Hoppa yfir valmynd
29. október 2015 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 165/2015

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 Þann 29. október 2015 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 165/2015

í stjórnsýslumáli nr. KNU15070002


Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 10. júlí 2015, kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. júlí 2015, að synja honum um hæli á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga nr. 96/2002 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns skv. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga m útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt viðbótarvernd sbr. 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.


II.         Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um hæli hér á landi þann 17. mars 2015 hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Kærandi var boðaður í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 10. apríl 2015 ásamt löglærðum talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 8. júlí s.á., synjaði Útlendingastofnun umsókn kæranda um hæli ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála við birtingu þann 10. júlí 2015, jafnframt óskaði kærandi eftir því að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað. Með bréfi, dags. 16. júlí 2015, féllst kærunefnd útlendingamála á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Með tölvupósti, dags. 16. júlí  2015, var löglærðum talsmanni kæranda veittur frestur til að leggja fram greinargerð í tilefni kærumálsins. Þann 11. ágúst 2015 barst kærunefnd útlendingamála greinargerð kæranda.

Þann 16. september 2015 kom kærandi fyrir kærunefnd útlendingamála og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b útlendingalaga.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.


III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði kærandi kröfu sína um hæli hér á landi á því að hann hafi flúið heimaland sitt þar sem hann væri […] og þarfnist lyfja sem hann geti ekki keypt í […] vegna bágrar efnahagsstöðu.

Í yfirferð Útlendingastofnunar um heilbrigðisþjónustu í […] kom fram að rekstur hennar sé að mestu í höndum stjórnvalda í […] að allir íbúar landsins séu skyldugir til að hafa sjúkratryggingu. Einnig séu lyf niðurgreidd af ríkinu. Gæði heilbrigðisþjónustunnar séu talsvert lakari en í öðrum vestrænum ríkjum en þjónustan hafi tekið framförum á síðustu árum og sérhæfing sé að aukast. Því sé ljóst að almenningur hafi greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu í landinu og að ekki sé trúverðugt að kærandi hafi engan rétt til fjárhagsaðstoðar í […] vegna kaupa á lyfjum.

Útlendingastofnun kvað kæranda ekki hafa borið því við að hafa sætt mismunun eða ofsóknum stjórnvalda eða annarra í heimalandi sínu og að hann væri fyrst og fremst að sækja um hæli á Íslandi vegna efnahagslegra ástæðna. Samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og lögum nr. 96/2002 um útlendinga megi ráða að efnahagslegar aðstæður skapi ekki grundvöll fyrir alþjóðlegri vernd útlendinga þannig að þeim verði veitt hæli af þeim sökum. Var það því mat stofnunarinnar að ekki væri um að ræða að kærandi hefði ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tileknum þjóðfélagshóp eða stjórnmálaskoðana. Þá var ekki talið að kærandi ætti á hættu að sæta dauðarefsingu, pyntingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands. Synjaði því stofnunin kæranda um hæli hér á landi, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga og taldi aðstæður hans ekki falla undir 2. mgr. 44. gr. eða 1. mgr. 45. gr. sömu laga.

Varðandi kröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laganna greinir í ákvörðun Útlendingastofnunar að ekki verði talið að kærandi sé í þeirri aðstöðu í […] að hann eigi á hættu að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Því þótti ekki ástæða til að veita kæranda dvalarleyfi með vísan til mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla hans við Ísland.

Að lokum var kæranda vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 18. gr. útlendingalaga. Útlendingastofnun ákvað að kæra frestaði ekki framkvæmd ákvörðunar hennar með vísan til c-liðar 1. mgr. 32. gr. útlendingalaga.


IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kvaðst kærandi vera frá bænum […] en hafi búið síðast í bænum […]. Kærandi kvaðst vera að flýja heimaland sitt vegna þess að hann hafi ekki ráð á lyfjum og þjónustu sem hann þarfnast vegna […]. Hann hafi verið ótryggður þegar áfallið reið yfir og af þeim sökum ekki átt rétt á fjárhagsaðstoð frá ríkinu. Kærandi hafi verið óvinnufær eftir þetta en hafi ekki átt rétt á atvinnuleysis- eða örorkubótum og því hafi hann ekki séð aðra lausn en að flýja land. Kærandi gerði grein fyrir því hjá Útlendingastofnun að hann hafi leitað fjárhagsaðstoðar hjá stjórnvöldum í heimalandi sínu en verið synjað. Hann lagði fram gögn frá heilbrigðisstofnunum í […] um þann kostnað sem hann hafi hlotið af veikindum sínum sem og um fjárhæð þess styrks sem hann hafi fengið í upphafi vegna þeirra. Líkt og hann hafi tjáð Útlendingastofnun í viðtali þá eigi hann ekki rétt á þeim styrk lengur.

Í greinargerð er Útlendingastofnun sögð hafa brotið gegn rannsóknarskyldu sinni með því að fullyrða um rétt kæranda til fjárhagsaðstoðar án þess að vísa til nokkurra gagna eða heimilda. Ljóst sé að mál kæranda hafi ekki verið skoðað ofan í kjölinn af hálfu stofnunarinnar og aðstæður þær sem bíði kæranda ekki verið kannaðar til hlítar. Stofnunin hafi aðeins metið ástand mála í […] almennt en ekki litið til aðstæðna kæranda sérstaklega. Verði því talið að um alvarlegan annmarka á ákvörðuninni sé að ræða.

Í greinargerð segir ennfremur að þrátt fyrir viðleitni stjórnvalda í […] til framfara á síðustu árum þá sé […] fátækt land þar sem ríki mikil spilling sem fyrirfinnist í öllum þáttum hins opinbera geira. Það sé þekkt að þrátt fyrir að heilbrigðiskerfið í […] eigi að vera opinbert og þjónusta veitt þar á jafnræðisgrundvelli þá taki heilbrigðisstarfsfólk við mútum frá einstaklingum sem leiti þjónustu þeirra. Einnig sé aðeins 20-25% þjóðarinnar sjúkratryggð og litlu fé sé veitt í heilbrigðiskerfið. Lyf séu að mestu leyti seld af einkaaðilum og þrátt fyrir að stjórnvöld eigi að hafa eftirlit með lyfjum sem seld eru þá séu lyf ekki niðurgreidd nema að litlu leyti.

Þá segir varðandi varakröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga að veita ætti kæranda slíkt leyfi á grundvelli heilsufarsástæðna þar sem að honum sé ómögulegt að greiða fyrir þau lyf og læknisaðstoð sem honum sé lífsnauðsynleg í heimalandi sínu og því sé líf hans í hættu þar.


VI.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að þegar kærandi sótti um hæli á Íslandi hafi hann framvísað […] vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé […] ríkisborgari.

Landaupplýsingar

[…] er lýðræðisríki með um […] milljónir íbúa og eru mannréttindi almennt virt af stjórnvöldum þar í landi. […] gerðist aðili að Evrópuráðinu árið 1995 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu árið 1996. Landið gerðist aðili að sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2006, flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna […] 1992, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi […] 1991 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu […] 1994.

Kærunefnd útlendingamála hefur skoðað m.a. Combined second, third and fourth periodic reports of States parties due in 2009 (Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna, nóvember 2009), […], […] 2014 Human Rights Report (United States Department of State, 25. júní 2015), Council of Europe Project Against Corruption in […], Preliminary Analysis on […] Health System Financing and Corruption (Evrópuráðið, júlí 2010), […] Public Finance Review Part II: Improving the Efficiency and Quality of Public Spending (World Bank, Maí 2014), vefsíða ILO – Social Protection, […] (sótt 24. ágúst 2015)

Í ofangreindum gögnum kemur m.a. fram að unnið hefur verið að úrbótum í heilbrigðisþjónustu í […] síðustu ár og sjúkratryggingakerfi á að tryggja jafnt aðgengi að grunnheilbrigðisþjónustu fyrir alla. Ennfremur vinna stjórnvöld markvisst gegn spillingu innan heilbrigðiskerfisins sem hefur verið nokkur og algengt að einstaklingar greiði læknum og hjúkrunarfólki aukagreiðslur gegn betri þjónustu. Þar sem […] þá er hægt að sækja til sambandsins hvatningu, aðhald og fjármuni til að bæta úr og því má búast við því að jákvæð þróun verði í heilbrigðismálum sem og öðrum málum í […] á næstu misserum. Félagslega kerfið í […] hefur einnig gengið í gegnum ýmsar breytingar á undanförnum árum og er því ætlað að tryggja einstaklingum sem á þurfa að halda fjárhagslega aðstoð frá ríki og/eða sveitarfélögum.

a. Aðalkrafa kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og breytt á þann veg að kærandi fái réttarstöðu flóttamanns skv. 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna.

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Kærandi byggir kröfu sína á að hann þurfi vernd hér á landi á grundvelli þess að annars verði lífi hans stefnt í hættu vegna þess að hann hafi ekki ráð á lífsnauðsynlegri meðferð og lyfjum í heimalandi sínu.

Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í ákvæðinu, eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Þessi sjónarmið þurfa jafnframt ekki endilega að byggjast á persónulegri reynslu umsækjanda, heldur geta ofsóknir sem vinir hans eða ættingjar eða aðrir sem tilheyra sama þjóðfélagshópi hafa orðið fyrir, gefið til kynna að ótti hans við að verða fyrr eða síðar fórnarlamb ofsókna sé ástæðuríkur.

Í 44. gr. a útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir, á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggt og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Til þess að um sé að ræða ofsóknir skv. 1. mgr. 44. gr. verður að vera um að ræða athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær eru endurteknar, fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samansafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 3. mgr. 44. gr. a eru taldir upp þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þar segir að:

Þeir sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eru:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, og

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið þessarar málsgreinar, þar með talið alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 44. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Þótt fallist sé á að einstaklingur í þessari aðstöðu skuli njóta vafans upp að ákveðnu marki, verður kærandi a.m.k. að sýna fram á að líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimalandi. Samkvæmt meginreglum um túlkun flóttamannahugtaksins sem fram koma í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, er m.a. miðað við það að viðkomandi þurfi almennt að sýna fram á að góðar ástæður liggi til grundvallar ótta við ofsóknir og að hugarástand flóttamannsins skipti ekki eitt máli heldur verði yfirlýsing hans einnig að fá stuðning í hlutlægum og staðreynanlegum aðstæðum (Handbók um réttarstöðu flóttamanna. Um málsmeðferð og skilyrði samkvæmt flóttamannasamningnum frá 1951 og bókun frá 1967 um réttarstöðu flóttamanna (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Reykjavík 2008)).

Kærandi kveður ástæðu þess að hann hafi flúið heimaland sitt vera að hann fái ekki vinnu í heimalandi og án vinnu hafi hann ekki efni á að greiða fyrir lífsnauðsynlega meðferð og lyf. Kærandi hefur því ekki borið fyrir sig ofsóknir af ástæðum sem taldar eru upp í 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga, þ.e. á grundvelli kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga fyrir veitingu réttarstöðu flóttamanns.

b. Varakrafa kæranda

Til vara krefst kærandi þess að hinni kærðu ákvörðun verði breytt á þann hátt að honum verði veitt viðbótarvernd, sbr. 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga.

Í 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga er kveðið á um að flóttamaður samkvæmt útlendingalögum telst einnig útlendingur sem telst ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands. Er hér um að ræða svokallaða viðbótarvernd sem kom inn í útlendingalögin með lögum nr. 115/2010 um breytingar á útlendingalögum. Þeir sem teljast falla undir þessa málsgrein fá stöðu sína viðurkennda eftir málsmeðferðarreglum sem eru sambærilegar að öllu leyti við ákvörðun á því hvort um flóttamann skv. 1. mgr. 44. gr. laganna er að ræða.

Í ljósi þess sem að framan er rakið telur kærunefndin að aðstæður kæranda í heimalandi hans séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 44. gr. laganna. Þá telur kærunefndin ekkert fram komið sem bendir til þess að hætt sé við því að kærandi sæti ómannúðlegri og/eða vanvirðandi meðferð við heimkomuna, sbr. 2. mgr. 44. og 1. mgr. 45 gr. laganna.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi hafnað.

c. Þrautavarakrafa kæranda

Samkvæmt 12. gr. f útlendingalaga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Kærandi ber því við að hann hafi […] í heimalandi sínu. Vegna veikindanna þurfi hann reglulegt eftirlit og nauðsynleg lyf. En þar sem hann hafi ekki vinnu og því engar eða afar litlar tekjur þá sé erfitt fyrir hann að fá þá þjónustu og lyf sem honum eru nauðsynleg í heimalandi.

Þau gögn sem kærunefndin hefur farið yfir við meðferð máls kæranda benda til þess að stjórnvöld í […] séu meðvituð um þann vanda sem til staðar er í heilbrigðiskerfi landsins og hafi unnið að því síðustu misseri að bæta úr og tryggja betra aðgengi að grundvallar heilbrigðisþjónustu. Sérstaklega hefur verið unnið að því að setja upp sjúkratryggingakerfi sem eigi að ná til allra landsmanna en einnig hefur verið unnið að því að uppræta spillingu innan heilbrigðiskerfisins. Ennfremur er til staðar félagslegt tryggingakerfi í […].

Samkvæmt framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, í málum þar sem til álita kemur að flytja veikan einstakling úr landi, er einungis um brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans að ræða við sérstakar aðstæður þar sem fyrir hendi eru rík mannúðarsjónarmið, sbr. m.a. dóm í máli Tatar gegn Sviss frá 14. apríl 2015. Veikur einstaklingur á ekki kröfu til þess að vera áfram í aðildarríki til þess að njóta áfram heilbrigðis- eða félagslegrar þjónustu veitta af endursendingarríki. Þó að lífslíkur einstaklingsins minnki við brottvísun frá aðildarríki mannréttindasáttmálans þá er það eitt og sér ekki nóg til þess að um brot á 3. gr. sáttmálans sé að ræða.

Kærunefndin telur að í ljósi þeirra gagna sem hún hefur yfirfarið verði að telja ljóst að sú meðferð sem kærandi þarfnast sé til staðar í heimlandi hans og þau lyf sem eru honum nauðsynleg. Kærandi hefur ekki verið í sérstakri meðferð hér á landi og hefur borið að heilsufar hans sé gott og á meðan hann hafi lyfin geti hann unnið og lifað eðlilegu lífi.

Kærunefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga og teljist því ekki flóttamaður. Þegar framburður kæranda er virtur í heild sinni ásamt gögnum málsins er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi heldur ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 12. gr. f útlendingalaga og að engin sérstök mannúðarsjónarmið standi til þess að honum verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í […] séu ekki með þeim hætti að rík mannúðarsjónarmið standi til þess að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarástæðna skv. 12. gr. f útlendingalaga.

Jafnframt telur kærunefndin kæranda ekki uppfylla skilyrði 12. gr. f útlendingalaga um sérstök tengsl við landið. Eins og fram kemur í gögnum málsins hefur kærandi aðeins dvalið á Íslandi í tengslum við hælisbeiðni sína og aðeins í skamman tíma.

Ætlað brot á reglum stjórnsýslulaga

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skal Útlendingastofnun sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Um frekari afmörkun á hversu ítarlega beri að rannsaka mál, ber m.a. að líta til þess hversu mikilvægt það er. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður að gera til rannsóknar á þeim atvikum sem leiða til niðurstöðunnar. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Í þeim tilvikum þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á mati verður að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru svo hægt sé að beita þeim sjónarmiðum sem ætlun er að byggja stjórnvaldsákvörðun á.

Kærunefndin getur ekki fallist á það með kæranda að slíkur ágalli sé á rannsókn málsins að ógilda beri ákvörðun Útlendingastofnunar. Við mat á því hvort brot á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga leiði til ógildingar á ákvörðun Útlendingastofnunar er rétt að styðjast við hinn sérstaka mælikvarða. Í því felst að ákvörðun stofnunarinnar er aðeins ógildanleg ef sannanlegt er að annmarkinn hafi haft áhrif á efni ákvörðunar hennar. Þó fallist verði á það með kæranda að Útlendingastofnun hefði verið rétt að afla nýrri gagna um aðgengi að heilbrigðiskerfi í […] þá verður það ekki talið hafa haft áhrif á niðurstöðu í máli kæranda. Einkum þar sem að þau gögn sem stofnunin vísar til í ákvörðun sinni eru í samræmi við nýlegri heimildir og hefur staða í heilbrigðismálum í landinu aðeins batnað frá því sem var eftir að […].

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar frá 8. júlí 2015.

 Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin

 

Úrskurðarorð

 Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The Directorate of Immigration‘s decision is affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

 

 Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                                                Pétur Dam Leifsson

 


 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta