Hoppa yfir valmynd
25. júlí 2017 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra heimsótti lögregluna á Suðurnesjum og Isavia

Dómsmálaráðherra kynnti sér ný sjálfvirk landamærahlið sem tekin voru í notkun fyrir stuttu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Með Sigríði á myndinni eru Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, Jón Pétur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, Sigurgeir Sigmundsson, lögreglufulltrúi í flugstöðvardeild, Gunnar Björnsson, fjármálastjóri lögregluembættisins og Haukur Guðmundsson, ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytis. - mynd

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra heimsótti bæði lögregluna á Suðurnesjum og Isavia ohf. í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á dögunum.

Við komu í flugstöðina tóku Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri, og Jón Pétur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, á móti ráðherra og fóru fyrir kynningu á starfsemi lögreglunnar þar en hún ber m.a. ábyrgð á framkvæmd landamæraeftirlits hér á landi. Við landamæraeftirlit er skoðað hvort einstaklingur uppfyllir skilyrði fyrir komu eða för yfir landamæri með framvísun gildra ferðaskilríkja, upplýsingagjöf um tilgang dvalar og fleira.

Það er að mörgu að hyggja á þessu sviði enda hefur landslagið breyst mikið að undanförnu með fordæmalausum straumi flóttamanna til Evrópu og fjölgun ferðamanna til og frá landinu. Lögreglan sinnir þessu verkefni af staðfestu.

Þann 10. júní síðastliðinn voru tekin í notkun ný sjálfvirk landamærahlið við brottför í flugstöðinni að erlendri fyrirmynd en þau eiga að auka öryggi og skilvirkni við för yfir ytri landamæri. 

Að lokum heimsótti ráðherra Isavia ohf. og ræddi þar við Björn Óla Hauksson, forstjóra Isavia. Isavia sér um rekstur flugvallarins og hefur aðkomu að ýmsum þáttum er varða aðstöðu lögreglu til að sinna landamæraeftirliti, t.d. aðstöðu til eftirlitsins, samskipti við flugfélög sem hingað fljúga og fleira. „Við áttum uppbyggilegt samtal þar sem ég lagði áherslu á gott samstarf milli lögreglu og stjórn flugvallarins varðandi ferðir manna um flugvellina, ekki bara í Keflavík, með tilliti til aukins álags á landamæraeftirlit," segir ráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta