Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2019 Innviðaráðuneytið

Styðja við byggingu fimm leiguíbúða í Árnesi

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Kristófer Tómasson, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, skrifuðu undir viljayfirlýsinguna í gær.  - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Kristófer Tómasson, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, undirrituðu í gær viljayfirlýsingu um aðkomu stjórnvalda að húsnæðisuppbyggingu í Árnesi. Fjölga á leiguíbúðum í sveitarfélaginu en mikill skortur hefur verið á húsnæði í Skeiða- og Gnúpverjahreppi um lengri tíma. Fyrsti þáttur verkefnisins felur í sér aðkomu Íbúðalánasjóðs að fjármögnun byggingar á fimm íbúða raðhúsi í Árnesi. Þá verða skoðaðar leiðir til að tryggja aðgengi að hagkvæmum leiguíbúðum til langtímaleigu á svæðinu.

Uppbygging ferðaþjónustu í Þjórsárdal kallar á húsnæði fyrir starfsfólk í næsta nágrenni

Nauðsynlegt er að byggja nýtt húsnæði á staðnum vegna áætlaðrar íbúafjölgunar í sveitarfélaginu á næstu misserum í tengslum við stórfellda atvinnuuppbyggingu í ferðaþjónustu. Þar munar mest um uppbyggingu Hálendisbaðanna – baðstaðar og hótels í Þjórsárdal.

Íbúðalánasjóður veitir einnar milljón króna þróunarstyrk

Íbúðalánasjóður mun koma að útfærslu verkefnisins og hefur sjóðurinn ákveðið að leggja sveitarfélaginu til eins milljóna króna styrk til þróunar þess. Styrkurinn er veittur sem hluti af sérstöku tilraunaverkefni sjóðsins, sem snýr að því að örva húsnæðisuppbyggingu utan suðvesturhorns landsins og bregðast við erfiðu ástandi á húsnæðismarkaði, ekki hvað síst á landsbyggðinni.

„Það er ánægjulegt að öflugt fyrirtæki í ferðaþjónustu skuli horfa til samstarfs og uppbyggingar með heimamönnum í Skeiða- og  Gnúpverjahreppi. Þessari glæsilegu starfsemi sem fyrirhuguð er í Þjórsárdal fylgir fjöldi fólks, bæði á framkvæmdatíma og að honum loknum, sem mun hafa aðsetur í sveitarfélaginu. Það er mikilvægt að íbúðaskortur hamli ekki uppbyggingu sem tryggja mun atvinnu á svæðinu til langs tíma,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

„Einn mikilvægasti hluti verkefnis okkar í Þjórsárdal, sem leggur áherslu á sjálfbærni, er að það sé unnið í sátt við sitt umhverfi og nærsamfélag. Þess vegna er mikilvægt að huga vel að innviðum og húsnæði. Við munum líklega skapa sextíu til áttatíu störf við Hálendisböðin og Hólaskóg á næstu árum og viljum svo gjarnan að sem flestir starfsmenn komi úr uppsveitum Árnessýslu. Þess vegna horfum við mjög spennt til samstarfs okkar við sveitarfélagið, stjórnvöld og Íbúðalánasjóð um að byggja upp húsnæði við hæfi í Árnesi, þann byggðarkjarna sem liggur næst Þjórsárdalnum,“ segir Magnús Orri Schram, framkvæmdastjóri Rauðukamba.

 

  • Ráðherra fékk kynningu á fyrirhugaðri uppbyggingu og gekk um svæðið sem um ræðir í Þjórsárdal. Hér er hann ásamt Björgvini Skafta Bjarnasyni, oddvita Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Magnúsi Orra Schram, framkvæmdastjóra Rauðukamba og Grími Sæmundssyni, forstjóra Bláa lónsins. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta