Vasapeningar aldraðra lækka ekki
Til að koma í veg fyrir misskilning vill félags- og tryggingamálaráðuneytið taka það skýrt fram að fjárhæð vasapeninga til aldraðra á stofnunum verður ekki lækkuð árið 2010. Óskertir vasapeningar eru 41.895 krónur á mánuði.
Í frumvarpi til fjárlaga næsta árs kemur fram að útgjöld vegna vasapeninga til aldraðra á stofnunum verði 317 milljónir króna. Þetta er lægri fjárhæð en í fjárlögum síðasta árs og virðist það hafa leitt til þess misskilnings að ákveðið hafi verið að lækka fjárhæð vasapeninga til einstaklinga. Þetta er ekki rétt heldur stafar lækkun heildarútgjalda af því að með vaxandi lífeyrisréttindum fækkar stöðugt í hópi aldraðra sem eru tekjulausir og fá þess vegna greidda vasapeninga. Á fjárlögum þessa árs voru heildarútgjöld vegna vasapeninga ofmetin og hefur það verið leiðrétt í fjárlögum ársins 2010.
Árið 2007 voru vasapeningar einstaklinga 28.591 króna á mánuði og hafa þeir því hækkað um 47% frá þeim tíma.