Úrskurður um Norðlingaölduveitu
Ræða setts umhverfisráðherra, Jóns Kristjánssonar, í utandagskrárumræðum á Alþingi um úrskurð vegna Norðlingaölduveitu
5. febrúar 2003
Herra forseti.
Ég þakka háttvirtum þingmanni fyrir að taka Norðlingaöldumálið hér upp utan dagskrár og sömuleiðis þakka ég hlý orð í minn garð.
Háttvirtur 3. þingmaður Norðurlands eystra beinir til mín þremur spurningum um úrskurð þann er mér var falið að kveða upp vegna kæra sem borist höfðu í kjölfar úrskurðar Skipulagsstofnunar um Norðlingaölduveitu.
Fyrst er spurt: Kom ekki til álita að fella hinn kærða úrskurð úr gildi í heild sinni en benda framkvæmdaaðila þess í stað á aðra mögulega útfærslu framkvæmdarinnar?
Svarið við þessari spurningu er einfalt nei.
Settur umhverfisráðherra hafði þrjá kosti. Að segja nei, að segja já, eða skilyrða heimildina.
Mín niðurstaða var að mér bæri skylda að taka efnislega á kærunum. Þetta gerði ég með því í fyrsta lagi að fara á svæðið og skoða það af eigin raun, með því að tala við alla hlutaðeigandi, með því að kynna mér allar hliðar málsins sjálfur efnislega og í kjölfarið að fá sérfræðinga til að svara spurningum sem ég setti fram.
Varðandi þá tilhögun sem hefur verið mönnum ofarlega í huga og hér er spurt um setti ég fram nokkrar grundvallarspurningar sem voru þessar í grófum dráttum:
- Hvernig má koma öllum framkvæmdum út úr friðlandinu?
- Hvað þurfum við að gera til að fullnægja örugglega öllum skuldbindingum sem á okkur hvíla vegna friðlandsins og að sjá svo til að framkvæmdir við Norðlingaöldu röskuðu ekki náttúrufari, dýralífi og grunnvatnsstöðu í verunum
Svörin við þessum spurningum er úrskurðurinn, eða eins og fram kemur í skýrslu VST: "Með þessari nýju tilhögun virðist sem hægt sé að gera Norðlingaölduveitu á hagkvæman hátt með nefndum skilyrðum ráðuneytis um að veitulón nái ekki inn í friðland Þjórsárvera og áhrif framkvæmdanna raski ekki náttúrufari, dýralífi og grunnvatnsstöðu í verunum."
Í öðru lagi spyr háttvirtur 3. þingmaður Norðurlands eystra hvort ráðherra sé í úrskurðinum að fallast á 6. áfanga Kvíslaveitna, og þá án sérstaks mats á umhverfisáhrifum þeirrar framkvæmdar?
Svarið við þessari spurningu er líka nei. Setlónið er lítillega stækkað frá því sem gert var ráð fyrir sem mótvægisaðgerð í úrskurði Skipulagsstofnunar og hefur því farið í umhverfismatsferli.
Í þriðja lagi spyr háttvirtur 3. þingmaður Norðurlands eystra hvort ráðherra telji að úrskurðurinn hafi fordæmisgildi hvað varðar stöðu friðlýstra svæða og alþjóðlegra skuldbindinga í umhverfismálum í ljósi þeirrar áherslu sem lögð er á að færa framkvæmdir og áhrifasvæði þeirra út úr friðlandinu?
Herra forseti.
Í þessu máli erum við að tala um Þjórsárver, sem er viðkvæmt friðland. Ég taldi miklu skipta að hafa úrskurðinn í Norðlingaölduveitumálinu skýran og afdráttarlausan. Almennt verða menn ávalt að fara að öllu með gát þegar friðlönd eru annars vegar. Ég ætla ekki að túlka þennan úrskurð setts umhverfisráðherra frekar, eða fara með hann inn í framtíðina. Hann skýrir sig sjálfur. Ég sé að ýmis náttúruverndarsamtök hafa verið að túlka úrskurðinn sem tímamótaúrskurð og ég hvorki get né vil banna þeim það.
_______________
( Talað orð gildir)