Mál nr. 10/1998
Álit kærunefndar jafnréttismála
í málinu nr. 10/1998:
A
gegn
félagsmálaráðherra
-----------------------------------------
Á fundi kærunefndar jafnréttismála 5. júlí 1999 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:
Með bréfi dags. 7. október 1998 óskaði A, þroskaþjálfi og ráðgjafi, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að nefndin kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning B í embætti framkvæmdastjóra Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík, í september 1998, bryti gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (jafnréttislaga).
Kærunefnd óskaði upplýsinga frá félagsmálaráðherra um:
1. Hvar og hvenær starf framkvæmdastjóra Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík hafi verið auglýst laust til umsóknar.
1. Fjölda og kyn þeirra sem sótt hafi um starfið.
3. Hvernig staðið hafi verið að ráðningu í starfið.
4. Menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika þess sem ráðinn hafi verið ásamt afriti af umsókn hans.
5. Hvað ráðið hafi valinu.
6. Hlutfall kynja í sambærilegum störfum á vegum ráðuneytisins.
7. Afstöðu ráðherra til erindis kæranda.
8. Annað það sem ráðherra vildi koma á framfæri og teldi til upplýsingar fyrir málið.
Auk þessa óskaði nefndin eftir afriti af umsögn Svæðisráðs í málefnum fatlaðra og afriti af gildandi erindisbréfi fyrir framkvæmdastjóra Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra.
Eftirfarandi gögn hafa verið lögð fram af hálfu aðila málsins:
1. Kæra dags. 7. október 1998 ásamt fylgigögnum.
2. Svarbréf ráðherra dags. 10. desember 1998 ásamt fylgigögnum.
3. Svarbréf kæranda dags. 25. mars 1999.
4. Erindisbréf framkvæmdastjóra svæðisskrifstofu fatlaðra.
5. Umsögn Svæðisráðs málefna fatlaðra í Reykjavík vegna ráðningar framkvæmdastjóra Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík.
6. Umsókn kæranda með stimpli ráðuneytisins frá 21. september 1998, lögð fram af fulltrúum ráðherra á fundi með kærunefnd 17. maí 1999.
7. Bréf félagsmálaráðuneytisins dags. 25. júní 1999.
8. Bréf félagsmálaráðuneytisins dags. 29. júní 1999.
Kærandi málsins kom á fund kærunefndar 8. apríl 1999. Þann 17. maí komu á fund nefndarinnar Sigríður Lillý Baldursdóttir, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneyti og Þórhallur Vilhjálmsson, lögfræðingur í félagsmálaráðuneytinu.
Starf framkvæmdastjóra Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík var auglýst laust til umsóknar í Lögbirtingarblaðinu 31. júlí 1998, Degi 29. júlí 1998 og Morgunblaðinu 29. júlí 1998. Í auglýsingunni sagði m.a.: "Nauðsynlegt er að umsækjandi hafi haldgóða menntun og starfsreynslu á sviði rekstrar og stjórnunar og þekkingu á málefnum fatlaðra." Tíu umsækjendur voru um starfið, sex karlar og fjórar konur.
Með bréfi dagsettu 11. september 1998 sendi Svæðisráð málefna fatlaðra í Reykjavík umsögn vegna ráðningar í stöðuna svo sem kveðið er á um í 12. gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992, sbr. 2. gr. l. nr. 156/1998. Í umsögninni segir m.a.:
"Samkvæmt auglýsingu félagsmálaráðuneytis mun væntanlegur framkvæmdastjóri gegna embætti þar til yfirfærsla málaflokks fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga er um garð gengin. Framkvæmdastjórinn mun því taka fullan þátt í þessu mikilvæga verkefni og m.a. taka sæti í ýmsum ráðum, nefndum og vinnuhópum sem að því snúa. Það er því nauðsynlegt að auk stjórnunarhæfileika hafi hann góða þekkingu á högum fatlaðra og sé vel heima í félagsþjónustukerfi Reykjavíkur og geti þannig með skjótum hætti sett sig inn í stöðuna eins og hún er í dag. Einnig telur svæðisráð nauðsynlegt að verðandi framkvæmdastjóri sé tilbúinn að feta í fótspor fyrirrennara síns um gott samstarf við hagsmunahópa sem vinna að málefnum fatlaðra á svæðinu og Reykjavíkurborg sem taka mun við málaflokknum. Þótt erfitt sé að taka einn umsækjanda umfram annan út frá þeim gögnum sem fyrir liggja þykir svæðisráði rétt að benda á reynslu Gunnars Sandholts vegna starfa hans að málefnum fatlaðra á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og getið er um í umsókn hans og telur að sú reynsla geti komið fötluðum vel í þeirri vinnu sem framundan er varðandi yfirfærslu málaflokksins frá ríki til borgar.
Svæðisráð treystir því að við ráðningu framkvæmdastjóra verði hagsmunir fatlaðra í Reykjavík hafðir að leiðarljósi með því að taka mið af fyrrgreindum áherslum."
Ráðuneytisstjóri og skrifstofustjóri, sem fór með starfsmannamál, völdu í samráði við ráðherra sjö úr hópi umsækjenda og kölluðu þá til viðtals. Kærandi var í þeim hópi. Ráðherra var gerð grein fyrir viðtölunum og í framhaldi af því réði hann B í starfið.
Kærandi málsins, A, lauk þroskaþjálfaprófi frá Þroskaþjálfaskóla Íslands 1981 og framhaldsnámi frá sama skóla 1990. Hún lauk M.A. prófi í Human Development and Family Life frá Kansas University 1993. Þá hefur hún sótt ýmis námskeið í meðferð, kennslu og umönnun fatlaðra, starfsmannastjórnun, gæðastjórnun og tölvunotkun.
A var deildarstjóri á heimilseiningu við Kópavogshæli 1981-1983, vann við kennslu og þroskaþjálfum við sérdeild Norðurlandsumdæmis vestra á Egilsá 1983-1986 og 1988-1990 og var forstöðumaður skammtímavistar á Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjanesi 1986-1988. Hún vann sem deildarstjóri og yfirþroskaþjálfi Kópavogshælis sumrin 1991 og 1992 og við rannsóknastörf 1992-1993. Frá 1993 hefur hún veitt sérfræðiþjónustu við Svæðisskrifstofur málefna fatlaðra í Reykjavík, Reykjanesi og Vestfjörðum og verið ráðgjafi, verkefnastjóri og forstöðuþroskaþjálfi við Landspítalann í Kópavogi.
A hefur haldið ýmis námskeið m.a. við Kennaraháskóla Íslands og á barna- og unglingageðdeild. Hún hefur verið formaður Foreldrafélags Kársnesskóla, í skólastjórn Þroskaþjálfaskóla Íslands og er varamaður í háskólaráði Kennaraháskóla Íslands. Þá hefur hún flutt erindi og ritað greinar um fagleg málefni.
B lauk prófi frá undirbúningsdeild Kennaraskóla Íslands árið 1966 og íþróttakennaraprófi frá Íþróttakennarskóla Íslands 1967. Þá lauk hann 15 eininga námi í stjórnun í grunn- og framhaldsskólum 1994 á vegum Kennaraháskóla Íslands. Hann hefur sótt ýmis námskeið, einkum á vegum Kennaraháskóla Íslands, og farið í nokkrar kynnisferðir m.a. vegna skólamála.
B var kennari við Héraðsskólann að Núpi í Dýrafirði 1967-1973 og skólastjóri við grunnskóla frá 1973-1998, m.a. á Blönduósi og Sauðárkróki. Hann hefur verið virkur í félagsstörfum. Hann sat í bæjarstjórn Sauðárkróks og var formaður bæjarráðs í 12 ár. Hann hefur verið fulltrúi í Héraðsnefnd Skagfirðinga frá stofnun og formaður Héraðsráðs í 2 ár. Hann var í stjórn Fjórðungssambands Norðlendinga í 4 ár, þar af formaður í 2 ár, var formaður Samtaka sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra í 6 ár, formaður nefndar um sameiningu sveitarfélaga 1993 og í Svæðisnefnd um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra í 4 ár. Þá vann hann að stofnun og rekstri sérdeildar fyrir fatlaða nemendur í Gagnfræðaskólanum á Sauðárkróki.
Í máli kæranda kemur fram að hún telji sig hæfari til að gegna umræddu starfi en þann sem starfið hlaut. Hún hafi mun meiri menntun og starfsreynslu til starfsins en hann. Menntun hennar sé miklu meiri og snúi að þjónustu, meðferð og umönnun fatlaðra en hann sé kennaramenntaður. Hún hafi mikla reynslu af stjórnun á þessu sviði, hafi í starfi sínu sem deildarstjóri á heimiliseiningu innan Kópavogshælis stýrt 20 manna starfsliði, sem hafi sinnt 16-17 vistmönnum og í starfi sínu sem forstöðuþroskaþjálfi hafi hún verið yfirmaður u.þ.b. 120 starfsmanna. Starfsreynsla hennar falli mun betur að starfinu en þess sem ráðinn var einkum þegar haft sé í huga að allur hennar starfsferill lúti að málefnum fatlaðra en starfsreynsla hans sé fyrst og fremst sem kennari og skólastjóri grunnskóla. Enda þótt hún hafi ekki menntun á sviði rekstrar þá hafi hún komið að rekstri þeirra deilda sem hún hafi verið í forsvari fyrir. Í því felist m.a. að sjá til þess að rekstur eininganna fari ekki út fyrir þann fjárhagsramma sem þeim er skapaður ásamt því að gera tillögur um rekstur næsta árs til yfirstjórnar Ríkisspítalanna hverju sinni. Þá bendir kærandi á að í máli ráðherra komi fram að starfið sé að mestu rekstrarlegs eðlis og önnnur fagþekking komi frá öðrum starfsmönnum skrifstofunnar. Þetta telur hún rangt og bendir á að meginhlutverk framkvæmdastjóra hljóti að grundvallast á þekkingu á þörfum og stöðu fólks með fötlun í samfélaginu. Hafi rekstrarlegi þátturinn vegið þyngst hefði legið beint við að auglýsa eftir viðskiptafræðingi en svo hafi ekki verið.
Kærandi bendir á að B hafi setið sem fulltrúi sveitarfélaga Norðurlands vestra í svæðisstjórn um málefni fatlaðra 1988-1992. Frá þeim tíma hafi orðið mikil þróun í málefnum fatlaðra, m.a. ný lög og breyttar áherslur sem móti alla þjónustu við þennan hóp í dag. Því hafi þekking B á málefnum fatlaðra í Reykjavík verið takmörkuð er hann var ráðinn og hann hafi sem skólastjóri grunnskóla litla reynslu af því þverfaglega starfi og stjórnun fólks með mikinn og fjölbreyttan bakgrunn sem sé undirstaða allrar starfsemi Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík. Hún hafi hins vegar á grundvelli menntunar sinnar og starfsreynslu mikla og fjölþætta þekkingu og reynslu af málefnum fatlaðra og samstarfi við hina ýmsu aðila sem vinni að þeim málum.
Kærandi leggur áherslu á að innan málaflokks fatlaðra starfi að miklum meirihluta konur. Hlutur þeirra í stjórnunarstöðum sé hins vegar ekki í samræmi við fjölda þeirra í almennum störfum. Hjá Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík séu karlmenn í öllum skilgreindum stjórnunarstöðum, þ.e. skrifstofustjóri, forstöðumaður ráðgjafadeildar og nú framkvæmdastjóri. Á landinu séu framkvæmdastjórar skrifstofa málefna fatlaðra sjö, þar af séu einungis tvær konur. Með ráðningu B hafi ekkert verið gert til að leiðrétta kynjamun í stjórnunarstöðum innan málaflokks fatlaðra.
Í bréfi ráðherra dags. 10. desember 1998 segir að í auglýsingu um starfið hafi m.a. verið lögð áhersla á haldgóða menntun og starfsreynslu á sviði rekstrar og stjórnunar þar sem eitt viðamesta verkefnið framundan hjá svæðisskrifstofunni, flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaga, krefjist mikillar reynslu á sviði rekstrar og stjórnunar en einnig þekkingar á starfsemi sveitarfélaga og reynslu af fjármálastjórn. Vitað hafi verið að á svæðisskrifstofunni hafi verið sérfræðingar með mikla fagþekkingu á málefnum fatlaðra.
Af umsækjendum um starfið hafi B haft lengsta starfsreynslu á sviði rekstrar og stjórnunar og hafi stýrt skólum við góðan orðstír í tæpa þrjá áratugi. Þá hafi hann langa reynslu af stjórn sveitarfélags, sem formaður bæjarráðs á Sauðárkróki í 12 ár og formaður landshlutasamtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra frá stofnun þeirra. Eitt síðasta verkefni hans sem formaður SSNV hafi verið undirbúningur að yfirfærslu málefna fatlaðra á Norðurlandi vestra frá ríkinu. Hann hafi tekið virkan þátt í undirbúningi flutnings ýmissa verkefna frá ríki til sveitarfélaga er hann hafi setið í stjórn Fjórðungssambands Norðlendinga á árunum 1986-1990. Á þessum árum hafi orðið þáttaskil hvað varðar yfirfærslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Í þessum störfum hafi B öðlast mikla reynslu í fjármálastjórn og rekstri sveitarfélaga og fyrirtækja. Hann hafi í störfum sínum öðlast góða þekkingu á málefnum fatlaðra, m.a. unnið að stofnun og rekstri sérdeildar fyrir fatlaða sem skólastjóri Gagnfræðaskóla Sauðárkróks. Þá segir að B hafi dýrmæta reynslu úr stjórnmálastarfi og mannlegum samskiptum en hann hafi gegnt trúnaðarstörfum fyrir Alþýðuflokkinn um árabil.
Í viðtali fulltrúa félagsmálaráðherra við kærunefnd kom fram að í lögum um málefni fatlaðra sé ekki vikið að menntun framkvæmdastjóra svæðisskrifstofu málefna fatlaðra. Ráðherra hafi því ákveðið svigrúm og þau sjónarmið sem lögð voru til grundvallar og birtust í auglýsingu um starfið hafi verið talin í samræmi við lögin. Haldgóð þekking og reynsla B af stjórnun hafi vegið þar þyngst. Ennfremur kom fram að auglýsingu um starfið beri að skilja svo að þar hafi verið lögð áhersla á fjóra þætti, haldgóða menntun, reynslu af rekstri, reynslu af stjórnun og faglega þekkingu á málefnum fatlaðra.
NIÐURSTAÐA
Tilgangur jafnréttislaga er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Atvinnurekendur gegna afar miklu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. msar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvörðunum þeirra m. a. um ráðningu starfsmanna. Atvinnurekendur skulu vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.
Samkvæmt 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði. Gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Samkvæmt 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og það hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hafi til að bera sem ráðinn var í starfið.
Ein af meginforsendum þess að jafnrétti náist með kynjunum á vinnumarkaði er að ákvarðanir um ráðningar, stöðubreytingar og stöðuhækkanir séu teknar á grundvelli hlutlægs og sanngjarns mats á hæfni umsækjenda eða starfsmanna. Ákvæði jafnréttislaga gefa leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar við mat á hæfni en í 8. gr. þeirra er menntun og starfsreynsla umsækjenda sérstaklega tilgreind, svo og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem er ráðinn. Séu umsækjendur af báðum kynjum taldir jafn hæfir ber með vísan til 1. og 5. gr. jafnréttislaga að ráða einstakling af því kyni sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Þessi forgangsregla er grundvallarskilyrði þess að þeim tilgangi laganna að jafna stöðu karla og kvenna verði náð.
Í 1. mgr. 12. gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992 eru talin upp viðfangsefni svæðisskrifstofa málefna fatlaðra en þau eru:
1. Að annast rekstur fyrir fatlaða á vegum ríkisins, svo og aðra þjónustu og starfsemi fyrir fatlaða á vegum ríkisins samkvæmt lögum þessum.
2. Að bera ábyrgð á framkvæmdum í málefnum fatlaðra sem veitt er fé til úr Framkvæmdasjóði, sbr. 40. gr., og ekki eru á vegum sveitarfélaga eða sjálfseignarstofnana.
3. Að safna upplýsingum um þörf fyrir þjónustu vegna fatlaðra samkvæmt lögum þessum.
4. Að annast gerð svæðisáætlunar til þriggja ára um uppbyggingu þjónustu við fatlaða og leggja fyrir svæðisráð til umsagnar.
5. Að veita svæðisráðum aðstoð og þjónustu til þess að þau geti sem best sinnt hlutverki sínu.
6. Að annast mat á þörf hins fatlaða fyrir þjónustu, sbr. 2. gr., í samráði við greiningaraðila.
7. Að eiga samstarf og samráð við héraðslækna og fræðslustjóra vegna málefna fatlaðra.
8. Að eiga samstarf við sveitarfélög vegna félagsþjónustu og ferlimála fatlaðra.
9. Að annast mat á umönnunarþörf fatlaðra barna samkvæmt lögum um almannatryggingar.
10. Að sjá til þess að fatlaðir fái sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf á svæðinu.
Í 2. mgr. segir að félagsmálaráðherra skipi framkvæmdastjóra svæðisskrifstofa að fenginni umsögn svæðisráða og að framkvæmdastjórum skuli sett erindisbréf.
Í erindisbréfi framkvæmdastjóra svæðisskrifstofu fatlaðra frá 25. mars 1997 segir m.a. að framkvæmdastjóri beri ábyrgð á að skrifstofan sinni meginverkefnum sínum sem síðan eru talin upp í 10 töluliðum og eru samhljóða þeim viðfangsefnum sem talin eru upp hér að framan. Auk þessara verkefna eru helstu verkefni framkvæmdastjórans:
1. Að annast daglega stjórn stofnunarinnar og ráða til hennar starfsfólk, þar með talið starfsfólk sambýla og annarra heimila á vegum ríkisins á svæði hans.
2. Að bera ábyrgð á árlegum tillögum til fjárlaga vegna starfsemi félagsmálaráðuneytisins, sbr. 45. og 46. gr. laga um málefni fatlaðra.
3. Að bera ábyrgð á fjárlagatillögum vegna stoðþjónustu á svæðinu, sbr. 8. og 46. gr. laga um málefni fatlaðra.
4. Ábyrgð á greiðslum, bókhaldi og reikningsskilum vegna svæðisskrifstofunnar.
5. Ábyrgð á eftirliti með bókhaldi sambýla og annarra heimila á vegum ríkisins er undir svæðisskrifstofu heyra.
6. Að fylgjast með að vinnuframlag þeirra starfsmanna sambýla og annarra heimila fyrir fatlaða, sem ráðnir eru af ríkinu, og að launauppgjör við þá sé í samræmi við gildandi kjarasamninga og túlkun starfsmannaskrifstofu og félagsmálaráðuneytisins á þeim.
7. Að sjá til þess að ákvæði fjárlaga séu haldin á starfssvæði hans.
8. Að taka upp aðferðir árangursstjórnunar við rekstur skrifstofunnar í samræmi við samþykkt ríkisstjórnar þar um og í samræmi við óskir félagsmálaráðuneytisins um fyrirkomulag framkvæmdar.
9. Að undirbúa flutning málefna fatlaðra til sveitarfélaga sem stefnan er að verði þann 1. janúar 1999. Við undirbúninginn skal miðað við að breytingin hafi sem minnsta röskun í för með sér fyrir fatlaða í landinu.
10. Að sinna öðrum þeim verkefnum sem félagsmálaráðuneytið felur honum.
Almennt verður að ætla þeim sem ræður í starf talsvert svigrúm til að velja þau viðmið sem leggja eigi til grundvallar við ráðningu og ákveða innbyrðis vægi þeirra, enda séu þessi viðmið grundvölluð á málefnalegum sjónarmiðum. Nefndin telur þó að sá sem ræður í starf verði að líta til forgangsreglu 1. mgr. 5. gr. jafnréttislaga þegar valið stendur á milli umsækjenda sem eru ámóta hæfir samkvæmt þeim viðmiðum sem ákveðið hefur verið að leggja til grundvallar.
Í auglýsingu um starfið var lögð áhersla á haldgóða menntun og starfsreynslu af rekstri og stjórnun og þekkingu á málefnum fatlaðra. Fulltrúar ráðherra sem mættu á fund kærunefndar kváðu þessa þætti hafa verið lagða til grundvallar við ráðninguna.
Fyrir liggur að félagsmálaráðaherra taldi B best að starfinu kominn á grundvelli mats á ofangreindum hæfnisviðmiðum sem fram komu í auglýsinu. Umrædd viðmið eiga sér stoð í lögum um málefni fatlaðra nr. 59/1992 og erindisbréfi framkvæmdastjóra svæðisskrifstofu fatlaðra og verða þau að teljast byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Engu að síður telur nefndin rétt að láta í ljós álit sitt um það hvort það mat á umsækjendum sem ráðningin byggðist á hafi verið í samræmi við þau viðmið sem félagsmálaráðherra kveður hafa verið lögð til grundvallar og þar með hvort ráðningin var í samræmi við jafnréttislög.
Kærandi hefur lokið þroskaþjálfaprófi, framhaldsnámi í þroskaþjálfun og M.A. prófi í Human Development and Family Life. Sá sem ráðinn var hefur lokið kennaraprófi og íþróttakennarprófi. Hvorugt þeirra hefur menntun á sviði rekstrar eða stjórnunar. Menntun kæranda er því meiri og fellur betur að því starfi sem um ræðir en þess sem ráðinn var.
Kærandi hefur umtalsverða reynslu af stjórnun, hefur undanfarin ár stýrt u.þ.b. 120 starfsmönnum við Landspítalann í Kópavogi og áður verið deildarstjóri heimiliseininga hjá Kópavogshæli og forstöðumaður skammtímavistar hjá Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjanesi. Sá, sem starfið hlaut, hefur mikla reynslu af stjórnun, bæði sem skólastjóri grunnskóla í 25 ár og formaður bæjarráðs á Sauðárkróki í 12 ár. Reynsla þess, sem ráðinn var, er því nokkru meiri en kæranda en reynsla hennar af stjórnun er hins vegar á sviði málefna fatlaðra.
Kærandi hefur nokkra reynslu af rekstri, hún hefur borið ábyrgð á meðferð fjármuna á þeim deildum og stofnunum sem hún hefur stýrt og jafnframt unnið að gerð tillagna m.a. til yfirstjórnar Ríkisspítalanna vegna fjárlagagerðar. Sá sem ráðinn var hefur mikla reynslu af rekstri sem skólastjóri, hann hefur borið ábyrgð á meðferð fjármuna í þeim skólum sem hann hefur stýrt og jafnframt reynslu af gerð fjárhagstillagna. Þá hefur hann reynslu af rekstri sveitarfélaga. Kærunefnd telur reynslu hans af rekstri því vera meiri en kæranda.
Kærandi hefur mikla þekkingu á málefnum fatlaðra, hefur mastersgráðu á sviði málefna fatlaðra og hefur starfað við þann málaflokk í a.m.k. 20 ár. Sá, sem ráðinn var, hefur komið að málefnum fatlaðra með ýmsum hætti í starfi sínu að sveitarstjórnarmálum, setið í ýmsum nefndum er koma að málefnum fatlaðra auk þess sem hann vann að stofnun sérdeildar við Gagnfræðaskóla Sauðárkróks. Það er álit kærunefndar að þekking kæranda á málefnum fatlaðra, og starfsreynsla hennar við þann málaflokk, sé meiri og komi að betri notum í umræddu starfi en þess sem ráðinn var.
Ljóst er að miklum erfiðleikum er bundið að bera saman hæfni kæranda og þess sem ráðinn var þar sem menntun þeirra og starfsreynsla er mjög ólík. Hvað varðar menntun þykir kærandi hafa nokkra yfirburði og þekking hennar á málaflokknum virðist falla betur að starfinu en hans. Hins vegar þykir hann hafa meiri stjórnunar- og rekstrarreynslu sem þó verður að telja mjög samtvinnaða þætti.
Þegar orðalag auglýsingar um starfið er skoðað verður ekki annað ráðið en að gerðar hafi verið kröfur um bæði haldgóða menntun og starfsreynslu á sviði rekstrar og stjórnunar, sem eðlilegt var að teknu tilliti til starfslýsingar og umfangi starfsemi Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík. Með hliðsjón af því að sá sem ráðinn var hafði svo til enga menntun á sviði rekstrar eða stjórnunar þykir félagsmálaráðherra hafa gefið rekstrar- og stjórnunarþættinum of mikið vægi á kostnað almennrar menntunar og sérmenntunar á viðkomandi sviði svo og fagþekkingar en kærandi stóð framar þeim sem ráðinn var hvað þessa þætti varðaði.
Af öllu samanlögðu er það álit nefndarinnar að með tilliti til þeirra viðmiða sem félagsmálaráðherra ákvað að leggja til grundvallar við ráðninguna verði að telja hæfni kæranda og þess sem ráðinn var mjög ámóta. Kærunefnd jafnréttismála telur að þegar svo mjótt er á munum milli umsækjenda hvað hæfni varðar beri með hliðsjón af þeirri sérstöku jafnræðisreglu sem fram kemur í jafnréttislögum að ráða þann umsækjendanna sem er af því kyni sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein.
Fyrir liggur að fimm af sjö stöðum framkvæmdastjóra svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á landinu sem allar heyra undir félagsmálaráðherra eru skipaðar körlum. Með vísan til þess sem að framan greinir um samanburð á hæfni umsækjenda og forgangsreglu 1. mgr. 5. gr. jafnréttislaga er það álit kærunefndar að félagsmálaráðherra hafi fremur borið að ráða kæranda í stöðuna en þann sem var ráðinn.
Með vísan til alls framangreinds er það álit kærunefndar jafnréttismála að ráðning B í starf framkvæmdastjóra Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík hafi ekki verið í samræmi við ákvæði 2. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga, sbr. einnig 8. gr. sömu laga.
Kærunefnd beinir þeim tilmælum til félgagsmálaráðherra að fundin verði viðunandi lausn á málinu.
Sigurður Tómas Magnússon
Hjördís Hákonardóttir
Gunnar Jónsson