Vígsla barnaspítala Hringsins
Ávarp heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við vígslu barnaspítala Hringsins
25. febrúar 2002
Forseti Íslands, biskup Íslands, ráðherrar og aðrir góðir gestir.
Í upphafi vil ég óska okkur öllum til hamingju með þessi tímamót í íslenskri heilbrigðissögu og ég vil sérstaklega óska Hringskonum til hamingju og færa þeim þakklæti þjóðarinnar og ríkisstjórnarinnar fyrir óeigingirni, framsýni og þrautseigju. Þær hafa ávalt sýnt það með verkum sínum, og minnt bæði almenning og stjórnvöld á, að einn besti mælikvarðinn á heilbrigðisþjónustu landanna er hversu vel við búum að veikum börnum. Að hve miklu leyti við erum sem samfélag tilbúin að setja þennan þátt heilbrigðisþjónustunnar í forgang.
Að þessu leyti eiga Hringskonur snaran þátt í að við stöndum nú hér og gleðjumst, auka allra þeirra; félagasamtaka, einstaklinga og fyrirtækja sem hafa unnið að því í rúma öld að bæta þjónustu við veik börn, bæði með óbeinum hætti - og beinum, eins og við urðum vör við á dögunum.
Þetta hús, þessar kringumstæður sem við erum að búa veikum börnum á Landspítalanum, og sú starfsemi, sem hér verður í framtíðinni, er áþreifanlegt dæmi um áherslurnar sem heilbrigðisráðherrar síðustu ára hafa haft, dæmi um áherslurnar sem ríkisstjórnin hefur haft í málefnum heilbrigðisþjónustunnar.
Þessi stærsta nýframkvæmd í heilbrigðisþjónustunni í mjög langan tíma hefur nefnilega verið forgangsmál í tveimur ráðuneytum ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, og bæði ég og forveri minn í embætti, Ingibjörg Pálmadóttir, sem tók fyrstu skóflustunguna á flötinni þar sem við stöndum nú, 19. nóvember 1998, höfum lagt á það ríka áherslu að bygging Barnaspítala Hringsins væri forgangsmál.
Góðir gestir.
Þegar börnin okkar veikjast þá snertir það jafnan viðkvæmustu strengina í brjóstum okkar og nánustu aðstandenda. Þá vildum við öll fórna öllu fyrir börnin okkar.
Aldrei er mikilvægara en einmitt þá að geta, í fyrsta lagi, veitt bestu læknis- og hjúkrunarþjónustu sem völ er á, og í öðru lagi, að búa þannig um hnútana að foreldrunum gefist kostur á að taka þátt í að koma börnunum til heilsu á ný allt eftir því sem við á í samvinnu við lækna og hjúkrunarfólk.
Þetta hefur verið reynt að tryggja með byggingu þessa spítala, það sjá allir sem vilja sjá. Hér hefur verið unnið gott verk. Við getum öll verið stolt af byggingunni sem risin er.
Það hafa vitaskuld margir komið að þessu verki. Handtökin eru mörg og hugmyndirnar margar.
Fyrsti formaður bygginganefndar var Guðjón Magnússon, læknir, næst í röðinni var Siv Friðleifsdóttir, sem nú er umhverfisráðherra, og síðast sá sem hér talaði á undan mér, Hjálmar Árnason, alþingismaður.
Ég færi öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóginn við byggingu hússins bestu þakkir fyrir vel unnin störf.
Það er tvennt sem mér finnst við stundum þurfa að minna okkur á þegar heilbrigðismálin ber á góma.
Í fyrsta lagi að við gerum almennt þá kröfu að hér sé boðið upp á heilbrigðisþjónustu, eins og hún gerist best með öðrum þjóðum. Þetta er staðreynd í lang flestum tilvikum. Og svo í öðru lagi, að við viljum að rétturinn til að fá þessa þjónustu sé almennur, og nánast algildur, öðru vísi verða kröfur almennings um þjónustu vart túlkaðar.
Og af því við erum alltaf að reyna að uppfylla einmitt þessar kröfur, þá mun auðvitað Landspítalinn – háskólasjúkrahús ávalt hafa algjöra sérstöðu í íslensku heilbrigðisþjónustunni. Bæði sem spítali og sem háskólastofnun. Og við verðum að gefa spítalanum tóm – við verðum saman - að reyna að búa til svigrúmið sem spítalinn þarf til að geta vaxið og dafnað.
Landspítalinn – háskólasjúkrahús er flaggskipið í heilbrigðisþjónustunni sem landsmenn treysta á og eiga að geta reitt sig á, og barnaspítalinn hér á Landspítalanum er einmitt byggður undir þessu sama merki - til að þjóna börnum alls staðar að af landinu.
Þetta er sú stofnun sem tekur við þegar menn þurfa svo sérhæfða læknis-og hjúkrunarþjónustu að hún er aðeins veitt hérna í þessu landi. Þess vegna er líka svona vel hugsað fyrir allri aðstöðu starfsmannanna sem hér munu starfa. Við eigum frábært starfsfólk sem við viljum gera vel við til þess aftur að það geti veitt skjólstæðingunum bestu mögulegu umönnun.
Góðir gestir.
Þótt við eigum stórskáld og rithöfunda fleiri en fjölmennari þjóðir þá hefur stundum verið sagt að við ættum auðveldara með að tjá vilja okkar og tilfinningar í húsum, byggingum eða áþreifanlegum hlutum. Í þeim skilningi ætti hverjum manni að vera ljós að við viljum gera vel við börnin okkar og við viljum veita góða heilbrigðisþjónustu á Íslandi.
Ég er afar stoltur að eiga þess kost sem heilbrigðismálaráðherra að afhenda forstjóra Landspítalans þetta nýja hús. Þetta er glæsilegur áfangi.
______________
(Talað orð gildir)