Hoppa yfir valmynd
16. september 2015 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 134/2015

Kærunefnd útlendingamála

Þann 16. september 2015 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 134/2015

í stjórnsýslumáli nr. KNU15010048


Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

 Með stjórnsýslukæru sem barst innanríkisráðuneytinu þann 31. mars 2014 kærði [...], ríkisborgari [...], ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. febrúar 2014, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 3. mgr. 11. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002.

 Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

Kærandi lagði ekki fram greinargerð í málinu, verður málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

 

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik með þeim hætti að kærandi sótti um dvalarleyfi hér á landi þann 24. október 2013. Fjallaði Útlendingastofnun um umsókn kæranda á grundvelli 3. mgr. 11. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002.

Framangreind ákvörðun Útlendingastofnunar var kærð til innanríkisráðuneytisins þann 31. mars 2014. Gögn málsins bárust innanríkisráðuneytinu þann 31. mars 2014. Innanríkisráðuneytið óskaði eftir greinargerð eða frekari upplýsingum um málið frá kæranda með bréfi, dags. 10. apríl 2014. Tölvupóstar bárust frá kæranda á tímabilinu 12. apríl 2014 til 29. júní 2015.

Þann 1. janúar 2015 tók kærunefnd útlendingamála til starfa, sbr. 3. gr. laga nr. 96/2002, með síðari breytingum. Allar kærur á ákvörðunum Útlendingastofnunar, sem enn biðu afgreiðslu hjá innanríkisráðuneytinu þann 1. janúar sl. og heyra til þeirra ákvarðana sem heimilt er að kæra til kærunefndar útlendingamála, verða afgreiddar hjá kærunefndinni, sem fer nú með úrskurðarvald í samræmi við 3. gr. a og 3. gr. b laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. 1. gr. laga nr. 64/2014. Þegar kærunefndin tók til starfa hafði innanríkisráðuneytið ekki úrskurðað í máli kæranda og mun kærunefndin því úrskurða í máli þessu.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda byggir á því að umsókn kæranda geti ekki fallið undir þau tilvik sem fjallað er um í 3. mgr. 11. gr. laga um útlendinga. Stofnunin byggir á því að uppgefinn tilgangur umsækjanda um dvöl hér á landi falli ekki undir lögmætan og sérstakan tilgang í skilningi 11. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002. Ekki hafi verið unnt að finna annað ákvæði í útlendingalögum sem heimili dvöl í þeim tilgangi sem kærandi tiltekur í umsókn sinni, þ.e. að kærandi hafi í hyggju að búa hér á landi í íbúð sem hann hafi nýverið fest kaup á og sækja íslenskunámskeið.

 

IV.       Málsástæður og rök kæranda

 Kærandi lagði ekki fram greinargerð í málinu. Þá var ekki gerð frekari grein fyrir málsástæðum og rökum kæranda í kæru til nefndarinnar. Í tölvupóstsamskiptum við innanríkisráðuneyti og kærunefnd útlendingamála ítrekar kærandi þá ósk sína að fá að dveljast hér á landi. Honum reynist ferðalagið milli Íslands og Bandaríkjanna kostnaðarsamt. Þá hafi hann keypt tryggingu hér á landi og framfærsla hans sé vís.

 

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

 Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 3. mgr. 11. gr. laga um útlendinga.

 Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum, og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum. Í 1. og 2. mgr. 11. gr. útlendingalaga koma fram grunnskilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis. Samkvæmt ákvæðinu má veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi í samræmi við ákvæði 12. – 12. gr. e eða 13. gr., laganna að fenginni umsókn og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, m.a. ef framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði er tryggt.

 Í 3. mgr. 11. gr. er auk þess kveðið á um að þegar sérstaklega standi á sé heimilt að veita dvalarleyfi til útlendings sem til landsins kemur í lögmætum og sérstökum tilgangi að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 11. gr., þrátt fyrir að hann uppfylli ekki skilyrði 12. – 12. gr. e eða 13. gr. laganna. Grunnskilyrði 1. og 2. mgr. 11. gr. þurfa þó að vera uppfyllt til að unnt sé að veita slíkt dvalarleyfi. Í athugasemdum við 3. mgr. 11. gr. eru talin upp tilvik sem réttlætt geta dvalarleyfi skv. ákvæðinu, svo sem þegar um er að ræða nunnur og trúboða eða þegar útlendingur á von á barni með íslenskum ríkisborgara. Í framkvæmd hefur ákvæðinu einnig verið beitt í þeim tilvikum þegar um er að ræða mikil og alvarleg veikindi og nauðsynlegt er fyrir ættingja útlendings að fá aðstoð í afmarkaðan tíma. Sérstaklega er tekið fram í athugasemdunum að þar sem um undanþáguákvæði sé að ræða beri að túlka það þröngt.

 Tilgangur dvalar kæranda er sem fyrr segir sá að dveljast hér á landi í íbúð sem hann hefur fest kaup á og sækja námskeið í íslensku.

 Kærunefndin fellst á það mat Útlendingastofnunar að ekki sé unnt að líta svo á að ákvæði 3. mgr. 11. gr. eigi við í máli kæranda.

 Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar útlendingamála að Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi hér á landi og ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

 Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

  

Hjörtur Bragi Sverrisson                                                                                                           Oddný Mjöll Arnardóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta