Afganistan: Óttinn hefur raungerst
„Liðnir eru 344 dagar síðan talíbanar tóku völd í Afganistan. Fyrir flestar afganskar konur og stúlkur hefur hver dagur frá 15. ágúst 2021 haft í för með sér nýjar takmarkanir á réttindum þeirra, aðbúnaði og samfélagslegri þátttöku. Þegar ég flutti síðast erindi á þessum vettvangi, mánuði eftir valdatökuna, sagði ég að þær framfarir sem orðið höfðu á réttindum afganskra kvenna og stúlkna væru í hættu. Í dag er ég hér komin til að segja ykkur að sá ótti hefur raungerst,“ sagði Alison Davidian fulltrúi UN Women í Afganistan í erindi hjá Sameinuðu þjóðunum á dögunum.
Tæpt ár er liðið frá því talíbanar hrifsuðu til sín völdin í Afganistan. Alison sagði að frá þeim tíma hafi hún orðið vitni að því hvernig réttindi kvenna hefðu verið frá þeim tekin og ofbeldi aukist í þeirra garð. Hún nefndi dæmi:
- Afganistan er eina landið í heiminum þar sem stúlkum er bannað að stunda gagnfræðiskólanám.
- Konum er bannað að vinna utan heimilisins, ef frá eru talin nokkur sértæk störf.
- Engar konur eru í stjórnunarstöðum lengur og Kvennamálaráðuneytið hefur verið afnumið. Konum hefur verið bannað að taka þátt í stjórnmálum.
- Konur eru neyddar til að ferðast með karlkyns velsæmisverði séu þær að ferðast lengra en 78 kílómetra.
- Konum ber skylda til að hylja andlit sitt utan heimilisins.
„Þessar reglur takmarka mjög getu kvenna til að vinna fyrir sér og fjölskyldum sínum, sækja sér heilbrigðisþjónustu eða menntun og takmarka um leið getu Afganistans til að vinna sér leið úr þeim efnahagsþrengingum sem landið gengur í gegnum. Ekkert af því sem ég segi ykkur er lengur fréttnæmt. Erindi mitt í dag fjallar um hvaða þýðingu þessi boð og bönn hafa á hversdag kvenna og stúlkna í Afganistan – konur og stúlkur sem ég hef hitt í gegnum starf mitt í öllum héruðum landsins. Konur sem hefðu þar til nýlega sjálfar geta flutt þetta erindi en mega í dag ekki yfirgefa heimili sín, mæta í vinnu eða sýna andlit sitt opinberlega.“
Nánar á vef UN Women en einnig má horfa má á erindi Alison Davidian hér.