Hoppa yfir valmynd
2. desember 2003 Innviðaráðuneytið

Frumvarp til laga um rannsókn flugslysa

Á ríkisstjórnarfundi í morgun var samþykkt að lagt yrði fram frumvarp til laga á Alþingi um rannsókn flugslysa.

Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á löggjöf um rannsókn flugslysa. Það var fyrst lagt fram á 128. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Lagt er til að frumvarpið verði lagt fram á ný með nokkrum breytingum, einkum að því er varðar ákvæði III. og IV. kafla frumvarpsins um meðferð og birtingu gagna sem rannsóknarnefndin aflar við rannsókn mála. Breytingar þessar voru unnar af starfshópi sem ráðuneytið skipaði í maí sl. til að skila áliti og tillögum varðandi aðgang að gögnum sem rannsóknarnefndin hefur undir höndum. Í erindisbréfi starfshópsins kemur fram að honum er ætlað að hafa að leiðarljósi þróun mála á alþjóðavettvangi og það markmið flugslysarannsókna að auka öryggi í flugi.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir eftirfarandi meginbreytingum frá gildandi lögum um rannsókn flugslysa, nr. 59/1996:

*Stjórnskipulagi flugslysarannsókna verði breytt og að rannsóknarnefndin verði skipuð þremur mönnum í stað fimm áður. Skipaður verði sérstakur forstöðumaður sem annist daglegan rekstur. Hann verði jafnframt rannsóknarstjóri nefndarinnar og stýrir rannsóknarverkefnum á vegum hennar. Sérstakar og auknar hæfniskröfur eru gerðar til forstöðumanns og verður hann ábyrgur fyrir stjórnun á vettvangi flugslysa. Að öðru leyti starfar hann undir yfirstjórn rannsóknarnefndarinnar.
* Samgönguráðherra getur falið rannsóknarnefndinni að rannsaka atriði sem varða almennt flugöryggi, án þess að það tengist flugslysi.
* Nefndinni er heimilt að krefjast þess að fá í sína vörslu upptökur og skráningar svo og önnur gögn sem varða loftför, áhafnir þeirra og umferð loftfara, auk þess sem heimilt er að krefjast framlagningar gagna sem varða rannsókn flugslysa.
* Við aflestur og afritun samskipta sem fram koma á upptökum og rannsóknarnefndin getur krafist að fá í sína vörslu ber að gera sérstakar ráðstafanir til að tryggja fyllsta trúnað vegna upplýsinga sem þar koma fram.
* Í frumvarpinu er kveðið á um heimildir dómstóla til að mæla fyrir um aðgang að gögnum hjá rannsóknarnefndinni. Sú heimild nær ekki til aðgangs að aðila- og vitnaskýrslum sem teknar eru á vegum nefndarinnar, og tekur eingöngu til endurrits af upptökum sem gerðar eru í tilefni af rannsókn flugslysa.
* Samgönguráðherra getur falið rannsóknarnefndinni að rannsaka nánar tiltekið flugslys eða sérstök atriði sem tengjast flugslysi, ef ný gögn eða upplýsingar koma fram eftir að rannsókn er lokið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta