Mál nr. 23/2014
ÁLIT
KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA
í máli nr. 23/2014
Lögmæti aðalfundar. Aðgangur að reikningum.
I. Málsmeðferð kærunefndar
Með bréfi, mótt. 28. apríl 2014, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélagið B, hér eftir nefnt gagnaðili.
Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.
Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 21. maí 2014, og athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 23. júní 2014, lagðar fyrir nefndina.
Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 8. september 2014.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Um er að ræða fjöleignarhúsið C, alls 31 eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar að D. Ágreiningur er um lögmæti aðalfundar og skyldu húsfélagsins til að afhenda afrit af tilteknum gögnum.
Kröfur álitsbeiðanda eru:
I. Að viðurkennt verði að aðalfundur þann 15. apríl 2014 hafi verið ólögmætur.
II. Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að afhenda álitsbeiðanda afrit af ársreikningum vegna áranna 2012 og 2013.
III. Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að afhenda afrit af reikningsyfirliti gagnaðila frá 1. apríl 2009 til 1. apríl 2014.
Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi hafi sent fulltrúa sinn á aðalfund gagnaðila þann 15. apríl 2014. Á fundinum hafi gögnum verið úthlutað, svo sem ársreikningi fyrir árið 2013. Formaður gagnaðila hafi dreift ársreikningnum á alla fundarmenn, en fulltrúa álitsbeiðanda hafi verið neitað um eintak. Álitsbeiðandi greinir frá því að stjórn gagnaðila hafi um árabil lagt sig og sambýliskonu sína í einelti og að þessi ítrekaða neitun um eintak af ársreikningi sé aðeins ein birtingarmynd þess. Álitsbeiðandi hafi til að mynda ekki enn fengið afrit af ársreikningi fyrir árið 2012 þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir og fyrirspurnir um slíkt. Bókhaldari gagnaðila hafi ítrekað neitað álitsbeiðanda um afrit ársreiknings 2012 á þeim forsendum að ekki væri búið að árita ársreikninginn. Þannig hafi álitsbeiðanda ítrekað verið neitað um afrit af ársreikningnum gagnaðila ár eftir ár.
Álitsbeiðandi telur sig ekki eiga að þurfa draga upplýsingar um fjárhagsstöðu gagnaðila út úr stjórnendum og bíða mánuðum saman eftir að fá upplýsingar sem aðrir fái samstundis. Álitsbeiðandi hafi sent fulltrúa sinn á aðalfund þann 15. apríl 2014 og hafi honum verið meinað að fá aðgang að ársreikningi, þrátt fyrir að hafa fullgilt umboð til að sitja fundinn. Álitsbeiðandi telur að bókari gagnaðila geti heldur ekki neitað sér um afrit þar sem hann vinni fyrir sig sem félagsmann ekki síður en aðra félagsmenn. Þá gerir álitsbeiðandi athugasemdir við hvernig hægt sé að samþykkja ársreikning fyrir árið 2012 en á aðalfundinum 2013 hafi stjórnarmenn ekki verið búnir að árita hann.
Í greinargerð gagnaðila er ásökunum álitsbeiðanda um að fulltrúa hans hafi verið mismunað á aðalfundi og honum neitað um afrit af ársreikningi mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Hið rétta sé að einstaklingurinn hafi mætt á fundinn með umboð frá álitsbeiðanda. Umboðsaðilinn hafi stoppað stutt á fundinum og hafi ekki óskað sérstaklega eftir afriti af ársreikningi fyrir árið 2013, sem hafi síðar verið lagður fyrir fundinn. Boðað hafi verið til fundarins með fundarboði dagsettu 2. apríl 2014 sem hafi verið borið út í alla póstkassa auk þess hafi fundarboð verið hengt upp í sameign í öllum stigagöngum. Við upphaf aðalfundar hafi fundarstjóri lýst eftir athugasemdum við boðun og lögmæti fundarins en engar hafi borist og hafi fundarstjóri þá lýst fundinn lögmætan. Á fundinum hafi verið tekin fyrir þau málefni sem auglýst höfðu verið á dagskrá í fundarboði. Í samræmi við þá dagskrá hafi ársreikningur verið lagður fram til samþykktar og hafi honum verið dreift til fundarmanna. Í kjölfarið hafi farið fram umræða um ársreikninginn og hafi hann síðan verið samþykktur samhljóða. Eftir fundinn hafi afrit af ársreikningi verið borið út í póstkassa til íbúa. Þá sé ekkert sem standi í vegi fyrir því að álitsbeiðandi fái afrit af ársreikningum áranna 2008 til 2013 óski hann eftir því við stjórn gagnaðila.
Fundur gagnaðila sem hafi verið haldinn þann 14. apríl 2014 hafi verið lögmætur og þær ákvarðanir sem hafi verið teknar á fundinum standi því óhaggaðar. Þá telur gagnaðili að ekki verði séð að húsfundur verði ógiltur á grundvelli þeirra ástæðna sem álitsbeiðandi hafi byggt á enda ekkert í ákvæðum laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, sem geti leitt til slíkrar niðurstöðu.
Í athugasemdum álitsbeiðanda segir að á aðalfundinum hafi fundargögn verið lögð fyrir fundarmenn í upphafi fundar. Gefið sé í skyn í greinargerð gagnaðila að fulltrúi álitsbeiðanda á fundinum hafi farið fljótt af fundinum. Álitsbeiðandi greinir frá því að hann hafi ekki getað tekið þátt í fundinum sem virkur fundarmaður þar sem hann hafi ekki fengið gögn til skoðunar eins og aðrir fundarmenn. Hann hafi því ekki haft forsendur til að sitja fundinn lengur en hann gerði. Honum hafi verið tjáð að gögnin væru búin og að hann fengi því engin gögn.
Álitsbeiðandi greinir frá því að honum hafi verið sent fundarboð með stefnuvotti, aðeins sér en engum öðrum félagsmanni. Álitsbeiðandi telur ólöglegt að mismuna félagsmönnum á þennan hátt og eyða fé gagnaðila í svona vitleysu.
Álitsbeiðandi vísar til 2. tölul. 61. gr. laga um fjöleignarhús þar sem segir að á aðalfundi skuli leggja fram ársreikninga til samþykktar og hafa umræðu um þá. Fulltrúi álitsbeiðanda á fundinum hafi ekki getað tekið þátt í þeim umræðum og ekki greitt atkvæði því hann hafi ekki fengið gögn til skoðunar. Samkvæmt 7. tölul. sömu lagagreinar skuli rekstrar- og framkvæmdaáætlun lögð fram fyrir næsta ár. Fulltrúinn hafi ekki heldur fengið þau gögn til skoðunar og hafi séð að hann hafi ekki átt erindi á fundinn með engin gögn sem aðrir hafi verið með.
III. Forsendur
Álitsbeiðandi fer fram á að viðurkennt verði að aðalfundur gagnaðila þann 14. apríl 2014 sé ólögmætur á þeirri forsendu að umboðsmanni álitsbeiðanda hafi verið neitað um eintak af ársreikningi á fundinum. Aðila greinir á um hvort umboðsmanninum hafi verið neitað um eintak af ársreikningi en kærunefnd telur ekki þörf á að skera þar úr um í því máli sem hér um ræðir, þar sem nefndin telur ekki unnt að fallast á þá kröfu álitsbeiðanda þegar af þeirri ástæðu að slíkt myndi ekki eitt og sér valda ólögmæti aðalfundarins.
Í máli þessu hefur álitsbeiðandi farið fram á að viðurkennt verði að gagnaðila beri að afhenda sér afrit af ársreikningum og reikningsyfirliti húsfélagsins. Í greinargerð gagnaðila kemur fram að ekkert standi því í vegi að álitsbeiðandi fái afrit af ársreikningum gagnaðila óski hann eftir því. Þegar af þeirri ástæðu telur kærunefnd að ekki sé ágreiningur um þennan þátt málsins og er kröfu álitsbeiðanda um viðurkenningu á rétti til þess að fá afrit af ársreikningum því vísað frá.
Álitsbeiðandi óskar einnig eftir að viðurkennt verði að hann eigi rétt á að fá afrit af reikningsyfirliti gagnaðila frá 1. apríl 2009 til 1. apríl 2014. Í greinargerð gagnaðila er þeirri kröfu ekki svarað sérstaklega. Í 6. mgr. 69. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, segir að stjórn og framkvæmdastjóra sé skylt að veita eigendum upplýsingar og skýringar um öll atriði er varða málefni húsfélagsins, rekstur þess, sameiginlegt viðhald, efnahag og fjárhagsstöðu. Skulu eigendur hafa rétt til að skoða bækur félagsins, reikninga og fylgiskjöl með hæfilegum fyrirvara en þó jafnan að viðstöddum stjórnarmanni. Með hliðsjón af því ákvæði telur kærunefnd að álitsbeiðandi skuli fá að skoða reikninga gagnaðila frá 1. apríl 2009 til 1. apríl 2014 en gagnaðila sé ekki skylt að afhenda honum afrit af reikningsyfirliti.
IV. Niðurstaða
Það er álit kærunefndar að aðalfundur þann 14. apríl 2014 hafi verið lögmætur.
Það er álit kærunefndar að álitsbeiðandi skuli fá að skoða reikninga gagnaðila.
Öðrum kröfum álitsbeiðanda er vísað frá kærunefnd.
Reykjavík, 8. september 2014
Auður Björg Jónsdóttir
Karl Axelsson
Eyþór Rafn Þórhallsson