Almenn framlög vegna þjónustu við fatlað fólk á árinu 2015
Innanríkisráðherra hefur samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um endurskoðaða áætlun um úthlutun almennra framlaga vegna þjónustu við fatlað fólk á árinu 2015. Gert er ráð fyrir að ráðstöfunarfjármagn sjóðsins til greiðslu framlaganna verði 10.700 m.kr. en endanleg framlög ársins 2014 námu rúmum 10.180 m.kr. Hækkun áætlaðra framlaga á árinu 2015 nemur því 5,1%.
Við útreikning á endurskoðaðri áætlun um úthlutun framlaganna var tekið tillit til breytinga á lögheimili þjónustuþega og niðurstöðu endurmats á árinu 2014 á stuðningsþörf þeirra sem metnir voru SIS mati á árinu 2010 og 2011.
Á árinu 2015 fer fram leiðrétting á framlögum ársins 2013 á grundvelli endanlegs álagningarstofns útsvars árið 2013 og kemur leiðréttingin til hækkunar eða lækkunar á áætluðum almennum framlögum ársins 2015.
Framlögin koma til greiðslu mánaðarlega og taka mið af innkomnum tekjum sjóðsins af 0,99% hlutdeild hans í staðgreiðsluskilum viðkomandi mánaðar.