Ísland og Írland leiða samstarf um afvopnunarmál
Ísland og Írland munu gegna saman formennsku í Eftirlitskerfinu með flugskeytatækni (e. Missile Technology Control Regime - MTCR) 2017-2018 en samstarfið snýst um að takmarka útbreiðslu á eldflaugatækni fyrir burðarkerfi vopna, þ.m.t. gereyðingarvopna. MTCR er mikilvægur liður í vinnu að afvopnunarmálum á heimsvísu og skiptast þátttökuríki á um formennskuna. Þetta er í fyrsta sinn Ísland og Írland gegna formennsku en ríkin tóku við í dag á ársfundi MTCR sem haldinn er í Dublin. Saman munu Ísland og Írland stýra samstarfinu í eitt ár.
„Afvopnun og eftirlit með flugskeytatækni eru grundvöllur þess að ná fram friðsamlegri lausn deilumála og tryggja öryggi eins og viðburðir liðinna mánuða bera vitni um,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. „Okkur er sýnt mikið traust með því að biðja okkur að taka að okkur formennskuna með Írum. Þetta er ábyrgðarstaða á alþjóðavettvangi og sýnilegt framlag í afvopnunarmálum og eftirliti sem fellur vel að utanríkis- og þjóðaröryggisstefnu Íslands. Þá skapast með þessu nýir möguleikar á samstarfi með vina- og frændþjóð okkar, Írum,“ segir Guðlaugur Þór.
MTCR er óformlegt samstarf 35 ríkja, þmt. Bandaríkjanna og Rússlands. Til þess var stofnað 1987 og vinnur það gegn útbreiðslu ómannaðra burðarkerfa fyrir gjöreyðingarvopn. Ísland gerðist aðili að eftirlitskerfinu 1993 og framkvæmir skuldbindingar sínar á grundvelli laga um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu, nr. 58/2010.