Úthlutun til uppbyggingar í þágu fatlaðra
Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur staðfest tillögur stjórnar Framkvæmdasjóðs fatlaðra um úthlutun úr sjóðnum fyrir árið 2008. Alls voru til úthlutunar 1.032,5 milljónir króna. Stærstum hluta fjárins, um 800 milljónum króna, verður varið til uppbyggingar búsetuúrræða fyrir fatlaða.
Alls er veitt 595 milljónum króna í verkefni tengd straumhvörfum sem er átaksverkefni um eflingu þjónustu við geðfatlaða. Langstærstum hluta þess fjár verður varið til uppbyggingar búsetuúrræða fyrir geðfatlaða. Tæpum 200 milljónum króna verður varið til uppbyggingar búsetuúrræða fyrir aðra hópa fatlaðra og bættrar aðstöðu. Rennur það fé ýmist til kaupa á nýju húsnæði eða endurbóta á eldra húsnæði, auk kaupa á nauðsynlegum búnaði og hjálpartækjum. Um 60 milljónir króna fara í uppbyggingu húsnæðis fyrir skammtímavistun fatlaðra og um 10 milljónum króna verður varið til íþróttamála fatlaðra.
Til viðhalds fasteigna er úthlutað rúmum 111 milljónum króna, rúmum 26 milljónum króna er úthlutað í styrki vegna aðgengismála fatlaðra og 30 milljónum króna er úthlutað í styrki vegna framlags til félagslegra íbúða. Loks verður 1,5 milljónum króna varið í úttekt á sambýlum sem rekin eru af einkaaðilum og sjálfseignarstofnunum.
Framkvæmdasjóður fatlaðra er starfræktur á grundvelli laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992. Stjórnarnefnd um málefni fatlaðra sem skipuð er af félags- og tryggingamálaráðherra samkvæmt lögum fer með stjórn sjóðsins og gerir tillögur um úthlutanir úr honum til ráðherra. Í stjórnarnefnd um málefni fatlaðra sitja fulltrúar Öryrkjabandalags Íslands, Landssamtakanna Þroskahjálpar og Sambands íslenskra sveitarfélaga, auk tveggja fulltrúa félags- og tryggingamálaráðherra og fer annar þeirra með formennsku í nefndinni.