir sem birst hafi af honum í tímaritinu Bleiku og bláu og þær birtar á nýjan leik í tímaritinu Séð og heyrt. Þar sem Fegurðarsamkeppni Íslands hafi ekki farið með nein umboð fyrir alþjóðlegar fegurðarsamkeppnir karla og því ekki verið skuldbundin umboðsaðilum hafi ekki verið talin ástæða til að aðhafast vegna þessa og því sé hér ólíku saman að jafna.
NIÐURSTAÐA
Tilgangur jafnréttislaga er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Samkvæmt 3. gr. laganna er hvers kyns mismunun eftir kynferði óheimil. Samkvæmt 2. gr. 65. gr. stjórnarskrárinnar skulu konur og karlar njóta jafns réttar í hvívetna.
Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. jafnréttislaga er atvinnurekendum, opinberum stofnunum, félagasamtökum og öðrum þeim er upplýst geta mál skylt að veita kærunefnd hvers konar upplýsingar hér að lútandi.
Jafnrétti kynjanna felst ekki einungis í sömu launum fyrir sömu vinnu og sambærilegum möguleikum á vinnumarkaði. Jafnrétti felst ekki síður í því, að kröfur þjóðfélagsins til kynjanna séu sambærilegar, að teknu tilliti til þess munar sem á þeim er frá náttúrunnar hendi. Markmið jafnréttislaga, og þar með kærunefndarinnar, er að stuðla að jafnrétti á öllum sviðum. Í þeim tilgangi að stuðla að jafnrétti kynjanna skal m.a. reyna að ná því fram að svipuð siðferðisviðmið gildi um kynin og reyna að vinna bug á rótgrónum hugmyndum um ímynd, sem verða til þess að binda annað kynið kvöðum umfram hitt. Verndarsvið jafnréttislaganna hlýtur þó að takmarkast af þeim tilgangi sem liggur að baki lögunum.
Fyrir liggur, að kærði í þessu máli hefur bæði umsjón með keppninni Ungfrú Ísland og Herra Ísland. Jafnframt er upplýst, að stúlkurnar sem taka þátt í Ungfrú Ísland mega ekki hafa setið fyrir naktar. Sambærileg regla gildir ekki í karlakeppninni. Því verður ekki haldið fram, að slík regla stangist í sjálfu sér á við jafnréttislög. Um er að ræða kröfu til hegðunar, sem er á valdi keppenda sjálfra. Spurningin er hins vegar sú hvort kærða sé stætt á því að gera að þessu leyti aðrar kröfur til þátttakenda í kvennakeppninni en karlakeppninni.
Almennt séð felst í slíkri mismunun brot á jafnréttislögum, enda verði ekki sýnt fram á málefnalegar réttlætingarástæður. Kærði heldur því fram að ástæðan fyrir banninu sé sú, að í þeim erlendu fegurðarsamkeppnum kvenna, sem hann er umboðsaðili fyrir, sé sú krafa gerð, að þáttakendur hafi ekki setið fyrir naktir. Þrátt fyrir að nokkuð skorti á skýrleik þeirra gagna, sem kærði leggur fram þessari fullyrðingu sinni til stuðnings, verður á það fallist með honum að slíkar reglur séu í gildi. Þeim reglum hefur kærði ekki á valdi sínu að breyta. Enda þótt vísan til erlendra reglna geti almennt ekki orðið til þess að létta af aðilum íslenskum lagaskyldum, telur kærunefnd sig ekki geta gert þá kröfu til kærða, að hann heimili stúlkum, sem setið hafa fyrir naktar, þátttöku í Ungfrú Ísland. Verður til þess að líta að keppnin er fyrst og fremst rekstur með fjárhagsleg markmið. Telja verður, að val fulltrúa Íslands í erlendu keppnirnar, sé grundvallaratriði í að ná þeim markmiðum fram. Breytir þar engu, að niðurstaða keppninnar hér er ekki bindandi um val á þátttakendum í erlendu keppnirnar og að ungfrú Ísland á ekki sjálfkrafa rétt til þess að sækja erlenda keppni. Jafnréttislög verða því ekki notuð til þess að þvinga kærða til þess að taka við keppendum í Ungfrú Ísland, sem fyrirfram er ljóst að uppfylla ekki skilyrði til þátttöku í erlendu keppnunum. Þá væri það ekki í anda almennra jafnréttissjónarmiða, að kærunefndin leitaðist við að tryggja "réttinn" til þess að gera nekt kvenna að söluvöru.
Kærði er ekki umboðsaðili fyrir erlendar fegurðarsamkeppnir karla og því í engu bundinn af reglum annarra um framkvæmd keppninnar Herra Ísland. Úrlausnarefnið hér er því í raun það hvort kærða beri, á grundvelli jafnréttislaga, að binda þátttakendur í keppninni Herra Ísland sömu kvöðum og gilda um þátttakendur í Ungfrú Ísland.
Markmið jafnréttislaga er að ná fram jafnrétti kynjanna, sérstaklega með því að bæta stöðu kvenna. Almennt ber að leitast við að ná því markmiði á annan hátt en þann að skerða stöðu karla, sem þó kann að vera óumflýjanlegt í einstöku tilfellum. Ekki verður séð, að það stuðli á nokkurn hátt að framgangi jafnréttis, að meina körlum sem setið hafa fyrir naktir þátttöku í Herra Ísland. Ekki verður heldur talið að markmið löggjafans með lagasetningunni náist fram með slíku banni, eða að lögunum hafi yfirleitt verið ætlað að taka til ágreinings eins og þess sem hér er uppi, hann sé í raun á mörkum þess sviðs sem lögunum er ætlað að taka til. Loks hefur kærði sýnt fram á að sá mismunur sem er á reglum um þátttöku í keppnunum sé tilkominn vegna hagsmuna, sem eru í beinum tengslum við þann tilgang í starfsemi hans, að senda stúlkur til keppni í útlöndum. Ekkert hefur komið fram um að munurinn helgist af fordómum eða mismunandi siðferðisviðhorfum til kvenna og karla. Þar með verður ekki talið, að kærði hafi gerst brotlegur við jafnréttislög með þeirri ákvörðun sinni að vísa kæranda úr keppni.
Kærunefnd telur hins vegar verulega aðfinnsluvert að kærði gerði þátttakendum í Ungfrú Ísland ekki grein fyrir því skilyrði sem hér er til umfjöllunar með óyggjandi hætti, enda ljóst að þátttakendur leggja bæði á sig verulegt erfiði og hafa af umtalsverðan kostnað.
Sigurður Tómas Magnússon
Hjördís Hákonardóttir
Gunnar Jónsson