Bætt verklag við frávísanir og brottvísanir umsækjenda um alþjóðlega vernd
Samkvæmt útlendingalögum annast lögregla framkvæmd ákvarðana um frávísanir og brottvísanir útlendinga sem ekki hafa rétt til dvalar hérlendis. Undanfarna mánuði hafa ríkislögreglustjóri, Útlendingastofnun og innanríkisráðuneytið farið yfir verklag við framkvæmd mála þegar hælisleitendur eiga í hlut. Þá standa yfir viðræður við Mannréttindaskrifstofu Íslands um að skrifstofan taki að sér eftirlit með framkvæmd brottvísana.
Markmiðið er að gera verkferla í þessum málum aðgengilega og gagnsæja en um leið að bæta framkvæmdina. Hér eftir sem hingað til verður lögð áhersla á að framkvæmd ákvarðana fari faglega fram og með virðingu fyrir mannlegri reisn.
Í fyrsta lagi hefur verið unnið að endurskoðun á fyrirkomulagi við undirbúning og samskipti þegar einstaklingur hefur fengið synjun um dvöl. Sérstakur starfsmaður hjá Útlendingstofnun mun annast utanumhald mála og samskipti við alla hlutaðeigandi. Þrátt fyrir að í velflestum málum sé um að ræða framkvæmd á grundvellli úrskurðar kærunefndar útlendingamála eða á grundvelli dóms þykir rétt að Útlendingastofnun hafi yfirsýn og utanumhald um framkvæmd mála.
Að auki mun viðkomandi starfsmaður vinna að þróun og eflingu þess úrræðis að einstaklingar fari sjálfviljugir af landi brott en með nýsamþykktum lögum um útlendinga hefur aukin áhersla verið lögð á þá leið.
Í öðru lagi hefur verið undirritaður samningur á milli Útlendingastofnunar og IOM (International Organization for Migration) um aðstoð við fylgd til heimaríkis, óski hælisleitandi eftir því sjálfur. Með þessum samningi og nýsamþykktum lagabreytingum verður hægt að bjóða þeim sem þess óska að fara af landi brott án afskipta yfirvalda og jafnvel með fjárhagsstuðningi. Um tilraunaverkefni er að ræða en sambærilegt fyrirkomulag er til staðar í öllum nágrannaríkjum Íslands og hefur gefist vel. Samningurinn kemur til framkvæmda 1. ágúst næstkomandi.
Í þriðja lagi er verkferill sem lögregla og Útlendingastofnun vinna eftir við framkvæmd ákvarðana stöðugt til endurskoðunar. Verkferillinn hefur nú verið birtur á vefsíðu Útlendingastofnunar.
Að endingu vill ráðuneytið upplýsa að nú standa yfir viðræður milli þess og Mannréttindaskrifstofu Íslands um að skrifstofan taki að sér eftirlit með framkvæmd brottvísana. Tilgangur samstarfsins er að koma á fót sjálfstæðu eftirlitskerfi á þessu sviði.