Hoppa yfir valmynd
11. september 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Breytingar á örorkulífeyriskerfinu og hækkun á almennu frítekjumarki ellilífeyris

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. - mynd

Nýtt örorkulífeyriskerfi tekur gildi þann 1. september 2025. Kostnaður vegna breytinganna er á ársgrundvelli 18,1 milljarður króna en 4,4 milljarðar koma inn árið 2025 samkvæmt frumvarpi til fjárlaga sem birt var í gær.

Alþingi samþykkti í júní sl. frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, um breytingar á örorkulífeyriskerfinu. Yfirskrift breytinganna var Öll með og sagði ráðherra markmiðið vera einfaldara og réttlátara örorkulífeyriskerfi og bætt kjör og aukin tækifæri örorkulífeyrisþega til atvinnuþátttöku.

Aukin fjárframlög til örorkulífeyriskerfisins eru að mestu til komin vegna hærri greiðslna til örorkulífeyrisþega en um 95% þeirra munu fá hærri greiðslur í nýja kerfinu. Þá er áhersla lögð á hvata til atvinnuþátttöku og að ryðja burtu hindrunum fyrir þau sem geta og vilja fara út á vinnumarkað. Stuðningur er auk þess aukinn við fólk meðan á endurhæfingu þess stendur, samvinnu þjónustukerfa komið á og áhersla lögð á að hindra að fólk falli á milli kerfa.

Samhliða innleiðingu nýja kerfisins er nú unnið að margvíslegum aðgerðum til að styðja við fólk með mismikla starfsgetu og auka atvinnuþátttöku þess. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu bætast 150 milljónir króna árið 2025 við fjármagn sem fyrir er vegna slíkra vinnumarkaðsúrræða.

Hækkun almenns frítekjumarks ellilífeyris

Almennt frítekjumark ellilífeyris hækkar samkvæmt fjárlagafrumvarpinu um 46% eða sem nemur 138.000 krónum á ári á einstakling. Fyrirhugaðar breytingar taka gildi þann 1. janúar nk. og fylgir ellilífeyrir eftir það reglubundinni hækkun á bótum almannatrygginga, líkt og á við um frítekjumörk í örorkulífeyriskerfinu eftir lagabreytingar þar að lútandi síðastliðið vor. Í frumvarpinu er einnig kveðið á um 200 milljóna króna viðbótarframlag vegna Gott að eldast en þar taka stjórnvöld utan um þjónustu við eldra fólk með nýjum hætti.

Þá hækka bætur almannatrygginga um 4,3% nú um áramótin vegna launa og verðlags. Hækkunin nemur 4,5 milljörðum króna vegna örorku og endurhæfingar og 5 milljörðum króna vegna ellilífeyris.

Aukin íslenskukennsla fyrir innflytjendur

Í frumvarpi til fjárlaga er einnig að finna 400 milljóna króna fjárframlag vegna nýrra verkefna hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu sem byggja á heildarsýn ríkisstjórnarinnar í málefnum flóttafólks og innflytjenda frá því í febrúar fyrr á þessu ári. Aðgerðir ráðuneytisins lúta meðal annars að því að auka íslenskukennslu fyrir innflytjendur og er það í takt við nýbirta úttekt um innflytjendur á Íslandi sem ráðuneytið fékk OECD til að vinna.

Loks má nefna 6,3 milljarða króna aukin fjárframlög sem fara í gegnum félags- og vinnumarkaðsráðuneytið vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þann 1. janúar 2025 hækka hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi til að mynda úr 700.000 krónum á mánuði upp í 800 þúsund krónur, auk þess sem skólamáltíðir í grunnskólum landsins voru gerðar gjaldfrjálsar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta