Lýðheilsuþing haldið í fyrsta sinn
Lýðheilsuþing
26. september 2003
Ávarp Jóns Kristjánssonar, heilbrigðisráðherra
Forseti Íslands, ágætu þinggestir!
Það er mér mikil ánægja að ávarpa fyrsta lýðheilsuþingið sem Félag um lýðheilsu stendur að í samvinnu við hina nýstofnuðu Lýðheilsustöð. Félag um lýðheilsu á sér ekki langa sögu en á þeim tíma sem það hefur starfað hefur félagið átt þátt í að beina augum fagmanna, áhugafólks og almennings að mikilvægi þess að bæta heilsufar þjóðarinnar. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að áherslurnar sem félagið hélt fram á opinberum vettvangi hafi átt sinn þátt í að opna augu manna á Alþingi á mikilvægi þess að koma á fót Lýðheilsustöð, hér eins og gert hefur verið í nálægum löndum.
Tilkoma Lýðheilsustöðvar er í takt við að umræður um heilbrigðismál snúast nú í auknum mæli um heilbrigði í stað sjúkdóma, en lengi vel snerist umræðan meira um möguleika á lækningu og meðhöndlun sjúkdóma. Samtímis hefur skilningur fólks á orsökum sjúkdóma breyst. Í stað þess að horfa á einstaka þætti er mönnum nú ljóst að margir sjúkdómar nútímans eiga sér margþættar og oft á tíðum sameiginlegar orsakir. Ástæður sjúkdóma og heilsubrests má í mörgum tilvikum rekja til lífshátta einstaklingsins, til hreyfingarleysis, reykinga, óholls mataræðis, umhverfisbreytinga, mengunar og fleiri þátta.
Hugmyndin um stofnun lýðheilsustöðvar á Íslandi er vissulega ekki ný af nálinni. Forverar mínir í starfi gerðu a.m.k. tvisvar tilraunir á síðast áratug til þessa að koma á laggirnar forvarnamiðstöð. Þau áform urðu hins vegar ekki að veruleika vegna þess að þá tókust á sjónarmið um hvort miðstýra ætti öllum forvarna- og heilsuverndarmálum eða hvort starfsemin ætti áfram að vera borin upp af þeim sem málin brenna mest á. Ýmis frjáls félagasamtök álitu jafnvel að forvarnamiðstöð myndi verða sett þeim til höfuðs og að starfsemi þeirra yrði þrengri stakkur skorinn í framtíðinni.
Þeirri skoðun hefur síðar vaxið fylgi að til þess að ná verulegum árangri í að fyrirbyggja langvinna sjúkdóma, yrði að koma til víðtækt samstarf margra aðila og um leið þyrfti að taka meira tillit til sameiginlegra orsaka sjúkdóma. Þátttaka Íslands í ýmsum alþjóðlegum verkefnum á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar átti sinn þátt í að opna augun fyrir því að hér væri um að ræða sameiginlegt verkefni heilbrigðisyfirvalda, fagfólks og frjálsra félagsamtaka. Þannig skapaðist grundvöllur fyrir því samstarfi sem Lýðheilsustöðinni er ætlað að leiða á næstu árum.
Það er mér mikið gleðiefni að Heilbrigðisáætlun til ársins 2010 er lögð til grundvallar lýðheilsuþingi. Fyrir heilbrigðisyfirvöld er það mikilvægt að heilbrigðisáætlunin sé lifandi tæki í umræðum um heilbrigðismál. Áætlunin sker sig úr fyrri áætlunum með því að sett voru mælanleg markmið á öllum sviðum þar sem því var við komið. Þetta var gert til að menn sæju hver staða mála er á hverjum tíma og hvort verið væri að nálgast sett markmið eða ekki.
Síðar í dag verður gerð grein fyrir fyrsta mati á árangri heilbrigðisáætlunarinnar. Þar kemur fram að á mörgum sviðum hefur okkur miðað í rétta átt á undanförnum árum en á öðrum sviðum verðum við greinilega að taka okkur tak. Ennfremur má geta þess að til stendur að endurskoða öll markmið heilbrigðisáætlunarinnar á árinu 2005 og því er hér tækifæri til þess að koma á framfæri skoðunum á því sem betur mætti fara.
Ég vil að endingu óska Félagi um lýðheilsu og Lýðheilsustöð til hamingju með lýðheilsuþingið.
______________
Talað orð gildir