Þroskahjálp og framtíðin
Formaður og framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar funduðu með mennta- og menningarmálaráðherra í gær. Á fundinum var rætt um ýmis mál er varða réttindi og tækifæri fatlaðs fólks, einkum barna og fólks með þroskahamlanir og skyldar raskanir, til menntunar og þátttöku í menningarlífinu.
„Okkur ber að huga vel að aðgengi allra að bæði menntun og þátttöku í menningarstarfi og viðburðum. Við ræddum bæði hugmyndir og útfærslur sem því tengjast. Menntastefnan sem mótar allt okkar starf, menntun fyrir alla, verður okkur mikilvægt leiðarljós í því. Það var afar gagnlegt að heyra sjónarmið fulltrúa Þroskahjálpar og ræða þeirra framtíðarsýn,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra um fundinn.
Landsamtökin Þroskahjálp voru stofnuð haustið 1976 í því skyni að sameina þau félög, sem vinna að málefnum fatlaðra, með það að markmiði að tryggja þeim fullt jafnrétti á við aðra þjóðfélagsþegna. Aðildarfélög Þroskahjálpar eru 22 og eru þau foreldra- og styrktarfélög, svo og fagfélög fólks sem hefur sérhæft sig í þjálfun og þjónustu við fatlaða. Félögin eru starfrækt um allt land og eru félagsmenn þeirra sex þúsund.