Tímamótum fagnað
Ávarp Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, á afmælishátíð Sjálfsbjargarheimilisins í Reykjavík
4. júlí 2003
Ágætu afmælisgestir.
Það er ekki bara ánægjulegt að vera með ykkur hér í dag – mér er mikill heiður sýndur aðfá að taka þátt í hátíðarhöldunum og samfagna með ykkur á þessum merku tímamótum.
Við fögnum því öll í dag að draumurinn um dvalarheimili fyrir mikið fatlað fólk varð að veruleika fyrir þremur áratugum næstum upp á dag, en mér er sagt að fyrsti íbúinn hafi flutt inn í Sjálfsbjargarheimilið 7. júlí 1973.
Heimilið var draumur frumkvöðlanna, þeirra karla og kvenna sem allt frá stofnun Sjálfsbjargar 4. júní 1959 lögðu sig fram um að halda á lofti baráttumálum fatlaðra undir merkjum samtakanna.
Þetta var hinn áþreifanlegi draumur frumkvöðlanna sem rættist, en þeir sem fylktu sér undir merki Sjálfsbjargar áttu sér líka annan draum: Drauminn um jöfnuð fatlaðra og ófatlaðra einstaklinga. Í þess konar draumum er fólginn krafturinn sem drífur menn og samtök áfram í réttindabaráttunni, hvort sem er fyrir fatlaða eða ófatlaða – unga eða aldna. Draumurinn er síbreytilegur af því í honum eru markmiðin fólgin sem við endurnýjum í hvert sinn sem nýr sigur vinnst.
Sjálfsbjörg hefur lyft Grettistaki í réttindabaráttu fatlaðra á þeim rúmlega fjörutíu árum sem samtökin hafa verið starfandi og sama er að segja um aðildarfélögin 17 sem starfandi eru á landinu. Ég nefni þetta hér og vil sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og sem almennur borgari þakka fyrir það mikla starf sem unnið er á vettvangi samtakanna. Það kemur einstaklingum sem í hlut eiga og samfélaginu öllu til góða.
Góðir hátíðargestir.
Sjálfsbjörg hefur staðið fyrir rekstrinum hér frá því fyrsti íbúinn flutti inn fyrir þremur áratugum. Hér hafa hreyfihamlaðir átt sér það örugga skjól sem heimilið er – hreyfihamlaðir sem vegna fötlunar þarfnast aðstoðar og stuðnings í hvunndeginum.
Hér er líka rekin öflug þjónustumiðstöð sem sinnir fjölbreyttri stuðningsþjónustu í vernduðu umhverfi, hér er sundlaug, hér er endurhæfingaríbúð fyrir hreyfihamlaða og hér er líka mötuneyti – allt rekið af miklum myndarskap sem endurspeglar virðingu fyrir þeim sem menn eru að þjóna. Myndarskap sem er eins og hornsteinninn sem Sjálfsbjargarheimilið byggir á en hér er ég að tala um stofnskrá heimilisins.
Þar er sagt að í allri starfseminni skuli miðað við þarfir þeirra sem hér búa og þar er líka sagt að í starfseminni skuli réttur íbúanna til sjálfsákvörðunar skuli virtur.
Undanfarið hafa fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins og Sjálfsbjargarheimilisins unnið að gerð þjónustusamnings um rekstur heimilisins. Ég veit ekki annað en sú vinna gangi vel og menn séu í stórum dráttum svipaðrar skoðunar beggja vegna borðsins.
Mér er ljóst að erfiðlega hefur gengið að láta enda ná saman í rekstrinum í ár og er ástæðunnar fyrst og fremst að leita í hærri launakostnaði en menn gerðu ráð fyrir.
Mér er ljúft að segja frá því að af hálfu ráðuneytisins bindum við vonir við að þjónustusamningur komist á innan skamms og við höfum gert tillögur í fjárlagagerðinni sem miðast við að rétta af þennan halla í tengslum við gerð samningsins. Fjárlagatillögurnar eru svo sem ekkert loforð en við munum í ráðuneytinu gera allt sem hægt er til að tryggja framgang málsins.
Eitt af mikilvægari atriðum þjónustusamningsins er að veita þeim sem að rekstrinum standa svigrúm til að þróa það ágæta starf sem hér er unnið. Þetta markmið samningsins setjum við okkur til að bæta þjónustuna við þá sem hér búa og við fjölskyldur þeirra. Er í þessu sambandi við það miðað stuðla að sem sjálfstæðastri búsetu íbúa heimilisins og að auka möguleikana á því að menn geti búið sem lengst í heimahúsi með ennþá markvissara starfi í endurhæfingu.
Góðir hátíðargestir.
Fyrsti íbúinn flutti hér inn fyrir þremur áratugum eins og ég nefndi hér í upphafi máls míns. Þá voru liðin sjö ár frá því byggingasaga hússins hófst. Fimmtán árum eftir að fyrsti íbúinn flutti inn var álman sem hýsir Þjónustumiðstöðina tekin í notkun og síðan hafa menn verið að vinna fleiri sigra – menn hafa verið að ná fleiri markmiðum sínum.
Formaður stjórnar heimilisins sagði eitthvað á þá leið hér áðan, að bættar aðstæður fatlaðra gerðu þá að nýtari þjóðfélagsþegnum og stuðluðu að jafnari stöðu fatlaðra og ófatlaðra.
Þegar ég horfi aftur í tímann og rifja upp samskipti mín við fatlaða, þegar ég rifja upp á tímamótum eins og þessum, öll þau afrek fatlaðra einstaklinga sem ég hef séð þá vinna á hverjum einasta degi árum og áratugum saman þá finnst mér það vera skylda okkar sem samfélags að sýna fötluðum fullan skilning og taka með því þátt í réttindabaráttu þeirra.
Ég óska ykkur til hamingju.
________________
(Talað orð gildir)