Hoppa yfir valmynd
15. ágúst 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Ávarp ráðherra á málþingi um stjórnskipulag og gæði

Ávarp Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á málþingi LSH fimmtudaginn 14. ágúst 2003 kl 8:30
" Sjúkrahús í breytilegu umhverfi – Málþing um stjórnskipulag og gæði"

Ágætu málþingsgestir.
Það er mér sönn ánægja að ávarpa þetta málþing um stjórnskipulag og gæði í sjúkrahúsþjónustu.

It is also a special pleasure to welcome distinguished guests and lecturers from the United States and Great Britain and I look forward to hear from their research and experience in other countries.

Efnið sem fjallað verður um í dag er mikilvægt fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu og er dagskráin bæði fjölbreytt og metnaðarfull. Kynntar verða rannsóknir frá mismunandi sjúkrahúsum erlendis og tækifæri gefst til að læra af reynslu þeirra og bera okkur saman við þau sem bestum árangri hafa náð. Jafnframt munu starfsmenn Landspítala – háskólasjúkrahúss fjalla um hlutverk sjúkrahússins og framtíðarsýn og loks verða kynntar rannsóknir á starfsumhverfi innan spítalans.
Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóginn við undirbúnings þessa málþings og ég vona að það verði upphafið að uppbyggilegri umræðu um sjúkrahúsþjónustu á Íslandi.

Ljóst er að í heimi nútíma tækni og örrar þróunar verða heilbrigðisstofnanir að aðlagast breytingum með skjótum hætti. Fjölmargir þættir gera það að verkum að mikilvægt er að leita sífellt bestu leiða til að leysa þau verkefni sem sjúkrahús þurfa að fást við, með það að markmiði að auka starfsánægju og gæði þjónustunnar. Þessir þættir eru meðal annars tækniframfarir, auknar kröfur sjúklinga eða notenda þjónustunnar, nýjar kynslóðir starfsmanna með breyttar þarfir, breytingar á samsetningu þjóðarinnar og búsetu, nýjir straumar varðandi endurskipulagningu stofnana og svo mætti lengi telja.
Margir álíta að hugmyndir Peter Senge um lærdómsfyrirtækið feli í sér lykilaðferðir til að aðlagast síbreytilegu og flóknu umhverfi.

Til að þróa lærdómsfyrirtæki telur Peter Senge að fyrirtækið, eða stofnunin, verði að tileinka sér þætti sem taka bæði til fagmennsku og tækni, en slíkt kallar á stöðugan lærdóm og þjálfun eða " life long learning" eins og einkunnarorð hans fela í sér. Sjúkrahús eru þekkingarfyrirtæki og mikilvægasta auðlind þekkingarfyrirtækis er starfsfólkið. Sagt hefur verið að meginverkefni leiðtoga á 21. öldinni verði að leysa úr læðingi hugmyndaauðgi starfsmanna sinna. Lærdómsfyrirtæki einbeita sér að því að þróa og auka námshæfileika starfsmanna sinna. Talið er að þau séu síður líkleg til að endurtaka fyrri mistök sín og betur í stakk búin til að takast á við framtíðina, en þau fyrirtæki sem ekki hafa til að bera aðferðir og menningu lærdómsfyrirtækja. Við erum öll hér í dag til að læra og ég tel að íslenska máltækið "svo lengi lærir sem lifir" eigi ágætlega við um lærdómsfyrirtæki og sé mikilvægt veganesti fyrir okkur öll.

Góðir gestir.
Eitt af verkefnum heilbrigðisþjónustunnar er að finna leiðir til að veita sjúklingsmiðaða meðferð á sem hagkvæmastan hátt. Ég tek undir með Inger Margarethe Holter sem segir að til að ná þessu markmiði þurfi að ná jafnvægi meðal fjögurra tegunda af gæðum. Þar er í fyrsta lagi átt við klínísk gæði sem fela í sér viðmið og staðla sem fagfólk í heilbrigðisþjónustu hefur sett svo sem læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfar, lyfjafræðingar o.fl. Í öðru lagi, gæði frá sjónarhóli starfsmanna þar sem leitast er við að mæta þörfum starfsmanna fyrir tilgang með starfi sínu og ýta undir sjálfsvirðingu þeirra. Í þriðja lagi, gæði frá sjónarhóli sjúklings þar sem áhersla er lögð á sjúklinginn og þarfir hans og í fjórða lagi fjárhagsleg eða rekstrarleg gæði sem eru mælikvarði á það hvernig stofnuninni tekst að ná fyrri þremur tegundunum af gæðum á sem hagkvæmastan hátt. Þetta er sannarlega ekki auðvelt verkefni en ég tel að við munum læra eitthvað um allar þessa fjórar tegundir gæða í dag bæði frá íslensku og alþjóðlegu sjónarhorni. Að deilda þekkingu og reynslu á málþingi sem þessu er mikilvægt og ég vænti þess það færi okkur nær markmiði okkar allra um aukin gæði heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi.

Það er von mín að dagurinn í dag verði í senn upplýsandi og áhugaverður fyrir ykkur.
Takk fyrir.

_______________
Talað orð gildir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta