Nr. 120/2021 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 17. mars 2021 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 120/2021
í stjórnsýslumáli nr. KNU20120037
Kæra [...]
á ákvörðunum
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 18. desember 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. desember 2020, um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Þá kærði kærandi fyrir hönd barna sinna, [...], fd. [...] og [...], fd. [...], ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 8. desember 2020, þar sem þeim var synjað um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar við kæranda, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga verði samþykkt. Til vara er þess krafist að málinu verði vísað aftur til Útlendingastofnunar til frekari rannsóknar.
Kærandi krefst þess jafnframt að ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum barna hennar verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 69. gr. eða 1. mgr. 71. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að málum þeirra verði vísað aftur til Útlendingastofnunar til frekari rannsóknar og nýrrar meðferðar.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara þann 27. febrúar 2019. Þá sótti kærandi um dvalarleyfi fyrir hönd barna sinna á grundvelli fjölskyldusameiningar þann sama dag. Með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 8. desember 2020, var umsóknunum synjað. Þann 18. desember 2020 kærði kærandi ákvarðanirnar til kærunefndar útlendingamála. Greinargerðir kæranda og barna hennar bárust kærunefnd þann 19. janúar 2021 ásamt fylgigagni.
III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að við vinnslu umsóknar kæranda hafi komið í ljós að gögn með umsókninni væru ófullnægjandi og við gagnaöflun hafi vaknað grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis hér á landi. Hafi stofnunin átt í bréfaskiptum við lögmann kæranda og aflað sérfræðiálits hvað varðar áreiðanleika innsendra skjala og ljósmynda vegna þeirra atriða sem þótt höfðu benda til framangreinds gruns.
Er vísað til þess að kærandi hefði lagt fram, að því er sérfræðingar hjá vegabréfarannsóknarstofu lögreglustjórans á Suðurnesjum teldu, fölsuð gögn í málinu. Þá hefði kærandi, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir af hálfu Útlendingastofnunar, ekki lagt fram gögn sem sýnt gætu fram á regluleg samskipti sem talist gætu trúverðug á þeim tíma sem þau kváðust hafa þekkst og eftir að þau hafi gengið í hjúskap. Liti stofnunin á hjúskap kæranda og maka hennar sem hjúskap til málamynda til þess eins að kærandi fengi dvalarleyfi hér á landi og væri sú niðurstaða einna helst byggð á því að hún hefði gefið efnislega rangar og augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt b-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Lægju því fyrir atvik sem valdið geti því að útlendingi verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl, sbr. d-lið 1. mgr. 55. gr. laganna. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi uppfyllti ekki grunnskilyrði dvalarleyfis, sbr. 1. mgr. 69. gr. og d-lið 55. gr. laga um útlendinga og var umsókn hennar því synjað. Væri það jafnframt mat Útlendingastofnunar að fyrir lægi rökstuddur grunur um að kærandi og maki hefðu stofnað til hjúskapar í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfis, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Þá var umsóknum barna hennar, [...] og [...], jafnframt synjað enda leiddu þau rétt sinn af umsókn kæranda.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð vísar kærandi til þess að synjun Útlendingastofnunar sé aðallega byggð á því að kærandi hafi, af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi, gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögum um útlendinga. Af því leiði að kærandi uppfylli ekki grunnskilyrði dvalarleyfis, sbr. 1. mgr. 69. gr. og d-liðar 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga. Telur kærandi sérstaka ástæðu til að vekja athygli á að í fyrri samskiptum við Útlendingastofnun hafi ekki verið vikið að því að kærandi uppfyllti ekki grunnskilyrði fyrir dvalarleyfi, t.d. í bréfi stofnunarinnar frá 15. október 2020 og síðari tölvupóstum. Í ákvörðunarorðum hinnar kærðu ákvörðunar komi fram að umsókninni sé einnig synjað á grundvelli 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Sé að mati kæranda afar erfitt að átta sig á því hvaða efnisatriði stofnunin leggi til grundvallar við mat sitt á því að hjúskapur kæranda og maka hafi verið til málamynda. Eina efnisatriðið, sem hönd sé á festandi og Útlendingastofnun geri beint athugasemd við í ákvörðuninni, sé að stofnunin telji að kærandi hafi ekki getað lagt fram gögn um regluleg samskipti sem geti talist trúverðug á þeim tíma sem þau kveðist hafa þekkst og eftir að þau hafi gengið í hjúskap. Af hinni kærðu ákvörðun verði þannig ekki annað ráðið en að öðrum atriðum hafi verið svarað með fullnægjandi hætti, svo sem að maki kæranda eigi enn eign með fyrrverandi eiginkonu sinni og barnsmóður o.fl. Áréttar kærandi að stofnunin hafi ekki sent andmælabréf og hafi hún ekki fengið að njóta andmælaréttar, sbr. 12. gr. laga um útlendinga og IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Telur kærandi þau efnisatriði því ekki koma til frekari skoðunar.
Kærandi hafi hitt maka sinn fyrst árið 2011 þegar þau hafi bæði verið gift öðrum einstaklingum. Árið 2017 hafi þau tekið upp samskipti þegar þau hafi bæði verið í erfiðleikum í fyrri hjónaböndum, með þeim hafi tekist ástir og þau gengið í hjúskap í byrjun árs 2019. Hvað varði framlagðar myndir af kæranda og maka kæranda, þar sem maka kæranda var skeytt inn á myndirnar, hafi kærandi staðfest það 30. október 2020 en hún hafi talið sig vera að endurgera myndir af sér og maka sem hefðu eyðilagst þegar nýlegur farsími hennar hefði skemmst. Vekur kærandi athygli á því að af hinni kærðu ákvörðun megi ráða að skýrsla um rannsókn á stafrænum ljósmyndum hafi legið fyrir í febrúar 2020 en kærandi hafi fyrst verið spurð út í efni málsins í lok október 2020. Þá hafi kærandi ekki fengið afrit af þessari skýrslu lögreglu og þessa atriðis ekki getið í beiðni stofnunarinnar um viðbótargögn frá 15. október 2020. Þá sé í ákvörðuninni alfarið horft fram hjá 14 blaðsíðna samantekt sem send hafi verið í nóvember 2020 og sýni samskipti af handahófi fyrir tímabilið 2017-2020, ásamt tölvupósti og skýringum sem upplýst hafi að töluvert meira væri til af samskiptum vegna áranna 2019 og 2020. Fyrir liggi í málinu að Útlendingastofnun hafi upplýst aðeins um þann grun að innsendum myndum hefði verið breytt í símtali við lögmann kæranda í lok september 2020 og hafi kærandi komið skýringum strax á framfæri með tölvupósti lögmanns, dags. 1. október 2020. Þar komi skýrt fram að kærandi telji sig hvorki hafa verið að skila inn röngum eða villandi gögnum en um endurgerð sé að ræða af myndum af kæranda og maka sem útbúnar voru þar sem sími, þar sem myndir voru upphaflega, hefði skemmst. Kærandi efist því um að myndirnar séu rangar eða villandi; þvert á móti sé um að ræða endurgerð af myndum af hjónum saman en með þeim hafi verið ætlunin að bregðast við beiðni stofnunarinnar um myndir „af stundum“ sem maki og kærandi hafi átt saman. Hafi kærandi verið að afhenda gögn sem voru í samræmi við raunveruleg atvik í lífi hennar og maka.
Hvað varðar túlkun á ákvæði b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga hafi í Noregi fallið nokkur fjöldi úrskurða þar sem reyni á ákvæði norskra laga, sem samkvæmt athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga ákvæði laganna sé byggt á. Við mat á því hvort röng upplýsingagjöf teljist vera af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi hafi í framkvæmd aðallega verið horft til þess hvort hinar röngu eða misvísandi upplýsingar hafi haft mikilvæga þýðingu fyrir viðkomandi aðila, þar með talið hvort viðkomandi sé að reyna að fá dvalarleyfi í Noregi á fölskum eða röngum forsendum. Sé einnig horft til þess hvort hinar röngu eða misvísandi upplýsingar séu mikilvægar fyrir umsækjanda og þá sérstaklega hvort umsækjendur um dvalarleyfi séu að segjast vera yngri en þeir raunverulega eru. Önnur algeng dæmi séu rangt ríkisfang, rangur aldur, að viðkomandi sé með barni, framlagning rangra skjala eða yfirlýsing þriðja aðila og þess háttar. Að mati kæranda hafi framangreint hliðarskref, sem stigið hafi verið í kvíðakasti, enga þýðingu að lögum fyrir umsókn hennar á Íslandi vegna hjúskapar við íslenskan ríkisborgara. Þannig liggi skýrlega fyrir að öll önnur gögn og upplýsingar séu réttar og hafi framlagningu umræddra ljósmynda verið skýrmerkilega svarað án tafar eftir að stofnunin óskaði skýringa. Byggir kærandi á því að túlka verði framangreint ákvæði með hliðsjón af norskri og danskri framkvæmd en ljóst sé að þessar örfáu myndir hafi ekki mikilvæga þýðingu fyrir umsókn kæranda, auk þess sem skilyrði um ásetning eða stórkostlegt gáleysi sé ekki fyrir hendi. Séu skilyrði b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga ekki uppfyllt og uppfylli kærandi þar af leiðandi grunnskilyrði dvalarleyfis, sbr. 55. gr. laganna.
Kærandi byggir á því að brotið hafi verið á andmælarétti hennar, sbr. 12. gr. laga um útlendinga og 13. gr. stjórnsýslulaga. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 15. október 2020, hafi framangreinds efnisatriðis ekki verið getið og hvorki vísað til þess að kærandi uppfyllti ekki skilyrði d-liðar 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga né að ákvæðum 98. gr. yrði beitt. Þá hafi hvergi verið tilgreint að grunur væri um að hjúskapur kæranda og maka væri til málamynda og þá hvaða efnisatriðum sá grunur stjórnvaldsins byggðist á. Telji kærandi að gera verði strangar kröfur til málsmeðferðar í máli þessu, bæði þar sem um stjórnarskrárvarin mannréttindi sé að ræða og að til skoðunar komi að beita refsikenndum viðurlögum. Beri því að ógilda ákvörðunina þegar af þessari ástæðu og mæla fyrir um útgáfu dvalarleyfis til kæranda. Þá sé sá vafi uppi í málinu hvort hin kærða ákvörðun feli í sér frávísun við komu til Íslands, sbr. 106. gr. laga um útlendinga, en kærandi sé ekki stödd á landinu. Í öllu falli telji kærandi með hliðsjón af málsástæðum í málinu að beita beri ákvæði 3. mgr. 102. gr. laganna ef til frávísunar kæmi.
Þá byggir kærandi á því að 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga sé undantekningarákvæði sem feli í sér mikla skerðingu á rétti fólks til einkalífs og við túlkun á ákvæðinu beri að beita þröngri lögskýringu og vernda einstaklinga gegn ómálefnalegri íhlutun stjórnvalda í réttindi þeirra. Af því leiði að stjórnvöldum beri skylda til að framkvæma eigið mat og tryggja að slíkt mat fari raunverulega fram í hverju tilviki. Þá beri einnig að horfa til hugtaksins „rökstuddur grunur“, sem vísi m.a. til þess að eitthvað sé stutt ástæðum eða rökum. Kærandi vísar til úrskurðar kærunefndar nr. 83/2019 máli sínu til stuðnings. Ekkert í samskiptum kæranda og maka gefi minnsta grun um að til hjúskapar þeirra hafi verið stofnað til málamynda eða í annarlegum tilgangi. Er sérstök athygli vakin á því að synir kæranda taki þátt í ýmsum samskiptum þeirra og hafi því myndast tengsl á milli maka kæranda og tveggja barna kæranda. Þá vilji kærandi árétta að hvergi í umsóknargögnum eða leiðbeiningum Útlendingastofnunar segi að umsækjendur þurfi að huga að því að varðveita samskipti og að vanhöld á því kunni að leiða til þeirrar niðurstöðu, án frekari gagna, að hjúskapur sé til málamynda. Telur kærandi að slík röksemdarfærsla gangi ekki upp enda ljóst að ýmsir samfélagsmiðlar og símaforrit á netinu varðveiti gögn mislengi, auk þess sem aðilar séu misduglegir við varðveislu slíkra gagna. Eigi kærunefndin að veita Útlendingastofnun leiðbeiningar í þessum efnum, þar með talið að þá skuli koma skýrlega fram á umsóknarformum eða öðrum gögnum ef stofnunin telur máli skipta að þessi gögn liggi fyrir við afgreiðslu umsóknar um dvalarleyfi á Íslandi. Taki kærunefnd undir það mat Útlendingastofnunar að um rökstuddan grun um málamyndahjónaband sé að ræði byggir kærandi á því að henni hafi ekki verið gefið tækifæri á að sýna fram á annað með óyggjandi hætti. Af hálfu kæranda er einnig byggt á því að Útlendingastofnun hafi almennt ekki gætt að rannsóknarskyldu sinni við meðferð umsóknarinnar enda verði að gera ríkari kröfur til afgreiðslu stjórnvaldsins en hin kærða ákvörðun beri með sér þar sem um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða sem beinist að grundvallarmannréttindum um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu sem lögfest sé m.a. í 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærandi vísar þá jafnframt til meðalhófsreglu og sjónarmiða um jafnræði og m.a. til þess að dvalarleyfi kæranda yrði ávallt tímabundið og stjórnvald geti því gripið til annarra úrræða í kjölfar þess að dvalarleyfi hefur verið veitt, sé áframhaldandi grunur um málamyndahjúskap til staðar.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Niðurstaða Útlendingastofnunar í hinni kærðu ákvörðun er varðar kæranda er annars vegar byggð á því að kærandi uppfylli ekki grunnskilyrði dvalarleyfis þar sem fyrir liggi atvik sem geti valdið því að henni verði meinuð landganga eða dvöl samkvæmt ákvæðum laganna, sbr. d-lið 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga. Niðurstaða Útlendingastofnunar er jafnframt byggð á því að kærandi hafi ekki rétt til dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar þar sem rökstuddur grunur sé uppi um að til hjúskapar hennar og maka hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla slíks leyfis, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga.
Í d-lið 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga segir nánar tiltekið að eitt af grunnskilyrðum dvalarleyfis sé að ekki liggi fyrir atvik sem valdið geta því að útlendingi verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laga þessara. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga segir m.a. að þau atvik sem geti leitt til synjunar séu ákvæðin um frávísun og brottvísun en þau koma fram í XII. kafla laga um útlendinga. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er byggt á því að fyrir liggi atvik sem gætu leitt til brottvísunar kæranda samkvæmt b-lið 1. mgr. 98. gr. laganna en ákvæðið mælir fyrir um að heimilt sé að vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur brotið alvarlega eða margsinnis gegn einu eða fleiri ákvæðum laganna, hefur af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gefið efnislega rangar eða villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögunum eða kemur sér hjá að hlíta ákvörðun sem felur í sér að hann skuli yfirgefa landið.
Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um útlendinga tekur Útlendingastofnun ákvörðun um veitingu dvalarleyfis. Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. laganna skulu fylgja með umsókn öll þau gögn og vottorð sem stofnunin gerir kröfu um til staðfestingar á að umsækjandi uppfylli skilyrði sem lög, reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli kveða á um. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins setur ráðherra reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins, m.a. hvaða gögn og vottorð umsækjandi skuli leggja fram, hvaða kröfur skuli gerðar til framlagðra gagna, hver skuli leggja mat á gildi skjala og um undanþágu frá kröfu um gögn.
Í 10. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, hefur ráðherra útfært nánar reglur um fylgigögn með umsókn um dvalarleyfi. Í 1. mgr. 10. gr. segir að Útlendingastofnun geti krafist þeirra gagna sem nauðsynleg eru við vinnslu umsóknar, m.a. fæðingarvottorðs, hjúskaparstöðuvottorðs, forsjár- eða umgengnisgagna, heilbrigðisvottorðs, dánarvottorðs, og staðfestingu á dvalarstað hér landi. Þá geti stofnunin krafist ljósmynda, greinargerða, gagna um framfærslu og sakavottorðs í þeim tilvikum sem stofnunin meti það nauðsynlegt. Í 2. mgr. 10. gr. er mælt fyrir um að með umsókn um dvalarleyfi skuli umsækjandi leggja fram yfirlýsingu sína um að hann hafi hreinan sakaferil í samræmi við ákvæði laga um útlendinga. Í 3. mgr. 10. gr. segir m.a. að umsækjandi afli sjálfur nauðsynlegra fylgigagna með dvalarleyfisumsókn. Þá skuli fylgigögn vera á því formi sem stofnunin geri kröfu um og staðfest með þeim hætti sem stofnunin telji nauðsynlegan. Í 5. mgr. 10. gr. er m.a. kveðið á um að Útlendingastofnun geti veitt undanþágu frá framlagningu gagna þegar lög krefjist ekki framlagningar og málefnalegar ástæður mæli með því, t.d. ef umsækjanda er ómögulegt að afla þeirra, svo sem vegna stríðsástands í heimaríki.
Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara, sbr. 70. gr. laga um útlendinga, þann 27. febrúar 2019. Með bréfi, dags. 9. september 2019, óskaði Útlendingastofnun eftir frekari gögnum frá kæranda, m.a. staðfestingu á sambandi kæranda og maka. Kemur fram í bréfinu að óskað væri eftir myndum af kæranda og maka saman við hátíðarhöld, í ferðalögum sem og úr hversdagslegu lífi þeirra á mismunandi tímum. Einnig væri óskað eftir myndum af kæranda og maka með börnum hennar. Þá mætti kærandi einnig leggja fram önnur gögn til staðfestingar á sambandinu. Þann 16. október 2019 lagði kærandi fram frekari gögn. Með bréfi, dags. 25. október 2019, óskaði Útlendingastofnun eftir frekari gögnum frá kæranda, m.a. fleiri myndum af kæranda og maka saman við hátíðarhöld, á brúðkaupsdegi, í ferðalögum sem og úr hversdagslegu lífi þeirra á mismunandi tímum. Þá væri óskað eftir fleiri myndum við hin ýmsu tækifæri, af kæranda og maka saman í [...]. Útlendingastofnun ítrekaði þá beiðni með bréfi, dags. 27. janúar 2020, en í bréfinu kemur fram að eingöngu hefði verið skilað inn myndum sem sýndu skjáskot af kæranda og maka í sitthvoru lagi. Þann 12. febrúar 2020 lagði kærandi fram frekari gögn, þ. á m. ljósmyndir ásamt greinargerð. Kemur m.a. fram í meðfylgjandi greinargerð að ekki séu til myndir af brúðkaupsdegi þeirra en ástæðan fyrir því sé sú að ákveðið hafi verið að flytja skyldi jarðneskar leifar föður maka kæranda daginn eftir brúðkaupið. Sé það í samræmi við þarlenda siði, trúarbrögð og venjur, þ.e. að jarðneskar leifar séu fluttar nokkrum árum eftir andlát á varanlegan hvíldarstað sem almennt sé kirkjugarður viðkomandi fjölskyldu. Af því leiði að maki kæranda og fjölskylda hans hafi verið að undirbúa sig andlega fyrir áðurgreindan flutning sem fór fram daginn eftir brúðkaupið. Hafi því verið ákveðið að fresta því að hafa veislu á brúðkaupsdaginn en einnig beri að hafa í huga að brúðkaup í [...] sé í reynd skráning hjá sýslumanni. Af þessum sökum hafi engar myndir verið teknar á þessum degi en það stæði hins vegar til að halda veislu til heiðurs brúðhjónum eftir að kærandi væri komin til Íslands.
Þann 17. febrúar 2020 sendi Útlendingastofnun beiðni til lögreglunnar á Suðurnesjum um að taka til skoðunar stafrænar ljósmyndir, sjö að tölu, ásamt mynd af [...] vegabréfi. Var óskað eftir umsögn um hvort þrjár ljósmyndanna væru hugsanlega falsaðar, hvort um sama einstakling væri að ræða á tilgreindum ljósmyndum og hvort silfurkeðja sem sæist á tilgreindum myndum væri sú sama og silfurkeðja á öðrum tilgreindum myndum. Í skjalarannsóknarskýrslu lögreglunnar á Suðurnesjum, dags. 23. febrúar 2020, var það niðurstaðan að á myndum sem væru merktar nr. 1, 2 og 3 væru skýr merki um að átt hafi verið myndirnar á þann hátt að mynd af andliti karlsins, maka kæranda, hefði verið skeytt inn á myndirnar eftir að þær voru teknar. Hvað varðar andlitssamanburð kæmi ekkert fram sem stutt gæti við fullyrðingu um að ekki væri um andlit eins og sama mannsins að ræða á myndum af afriti á vegabréfi og myndum merktum a, b, c og d. Hvað varðar silfurkeðju sem sæist annars vegar á mynd nr. 5 og hins vegar á myndum merktum a, b, c og d væri ekki hægt að sýna fram á að um sömu silfurkeðjuna sé að ræða. Væri að öllum líkindum ekki um sömu keðjuna að ræða. Í tölvupósti lögreglufulltrúa hjá lögreglunni á Suðurnesjum til Útlendingastofnunar, dags. 23. febrúar 2020, segir að rétt sé að taka fram að rannsóknardeildin séu ekki „sérfræðingar“ í að skoða ljósmyndir með tilliti til þess hvort átt hafi verið við þær og ekki sé sjálfgefið að allir lögfræðingar eða dómstóll taki vitnisburðinn gildan. Rannsóknardeildin hafi þó vissulega reynslu í því við skilríkja- og skjalarannsóknir almennt að leita eftir smáatriðum og frávikum og halda sig við staðreyndir sem fram komi. Kærunefnd hefur einnig lagt sjálfstætt mat á umræddar ljósmyndir og telur engum vafa undirorpið að átt hafi verið við þær í myndvinnsluforriti þannig að skeytt hafi verið mynd af andliti maka kæranda inn á tilgreindar ljósmyndir eftir að þær voru teknar.
Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að lögmanni kæranda hafi verið kynnt niðurstaða skjalarannsóknarskýrslunnar þann 29. september 2020. Í greinargerð kæranda til kærunefndar er vísað til þess að umboðsmanni hennar hafi verið kynntar niðurstöður framangreindrar skjalarannsóknarskýrslu símleiðis í lok september 2020. Í tölvupósti umboðsmanns kæranda til Útlendingastofnunar, dags. 1. október 2020, kemur fram að maki kæranda hafi komið til [...] 25. desember 2018 og flogið aftur til Íslands þann 25. janúar 2019. Hafi kærandi sótt maka á flugvöllinn og þau dvalið saman fram að giftingu þann 11. janúar 2019. Þar sem maki kæranda hafi verið þátttakandi í því að sinna flutningi á gröf föður síns til hinsta hvíldarstaðar hafi samvera hans við kæranda aðeins varað í tvær vikur á þessum tíma. Á þessum stutta tíma hafi þau tekið fáar myndir af hvoru öðru auk þess sem ekki mörg tilefni hafi verið til að taka myndir. Í kjölfar þess að maki kæranda fór aftur til Íslands hafi sími kæranda skemmst og þar með þær fáu myndir sem teknar hefðu verið af samveru þeirra í lok desember 2018 og byrjun janúar 2019. Þegar kæranda hafi borist beiðni Útlendingastofnunar um ljósmyndir til að staðfesta samband þeirra hafi hún orðið mjög hrædd þar sem þær fáu myndir sem til hafi verið af þeim hefðu skemmst með símanum. Í stað þess að upplýsa um framangreint hafi kærandi tekið þá ákvörðun að reyna að endurgera myndir af þeim saman. Kæranda þyki það mjög miður en hafi talið sig vera að veita umbeðnar upplýsingar.
Kærandi lagði fram umræddar ljósmyndir í kjölfar ítrekaðra beiðna Útlendingastofnunar um frekari gögn sem styrktu dvalarleyfisumsókn hennar. Að mati kærunefndar er ljóst að með framlagningu ljósmyndanna reyndi kærandi að villa um fyrir stjórnvöldum, enda ljóst að framlagning þeirra var ætluð til að sýna fram á samverustundir kæranda og maka í heimaríki hennar. Þá hafa upplýsingarnar að mati kærunefndar talsverða þýðingu þegar kemur að niðurstöðu málsins þar sem um er að ræða upplýsingar sem hafa áhrif á mat stjórnvalda hvað varðar stofnun hjúskapar aðila. Með þessari háttsemi hefur kærandi af ásetningi gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögunum, sbr. b-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu er ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði d-liðar 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga, þar sem fyrir liggja nú atvik sem geta valdið því að henni verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laganna. Kærandi uppfyllir því ekki grunnskilyrði 55. gr. laganna til útgáfu dvalarleyfis. Að sama skapi er framlagning gagnanna þess eðlis að hún veki upp rökstuddan grun um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga, en skýringar kæranda við meðferð málsins hjá stjórnvöldum eru ekki til þess fallnar að hagga því mati kærunefndar.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er ákvörðun Útlendingastofnunar sem snýr að kæranda staðfest. Þar sem börn kæranda byggja rétt sinn á umsókn hennar verða þær ákvarðanir Útlendingastofnunar jafnframt staðfestar.
Í greinargerð byggir kærandi m.a. á því að hún hafi ekki fengið afrit af skjalarannsóknarskýrslu lögreglu og að hennar hafi ekki verið getið í beiðni stofnunarinnar um viðbótargögn, dags. 15. október 2020. Líkt og að framan er rakið kemur fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að lögmanni kæranda hafi verið kynnt niðurstaða skjalarannsóknarskýrslunnar þann 29. september 2020. Í greinargerð kæranda til kærunefndar er vísað til þess að umboðsmanni hennar hafi verið kynntar niðurstöður framangreindrar skjalarannsóknarskýrslu símleiðis í lok september 2020. Hins vegar verður ekki ráðið að umboðsmaður kæranda hafi fengið afrit af skýrslu lögreglu í samræmi við 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga. Er málsmeðferð Útlendingastofnunar að þessu leyti haldin annmarka. Að mati kærunefndar hefur framangreint þó ekki áhrif á niðurstöðu málsins enda fékk umboðsmaður kæranda vitneskju um upplýsingar í skýrslu lögreglu og ekki verður séð að óskað hafi verið sérstaklega eftir afriti hennar við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun. Þá hefur kærandi við meðferð málsins hjá kærunefnd getað komið andmælum og sjónarmiðum sínum á framfæri.
Í greinargerð byggir kærandi einnig á því að við mat á umsókn hennar um dvalarleyfi verði að hafa hliðsjón af rétti hennar til fjölskyldulífs, sem verndaður sé í 71. gr. stjórnarskrár og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Líkt og fyrr greinir uppfyllir kærandi hvorki skilyrði d-liðar 1. mgr. 55. gr. né 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga til útgáfu dvalarleyfis í málinu. Í dómaframkvæmd hefur Mannréttindadómstóll Evrópu vísað til þeirrar viðurkenndu meginreglu þjóðaréttar að ríki hafi, með fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar sínar, rétt til að stjórna aðgengi erlendra ríkisborgara að landsvæði sínu og dvöl þeirra þar. Við mat á því hvort fyrir hendi sé skerðing á rétti samkvæmt 8. gr. sáttmálans hefur dómstóllinn m.a. litið til þess hvort um sé að ræða fjölskyldulíf sem stofnað hefur verið til í aðildarríki af einstaklingum sem dveljast þar löglega, sjá t.d. mál Slivenko gegn Lettlandi (mál nr. 48321/99) frá 9. október 2003. Af fyrirliggjandi gögnum er ljóst að kærandi hefur ekki stofnað til fjölskyldulífs í lögmætri dvöl hér á landi og þá uppfyllir hún ekki skilyrði íslenskra laga um fjölskyldusameiningu útlendings, sbr. fyrrnefnd ákvæði laga um útlendinga. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki fallist á að kærandi hafi myndað fjölskyldulíf sem njóti verndar 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu hér á landi, sbr. jafnframt 71. gr. stjórnarskrárinnar.
Að öðru leyti telur kærunefnd ekki tilefni til að fjalla um aðrar málsástæður kæranda.
Úrskurðarorð
Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.
The decisions of the Directorate of Immigration are affirmed.
Tómas Hrafn Sveinsson
Gunnar Páll Baldvinsson Bjarnveig Eiríksdóttir