Ríkisstjórnin samþykkir lista yfir forgangsmál fyrir hagsmunagæslu Íslands í EES-samstarfinu
Ríkisstjórnin samþykkti í morgun, að tillögu forsætisráðherra og utanríkisráðherra, forgangslista fyrir hagsmunagæslu í EES-samstarfinu. Þar eru skilgreind helstu hagsmunamál Íslands á meðal þeirra málefna sem eru í lagasetningarferli innan Evrópusambandsins.
Forgangslistinn var unninn í samvinnu allra ráðuneyta og að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis og hagsmunaaðila. Spannar listinn allt frá loftslagsmálum til reglna um útsenda starfsmenn. Listinn nær til tímabilsins 2016-2017 og munu íslensk stjórnvöld kappkosta að fylgjast grannt með framvindu þeirra mála sem tiltekin eru á forgangslistanum og koma sjónarmiðum Íslands á framfæri við umfjöllum um þau innan stofnana Evrópusambandsins. Gengið er út frá því að listinn verði endurskoðaður um mitt ár 2017 og árangur þá metinn.
Gerð forgangslistans byggist á Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar frá 2014 þar sem áhersla var lögð á mikilvægi þess að greina snemma helstu hagsmunamál Íslands við mótun nýrrar löggjafar Evrópusambandsins.
Sjá einnig: Skýrsla stýrihóps fyrir hagsmunagæslu Íslands