Aðgerðastjórn fundar og fjölmiðlamiðstöð opnuð á ný
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra fundaði snemma í morgun með aðgerðastjórn ferðaþjónustunnar, vegna eldgossins við Sundhnúksgíga. Starfsemi Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkurflugvallar er með hefðbundnum hætti eldgosið hefur ekki haft áhrif á flugsamgöngur.
Aðgerðastjórnin starfar samkvæmt Viðbragðsáætlun stjórnvalda og ferðaþjónustuaðila og var virkjuð í nóvember vegna jarðhræringanna á Reykjanesi. Á fundinum í morgun voru meðal annars ferðamálastjóri og fulltrúar frá ráðuneytinu, Íslandsstofu, ISAVIA, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Ferðamálastofu og Áfangastaðastofu Reykjaness.
Fjölmiðlar um allan heim fjalla nú um eldgosið og leggur ráðherra mikla áherslu á góða og samræmda upplýsingagjöf til fjölmiðla og ferðamanna. Nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir upplýsingaóreiðu.
Ákveðið hefur verið að opna aftur fjölmiðlamiðstöðina sem sett var upp í nóvember fyrir erlend fjölmiðlateymi sem heimsóttu landið vegna jarðhræringanna á Reykjanesi. Ferðamálastofa sér líkt og áður um rekstur og umsjón hennar í samstarfi við Íslandsstofu, SafeTravel og Almannavarnir.
Vefsíðan SafeTravel er reglulega uppfærð og Ferðamálastofa upplýsir alla ferðaþjónustuaðila á landinu um stöðu mála. Mikilvægt er að ná að koma uppfærðum upplýsingum til ferðamanna sem eru á landinu og þeirra sem væntanlegir eru til landsins.
Fjölmiðlum og ferðamönnum er bent á að fylgjast vel með upplýsingum í gegnum SafeTravel og Veðurstofuna.
Eins og áður eru skilaboðin mjög skýr: Svæðið sem um ræðir hafði áður verið rýmt og fólki stafar ekki bráð ógn af eldgosinu. Ekki er þörf á frekari rýmingum að svo stöddu. Flugvöllurinn í Keflavík starfar eðlilega og allt flug gengur nú samkvæmt áætlun. Áhrif eldgosa takmarkast gjarnan við ákveðin, staðbundin svæði nálægt gosstöðvunum. Fyrri eldgos á svæðinu höfðu ekki áhrif á flugsamgöngur til og frá landinu.
Framkvæmdahópur ferðaþjónustunnar, sem er hluti af Viðbragðsáætlun ferðaþjónustunnar, mun funda síðar í dag.
In english: Reykjanes Volcanic Eruption: Tourism Response Team Meeting and Media Centre Reopened