Grænbók um hagskýrslugerð, grunnskrár og upplýsingamál til umsagnar
Grænbók um hagskýrslugerð, grunnskrár og upplýsingamál er nú í umsagnarferli í samráðsgáttinni. Hún er liður í samráði um stöðumat, lykilviðfangsefni og áherslur á þessu málefnasviði. Opið er fyrir innsendingu umsagna til og með 15. ágúst næstkomandi.
Grænbókin fjallar um málefnasvið 6 í fjármálaáætlun en viðfangsefnum ríkisins hefur verið skipt upp í 34 svið. Kynnt eru drög að áherslum fyrir málefnasviðið og snúast þær meðal annars um að auka samvirkni og gagnaflæði milli opinberra kerfa, að rafræn sjálfsafgreiðsla verði fyrsti kostur í þjónustu opinberra aðila, aðeins þurfi að skrá upplýsingar um almenning og fyrirtæki einu sinni og vottorð og staðfestingar frá opinberum aðilum fari rafrænt á milli stofnana. Þá er lögð áhersla á að opinber kerfi standist sjálfsagðar kröfur um öryggi og persónuvernd og að auka gegnsæi í stjórnsýslunni með greiðum aðgangi almennings og hagsmunaaðila að upplýsingum um sig, sína hagi og réttindi hjá opinberum aðilum og einnig með því að fjölga opnum gagnagrunnum í gáttinni opingogn.is.
Samkvæmt fjármálaáætlun skal liggja fyrir stefna fyrir hvert málefnasvið og málaflokk sem m.a. skal kynna í greinargerð með fjármálaáætlun hvers árs. Þrjár stofnanir fara með verkefni á málefnasviði 6, Hagstofa Íslands, Landmælingar Íslands og Þjóðskrá Íslands. Starfsemi á málefnasviðinu er því á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra og forsætisráðherra.
Í júnímánuði 2017 hófst stefnumótunarvinna á vegum ráðuneytanna með þátttöku Sambands íslenskra sveitarfélaga og var ráðgjafarfyrirtækið Capacent fengið til aðstoðar. Samhliða var unnið að samræmdu stefnumótunarferli og mótun skapalóna/forma fyrir þau skjöl sem verða til í opinberri stefnumótun almennt og eiga að nýtast öllum ráðuneytum til framtíðar.
Umsögnum skal skilað eigi síðar en 15. ágúst nk. í samráðsgáttina eða með tölvupósti á netfangið [email protected].
Grænbók - hluti af stefnumótunarferli stjórnvalda
Grænbók er umræðuskjal sem lagt er fram í opnu samráði í samráðsgátt. Grænbókinni er ætlað að hvetja til umræðu um afmarkað viðfangsefni, núverandi stöðu og mögulegar áherslur í stefnu sem að loknu samráðsferli verður útfærð í hvítbók og birt í kjölfarið.
Við gerð grænbókar er almenningi og hagsmunaaðilum boðið að taka þátt og leggja fram sjónarmið um áherslur, mögulegar lausnir eða leiðir að árangri.
Í grænbók eru upplýsingar um viðfangsefni málefnasviðsins/málaflokksins, stöðu, tölfræði, samanburð við önnur lönd og umfjöllun um ólíkar leiðir eða áherslur til að mæta þeim áskorunum sem við blasa.
Að loknu samráði um grænbók er mótuð hvítbók þar sem fjallað er um niðurstöður samráðs, framtíðarsýn fyrir málaflokkinn, markmið og aðgerðir sem stjórnvöld áforma að leggja til í nýrri stefnu. Hvítbók er í raun „drög að opinberri stefnu“ eða tillögum stjórnvalds um skilgreint verkefni eða málefni, áskoranir þess, þróun og samhengi.
Þegar hvítbók liggur fyrir fá almenningur og hagsmunaaðilar aftur tækifæri til þess að koma á framfæri ábendingum sínum og sjónarmiðum í formlegu samráðsferli áður en endanleg afstaða er mótuð í formlega stefnu.