Nr. 668/2021 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 16. desember 2021 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 668/2021
í stjórnsýslumáli nr. KNU21110003
Beiðni [...] um endurupptöku
I. Málsatvik
Þann 8. apríl 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. janúar 2021, um að taka umsókn [...], fd. [...], ríkisborgara Palestínu (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Grikklands. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 12. apríl 2021 og þann 19. apríl 2021 barst kærunefnd beiðni hans um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Þeirri beiðni var hafnað með úrskurði kærunefndar þann 30. apríl 2021. Þann 11. júní 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans og var þeirri beiðni hafnað með úrskurði kærunefndar þann 9. september 2021. Önnur beiðni kæranda um endurupptöku barst kærunefnd þann 1. nóvember 2021. Upplýsingar um málsmeðferð í máli kæranda bárust þann 2. nóvember 2021 frá Útlendingastofnun og þann 10. nóvember 2021 frá stoðdeild ríkislögreglustjóra. Þá bárust andmæli kæranda þann 15. nóvember 2021.
Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá krefst kærandi þess að kærunefnd felli ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og að nefndin feli stofnuninni að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá óskar kærandi eftir því að réttaráhrifum ákvörðun Útlendingastofnunar verði frestað á meðan umrædd beiðni um endurupptöku er til meðferðar hjá kærunefnd með vísan til 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
II. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga eigi aðili máls rétt á því að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný þegar íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Kærandi hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 31. október 2020 og vegna þess tíma sem sé liðinn frá því að hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hafi atvik í máli hans breyst verulega og því beri að endurupptaka mál kæranda. Stjórnvöldum sé því skylt að taka mál kæranda til efnismeðferðar hér á landi með vísan til 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hafi samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum sé þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar séu í umræddum stafliðum.
Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar séu ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar.
Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar umsækjandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.
Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þótt 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja umsækjanda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.
Líkt og áður hefur komið fram sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi þann 31. október 2020 og hefur hann ekki enn yfirgefið landið. Því eru liðnir rúmlega 12 mánuðir frá því að umsókn kæranda barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og því kemur til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Þann 2. nóvember 2021 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og stoðdeild ríkislögreglustjóra um hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsóknar kæranda og ef svo væri, hvort þær væru á ábyrgð kæranda, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Svar frá Útlendingastofnun barst þann 2. nóvember 2021 en þar kemur fram að varðandi málsmeðferð kæranda hjá Útlendingastofnun líti stofnunin svo á að kærandi hafi ekki tafið mál sitt. Svar frá stoðdeild barst kærunefnd þann 10. nóvember 2021 en þar kemur m.a. fram að stoðdeild hafi borist verkbeiðni í máli kæranda þann 7. maí 2021 og að þann 11. júní 2021 hafi verið hringt í hann og hann boðaður í viðtal. Kærandi hafi mætt í viðtalið og útskýrt hafi verið fyrir honum hver staða hans væri hér á landi. Kærandi hafi greint frá því að fjölskylda hans væri komin til landsins og að hann vildi ekki fara frá þeim. Kærandi hafi neitað að fara í Covid-19 sýnatöku. Þann 22. september 2021 hafi kærandi verið boðaður í viðtal þann 23. september 2021. Í viðtalinu hafi verið lagt fyrir kæranda Tilkynningu um framkvæmd ákvörðunar um frávísun frá Íslandi til Grikklands og tilkynningin kynnt honum með aðstoð túlks. Kærandi hafi neitað samvinnu við íslensk stjórnvöld og neitað að framvísa bólusetningarvottorði.
Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 11. nóvember 2021, var kærandi upplýstur um afstöðu Útlendingastofnunar og stoðdeildar ríkislögreglustjóra og gefinn frestur til að koma að andmælum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Andmæli kæranda bárust kærunefnd þann 15. nóvember 2021. Í svari kæranda kemur m.a. fram að framlögð gögn gefi til kynna að verklag og framkvæmd í tengslum við fyrirhugaðan flutning kæranda úr landi hafi verið ómarkviss. Í svari stoðdeildar komi fram að kærandi hafi mætt til viðtals þann 11. júní 2021 þar sem hann hafi neitað að fara í Covid-19 sýnatöku. Þá hafi kærandi ekki verið boðaður í viðtal að nýju fyrr en 23. september 2021, meira en þremur mánuðum eftir fyrra viðtal. Í þessu viðtali hafi Tilkynning um framkvæmd ákvörðunar um frávísun frá Íslandi til Grikklands verið lögð fyrir kæranda og hann neitað að framvísa bólusetningarvottorði í tengslum við flutning. Vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar nr. 401/2021 í máli nr. KNU21070020 þar sem tafir á afgreiðslu máls hafi ekki verið taldar vera á ábyrgð kæranda. Að mati kæranda séu umrædd mál í öllum atriðum sambærileg. Þá kveðst kærandi ósammála úrskurði kærunefndar nr. 484/2021 í máli nr. KNU21090010, en fellst þó á að umrætt mál sé frábrugðið fyrirliggjandi máli þar sem að í því máli hafi kærandi samþykkt að ferðast til Grikklands og bókaður hafi verið farmiði fyrir kæranda til Grikklands á tilteknum degi, auk þess sem kærandi hafi verið sérstaklega boðaður í Covid-19 sýnatöku. Kærandi hafi síðar afboðað komu sína í umrædda sýnatöku. Að mati kæranda í fyrirliggjandi máli verður ómarkvissum samskiptum milli hans og stoðdeildar ekki jafnað við framangreind samskipti. Í ljósi framkvæmdar kærunefndar útlendingamála telur kærandi að engar forsendur séu fyrir því að líta svo á að hann hafi tafið flutning sinn og því beri að taka mál hans til efnismeðferðar, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Líkt og að framan greinir sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi þann 31. október 2020. Þegar stoðdeild ríkislögreglustjóra hitti kæranda þann 23. september 2021 var því fullnægjandi tími til þess að framkvæma flutning á kæranda til viðtökuríkis áður en 12 mánaða fresturinn sem áskilinn er í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga rann út. Á umræddum fundi lýsti kærandi því yfir að hann myndi ekki afhenda bólusetningarvottorð sem er skilyrði fyrir viðtöku grískra stjórnvalda á kæranda. Að mati kærunefndar er því ljóst að það sem komið hafi í veg fyrir framkvæmd á flutningi kæranda til viðtökuríkis innan tilskilins frests, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, hafi verið skortur á samstarfsvilja hans og afstaða hans um að afhenda ekki bólusetningarvottorð sem hafi verið skilyrði fyrir viðtöku grískra stjórnvalda á kæranda. Þannig kom kærandi í veg fyrir flutning sinn úr landi.
Vegna tilvísunar kæranda til úrskurðar kærunefndar nr. 401/2021 í máli nr. KNU21070020 frá 26. ágúst 2021 tekur kærunefnd fram að málsatvik eru ósambærileg þar sem framkvæmd stoðdeildar hafi verið metin ómarkviss í umræddu máli en kærunefnd hefur ekki metið framkvæmd stoðdeildar ómarkvissa í fyrirliggjandi máli. Þá hefur stoðdeild í því máli sem hér er til skoðunar tryggt með sannanlegum hætti að afstaða kæranda til þess að vinna með stjórnvöldum, s.s. varðandi afhendingu bólusetningarvottorðs, hafi legið fyrir í tengslum við flutning hans.
Með hliðsjón af framangreindu telur kærunefnd að kærandi hafi tafið afgreiðslu umsóknar hans og það hafi verið á hans ábyrgð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af framangreindu leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er ekki uppfyllt.
Í ljósi framangreinds er því ekki fallist á að atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hann eigi rétt á endurupptöku á máli hans, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Endurupptöku á máli hans er þar með hafnað.
Í ljósi framangreinds er ekki tilefni til þess að fjalla um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa á grundvelli 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga á meðan beiðni hans um endurupptöku væri til meðferðar hjá kærunefnd.
Úrskurðarorð:
Kröfu kæranda er hafnað.
The appellants’ request is denied.
Tómas Hrafn Sveinsson
Bjarnveig Eiríksdóttir Sandra Hlíf Ocares