Hoppa yfir valmynd
8. apríl 1999 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 7/1998

Álit kærunefndar jafnréttismála
í málinu nr. 7/1998:

A
gegn
Ríkisspítölum.

------------------------------

Á fundi kærunefndar jafnréttismála fimmtudaginn 8. apríl 1999 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

I

Með bréfi, dags. 24. ágúst 1998, óskaði A, barna- og unglingageðlæknir, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning í stöðu yfirlæknis við barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) bryti gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, jafnréttislaga.

Kærunefnd jafnréttismála óskaði eftirgreindra upplýsinga frá Ríkisspítölum:
1. Fjölda og kyn þeirra sem sóttu um stöðuna.
2. Menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika þess sem ráðinn var ásamt afrits umsóknar hans.
3. Hvað réði vali á umsækjendum.
4. Fjölda og kyn yfirlækna á ríkisspítala.
5. Afrits umsagnar stöðunefndar.
6. Afrits auglýsingar um starfið.
7. Starfslýsingar fyrir starfið.
8. Annars þess sem stofnunin vildi koma á framfæri og teldi til upplýsingar fyrir málið.

Eftirfarandi gögn hafa verið lögð fram af hálfu aðila málsins:
1. Kæra, dags. 24. ágúst 1998, ásamt fylgigögnum.
2. Svarbréf Óskars Norðmanns, lögmanns Ríkisspítala, ásamt fylgigögnum.
3. Bréf kæranda, dags. 27. október 1998.
4. Umsögn kæranda, dags. 24. nóvember 1998, ásamt fylgigögnum.
5. Afrits bréfs fiorvaldar Veigars Guðmundssonar til kæranda, dags. 3. nóvember 1997.
6. Skýrsla frá Evrópusamtökum sérfræðinga í læknisfræði um stöðu barna- og unglingageðlækninga í aðildarríkjum Evrópusambandsins og EFTA.
7. Grein úr Læknablaðinu um barna- og unglingageðlækningar í Evrópusamtökum sérfræðinga í læknisfræði.
8. Kafli úr greinargerð Evrópusamtaka sérfræðinga í læknisfræði um stöðu barna- og unglingageðlækningar á Íslandi eftir kæranda.

Kærandi og lögmaður kærða mættu á fund nefndarinnar 25. janúar 1999 og gerðu grein fyrir afstöðu sinni.

II

Nauðsynlegt þykir að rekja aðdraganda þess að staða yfirlæknis við BUGL var auglýst laus til umsóknar í byrjun ársins 1998. Sama staða var einnig auglýst laus til umsóknar á árinu 1996 og voru umsækjendur þá læknarnir A, B, C og D. Sérstök nefnd, almennt kölluð stöðunefnd, mat hæfni umsækjenda sbr. 31. gr. heilbrigðislaga nr. 97/1990. Niðurstaða nefndarinnar var að einungis kærandi og D teldust hæfar til gegna stöðunni. Tekið er fram í greinargerð stöðunefndar að á grundvelli umsagnarinnar teljist kærandi hæfari, þó með fyrirvara um samstarfshæfni hennar. Forsaga þessa fyrirvara er áminning sem hún fékk í mars 1994 en í kjölfar hennar sagði hún starfi sínu lausu. D var ráðin í stöðuna. Hún lét síðan af störfum vorið 1997 og var B ráðinn yfirlæknir deildarinnar frá 1. júlí 1997 til eins árs. Nokkur bréfaskipti urðu vegna þeirrar ráðningar. Í bréfi Læknafélags Íslands, dags. 1. september 1997, til forstjóra Ríkisspítala kemur fram að ráðningin sæti gagnrýni meðal lækna og óskaði Læknafélagið skýringa á ráðningunni. Í svarbréfi forstjórans, dags. 1. september 1997, er upplýst að yfirlæknir BUGL hafi sagt starfi sínu lausu vorið 1997 og á sama tíma hafi verið mikil umræða um deildina í fjölmiðlum. Framkvæmdastjórn spítalans hafi þurft að bregðast við þessum vanda og hafi besti kosturinn verið talinn sá að fara þess á leit við B, sérfræðing á deildinni, að hann tæki að sér yfirlæknisstarfið í eitt ár. Að því er varði hæfni B til að gegna stöðunni, er vísað til þess að niðurstaða stöðunefndar árinu áður, um að B væri ekki hæfur til að gegna stöðunni, hafi fyrst og fremst byggst á stuttri starfsreynslu hans í barna- og unglingageðlækningum. Síðan þá hafi hann starfað eitt ár í greininni og aukið starfsreynslu sína verulega. Mat framkvæmdastjórnarinnar hafi verið að nauðsynlegt væri að binda ráðninguna til eins árs svo að skapa mætti stöðugleika á deildinni. Viðurkennt var að með þessari ráðningu hefði verið vikið nokkuð frá ströngustu kröfum um það hvernig standa bæri að ráðningum yfirlækna. Í bréfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 14. janúar 1998, til eins umsækjanda um stöðu yfirlæknis á árinu 1996, er tekið fram að vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem skapast hefðu á BUGL, gerði ráðuneytið ekki athugasemd við þá lausn sem fundin var en legði áherslu á að staða yfirlæknis yrði auglýst sem fyrst.

Staða yfirlæknis við BUGL var síðan auglýst laus til umsóknar í febrúar 1998 og skyldi hún veitt frá 1. júlí þ.á. Umsækjendur um stöðuna voru þrír, læknarnir A, B og C. Í greinargerð stöðunefndar, dags. 4. maí 1998, er rakinn menntunar-, starfs- og fræðaferill umsækjenda. Í lok greinargerðarinnar segir svo:

"A er elst umsækjanda og með lengsta sérfræðireynslu í barna- og unglingageðlækningum eða um 15 ár. Hún hefur einnig verið virkari en aðrir umsækjendur við vísindastörf. Hún hefur talsverða reynslu af stundakennslu í sérgreininni, en litla stjórnunarreynslu. Hún hefur verið virk í fræðslu- og félagsstörfum.

C er . . .

B er upphaflega með sérfræðileyfi í geðlækningum en hefur rúmlega 2 ára reynslu sem sérfræðingur í barna- og unglingageðlækningum. Hann hefur litla kennslureynslu. Settur yfirlæknir barna- og unglingageðdeildar Landspítalans við Dalbraut frá júlí 1997.

Niðurstaða:
Umsækjendur teljast öll hæf til að gegna hinni auglýstu stöðu. A er elst og með mesta reynslu en C og B teljast einnig hæfir."

Forstjóri Ríkisspítala réði B í stöðuna. Fyrir liggur að sviðsstjóri, framkvæmdastjórn og stjórnarnefnd Ríkisspítala mæltu með ráðningu hans.

Sjötíu yfirlæknar starfa á Ríkisspítölum, sextíu og níu karlar og ein kona.
Upplýst er að síðast liðin fimm ár hafa konur einungis sótt um stöðu yfirlæknis fimm sinnum og konu verið veitt starf yfirlæknis í tveimur tilvika.

Með bréfi dags. 25. maí 1998 kærði kærandi til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra umsögn stöðunefndar um umsækjendur, skv. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Byggði hún á því að samkvæmt grein 2.2.2. í starfsreglum stöðunefndar skuli upplýsingar um umsækjendur samræmdar og verðleikar umsækjenda bornir saman, ef fleiri en einn sækja um stöðu, og út frá því metið hver sé hæfastur fyrir umrætt starf. Taldi A umsögn stöðunefndar ekki í samræmi við þetta ákvæði þar sem umsækjendum hafi ekki verið hæfnisraðað. Í úrskurði heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 29. október 1998, er því hafnað að skylt sé lögum samkvæmt að raða umsækjendum eftir hæfni þannig að fram komi að einn sé hæfastur fyrir umrætt starf. Í úrskurðinum kemur eftirfarandi fram:

"Þrátt fyrir að stöðunefnd sé ekki skylt að raða umsækjendum þannig að fram komi hver sé hæfastur til að gegna viðkomandi starfi veitir umsögn stöðunefndar, dags. 4. maí 1998, sem hér er til umfjöllunar, vísbendingu um að kærandi sé að mati nefndarinnar hæfust hinna þriggja umsækjenda, sem allir teljast hæfir. Fram kemur í umsögn stöðunefndar að kærandi hafi mesta reynslu hinna þriggja umsækjenda að því er varðar sérfræðireynslu í barna- og unglingageðlækningum og vísindastörf auk þess sem kærandi sé elst og með mesta reynslu en C og B teljist einnig hæfir."

III

Kærandi vísar til þess að hún sé hæfari til að gegna stöðu yfirlæknis BUGL en sá sem ráðinn var. fiegar hún hafi sótt um framangreinda stöðu árið 1996 hafi hún verið metin hæf, andstætt því sem eigi við um B. fiegar staðan hafi verið auglýst að nýju tveimur árum síðar, hafi þau bæði verið metin hæf en þá bregði svo við að umsækjendum hafi ekki verið raðað í hæfnisröð eins og venja sé. Í rökstuðningi forstjóra Ríkisspítala fyrir þeirri ákvörðun að ráða B í starfið sé vísað til þess að hann hafi starfað sem yfirlæknir deildarinnar síðast liðið ár og liggi því fyrir reynsla af störfum hans. Bendi forstjórinn á að hann hafi staðið sig vel í starfi yfirlæknis og því orðið fyrir valinu. Hvorki sé vikið að því að B sé hæfastur né að hann hafi mesta reynslu umsækjenda. Svo virðist því sem ákvörðun forstjóra um val á umsækjendum sé byggð á reynslu af störfum B tímabundið í umræddri stöðu. fiessi tímabundna ráðning hafi hins vegar verið ólögleg og verið gagnrýnd m.a. af Læknafélagi Íslands. Gagnrýni Læknafélagsins hafi annars vegar beinst að því að í stöðuna hafi verið ráðinn læknir sem áður hafði verið metinn ekki hæfur til að gegna þeirri sömu stöðu og hins vegar að því að samkvæmt lögum Læknafélagsins megi læknar ekki taka við stöðu sem hafi ekki verið auglýst laus til umsóknar. Í svari Ríkisspítala komist forstjóri ekki hjá því að viðurkenna að við ráðninguna hafi verið vikið frá ströngustu kröfum um ráðningar yfirlækna. Starfsreynsla þannig fengin sé síðan látin ráða vali á umsækjendum.

Kærandi telur að við meðferð umsóknar hennar bæði nú og fyrir tveimur árum, þ.m.t. umfjöllun og afgreiðsla stöðunefndar, hafi verið vegið að starfsheiðri hennar. Hún hafi starfað á BUGL í rúm tuttugu ár, þar af fjórtán ár sem sérfræðingur. Henni hafi verið veitt áminning í mars 1994 og í framhaldi af því staðið frammi fyrir þeirri löglausu ráðagerð að víkja átti henni úr starfi. Vinnubrögðin hafi hvorki uppfyllt skilyrði stjórnsýslulaga né starfsmannalaga. Henni hafi til dæmis ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um fyrirhuguð áform. fiví hafi hún kosið að segja sjálf upp störfum. Í reynd hafi hún gefist upp gagnvart ofsóknum á vinnustað en ágreiningur hafi verið með henni og yfirlækni deildarinnar um þær vinnureglur sem starfað var eftir og fólu að hennar mati í sér gróft brot á mannréttindum sjúklinganna og brot á lögræðislögum.

Í umsögn stöðunefndar um umsókn hennar um yfirlæknisstarfið árið 1996 sé vikið að þessari áminningu með mjög sérkennilegum hætti. Stöðunefnd hafi þá metið hana hæfasta með fyrirvara um samstarfshæfni hennar. Hún hafi síðar fengið vitneskju um að tilteknir yfirmenn á Ríkisspítölum hafi óumbeðið sent stöðunefnd gögn varðandi þessa áminningu og þannig með sérkennilegum hætti reynt að hafa áhrif á niðurstöðu nefndarinnar. Hún hafi því sent stöðunefnd bréf vegna síðari umsóknar sinnar og bent á að framangreind áminning, sem hún hafi mátt sæta að ósekju, sé nú tæplega fjögurra ára gömul og því að engu hafandi. Í síðari umsögn stöðunefndar sé ekki vikið að áminningunni og þau þrjú metin hæf.

Að lokum bendir kærandi á að lögmaður Ríkisspítala láti ítrekað að því liggja í greinargerð sinni til kærunefndar að kynferði hafi engu ráðið við val á umsækjendum. Í þessari afstöðu kærða felist bæði misskilningur og ákveðin vanþekking á ákvæðum jafnréttislaga. firátt fyrir að umsögn stöðunefndar sé ekki sett fram með þeim hætti sem starfsreglur nefndarinnar bjóði, þ.e. umækjendum ekki raðað í hæfnisröð, þá bendi nefndin á að kærandi hafi mesta reynslu en að umsækjendur séu hins vegar allir hæfir. Eðlilegt hefði verið að forstjórinn hefði ráðið hana til starfans annars vegar í ljósi umsagnar stöðunefndar, sem tiltekur sérstaklega að hún hafi mesta reynslu umsækjenda, og hins vegar fjölda kvenna í yfirlæknisstöðum hjá Ríkisspítölum.

IV

Af hálfu Ríkisspítala er því móttmælt að kynferði hafi ráðið nokkru um val á umsækjendum. Fyrst og fremst hafi verið litið til þess hver umsækjenda væri best til þess fallinn að rækja starfið, efla starfsemi deildarinnar og ná þeim markmiðum sem Ríkisspítalar setja hverju sinni varðandi þjónustu við sjúklinga, aðstandendur þeirra svo og aðra þá aðila sem samskipti eiga við stofnunina. Í ljósi menntunar B, fyrri starfa hans og stjórnunarreynslu hjá BUGL hafi hann verið talinn best fallinn til starfans og hæfastur umsækjenda.

Mótmælt er fullyrðingum um að tímabundin ráðning B í starf yfirlæknis hafi verið ólögmæt. Stöðunefnd fjalli ekki um tímabundnar ráðningar. fiá bendir lögmaður kærða á að ágreiningur um lögmæti þeirrar ákvörðunar að ráða B tímabundið skipti ekki máli við úrlausn þessa máls enda ekki í verkahring kærunefndar jafnréttismála að skera úr um það. Kærði telur þó rétt að upplýsa að forveri B í starfi hafi gegnt starfi yfirlæknis BUGL í um 10 mánuði áður en hún var ráðin í það starf að undangenginni umsögn stöðunefndar.

Kærði telur að fyrri störf kæranda hjá stofnuninni skipti máli við úrlausn þessa máls. Kærandi hafi starfað sem sérfræðingur á deildinni frá árinu 1980 til ársins 1994 og á þeim tíma hafi komið upp verulegir samstarfsörðugleikar, bæði við yfirmenn og samstarfsfólk svo og þá aðila sem samskipti áttu við spítalann. Hinn 4. mars 1994 hafi kæranda verið veitt skrifleg áminning af forstjóra Ríkisspítala, formanni læknaráðs, framkvæmdastjóra geðlækningasviðs og yfirlækni BUGL. Þessir samstarfsörðugleikar séu staðfestir í bréfi kæranda til yfirlæknis deildarinnar frá 25. mars 1994 en þar segi m.a.:

"Ég mun fara eftir fyrirmælum yfirmanna minna svo framarlega sem þau eru siðleg, sjúklingum og starfsemi deildarinnar til góðs og stríða ekki gróflega gegn almennri skynsemi."

Formaður barnaverndarnefndar Reykjavíkur hafi með bréfi frá 3. nóvember 1994 til yfirlæknis deildarinnar kvartað yfir starfsháttum kæranda. Í framhaldi af því hafi yfirmenn hennar farið þess á leit við forstjóra spítalans að henni yrði vikið úr starfi. Kærandi hafi bæði mótmælt bréfinu og lýst afstöðu sinni til fram kominna athugasemda við störf sín. Fyrir fundi stjórnarnefndar Ríkisspítala 30. desember 1994 hafi legið tillaga um að segja henni upp störfum. Kærandi hafi mætt á þann fund og óskað lausnar frá störfum sem fallist hafi verið á.

Í greinargerð lögmanns Ríkisspítala segir ennfremur:

"Af hálfu Ríkisspítala þykir rétt að benda á að B var af stöðunefnd metinn hæfur til að gegna starfi yfirlæknis á barna- og unglingageðdeild. fiykir rétt að undirstrika að B hefur í starfi sínu sem settur yfirlæknir á barna- og unglingageðdeild öðlast stjórnunarreynslu og auk þess reynst faglega hæfur og komið starfsemi deildarinnar á réttan kjöl. Vakin er sérstök athygli á því að í umsögn stöðunefndar er sérstaklega tiltekið að A hafi ekki gegnt stjórnunarstöðu öðrum en afleysingastöðu yfirlækna á tímabilum.
Þannig hefur A ekki þá stjórnunarlegu reynslu sem B hefur öðlast í starfi sínu á barna- og unglingageðdeild. Sú staðreynd að B hefur stjórnunarreynslu í starfi á þeirri deild sem stöðuveiting tekur til, vegur þungt. Við þessar kringumstæður sem endranær er Ríkisspítölum bæði rétt og skylt að velja til stjórnunar þann umsækjanda sem hefur nauðsynlega reynslu, samskiptahæfni og þekkingu til að efla starfsemi deildarinnar enn frekar og er líklegur til að skapa frið um starfsemi hennar. Að öllum atvikum máls virtum er það mat Ríkisspítala að B hafi uppfyllt nauðsynlegar kröfur best allra umsækjenda og því verið ráðinn. Í þessu sambandi þykir rétt að vísa til fyrri umfjöllunar þessarar samantektar að því er varðar A, störf hennar og starfslok hjá Ríkisspítölum."

Að lokum er ítrekað það sjónarmið að Ríkisspítölum sé heimilt að ráða sérhvern umsækjanda í stöðu yfirlæknis BUGL sem stöðunefnd hafi metið hæfan. Ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi vísbendingu um að kynferði hafi ráðið vali á umsækjendum og ráðningin brjóti því ekki í bága við ákvæði jafnréttislaga.

V
NIÐURSTAÐA

Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Atvinnurekendur gegna afar miklu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. msar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvörðunum þeirra m.a. um ráðningu starfsmanna. Atvinnurekendur skulu vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf, sbr. 5. gr. jafnréttislaga.

Samkvæmt 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði. Gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Samkvæmt 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og það hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hafi til að bera sem ráðinn var í starfið.

Nefnd þriggja lækna sem heilbrigðisráðherra skipar, stöðunefnd, skal meta hæfni umsækjenda um tilgreindar stöður lækna, m.a. stöður yfirlækna, samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 með síðari breytingum. Nefndin hefur sett sér vinnureglur. Í 2. gr. þeirra er kveðið á um það hvaða atriði skuli lögð til grundvallar mati á hæfni umsækjenda um hið auglýsta starf. Meðal þess eru upplýsingar um menntun, lækningaleyfi, sérfræðileyfi og störf, einnig meðmæli yfirmanna og umsögn sérfræðinga eða annarra sem leitað er álits hjá. Ennfremur skal við hæfnismat taka tillit til ávirðinga eða misferlis í starfi, sbr. reglu 2.2. og tekið er sérstaklega fram að misferli í starfi geti verið svo alvarlegs eðlis, að ástæða sé til að stöðunefnd dæmi umsækjanda af þeim sökum óhæfan til að gegna starfi því sem sótt er um. Sérreglur eru m.a. um hæfniskröfur vegna yfirlæknisstaða á háskólasjúkrahúsum sem Landspítalinn er. Hin sérstöku viðmið eru flokkuð í fimm þætti: læknisstörf, vísindastörf, stjórnunarstörf, kennslu og önnur störf.

Í umsögn stöðunefndar frá 4. maí 1998 kemur fram að allir umsækjendur í febrúar 1998 um stöðu yfirlæknis BUGL teljist hæfir til að gegna starfinu. Sérstaklega er tilgreint að kærandi hafi lengsta sérfræðireynslu í barna- og unglingageðlækningum eða um fimmtán ár og hafi verið virkari en aðrir umsækjendur við vísindastörf. Hún fékk sérfræðileyfi í barna- og unglingageðlækningum hér á landi í maí 1980 og starfaði sem sérfræðingur við BUGL frá júní 1980 til febrúar 1995 (um tíma í 75% starfi), hjá SÁÁ frá mars 1995 til febrúar 1998 og frá þeim tíma á geðdeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Að auki hefur hún rekið eigin lækningastofu frá 1982 og gegnt samráðskvaðningum á sjúkrahúsum í Reykjavík frá 1980. B fékk sérfræðileyfi í geðlækningum í Svíþjóð í mars 1993, hér á landi í júní 1994 og í Englandi í september 1994. Sérfræðileyfi hér á landi í barna- og unglingageðlækningum sem undirgrein fékk hann í febrúar 1996. Hann starfaði sem sérfræðingur í Svíþjóð í u.þ.b. eitt ár og í barna- og unglingageðlækningum að loknu sérnámi í greininni frá mars 1996 eða í rúmlega tvö ár.

Um kennslu segir að kærandi hafi verið stundakennari í barna- og unglingageðlækningum 1974 til 1992 og auk þess kennt öðrum heilbrigðisstéttum. Hún hafi verið metin hæf til að gegna stöðu prófessors í sérgrein sinni í Noregi árið 1992. B hafi haft með höndum fyrirlestra í barna- og unglingageðlækningum við Háskóla Íslands frá 1996. Hvorugt hafi haft fasta kennslustöðu. Ritstörf kæranda eru talsverð og þar á meðal fáeinar vísindagreinar í ritdæmdum tímaritum, hún vinnur nú að doktorsritgerð. Um ritstörf B hafa ekki legið fyrir miklar upplýsingar, ein grein er sérstaklega nefnd þar sem hann er fyrsti höfundur.

Umsækjendum var ekki raðað í hæfnisröð en tekið fram í niðurlagsorðum að kærandi væri elst og með mesta reynslu. Kærandi hefur ekki gegnt stjórnunarstöðu utan afleysingastöðu yfirlækna á tímabilum. Ekki er í niðurstöðu umsagnarinnar minnst á að hana skorti stjórnunarreynslu. B var ráðinn yfirlæknir BUGL frá júlí 1997 og hafði því gegnt stjórnunarstöðu í tæpt ár. Fyrir liggur að í maí 1996 var B ekki metinn hæfur af stöðunefnd til að gegna þessari sömu stöðu vegna lítillar starfsreynslu af barna- og unglingageðlækningum. Í þeirri umsögn var engrar stjórnunarreynslu hans getið en
kærandi metin hæfust fjögurra umsækjenda, þó með fyrirvara um samstarfshæfni með tilvísun til greindrar áminningar.

Í úrskurði heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins frá 20. október 1998 um þá kröfu kæranda að umsögn stöðunefndar yrði breytt eða hún felld úr gildi, er tekið fram að skilja verði umsögn stöðunefndar svo að kærandi sé hæfust hinna þriggja umsækjenda, sem allir hafi talist hæfir. Vísar ráðuneytið til þess að fram komi í umsögninni að kærandi hafi mesta sérfræðireynslu á umræddu sviði, reynslu af vísindastörfum auk þess sem hún hafi verið virk í fræðslu- og félagsstörfum.

Kærunefnd jafnréttismála tekur undir þá skoðun ráðuneytisins að umsögn stöðunefndar frá í maí 1998, beri að skilja á þann veg að kærandi sé metin hæfust umsækjenda. Það er augljóst að hún hefur langtum meiri starfsreynslu, lengra sérnám í barna- og unglingageðlækningum og barnalækningum, hefur verið virkari við vísindastörf og hefur mun meiri reynslu af kennslu og fræðslustörfum.

Að því er varðar stjórnunarreynslu sérstaklega er af hálfu kærða lögð þung áhersla á það að B hafi í starfi sínu sem settur yfirlæknir, síðasta ár fyrir ráðningu í stöðuna, öðlast stjórnunarreynslu umfram kæranda og liggi fyrir mjög góð reynsla af störfum hans þetta ár. Stjórnunarreynsla kæranda sé hins vegar einungis vegna tímabundinna afleysinga. Hún hefur leyst yfirlækni BUGL af en ekki kemur fram í gögnum hversu oft eða hversu lengi í senn. Við mat á starfreynslu í þessu tilviki verður ekki hjá því komist að líta til þess hvernig stjórnunarreynslu B var aflað. B var ráðinn til að gegna starfi yfirlæknis BUGL í eitt ár samkvæmt sérstakri ákvörðun atvinnurekanda. Fyrir þann tíma hafði hann enga stjórnunarreynslu. Ráðning hans í þessa stöðu var umdeild, sérstaklega vegna þess að hann hafði árinu áður ekki verið talinn hæfur af stöðunefnd til þess að gegna starfinu. Varhugavert er að meta umsækjanda um stöðu það sérstaklega til tekna að hann gegni stöðunni tímabundið. Með því væri atvinnurekanda opnuð leið til að hygla starfsmanni sem stendur öðrum umsækjendum að baki til þess að geta síðar réttlætt ráðningu sama starfsmanns með vísan til þeirrar starfsreynslu sem starfsmaður hafi fengið með þessum hætti. Með slíkri háttsemi væru ákvæði jafnréttislaga marklaus gerð. Í því tilviki sem hér um ræðir hefur þessi staða einmitt komið upp. Sá sem hlaut starfið hefur áunnið sér þann hæfnisþátt sem atvinnurekandinn leggur sérstaka áherslu á með reynslu sem hann hlaut að tilstuðlan atvinnurekandans en starfið var auglýst í beinu framhaldi. Því er ekki fallist á að stjórnunarreynsla þess sem starfið hlaut vegi þungt á móti meiri starfsreynslu og menntun kæranda.

Samkvæmt 8. gr. jafnréttislaga skal atvinnurekandi leggja til grundvallar mati á hæfni umsækjenda, auk menntunar þeirra og starfsreynslu, aðra sérstaka hæfileika. Kemur þá til skoðunar hvort sá sem ráðinn var hafi einhverja sérstaka hæfileika umfram kæranda. Engar leiðbeiningar er að finna í lögunum eða greinargerð með þeim um það hvað telja beri sérstaka hæfileika umsækjenda.

Af hálfu kærða er á því byggt að B hafi vegna menntunar sinnar, fyrri starfa og stjórnunarreynslu hjá BUGL verið best fallinn til að rækja starfið, efla starfsemi deildarinnar og ná tilskildum markmiðum varðandi þjónustu við sjúklinga, aðstandendur þeirra svo og aðra þá aðila sem samskipti eiga við stofnunina. Liggi fyrir mjög góð reynsla af störfum hans þetta ár sem hann var settur yfirlæknir. Hann hafi sýnt samskiptahæfni og þekkingu til að efla starfsemi deildarinnar enn frekar og hafi verið talinn líklegastur til að skapa frið um starfsemi hennar.

Með vísan til þess sem hér á undan er rakið er ekki unnt að leggja til grundvallar verðleika sem vísað er til og komið hafa í ljós á því tæpa ári sem að B gegndi starfi yfirlæknis BUGL samkvæmt sérstakri ákvörðun atvinnurekanda. Verða þeir því ekki taldir til sérstakrar hæfni sem hann hafi umfram kæranda í skilningi 8. gr. jafnréttislaga.

Af hálfu kærða er loks á því byggt að fyrri störf kæranda hjá BUGL skipti máli við val á umsækjendum og þar með úrlausn þessa máls. Sérstaklega er í því sambandi vísað til áminningar sem kærandi hlaut í starfi á BUGL fyrri hluta árs 1994, m.a. vegna meintra samstarfsörðugleika. Ennfremur til þess að í framhaldi hafi legið fyrir ákvörðun um að segja henni upp störfum í árslok 1994. Til þess hafi ekki komið þar sem hún hafi sjálf ákveðið að segja starfi sínu lausu. Kærandi andmælir þessum sjónarmiðum og telur sig hafa sætt ofsóknum af hendi yfirmanna og verið rægða meðal samstarfsmanna. Hafi hún því séð sig tilneydda til að segja starfinu lausu.

Af framangreindu verður ráðið að ágreiningur er með aðilum um aðdraganda og réttmæti nefndrar áminningar og þeirrar tillögu sem lá fyrir fundi stjórnarnefndar Ríkispítala 30. desember 1994 um að segja kæranda upp störfum. Samkvæmt gögnum málsins var tillagan komin frá sviðsstjóra geðlæknissviðs og yfirlækni BUGL að höfðu samráði við formann læknaráðs Landspítalans. Kærandi hefur ætíð mótmælt réttmæti þessara ákvarðana yfirmanna sinna. Á sama fundi var forstjóra og framkvæmdastjóra geðlæknissviðs einnig falið, í samræmi við ákvörðun stjórnarnefndarinnar frá 19. apríl sama ár, að færa yfirlækni BUGL til í starfi eigi síðar en 1. febrúar 1995. Svo virðist því sem að fyrrnefndur vandi hafi átt sér margvíslegar skýringar.

Um þrjú og hálft ár liðu frá því að kærandi sagði starfi sínu lausu og þar til staða sú sem deilt er um í máli þessu var veitt, og rúm fjögur ár frá því að hún fékk greinda áminningu. Skilja verður umsögn stöðunefndar frá 4. maí 1998 svo að kærandi teljist hæfari en aðrir umsækjendur og er þar ekki gerður neinn fyrirvari eins og gert var í umsögn nefndarinnar á árinu 1996. Verður að ganga út frá því að stöðunefnd hafi lagt mat á þann ágreining og þær meintu ávirðingar í starfi sem bornar voru á kæranda á meðan hún starfaði á BUGL, sbr. grein 2.2. í starfsreglum stöðunefndar, og ekki talið þær þess eðlis að áhrif hefðu á mat á hæfni þessa umsækjanda. Sá ágreiningur sem varð milli kæranda og yfirmanna hennar þykir ekki réttlæta nú að gengið sé fram hjá henni við ráðningu í starf.

Jafnréttislög leggja þá skyldu á atvinnurekendur að vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og sjá til þess að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf, sbr. 5. gr. jafnréttislaga. fiá er í lögunum reynt að stemma stigu við mismunun vegna kynferðis, sbr. 1., 3., 6., 7. og 8. gr. laganna. Til að lögin nái tilgangi sínum, verður að telja að atvinnurekanda beri að ráða umsækjanda af því kyni sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein, ráði starfsreynsla, hæfni og menntun ekki úrslitum. Fyrir liggur að einungis ein kona gegnir stöðu yfirlæknis hjá Ríkisspítölum en sextíu og níu karlar.

Með vísan til framangreindra raka telur kærunefnd jafnréttismála að Ríkisspítalar hafi brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga við ráðningu í starf yfirlæknis barna- og unglingageðdeildar Landspítalans og brotið gegn rétti kæranda. Beinir kærunefndin þeim tilmælum til stjórnenda Ríkisspítala að fundin verði viðunandi lausn á málinu.

 

Sigurður Tómas Magnússon

Hjördís Hákonardóttir

Gunnar Jónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta