Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Ávarp heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í tilefni Evrópuárs fatlaðra

Ávarp Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, þegar Evrópuár fatlaðra gekk í garð
5. apríl 2003



Fundarstjóri, félagsmálaráðherra, formaður Öryrkjabandalags Íslands, aðrir góðir gestir. Ég þakka fyrir að fá að vera viðstaddur - nú þegar nýtt ár gengur í garð – Evrópuár fatlaðra.

Markmiðið með því að sameinast um sérstaka viðburði tiltekin ár er í fyrsta lagi að beina sjónum alls samfélagsins að þeim sem í hlut eiga – í þessu tilviki að beina sjónum manna að aðstæðum fatlaðra, og í öðru lagi að beina sjónum manna að aðstæðum fatlaðra í Evrópu. Við erum með öðrum orðum líka að draga fram það sem er líkt og ólíkt í Evrópulöndunum, ekki síst til læra hvert af öðru og reyna að bæta hag og aðstæður þeirra sem fatlaðir eru.

Við erum á þessu Evrópuári fatlaðra ekki bara að draga fram og vekja athygli á almennum atriðum sem tengjast fötluðum, eins og því að u.þ.b. tíundi hver Evrópubúi er fatlaður að einhverju leyti að mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, við erum líka að vekja athygli á því að við erum öll sérstök, við erum öll einstaklingar með okkar sérstöku þarfir og á þeim forsendum þarf samfélagið að byggjast upp.

Þess vegna tölum við um samfélag fyrir alla á Evrópuári fatlaðra.

Þegar við ræðum um lífskjör eða aðstæður fólks þá erum við tala um stefnu og raunveruleika sem mótast af vinnumarkaðsmálum félags- heilbrigðis- og tryggingamálum, húsnæðismálum, mennta-og menningarmálum. Ég ætla að halda mig við heilbrigðis- og tryggingamálin.

Eitt af því ánægjulegasta sem hefur komið í minn hlut að gera sem tryggingamálaráðherra var að handsala samkomulag við formann Öryrkjabandalagsins um að aldurstengja grunnlífeyri örorkubóta og tvöfalda þennan hluta bótanna frá næstu áramótum þegar búið er að ganga frá og hnýta alla tæknilega enda málsins.

Þetta var ánægjulegast af því ég hafði komist að þeirri niðurstöðu að með þessari breytingu færðumst við nær hinu síbreytilega markmiði um réttlæti.

Þetta var ánægjulegast vegna þess að samkomulagið mun koma þeim mest til góða sem lengst allra þurfa að glíma við fötlun sína, og,

þetta var ánægjulegast vegna traustsins sem ég tel að hafi tekist með yfirvöldum tryggingamála og fulltrúa Öryrkjabandalags Íslands.

Ég tek þetta síðasttalda fram af því ég er þeirrar skoðunar að í traustinu felist viljinn til að vinna saman að tilteknum markmiðum sem báðir viðurkenna að séu raunhæf og framkvæmanleg. Það hefur ávalt verið bjargföst trú mín að samvinnan skili okkur haldbetri árangri en barátta upp á líf og dauða þar sem annar virðist standa uppi sem sigurvegari en hinn særður til ólífis.

Þeir sem hafa verið lengi í stjórnmálum vita að fall manns er stundum falið í sigrinum.

Samkomulagið sem við Garðar Sverrisson handsöluðum felur í sér að hæstu bætur öryrkja sem nýtur allra bótaflokka almannatryggingakerfisins verða 115 þúsund krónur á mánuði en hefðu verið 95 þúsund að öllu óbreyttu. Eðli málsins samkvæmt verður þessi breyting eitt skref í átt til betra samfélags fyrir alla.
Góðir gestir.

Sjálfsbjargarviðleitnin er okkur öllum í blóð borin. Öll viljum við geta séð sjálfum okkur og okkar nánustu farborða. Við teljum það líka sjálfsagðan hluta almennra lífsgæða að geta tekið þátt í samfélaginu með vinnu, tómstundastarfi og hverju því sem talið er gefa lífinu gildi.

Því miður er það svo að ekki er öllum kleift að njóta áðurnefndra lífsgæða, annað hvort vegna meðfæddra vandkvæða eða vandamála sem skapast af sjúkdómum eða slysum. Fatlaðir einstaklingar hafa þannig mismikla vinnugetu og getu til félagslegrar þátttöku.

Samhjálpin er einn af hornsteinum íslensks samfélags. Hún byggir á þeirri grundvallarhugsun að allir landsmenn eigi sameiginlegt almanna- og sjúkratryggingakerfi sem tryggi mönnum framfærslu ef heilsufar eða aðstæður hamla einstaklingum eða fjölskyldum tekjuöflun. Það er þannig sameiginleg ábyrgð okkar allra að tryggja fötluðum lágmarksframfærslu og þannig möguleika á að taka þátt í því sem við teljum skapa okkur lífsgæði í nútíma þjóðfélagi.

Hluti þessarar samábyrgðar er að skapa fötluðum skilyrði til atvinnuþátttöku eftir því sem geta hvers og eins leyfir. Þar á ég við að tryggja fötluðum hæfingu og endurhæfingu, að hvetja atvinnurekendur til að ráða fatlaða til vinnu, og tryggja að einstaklingurinn sjái hag í því að vinna, ekki aðeins félagslega heldur einnig fjárhagslega.

Í þeim anda hefur verulega verið dregið úr skerðingarhlutfalli atvinnutekna öryrkja. Fram til ársins 2000 höfðu tekjurnar verið skertar króna á móti krónu en þá var gerð sú breyting að skerðingarhlutfallið var minnkað niður í 67%. Um síðustu áramót var skerðingarhlutfallið síðan enn minnkað niður í 45% þ.e. aðeins 45 krónur af hverjum hundrað sem menn vinna sér inn koma nú til skerðingar bóta almannatrygginga.

Góðir gestir.

Öll þurfum við einhvern tíma á heilbrigðisþjónustunni að halda. Mismikið eftir aðstæðum, sumir þarfnast þjónustu allt lífið, aðrir tímabundið eða mismikið og þetta á jafnt við um fullorðna og börn. Við leggjum metnað okkar í að mæta þessum þörfum eins og best verður á kosið um allt land.

Í þessu sambandi eru mér börnin ofarlega í huga. Mörg fjölfötluð börn þjást af langvinnum sjúkdómum og þarfnast þar af leiðandi sérhæfðrar þjónustu heilbrigðisstarfsfólks.

Á þessu ári verða straumhvörf í þjónustu við langveik fötluð börn. Þar mun hinn nýi Barnaspítali Hringsins að sjálfsögðu gjörbreyta aðstöðu fyrir öll veik börn og fjölskyldur þeirra, en stærsta breytingin felst líklega í nýju hvíldar- og endurhæfingarheimili fyrir langveik og langveik fötluð börn sem opnað verður í haust. Bætt þjónusta við langveik og langveik fötluð börn er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum langveikra barna og þann 9. febrúar sl. var skrifað undir samkomulag milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, Velferðarsjóðs barna og Landspítala-háskólasjúkrahúss um að standa að uppbyggingu á hvíldar- og endurhæfingarheimili fyrir langveik og langveik fötluð börn.

Velferðarsjóður barna mun leggja til allan stofnkostnað vegna heimilisins, endurnýjun húsnæðis, húsbúnað og tækjabúnað fyrir 45 - 50 m.kr. og jafnframt hefur verið tryggð 20 m.kr. fjárveiting á fjárlögum fyrir árið 2003 til að hefja rekstur heimilisins í haust. Reiknað er með að árlegur rekstrarkostnaður heimilisins verði u.þ.b. 84 milljónir króna.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur falið Landspítala-háskólasjúkrahúsi rekstur heimilisins á grundvelli samkomulagsins, en heimilið mun hafa sérstakan fjárlagalið og þar mun starfa fagráð sem fylgist með starfsseminni og verður stjórnendum til ráðgjafar fyrstu árin.

Fyrirhugað er að heimilið verði fyrir tólf langveik og langveik fötluð börn sem þarfnast innlagnar án þess að leggjast á sjúkrahús. Á heimilinu verður lögð áhersla á heimilislegt umhverfi, hvíld, endurhæfingu, hjúkrun, lækningar og aðra meðferð og stuðning eftir þörfum við allar athafnir daglegs lífs.

Börnin munu fyrst og fremst dveljast á heimilinu um skemmri tíma til umönnunar og meðferðar og til hvíldar fyrir fjölskyldu þeirra. Ég vænti þess að þetta úrræði eigi eftir að breyta miklu í lífi þeirra barna og fjölskyldna sem þarna munu njóta þjónustu á þann veg að lífsgæði þeirra aukist.

Góðir gestir.

Á kosningafundum undanfarið hafa menn bæði fagnað samkomulaginu sem ég gerði við Öryrkjabandalagið og menn hafa líka spurt út í þessa aldurstengingu sem samkomulagið byggist á. Aðspurður um þennan þátt samkomulagsins hef ég svarað spurningunum með því að við fórum þessa leið af því við höfum alltaf lagt þær forgangsáherslur að vilja koma af mestum krafti til móts við þá sem síst standa.

Sá sem er fatlaður eða verður það á unga aldri hefur ekki átt sömu valkosti og jafnaldrarnir í lífinu.

Og ég hef beðið menn að hugsa, að auðvitað getur það verið erfiðleikum bundið fyrir þann sem er fatlaður frá unga aldri að afla sér menntunar, að halda í við jafnaldrana sína almennt talað, eða yfirleitt að taka þátt í samfélaginu með þeim hætti sem meirihlutanum finnst vera hið eðlilega.

Fyrir utan öll þessi atriði sem enginn skilur að fullu nema sá sem lendir í þessari aðstöðu þá hafa ungir öryrkjar sérstaklega þurft að berjast fyrir því að fá viðurkennda sérstöðu sín sem felst í því að verða öryrki snemma á lífsleiðinni. Það er þessi sérstaða sem nú hefur verið viðurkennd með samþykkt ríkisstjórnarinnar samkomulaginu sem tókst með þeim sem hér talar og forsvarsvarsmönnum Öryrkjabandalagsins.

Það er von okkar að þeir sem glíma við fötlun og örorku frá unga aldri muni nú eiga fleiri kosti til að taka þátt í lífsbaráttunni á eigin forsendum. Það er þess vegna sem ég sagði hér áðan og hef sagt oft sagt: Í samkomulaginu felst viljinn til komast nær hinu síbreytilega markmiði um réttlæti.

Góðir fundarmenn.

Hér verður á eftir fjallað nokkuð um starfsendurhæfingu, sem er afar mikilvæg fyrir fatlaða til að auðvelda þeim lífsbaráttuna í samfélaginu. Á grundvelli laga frá 1999 gerði Tryggingastofnun ríkisins samninga við sjálfstætt matsteymi sérfræðinga, sem er ætlað að meta endurhæfingarmöguleika einstaklinga sem hafa verið óvinnufærir nokkra mánuði og þykir að óbreyttu ekki líklegt að snúi aftur til vinnu á næstunni.

Tryggingastofnunin hefur gert þjónustusamninga við fimm sjálfstæðar meðferðarstofnanir, til að skapa meðferðarúrræði í því augnamiði að vinna að því að byggja einstaklinginn upp og skila honum aftur inn á vinnumarkaðinn.

Í þessu sambandi er brýnt að hugsa dæmið til enda, þ.e.a.s. að huga að þeim störfum sem menn þyrftu að geta gengið að þegar starfsendurhæfingu lýkur. Oft á tíðum þarf að grípa til úrræða til að létta undir með þátttöku í atvinnulífinu og hefur Tryggingastofnun boðið upp á úrræði eins og "Vinnusamninga öryrkja" eða svokallaða "atvinnu með stuðningi". Þá má telja með í þessu sambandi alla þá vernduðu vinnustaði, sem gefa fötluðum möguleika á að fá starf við hæfi.

Þátttaka aðila vinnumarkaðarins er því mikilvæg og nauðsynlegur hlekkur í þessari keðju þar sem á endanum er þörf fyrir störf í boði, en vel útfærð starfsendurhæfing á að geta sent starfskrafta út á vinnumarkaðinn sem eru í senn áhugasamir og hæfileikaríkir með sveigjanleika og aðlögunarhæfni til að geta sett sig inn í ný verk á vinnustað.

Við Íslendingar eigum því láni að fagna umfram önnur lönd að hér er lítið atvinnuleysi. Það ætti því að vera rík þörf fyrir hvern og einn á vinnumarkaði.

Markmið okkar verður að vera að ná fram því besta í hverjum og einum, að þeir kynnist sínum sterku og veiku hliðum, þannig að þeir verði hæfari til að mæta þeim kröfum sem atvinnulífið kemur til með að gera til þeirra. Til þess þarf sjálfstraust, kjark og þor, sem er ekki minni þáttur í endurhæfingunni en starfsnámið sjálft. Þegar það er fengið er eftirleikurinn auðveldur. Um þjóðhagslega kosti þessa svo ekki sé talað um lífsfyllingu hvers einstaklings deila menn ekki lengur.

Góðir gestir.

Réttlætið er bæði undarlegt og afstætt. Þegar við sækjum fram í nafni þess finnst okkur stundum að þeir sem við sækjum að séu í besta falli þverhausar. Og þegar við erum í hlutverki þess sem að er sótt blótum við stundum réttlætinu í hljóði. En jafn undarlegt og réttlætið er er það dýrmætt. Við værum til dæmis ekki hér saman komin, ef við vissum ekkert af réttlætinu og þá hefði vafalaust ekkert Evrópuár fatlaðra orðið til á vettvangi þjóðanna. Þess vegna ber okkur að hafa í farangrinum réttlætið.

Á Evrópuári fatlaðra hef ég beint því sérstaklega til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og undirstofnana þess að halda í heiðri lög og reglur um atvinnu og aðgengi fyrir fatlaða og ég hef hvatt til þess að menn reyni að ganga heldur lengra en skemur í að koma til móts við þarfir fatlaðra í þessum efnum.

Á Evrópuári fatlaðra vonast ég til að opinberir aðilar og stofnanir, samtök fatlaðra, einstaklingar og fyrirtæki, sameinist um, hvert með sínum hætti, að hrinda í framkvæmd einhverju því sem felur í sér einkunnarorð Evrópuársins – Samfélag fyrir alla.

Ég vonast líka til þess að hugsunin sem felst í einkunnarorðinu lifi áfram eftir að þessu ári lýkur formlega, að við getum fetað okkur áfram með réttlætið að leiðarljósi.

Ég óska okkur öllum árangursríks Evrópuárs fatlaðra.


(Talað orð gildir)


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta