Hoppa yfir valmynd
18. apríl 2018 Innviðaráðuneytið

Varðandi framkvæmd heimildar til lækkunar eða niðurfellingar fasteignaskatts hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum

Um álagningu fasteignaskatts og undanþágur frá honum er fjallað í II. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laganna er sveitarstjórn heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Skylt er sveitarstjórn að setja reglur um beitingu þessa ákvæðis, svo sem um tekjumörk, tekjuflokka og hvort lækkun er í formi fastrar krónutölu eða hlutfalls af fasteignaskatti.

Á túlkun þessa ákvæðis hefur reynt í úrskurðum ráðuneytis sveitarstjórnarmála. Má þar t.d. nefna úrskurð samgönguráðuneytisins frá 27. mars 2008 í máli nr. 11/2008. Kom þar m.a. fram að óheimilt sé að veita afslátt með vísan til ákvæðisins, án þess að tekið sé tillit til tekna þeirra sem hans eiga að njóta. Fastur afsláttur án tillits til tekna sé því ekki í samræmi við áskilnað ákvæðisins um tekjulága einstaklinga þar sem hann kemur öllum lífeyrisþegum til góða, án tillits til þess hvaða tekjur þeir hafa.

Á árinu 2013 ákvað innanríkisráðuneytið að taka til skoðunar framkvæmd Vestmannaeyjabæjar að þessu leyti en þá lá fyrir að bæjarstjórn hafði á árunum 2012 og 2013 fellt niður fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði í eigu ellilífeyrisþega, 70 ára og eldri, sem nýtt var af þeim til búsetu, óháð tekjum. Þar sem bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar samþykkti nýjar reglur um afslátt af fasteignagjöldum vegna árins 2015, þar sem afslátturinn var tekjutengdur, taldi ráðuneytið ekki tilefni til frekari aðgerða og lokaði málinu með bréfi dagsettu 20. mars 2015. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar (Álagning gjalda fyrir árið 2018), er afsláttur af fasteignagjöldum hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum enn tekjutengdur.

Þar sem fram hafa komið upplýsingar í fjölmiðlum um að framkvæmd Vestmannaeyjabæjar á álagningu fasteignaskatts kunni þrátt fyrir þetta að fara gegn ákvæðum laga um tekjustofna sveitarfélaga, hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, með vísan til 112. gr. og 113. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, ákveðið að kalla eftir upplýsingum og gögnum frá Vestmannaeyjabæ varðandi það hvernig staðið hefur verið að framkvæmd þessara mála undanfarin ár. Í framhaldi af því mun ráðuneytið meta hvort tilefni er til að taka stjórnsýslu sveitarfélagsins að þessu leyti til formlegrar skoðunar.

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta