Hoppa yfir valmynd
17. maí 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 11/2017

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 11/2017

Endurgreiðsla tryggingarfjár.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 15. janúar 2017, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnd gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994. Gagnaðili lét málið ekki til sín taka þrátt fyrir ítrekuð boð þar um.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 17. maí 2017.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Álitsbeiðandi leigði íbúð af gagnaðila. Ágreiningur er um endurgreiðslu tryggingarfjár.

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að endurgreiða tryggingarfé, að fjárhæð 200.000 kr., auk verðbóta.

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi hafi leigt íbúð gagnaðila frá 6. október 2015 til 6. apríl 2016 og greitt henni 200.000 kr. í tryggingafé. Trygginguna hafi hann enn ekki fengið endurgreidda þótt ekki hafi gengið dómur um bótaskyldu hans, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, og gagnaðili hvorki lýst bótakröfu skriflega né gert áskilnað um bætur á hendur honum skv. 1. mgr. 64. gr. laganna.

III. Forsendur

Álitsbeiðandi kveður gagnaðila ekki hafa endurgreitt tryggingarfé er hann lagði fram við upphaf leigutíma. Gagnaðili hefur ekki látið málið til sín taka.

Ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 41. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, kveður á um að leigusali megi ekki ráðstafa tryggingarfé eða taka af því án samþykkis leigjanda nema genginn sé dómur um bótaskyldu hans. Tryggingarfé í vörslu leigusala skuli vera verðtryggt en ekki bera vexti. Að leigutíma loknum skuli leigusali segja til þess svo fljótt sem verða má hvort hann gerir kröfu í tryggingarfé eða hefur uppi í áskilnað um það. Ella skuli hann skila leigjanda tryggingarfénu ásamt verðbótum án ástæðulauss dráttar. Leigusala sé þó aldrei heimilt að halda tryggingarfénu í sinni vörslu, án þess að gera kröfu í það, lengur en tvo mánuði frá skilum húsnæðisins, sbr. 1. mgr. 64. gr. laganna.

Þar sem álitsbeiðandi hefur hvorki samþykkt bótaskyldu né gagnaðili fengið dóm þar um ber gagnaðila að endurgreiða tryggingarfé ásamt verðbótum.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar húsamála að gagnaðila beri að endurgreiða tryggingarfé, 200.000 kr., auk verðbóta.

Reykjavík, 17. maí 2017

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta