Hoppa yfir valmynd
6. október 2015 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 148/2015

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 6. október 2015 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 148/2015

í stjórnsýslumáli nr. KNU15040004


Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 31. mars 2015, kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. mars 2015, um að synja honum um hæli á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga nr. 96/2002.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og stofnuninni verði gert að taka mál kæranda til meðferðar að nýju vegna brots á öryggisreglu. Ef kærunefnd telji sér rétt og fært að bæta úr þeim annmarka er þess krafist að hinni kærðu ákvörðun verði breytt og kæranda veitt hæli sem flóttamanni hér á landi skv. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt viðbótarvernd, sbr. 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f útlendingalaga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. útlendingalaga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.


II.         Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom til landsins með flugi 25. febrúar 2015 og sótti um hæli hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu daginn eftir. Kærandi var boðaður í viðtal hjá Útlendingastofnun 26. mars 2015 ásamt löglærðum talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 30. mars 2015, synjaði Útlendingastofnun kæranda um hæli jafnframt því sem honum var synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála við birtingu þann 31. mars 2015 og óskaði jafnframt eftir frestun réttaráhrifa ákvörðunarinnar. Þann 7. apríl s.á. barst kærunefndinni tilkynning Útlendingastofnunar um kæru á ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda. Með bréfi sama dag féllst kærunefnd á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Með tölvupósti, dags. 7. apríl 2015, var löglærðum talsmanni kæranda veittur frestur til að leggja fram greinargerð í tilefni kærumálsins. Þann 23. júní s.á. barst kærunefnd útlendingamála greinargerð kæranda.

Þann 9. september 2015 kom kærandi fyrir kærunefnd útlendingamála og gerði grein fyrir máli sínu, að viðstöddum talsmanni sínum og túlki, sbr. 5. mgr. 3. gr. b útlendingalaga.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.


III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun bar kærandi fyrir sig að hann ætti yfir höfði sér ofsóknir af hálfu […]. Einnig bar hann fyrir sig að hann væri í hættu vegna veikinda sinna þar sem heilbrigðiskerfi […] sé ekki nógu gott.

Útlendingastofnun fjallaði um […]. Í ákvörðun stofnunarinnar kom fram að ekki séu sérstök lög um […] þar í landi en löggjöfin, yfirvöld og dómstólar taka jafnt á lögbrotum sem framin séu vegna […] og öðrum afbrotum. Ekki séu til nákvæmar tölulegar upplýsingar um […] séu algengari í dreifbýlli svæðum landsins og takmarkist þau við einstaklinga af […]. Studdist stofnunin að einhverju leyti við upplýsingar og gögn um […].

Ennfremur fjallaði Útlendingastofnun um heilbrigðismál í […] og þá uppbyggingu sem hefur átt sér stað í landinu með aðstoð Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Með auknum fjárframlögum til heilbrigðiskerfisins hafi heilsugæslustöðvar verið byggðar og fagfólki hafi fjölgað. Miklar framfarir hafa orðið í þjónustu við einstaklinga með […]. Þá kom fram að spilling sé vandamál í heilbrigðiskerfi […] sem lýsi sér helst þannig að heilbrigðisstarfsfólki eru greiddar mútur m.a. til þess að koma einstaklingum framar á biðlistum. Þrátt fyrir þetta sé þó almenn ánægja meðal notenda heilbrigðisþjónustunnar.

Það var mat Útlendingastofnunar að frásögn kæranda væri trúverðug að því er varðar persónulega upplifun hans á þeim atvikum sem hann lýsti. Það þótti veikja trúverðugleika kæranda að hann yfirgaf ekki heimaland sitt fyrr en veikinda hans varð vart og kvaðst sjálfur hafa yfirgefið landið þar sem hann vildi ekki vera upp á aðra kominn. Mat stofnunin það svo að ekki væri tilefni til þess að ætla að aðstæður kæranda væru með þeim hætti sem greinir í 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga. Kærandi gæti leitað til lögreglu í heimalandi sínu teldi hann á sér brotið þar. Með vísan til sömu raka var það mat stofnunarinnar að aðstæður kæranda væru hvorki með þeim hætti sem greinir í 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga né að þær falli undir 1. mgr. 45. gr. sömu laga.

Varðandi kröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f greinir í ákvörðun Útlendingastofnunar að ekki verði talið að kærandi sé í þeirri aðstöðu í […] að hann eigi á hættu að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða að aðstæður í heimalandi hans séu að öðru leyti slíkar að þær réttlæti veitingu dvalarleyfis á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga, hvorki með vísan til mannúðarsjónarmiða né sérstakra tengsla hans við Ísland. Ekki var fallist á að kærandi sé í bráðri lífshættu vegna […] sinnar og fullyrt að hann gæti fengið fullnægjandi meðferð og aðstoð í heimalandi sínu.

Að lokum var kæranda vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 18. gr. útlendingalaga. Útlendingastofnun ákvað að kæra frestaði ekki réttaráhrifum með vísan til c-liðar 1. mgr. 32. gr. útlendingalaga.


IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi sætt ofsóknum í heimalandi sínu í áraraðir vegna bílslyss þar sem […]. Að sögn kæranda hafi […] síðan atburðurinn átti sér stað. Einnig kvaðst kærandi vera […]. Í greinargerð er greint frá því að […].

Kærandi kvaðst hafa reynt að leita til lögreglu vegna […] en fengið þau svör að lögreglan gæti ekkert gert. Í […] enga sérstöðu innan réttarkerfisins umfram önnur brot. Kærandi kvað að hann hafi ekki talið öryggi sitt tryggt lengur í landinu og ekki séð sér annan kost tiltækan en að koma sér sem lengst í burtu til að losna undan ofsóknunum.

Í greinargerð er byggt á því að Útlendingastofnun hafi byggt ákvörðun í málinu á röngum forsendum og ekki fullnægt rannsóknarskyldu skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er vísað sérstaklega til þess að í ákvörðun sinni fullyrði stofnunin að […]. Þar sem að þessar rangfærslur stofnunarinnar hafi verið meðal þeirra atriða sem hafi ráðið niðurstöðu í málinu verði að telja ákvörðunina byggða á augljóslega röngum forsendum og því beri að fella hana úr gildi.

Er á því byggt í greinargerð að þar sem ákvörðun í máli kæranda sé byggð á mati og um mikilvæga hagsmuni hans sé að ræða verði að styðjast við hinn almenna mælikvarða og telja það eitt nægja til ógildingar ákvörðunarinnar að brotið hafi verið á þeirri öryggisreglu stjórnsýsluréttar sem felst í rannsóknarreglunni. Jafnvel þó að hinum sérstaka mælikvarða yrði beitt þá beri að ógilda ákvörðun Útlendingastofnunar þar sem hinn lagalegi annmarki á málsmeðferð stofnunarinnar hafi leitt til rangrar efnislegrar niðurstöðu í málinu.

Í greinargerð er gagnrýnd sú röksemd Útlendingastofnunar að […].

Í greinargerð kemur ennfremur fram að þrátt fyrir viðleitni stjórnvalda í […] til framfara á síðustu árum þá sé […] fátækt land þar sem ríki mikil spilling, m.a. í veikburða réttarkerfi landsins. Lýsir kærandi miklu vantrausti á vilja og getu stjórnvalda til að veita honum vernd gegn þeim sem ofsækja hann. Það sé til lítils að ætlast til þess að kærandi geti leitað ásjár yfirvalda og hlotið þar fullnægjandi vernd þegar fyrir liggi í skýrslum alþjóðlegra stofnana að umfangsmikil opinber spilling sé til staðar í landinu og að réttarkerfið standi höllum fæti. Því er þess krafist að kæranda verði veitt staða flóttamanns á grundvelli A-liðar 1. gr. flóttamannasamningsins, sbr. 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga.

Kærandi kvað flutning innanlands ekki lengur mögulegan. Allt hafi verið reynt til […], en það hafi ekki borið árangur. Kærandi segir mikilvægt að hafa þetta í huga þegar aðstæður hans eru metnar í tengslum við möguleika til flutnings innanlands.

Þá er í greinargerð byggt á því að kærandi uppfylli öll skilyrði þess að hljóta viðbótarvernd þar sem hann sé í raunverulegri hættu á að verða fyrri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð af hálfu þeirra sem hafi hótað honum og að stjórnvöld séu ekki í stakk búin til að veita honum vernd. Því er gerð krafa um að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga.

Varðandi þrautavarakröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga er fjallað um heilsufar hans og málefni heilbrigðiskerfisins og aðgengi að lyfjum í […]. Er Útlendingastofnun gagnrýnd fyrir að styðjast við gögn frá árinu 2009 sem gefi ekki rétta mynd af raunverulegu ástandi heilbrigðismála í landinu.


V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga með síðari breytingum, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi lagt fram persónuskilríki útgefin í […] og teljist auðkenni hans staðfest. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé ríkisborgari […].

Landaupplýsingar

[…] er lýðræðisríki með um […] milljónir íbúa. […]. Samkvæmt stjórnarskrá landsins hafa ýmsir alþjóðlegir samningar lagagildi í […] og eru hluti af löggjöf landsins.

Kærunefnd útlendingamála hefur skoðað skýrslur um aðstæður í […], sbr. Freedom in the World 2015 – […] (Freedom House, […] 2015), […].

Ofangreindar skýrslur báru það með sér að almennt séu mannréttindi og grundvallarréttindi tryggð í […]. Lögreglan í […] sé almennt talin traustins verð þó svo að traustið til hennar sé mun meira á meðal […]. Heilt yfir virðist […] þó hafa náð litlum árangri í baráttu gegn spillingu í landinu og spilling virðist vera á öllum sviðum samfélagsins, mikið sé um mútugreiðslur, frændhygli og vinarhygli. Í ofangreindum gögnum kemur einnig fram […] og löggjöf landsins og lögreglu sé skylt að veita einstaklingum sem verða fyrir hótunum vernd. Aðgengi að grunnheilbrigðisþjónustu á að vera gjaldfrjálst en takmarkað aðgengi sé að slíkri þjónustu í hinu opinbera kerfi. Sjúklingar […] hafi almennt gott aðgengi að heilbrigðisstofnunum og lyfjum.

a. Aðalkrafa kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og stofnuninni verði gert að taka mál kæranda til meðferðar að nýju vegna brots á öryggisreglu. Ef kærunefnd telur sér rétt og fært að bæta úr þeim annmarka er þess krafist að hinni kærðu ákvörðun verði breytt og kærandi fái réttarstöðu flóttamanns skv. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, sbr. 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga.

Kærandi byggir aðalkröfu sína einkum á því að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga með því að hafa ekki byggt á atriðum er fram komu í frásögn kæranda hjá stofnuninni. Þannig hafi stofnunin byggt ákvörðun sína á rangfærslum um aðstæður kæranda og brotið gegn öryggisreglu.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skal Útlendingastofnun sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Um frekari afmörkun á hversu ítarlega beri að rannsaka mál, ber m.a. að líta til þess hversu mikilvægt það er. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður að gera til rannsóknar á þeim atvikum sem leiða til niðurstöðunnar. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Í þeim tilvikum þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á mati verður að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru svo hægt sé að beita þeim sjónarmiðum sem ætlun er að byggja stjórnvaldsákvörðun á. Að auki ef deilt er um málsatvik sem hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins ber stjórnvöldum að leggja áherslu á að rannsaka þann þátt þess.

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Kærandi byggir kröfu sína á að hann þurfi vernd hér á landi á grundvelli þess að annars verði lífi hans stefnt í hættu […] í heimalandi sínu. Kærandi segir yfirvöld í […] hvorki vilja né geta veitt honum fullnægjandi vernd.

Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í ákvæðinu, eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Þessi sjónarmið þurfa jafnframt ekki endilega að byggjast á persónulegri reynslu umsækjanda, heldur geta ofsóknir sem vinir hans eða ættingjar eða aðrir sem tilheyra sama þjóðfélagshópi hafa orðið fyrir, gefið til kynna að ótti hans við að verða fyrr eða síðar fórnarlamb ofsókna sé ástæðuríkur.

Í 44. gr. a útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir, á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggt og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Til þess að um sé að ræða ofsóknir skv. 1. mgr. 44. gr. verður að vera um að ræða athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær eru endurteknar, fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samansafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 3. mgr. 44. gr. a eru taldir upp þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þar segir að:

Þeir sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eru:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, og

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið þessarar málsgreinar, þar með talið alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 44. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Þótt fallist sé á að einstaklingur í þessari aðstöðu skuli njóta vafans upp að ákveðnu marki, verður kærandi a.m.k. að sýna fram á að líkur séu á að hans bíði ofsóknir í […]. Samkvæmt meginreglum um túlkun flóttamannahugtaksins sem fram koma í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, er m.a. miðað við það að viðkomandi þurfi almennt að sýna fram á að góðar ástæður liggi til grundvallar ótta við ofsóknir og að hugarástand flóttamannsins skipti ekki eitt máli heldur verði yfirlýsing hans einnig að fá stuðning í hlutlægum og staðreynanlegum aðstæðum (Handbók um réttarstöðu flóttamanna. Um málsmeðferð og skilyrði samkvæmt flóttamannasamningnum frá 1951 og bókun frá 1967 um réttarstöðu flóttamanna (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Reykjavík 2008).

Kærunefndin fellst á það sjónarmið kæranda að meðlimir fjölskyldu […] geti talist vera sérstakur þjóðfélagshópur í skilningi d-liðar 2. mgr. 44. gr. a. Sá skilningur er í samræmi við leiðbeiningar frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna […].

Kærandi kveður […].

Kærandi hefur staðhæft að enga aðstoð sé að fá frá lögreglu og yfirvöldum í […] þegar kemur að […]. Sú staðhæfing fær ekki stuðning í þeim gögnum sem kærunefndin hefur yfirfarið. Þrátt fyrir að gögnin beri það með sér að mikil spilling sé ríkjandi í réttarkerfi […] þá kemur fram í gögnunum að hærri refsing sé fyrir morð sem framin eru […] og að brotamenn séu sóttir til saka og þeir dæmdir til refsingar.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða áreiti af hendi yfirvalda í […]. Almennt ferðafrelsi gildir samkvæmt lögum landsins og hafa stjórnvöld almennt virt þann rétt fólks. Er það því mat kærunefndar að þó svo fallist væri á að kærandi ætti í raunverulegri […] í heimalandi sínu þá hafi hann raunhæfan möguleika á að leita sér ásjár stjórnvalda þar. Styðja heimildir ekki þá staðhæfingu kæranda að stjórnvöld í […] skorti vilja eða getu til að veita kæranda fullnægjandi vernd óski hann eftir henni við þau. Að öllu framangreindu virtu telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga fyrir veitingu stöðu flóttamanns.

Þá verður ekki fallist á það með kæranda að slíkur ágalli sé á rannsókn málsins að ógilda beri ákvörðun Útlendingastofnunar. Verður ekki annað séð en að Útlendingastofnun hafi leitað upplýsinga um […] og viðbrögð yfirvalda þar í landi. Þá verður það ekki talið hafa haft áhrif á niðurstöðu í máli kæranda hvort honum hafi borist hótanir eða verið veitt eftirför þar sem Útlendingastofnun byggði á því að kærandi geti leitað til lögreglu og yfirvalda telji hann sig í hættu.

b. Varakrafa kæranda

Til vara krefst kærandi þess að hinni kærðu ákvörðun verði breytt á þann hátt að honum verði veitt viðbótarvernd, sbr. 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga.

Í 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga er kveðið á um að flóttamaður samkvæmt lögunum telst einnig útlendingur sem telst ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands. Er hér um að ræða svokallaða viðbótarvernd sem kom inn í útlendingalögin með lögum nr. 115/2010 um breytingar á útlendingalögum. Þeir sem teljast falla undir þessa málsgrein fá stöðu sína viðurkennda eftir málsmeðferðarreglum sem eru sambærilegar að öllu leyti við ákvörðun á því hvort um flóttamann skv. 1. mgr. 44. gr. laganna er að ræða.

Í ljósi þess sem að framan er rakið telur kærunefndin að aðstæður kæranda í heimalandi hans séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 44. gr. laganna. Þá telur kærunefndin ekkert fram komið sem bendir til þess að hætt sé við því að kærandi sæti ómannúðlegri og/eða vanvirðandi meðferð við heimkomuna, sbr. 2. mgr. 44. og 1. mgr. 45 gr. laganna.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi hafnað.

c. Þrautavarakrafa kæranda

Til þrautavara þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f útlendingalaga.

Samkvæmt 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Í athugasemdum við 2. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 115/2010 um breytingar á lögum um útlendinga nr. 96/2002 er fjallað ítarlegar um þau viðmið sem nefnd eru í 2. mgr. 12. gr. f og segir meðal annars að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé miðað við atriði á borð við það hvort um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm er að ræða sem meðferð er til við hér á landi en ekki í heimalandi viðkomandi. Ef um langvarandi sjúkdóm er að ræða séu ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi þegar sjúkdómur er á lokastigi. Jafnframt sé rétt að líta til þess hvort meðferð hefur hafist hér á landi og ekki er læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varða félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Kærandi ber því við að hann þjáist […] og þarfnist reglulegrar og stöðugrar lyfjagjafar vegna sjúkdómsins. Þar sem hann fái ekki vinnu og hafi því takmarkaðar tekjur þá sé erfitt fyrir hann að fá þá þjónustu og lyf sem honum eru nauðsynleg í heimalandi.

Þau gögn sem kærunefndin hefur farið yfir við meðferð máls kæranda benda til þess að stjórnvöld í […] séu meðvituð um þann vanda sem til staðar er í heilbrigðiskerfi landsins og hafi, m.a. með stuðningi alþjóðasamfélagsins, unnið að því síðustu misseri að bæta úr og tryggja betra aðgengi að grundvallarheilbrigðisþjónustu. Upplýsingar varðandi sjúklinga með […] gefa til kynna að slíkir sjúklingar eigi almennt auðvelt aðgengi að heilbrigðisstofnunum til reglulegrar meðferðar og að þekking á sjúkdómnum virðist vera til staðar í landinu.

[…]

Samkvæmt framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, í málum þar sem til álita kemur að flytja veikan einstakling úr landi, er einungis um brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans að ræða við sérstakar aðstæður þar sem fyrir hendi eru afar rík mannúðarsjónarmið, sbr. m.a. dóm í máli Tatar gegn Sviss frá 14. apríl 2015. Veikur einstaklingur á ekki kröfu til þess að vera áfram í aðildarríki til þess að njóta áfram heilbrigðis- eða félagslegrar þjónustu veitta af endursendingarríki. Jafnvel þó að lífslíkur einstaklingsins minnki verulega við brottvísun frá aðildarríki mannréttindasáttmálans þá er það eitt og sér ekki nóg til þess að um brot á 3. gr. sáttmálans sé að ræða.

Kærunefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga og teljist því ekki flóttamaður. Þegar framburður kæranda er virtur í heild sinni ásamt gögnum málsins er það niðurstaða kærunefndar að hann hafi heldur ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd eins og kveðið er á um í 12. gr. f útlendingalaga og að aðstæður kæranda í […] séu ekki með þeim hætti að rík mannúðarsjónarmið standi til þess að veita honum dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga.

Þá tekur kærunefndin jafnframt undir niðurstöðu Útlendingastofnunar hvað varðar tengsl kæranda við landið og það að hann uppfylli ekki skilyrði 12. gr. f útlendingalaga um sérstök tengsl. Eins og fram kemur í gögnum málsins hefur kærandi aðeins dvalið hér á landi í tengslum við hælisumsókn sína.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar frá 30. mars 2015.

 

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. útlendingalaga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin

 

Úrskurðarorð


Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The Directorate of Immigration‘s decision is affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

   

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                                                Oddný Mjöll Arnardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta