Kennitöluflakk verður ekki liðið
Vegagerðin mun eftirleiðis kanna viðskiptasögu stjórnenda og helstu eigenda fyrirtækja, sem bjóða í verk á vegum Vegagerðarinnar, til að verjast kennitöluflakki.
Í útboði Vegagerðarinnar á áætlunarakstri á sérleyfisleiðum felast þau nýmæli að viðskiptasaga stjórnenda og helstu eigenda getur orðið tilefni til frávísunar. Markmiðið er að koma í veg fyrir ójafna samkeppni þátttakenda í opinberum útboðum.
Breyttu verklagi Vegagerðarinnar er ætlað að koma í veg fyrir að aðilar, sem hafa látið ógreidd lífeyrissjóðsgjöld og skatta, skuldir við birgja og jafnvel gömul dómsmál hverfa, taki þátt í opinberum útboðum. Ekki dugar lengur að stofna nýtt fyrirtæki eða taka í notkun ónotaða kennitölu, hafi menn verið svo fyrirhyggjusamir að verða sér úti um kennitölur til seinni nota. Fyrirtæki sem taka þátt í útboðum á vegum Vegagerðarinnar keppa eftirleiðis við sína líka.